Setberg

Eftirfarandi grein um Jón á Setbergi birtist í Litla-Bergþóri árið 1996:
“Einhvern tíman fyrir löngu síðan ákvað ég með sjálfum mér að skrifa þátt um langafa minn, Jón á Setbergi,áður en ég „setti upp tærnar”. Enda er allt hæpið með handskriftina eftir að maður er kominn í þær stellingar. Hann hóf hér vist sína tæpum hundrað árum áður en ég fæddist, þó hefi ég afhonum glöggar sagnir frá fyrstu hendi því móðir mín Helga Eiríksdóttir húsfreyja á Stekk í Garðahreppi sem fædd var 1. október 1879 að Kjarnholtum í Biskupstungum var sonardóttir hans. Hún ólst upp að verulegu leyti hjá þessum afa sínum. Þegar ég var á barns- og unglingsaldri sagði hún mér margt af búskaparháttum á Setbergi og ýmsu fleira varðandi þennan afa sinn. Eg mun vera sá eini af hinum fjölmörgu núlifandi afkomendum Jóns á Setbergi sem hefi af honum glöggar sagnir frá fyrstu hendi, það getur því ekki talist nein ofrausn þó ég komi því nú í verk að skrá eitthvað sem ég veit með vissu um þennan forföður minn.
Skollagróf 14. mars 1996 – Jón Sigurðsson.

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

Jón Guðmundsson var fæddur 24. desember 1824 á Fossi í Hrunamanna-hreppi. Ég tel þó víst að þarna skakki einum degi, því hann taldi sinn fæðingardag vera Þorláksmessu en ekki aðfangadag jóla.”Hann var samtíða sínum foreldrum óslitið fram yfir sinn tvítugsaldur því er ósennilegt að þarna hafi orðið dagabrengl innan fjölskyldunnar, hitt er mun sennilegra að talan 24. hafi slæðst inn í kirkjubók í stað 23. Faðir Jóns var Guðmundur Eiríksson hinn sauðglöggi, sem jafnan var kenndur við Haukadal í Biskupstungum og móðir hans var Guðbjörg Jónsdóttir frá Ósabakka á Skeiðum. Hún var af hinni þekktu Hörgsholtsætt. Jón sótti til föður síns sauðgleggni og mikla fjármennskuhæfileika, þó hann yrði aldrei þjóðsagnapersóna á sviði fjárgleggninnar á borð við föður sinn. Hann stóð þó tvímælalaust langnæst föður sínum á sviði sauðgleggni og fjármennsku af öllum börnum Guðmundar Eiríkssonar.
Hann var víst ekki hár í loftinu þegar hann fór að fylgja föður sínum um Fosshagana í smalamennskum og annarri fjárgæslu. Á sínum efri árum ræddi hann oft um fjárstúss sitt í Fosshögum enda var hann á 12. aldursári þegar foreldrar hans fluttu þaðan. Á næstu sex árum lenda foreldrar hans í sífelldum búferlaflutningum, búa ekki á færri en fjórum jörðum á þessu sex ára tímabili. Þar til á vordögum 1842 að þau setjast að í Haukadal þá er Jón sonur þeirra á 18. ári. Næstu fimm árin er hann enn með foreldrum sínum í Haukadal.
Fyrri kona Jóns var Guðrún Egilsdóttir frá Tortu. Faðir hennar var Egill Þórðarson bóndi þar og móðir hennar kona Egils var Guðlaug Gísladóttir frá Kjarnholtum. Þannig er ég að tveim þáttum ættaður frá Kjarnholtum, þar sem Guðlaug móðir Guðrúnar langömmu minnar var þaðan og á aðra grein Kristín móðurmóðir mín sem var dóttir Guðmundar Diðrikssonar bónda þar.
Vorið 1847 fara Jón og Guðrún að búa á Tortu. Þeim fæðist drengur vorið áður, þá eru þau bæði á vist í Haukadal hjá foreldrum Jóns. Þegar þessi fumburður þeirra fæddist er Guðrún 30 ára en Jón langafi minn 22ja ára, því hún var röskum átta árum eldri en hann. Eftir 11 ára sambúð missir hann þessa fyrri konu sína. Torta var örreytiskot í túnjaðrinum í Haukadal. Þarna bjó þó Jón langafi minn í 14 ár við sæmilegan efnahag þrátt fyrir íþyngjandi ómegð.
