Óttarsstaðaganga

Í Smalaskálahæð er Smalaskálaker, rauðamalarhóll í jarðfalli Hrútagjárhrauns. Árið 1974 var komið fyrir þar “listaverki”.
Hreinn Fridfinsson“Húsbyggingin” (Das Haus Projekt) er þekkt verk eftir Hrein sem einnig varð til á 8. áratugnum. “Húsbyggingin” byggir á sannri sögu eftir Þórberg Þórðarson, Íslenskum aðli, um sérvitring sem afræður að byggja hús þar sem innihliðin snýr út. Hreinn ákvað að taka þessa hugmynd upp og byggði húsið þannig að veggfóður þess og gardínur lágu utan á. Þegar húsinu hafði verið snúið við þurfti hið sama að gilda um heiminn fyrir utan, þ.e. öllu sem var úti fyrir þurfti nú að finna stað inni í húsinu. Sem listmunur er húsið lítils virði að mati listamannsins. Nauðsynlegt var að reisa það til þess að fullkomna þessa hugmynd, en það nægir að það sé til sem vitnisburður á ljósmyndaformi. “Mér líkar vel að uppgötva hið óvenjulega í hinu venjulega. Það er þetta sem ég fæst við, fyrst og fremst.” Hreinn Friðfinnsson vinnur með nánast hvaða efnivið og hvaða miðla sem er, jafnt ljósmyndir, hús, fíngerðar teikningar og efnivið sem hann hefur fundið. Í þeim og með aðstoð þeirra rannsakar hann venjubundna skynjun, tilfinningar og skilning. Jafnvel smæstu verk hans og þau sem minnst ber á búa yfir mikilfenglegri hugmyndaauðgi og tilfinningu.”
Slunkariki - myndir“Hér má sjá sex af sextán myndum af Slunkaríki Hreins Friðfinnssonar sem teknar voru sumarið 1974. Myndirnar er fengnar af heimasíðu listamannsins. Hreinn setti listaverkið upp það árið í Smalaskálakeri, en það er jarðfall í Smalaskálahæð. Jarðfallið er sunnan í Smalaskálahæð í Hraunum suðvestur af Straumsvík, nánar tiltekið skammt frá Óttarstaðafjárborg, sem nefnist einnig Kristrúnarborg. Þangað liggur vegslóði af gamla Suðurnesjaveginum og Gamlavegi (eldri vegurinn), en afleggjarinn er til móts við Lónakots heimreiðina.
Myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson tilheyrði SÚM hópnum þegar hann gerði listaverkið. Þetta var lítið hús sem var forsmíðað og síðan flutt í einingum. Þegar það var risið voru teknar af því sextán ljósmyndir úr ýmsum áttum, bæði ofan frá og neðan frá og myndaði ljósmyndasyrpan sjálft listaverkið.
Slunkariki-21Þegar þessi gjörningur var afstaðinn var hlutverki hússins sem listaverks í rauninni lokið en eftir stóð lítil bygging á röngunni, ef svo mætti segja. Hreinn vann verkið undir áhrifum frá kafla í bókinni Íslenskum aðli sem skáldið Þórbergur Þórðarson ritaði 1938 og fyrr er getið. Í einum kafla bókarinnar fjallaði Þórbergur um sérkennilegan mann sem hét Sólon og bjó rétt utan við þéttbýlið í Ísafjarðarkaupstað við Skutulsfjörð.
Sólon byggði sér einkennilegt hús og lét bárujárnið snúa inn í húsið en setti veggfóður á útveggina. Veggfóður var nýjung á þessum tíma en bárujárnið hafði verið notað um árabil. Sólon var svo hrifinn af veggfóðrinu og vildi leyfa öllum íbúum staðarins að njóta fegurðarinnar með sér. Það var því eðlilegt að hafa það utan á húsinu, sem gekk undir nafninu Slunkaríki. Samneft myndlistar gallerý hefur verið starfrækt á Ísafirði um nokkurra ára skeið og er það til minningar um þennan merka mann, sem var sennilega fyrsti íslenski konsept listamaðurinn, án þess að hafa hugmynd um það sjálfur.
Slunkariki-22Það sem eftir er af Slunkaríki er aðeins brak á víð og dreif um Smalaskálaker. Eftir að búið var að mynda húsið lét Hreinn það afskiptalaust, enda tilgangur hans aðeins að koma því á þennan stað og útbúa myndröð í anda SÚM-aranna. Gjörningnum var lokið og síðan beið hússins að ummyndast með veðrinu sem lék um það og setti mark sitt á náttúruna allt í kring. Húsið var eins og sérkennilegur hlutur á sjálfu tunglinu, bygging í miðri náttúruperlu, enda er jarðfallið afar sérstakt og fallega mótað.

Slunkariki-23Húsið stóð af sér flest veður um árabil þó svo að myndirnar létu fljótlega á sjá eins og veggfóðrið, sem flettist af veggjunum. Hurðin fauk upp einn veturinn og losnaði eftir það af hjörunum. Skotglaðir Hafnfirðingar notuðu húsið til að æfa hæfni sína, eins og þeir virðast hafa gert svo óralengi á þessum slóðum. Smám saman drukku spónaplöturnar sem mynduðu útveggina í sig regnvatnið og grotnuðu niður, en bárujárnið hélt húsinu uppi. Stoðirnar blöstu við og innan þeirra var bárujárnið heilt og óryðgað enda vel galvaniserað. Stuttu eftir 2000 sprakk húsið í vindhviðu einn veturinn og dreifðust stoðir og  járnplötur vítt og breitt um jarðfallið, en restin af húsinu varð að einni grautarhrúgu efst á gjallhaugnum. Eftir það stóð grunnurinn efst á haugnum í gjótunni ásamt spýtnadóti og öðru smálegu og má enn sjá brotin í Smalaskálakeri.
ottarsstadaborg-21Laugardaginn 17. júlí 2010 voru einhverjir á ferð í Smalaskálakeri og kveiktu í því sem eftir var af Slunkaríki. Það sem viðkomandi aðilar gerðu var ekki bara skemmdarverk á listaverki sem var að veðrast með eðlilegum hætti, því eldurinn læsti sig í trjágróður, lyng, mosa og annan lággróður sem hefur verið að sækja í sig veðrið og vaxið þarna um langa hríð. Magnaðist upp mikið bál og varð að kalla út slökkvilið sem réð ekkert við eldinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá kölluð á vettvang til að hjálpa við slökkvistarfið og fór margar með sérstakann sekk sem notaður er til að sækja vatn í sjó eða stöðuvötn þegar erfitt er að athafna sig við slökkvistarf úti í náttúrunni.”
Þrátt fyrir listaverkið og gjörning þann er að framan greinir er rauðhóllinn í Smalaskálakeri hvað merkilegastur. Þessi gamli “litli” rauðamelshóll áorkaði að stöðva framrás hrikaleika Hrútagjárdyngju-hraunsins á þessu svæði. Augljóslega má sjá að mikil kvikusöfnun hefur átt sér stað allt umleikis og hún lyft storkuðu yfirborðinu. En þrátt fyrir álagið hefur rauðhóllinn staðið fyrir sínu og ekki látið hið mikla hraunálag yfir sig ganga. Sambærilega gjallhóla má sjá í Stóra Rauðamel og Litla Rauðamel skammt norðar.

Heimild:
-hraunavinir.net
-Morgunblaðið 23. apríl 2005.

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.