Fyrri hluta þessa tímabils bjó hann í skjóli foreldra sinna og efalaust öll árin við aukinn aðgang að landsnytjum heimajarðarinnar, með öðrum hætti var afkoman á Tortu óhugsandi. Þeir feðgar Guðmundur Eiríksson og Jón sonur hans, sem jafnan var nefndur Jón á Setbergi eftir að hann settist þar að, voru báðir viðkynningar góðir og léttir í máli. Aldrei hafði langafi minn viljað láta tala illa um Tortu sem bújörð þó í raun væri hún bæði lítil og léleg. Hann sagði að Tortu nafnið væri ekki annað en afkáralegt auknefni því jörðin hefði heitið „Laufviðarstaðir á Beinárbökkum”. Þetta sagði hann að sjálfsögðu í gríni, en ég trúi að í bakgrunni hafi legið sú minning að þarna komst hann vel af og átti á margan hátt góða daga, m.a. vegna þess að hann hafði greiðan aðgang að Haukadalslandinu langt umfram það sem landsnytjar hjáleigunnar afmörkuðu.
Seinni kona Jóns var Vilborg Jónsdóttir frá Einholti í Biskupstungum. Hún var fædd árið 1832. Þeirra fyrsta barn fæddist í Einholti 6. maí 1859. Fljótlega fer hún að búa á Tortu með langafa mínum, en á vordögum 1861 flytja þau að Helludal, búa þar í tvö ár. Þar næst eitt ár í Bryggju sem er fardagaárið 1863-4.
Þá tekur langafi minn sig upp úr Biskupstungum með allt sitt, bæði fólk og fénað og sest að á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Þessi jörð fylgdi þá Garðahreppi. Þarna fær hann í leiguábúð hálflenduna en á hinum hlutanum voru 5 kot, sem ég ætla að þá hafi verið öll í ábúð. Hann tekst á hendur þessa búferlaflutninga að nokkru leyti fyrir áeggjan föður síns, sem þá var orðinn gamall og blindur, en milli þeirra feðga var góð og varanleg vinátta.
Ekki kunni hann allskostar við þá fjárgæslu sem Hvaleyrarjörðin útheimti því þar var talsverð flæðihætta frá sjó. Engar sögur fóru af því að þessir annmarkar jarðarinnar hafi höggvið skorbilda í bústofn hans, enda var hann víst aldrei orðaður við slóðaskap og slælega fjármennsku í sínum búskap.
Á Hvaleyri búa þau í þrjú ár 1864 – 7. Í fardögum 1867 losnar í ábúð Setberg, sem einnig var í Garðahreppi. þangað flytja þau um vorið. Fljótlega festi hann kaup á jörðinni og þar bjuggu þau þar til þau urðu ellimóð og hætta búskap og luku sínum lífdögum í Hafnarfirði. Segja má að jafnskjótt og þessi hjón voru sest að á Setbergi voru þau kennd við þennan bæ og svo er raunar enn þegar þeirra er minnst. Eftir því sem ég best veit komst þessi langafi minn alltaf heldur vel af alla sína búskapartíð. Hann átti efnaða foreldra, og faðir hans stólaði strax mikið á hann í fárbúskapnum, því mætti ætla að hann hafi strax á unglingsaldir átt í séreign fleira af kindum en almennt gerðist. Slíkt var í þá daga líklegasta leiðin til efnahagslegs sjálfstæðis.
Þau þrjú ár sem Jón bjó á Hvaleyri urðu honum áfallalaus í búskap, og þar fjölgaði hann fénu nokkuð, enda mun hann hafa gengið nokkuð á sauðastofn sinn þá hann tók sig upp austur í Biskupstungum. Fargaði þá öllum rosknum sauðum úr stofninum, e.t.v. mest af því að hann hefir álitið að þeir yrðu óeirnir í ókenndum högum. Þegar hann er sestur að á Setbergi fer hann ört að fjölga fénu, og varð fljótlega fjárríkastur allra Innnesjabænda. Þó hann alla sína tíð kæmist heldur vel af, þá efnaðist hann bæði fljótt og vel eftir að hann gerðist bóndi á Setbergi. Gamla Setbergstúnið þótti á þess tíma mælikvarða allstórt og vel grasgefið. Engjablettir voru einnig í landinu þó í litlum mæli væri.
Fjárland á Setbergi var mjög gott, skjólsælt og kjarngott til beitar. Jón á Setbergi var víst ekki mjög kirkjurækinn en komst þó vel af við prestinn í Görðum, enda var þessi langafi minn maður viðræðugóður og vinsæll.
Eins og áður er komið fram fjölgaði fé hans ört eftir að hann settist að á Setbergi. Þá tók að þrengjast þar í högum. Garðakirkja átti bæði slæju og beitilönd fjarri kirkjustaðnum, sem að hluta til mun hafa, fyrr á tíð, verið sellönd frá Gröðum. Þessi lönd leigði Jón um árabil af Garðapresti bæði til beitar og slægna.
Að jafnaði voru á Setbergi fjórar kýr í fjósi auk geldneyta. í geldgripa hópnum sem ekki var stór voru uxar og þar á bæ nefndir „básgeldingar” til aðgreiningar frá öðrum geldingum, en langafi minn var langa ævi þekktur sem gildur sauðabóndi. Básgeldingarnir voru að jafnaði leiddir á blóðvöll 3ja vetra gamlir, og það gerðist síðsumars áður en venjuleg sláturtíð hófst. Þarna var gott búsílag til matfanga og húðin til skógerðar.
Þó Setbergshagar séu að mestu óbrunnið land þurftu þeir að smala sínu marga fé vítt um hraunlendi, sem er býsna skæðafrekt. Frá því kýr voru leystar út á vordögum var einhver liðléttingur látinn gæta nautgripanna í haga þar til heima heyskap var lokið. Mest vegna þess að verja þurfti slægjubletti á útjörðinni, en þar syðra voru grasnytjar til slægna mjög takmarkaðar. Hrossaeign á Setbergi var mjög takmörkuð, enda hrossa- gönguland af mjög skornum skammti. Vegna hrossfæðar varð sá sem „fór á milli” með heybandslestina að ganga, þó var heimreiðsla drjúlöng af Garðaflötum og þar um kring af leigulandinu, þó enn lengra úr Elliðavatnsengi, en þar fékk Jón á Setbergi oft léðar slægjur. Kaupstaðaaðdrættir voru aftur á móti kátlega auðveldir, því leiðin frá Setbergi í Hafnarfjörð var aðeins til jafns við eina bæjarleið.
Langafi minn átti að jafnaði 1 – 2 reiðhesta. Ég veit með vissu að þeir voru vikaliprir og vel tamdir, og þykir mér gott til þess að hugsa að þessi forfaðir minn þurfti ekki að ferðast á stampgengu. Móðir mín mundi vel síðasta reiðhest afa síns, rauðstjörnóttan, lipran og viðbragðsfljótan.
Setbergsmenn smöluðu að jafnaði allt gangandi, enda mikið af hraunlendi því sem þeir þurftu að smala á engan hátt hollt hestafótum. Hér á eftir vil ég greina frá ýmsu öðru varðandi búskaparhætti Jóns á Setbergi og þá fyrst og fremst því sem sneri að fjárbúskap hans. Eins og áður er fram komið var hann mjög nákvæmur og snjall fjármaður. Hafa verður í huga að á þeim tímum var ullin og tólgin aðal verðmætin sem sauðfjárbú skilaði, þá voru ekki enn runnir upp þeir tímar að innlegg dilka væri undirstaða afkomunnar. Fastastæða í fjárbúskap fyrri tíma var því sauðaeign. Þá var mikils um vert að ullarlag þeirra væri gott. Svo til öll hrútlömb voru gelt í vorsmölun nema eitt og eitt sem líkleg þóttu sem hrútsefni. Þau hrútlömb sem ekki komu að í vorsmölun voru gelt að haustinu. Langafi minn setti á svo til alla lambgeldinga, aðeins einn og einn lenti á blóðvelli og þá sem einhver vanmeta skepna. En hann hafði verið vandlátur á val lífgimbra. Þær áttu að vera með breiðan spjaldhrygg og vel holdfylltar á bak, helst með breiða og framskotna bringu, ullargóðar, m.a. ullaríylltar innanlæris, því nárabert fé stóð sig mun verr á beit í vetrarhörkum.
Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar. Gemlingum var að sjálfsögðu beitt, enda var innlokun ekki holl upphafsvist fyrir verðandi útigöngufé.
Jón á Setbergi hafði engin handahófs vinnubrögð þegar kom að því á haustnóttum að „sauma fyrir”, allar þær „bróderingar” þurftu að vera afstaðnar fyrir Marteinsmessu sem er 11. nóvember. Fyrst er að telja lambgimbramar sem að sjálfsögðu voru allar fyrir seymdar. Svo saumaði hann fyrir flestar sínar ær sem voru á 2. vetri, aðeins öríáar þær vænstu og þroskamestu höfðu hrút á þeim aldri. Þannig báru flestar hans ær ekki fyrr en 3ja vetra. Með þessum hætti famaðist stofninum miklu betur, og af þessum ungu ám fékk hann mikla og verðmæta ull. Þar að auki sauðarreyfin þykk og þelgóð. Hann saumaði einnig fyrir rosknar ær sem þá skiluðu þyngri föllum og meiri mörtil tólgarinnleggs við frálag á komandi hausti.
Þótt fyrirseymur finnist ekki lengur fjárhjörðum vil ég koma nánar að þessu handbragði, sem fyrst og fremst lýsti smekkvísi Jóns og foreldra hans gagnvart ýmsu er að fjármennsku laut.”Þegar ég var að alast upp syðra í Stekk, sem var í sama hreppi og Setberg varfyrirseymsla enn mjög algeng varðandi lífgimbrar og einnig með rosknar ær, sem farga átti haustið eftir.
Mér er enn í fersku minni hve það var til stórra lýta þegar saumað var fyrir af meiri háttar smekkleysi, en víða vildi það við brenna. Oft stagað út á hnútur og læri „leppar” óhönduglega sniðnir. Auk þess óvandlega saumað, þá vildi við brenna að ær og gimbrar „lembuðust með leppnum” eins og sagt var, þar með var ætlunarverkið allt úr skorðum.
Jón á Setbergi lagði svo mikið upp úr því að þetta verk væri unnið af traustleika og smekkvísi að lengi vel vann hann þetta verk sjálfur, og allt til sinna búskaparloka taldi hann tryggara að fylgjast með þessu verki úr nálægð.
Móðir mín var víst fljótlega fim með nálina enda treysti hann henni strax á barnsaldri við þennan „saumaskap”. Hún kenndi mér þessi handtök meðan ég enn var ungur. Þess vegna þykist ég enn kunna þessi löngu aflögðu vinnubrögð.
Langafi minn hafði lært handtökin af móður sinni, en alltaf hafði faðir hans fylgst með verkinu. Sennilega til að fullvissa sig um að traustleika og smekkvísi væri örugglega gætt. Eins og fram kemur áður þá vandaði Jón mjög val á lífgimbrum og eins þeim hrútum sem blanda átti í stofninn en þeim var aldrei sleppt í ær fyrr en þeir voru á öðrum vetri.
Á þessum tímum var ullin verðmæt, þess vegna dugði ekki að horfa framhjá ullargæðunum, enda gerði langafi minn það ekki. Ég veit það af eigin reynslu að talsvert má greina það á feldi unglamba hvort reifi verða illhæruskotin. Hann setti aldrei á gimbrar sem hann taldi að bæru með sér þennan galla og þær ær veturgamlar sem skiluðu illhærum í sínu fyrsta reifi fóru undantekningarlaust á blóðvöllinn, eins var um hrútana. Það leiddi af sjálfu sér að þeir blönduðust ekki ærstofninum. Með þessum hætti ræktaðist fljótlega upp stofn með þeim ullareiginleikum sem að var stefnt. Þelið var megin verðmæti ullarinnar, togið varð þó að vera sterkt og ekki of stutt á algeru útivistarfé.
Jón á Setbergi lét ekki sitt marga útigangsfé þvælast um einhvers staðar eftirlitslaust. Þar kom þrennt til, fyrst og fremst vildi þessi nákvæmi fjármaður fylgjast vel með hjörðinni, í öðru lagi var þess full þörf að hafa stjórn á því hvar og hvernig svo stór hjörð gekk að beitinni, og í þriðja lagi varð að fylgja hjörðinni vegna affalla sem bráðapestin olli. Einmitt vegna „pestarinnar” varð strax snemma hausts að fylgja fénu öllum stundum daglangt.
Bráðapestin var alltaf skæðust á haustin og aldrei eins mögnuð og í hæglætisveðri þegar hrímfall var mikið og viðvarandi, en hrímið fylgdi mest hægri haustkælu sem kunnugt er. Þessum stóra fjárhópi fylgdu alltaf tveir karlmenn allt frá haustnóttum og framundir vor. Þannig var auðvelt að stjórna því hvar féð gekk að jörð hverju sinni, og með þessu móti einu var hægt að „skera af” þær kindur sem tóku „pestina”. Bráðapestin var skæðust í yngsta og vænsta fénu. Þessa vegna olli hún mjög miklum skaða. Við þennan vágest hafði verið óbúandi án þess að gæta fjárins svona nákvæmlega. Með þessari daglegu gæslu var unnt að lóga þeim kindum sem dauðvona urðu, þannig spilltist átan af þeim ekki verulega, nema feitin rann við suðu mun meira en þegar fargað var heilbrigðu fé.
Ég trúi að langafa mínum hefði búnast talsvert verr ef nýtingin á þessu fé hefði ekki verið í svo góðu lagi sem hún var, því á Setbergi var þungt heimili vegna mikillar ómegðar. Strax og farið var að gæta fjárins á haustin var það „bælt” sem kallað var, við tvo hella suðvestur af svonefndri Setbergshlíð. Þarna átti féð náttból allan gæslutímann enda var hraunið vel gróið á alldrjúgri spildu.
Fyrrgreind náttból var drjúglangt frá bænum. Þær kindur sem farga þurfti voru þannig meðhöndlaðar að fyrst var þeim látið blæða, síðan var hleypt innan úr þeim frá þind og aftur úr. Síðan urðu fjármennimir að axla þessar fárakindur og bera heim að kveldi. Með fyrstu skímu að morgni þurftu þeir svo að fara til fjárins, því ekki dugði að það væri farið að dreifa sér þegar komið var að náttbólinu. Auk þess vildu þeir helst koma að hópnum áður en féð stóð upp, því hver ein kind sem teygði sig um leið og hún stóð upp úr bæli sínu varð ekki „pestinni” að bráð næstu 30 klst. Þetta máttu þeir gerst vita sem stóðu yfir fé að staðaldri.
Ég hefi oft hugsað til þess hve það hefir komið sér vel hve skjólsælt var víða í þessum högum. Þess hafa fjárgæslumenn og hjörðin notið ríkulega í hreti og hreggviðrum.
Víða var í Setbergshögum eski og sauðamergur ásamt valllendis- og víðigróðri. Auk þessa var fénu beitt vítt um hraunfláka sem voru utan heimalands, á því svæði eru víða beitilyngsbreiður.
Eftir því sem ég þekki frá uppvexti mínum í sambandi við vetrarbeit þá er fátt sem jafnast á við beitilyngið. Það er tvennt sem skapar manni sátt við hraunlendið. Í fyrsta lagi lynggróðurinn og þá alveg sérstaklega beitilyngið og í öðru lagi skútar og önnur skjól, sem hraunflákarnir búa sauðkindinni.
Eins og áður er komið fram í máli þessu var Jón á Setbergi líkt og faðir hans Guðmundur Eiríksson vel að sér um allt sem laut að sauðfjárbúskap. Hann var einnig líkur föður sínum í því hve hann var fótfrár og slyngur smali, að mínu viti verður enginn virkilega slunginn smali nema sá sem skynjar hin væntanlegu viðbrögð sauðkindarinnar undir hinum breytilegustu kringumstæðum.
Sínu létta og giktarlausa smalaspori hélt hann fram á gamalsaldur rétt eins og faðir hans, þess vegna entist hann lengi vel að standa yfir fé sínu, sem alltaf var gert haust og vetur. Tveir synir hans af fyrra hjónabandi voru mest með honum í þessar fjárgæslu, þeir Guðjón og Egill.
Eins og áður var getið fylgdu tveir menn hjörðinni frá haustnóttum til vordægra. Þessir fjárglöggu menn þekktu að sjálfsögðu hverja einustu kind og hverjum einstakling var gefið nafn þó hópurinn væri stór. Það er sama um búfé og umhverfið að nöfnin dýpka sambandið á alla lund. Nafnlaus kind, hæð eða slakki er fjær manni í vitundinni en það sem heiti hefur.
Jón á Setbergi var réttabóndi í Gjárarrétt öll þau ár sem hann bjó á þeirri jörð. Hann þótti ölkær nokkuð og veitull á vín en gætti þess hófst að fjármannsheiðri hans var jafnan borgið þó Bakkus væri með í för.
Móðir mín sagði að afi sinn hafi aldrei verið illur né þrasgjarn við vín en stundum smástríðinn. Langafi minn hafði verið dagfarsprúður og þægilegur húsbóndi, enda mjög hjúasæll. Glaðvær og skemmtilegur á heimili og einnig í viðkynningu út á burt. Ekki kann ég neitt að segja frá dagfari Guðrúnar langömmu minnar, sem varfyrri kona Jóns, en Vilborg á Setbergi, sem var seinni kona hans þótti harðlynd nokkuð og átti það til að vera dálítið snefsin í svörum. Hún var mikill forkur til allra verka. Hjálpsöm og greiðvikin við þá sem minna máttu sín. Sýndi stundum mikla höfðingslund og átti það til að vera stórgjöful. Þegar leið á búskaparferil Jóns fór að búa á Setbergi í félagi við hann Guðjón sonur hans. Þeir feðgar höfðu átt vel skap saman, enda báðir lundþjálir og samvaldir í fjármenskunni og öðrum bústörfum. Þeir áttu hvor sinn fénað bæði kindur og annan búsmala. Féð var allt í einni hjörð, og í þessum félagsbúskap var féð í sömu haust- og vetrargæslu og áður hafði verið meðan Jón bar einn ábyrgð á búrekstrinum. Jón á Setbergi var talinn maður vel vitiborinn, einnig verklaginn og afkastadrjúgur. Svo var einnig um marga hans nánustu afkomendur.
Þegar til margra einstaklinga er litið í ætt þessari finnst mér allgreinilegt að konur hafi verið körlum fremri bæði að dugnaði og verklagni.
Enginn má taka það svo að ég álíti t.d. að synir Jóns hafi verið einhverjir amlóðar, enda mun það fjarri veruleikanum. Hitt er margvitað að erfðir greinast á ýmsa lund. Mér kemur þess vegna í hug að þetta hafi greinst svona sérstætt frá foreldrum Jóns á Setbergi. Faðir hans Guðmundur Eiríksson var einstakur fjármaður, m.a. svo fjárglöggur að sá eiginleiki verður nærri að teljast til eindæma, og vissulega hefur þetta erfst frá honum í allríkum mæli.
Þó Guðmundur þessi væri verkfús og fljótur til þá þótti hann hvorki bráðlaginn né burðarmikill. En Guðbjörg Jónsdóttir móðir Jóns þótti bæði mikilvirk, fjölhæf og mjög lagvirk. Einnig var Guðbjörg talin stálgreind en bóndi hennar bara í meðallagi á því sviði. Af því ég hefi mjög glöggar sagnir af þessum langafa mínum trúi ég að hann hafi í ríkum mæli erft bestu eiginleika frá báðum sínum foreldrum.

Í lokin ætla ég að skrá börn þau sem Jón eignaðist, þau voru ekki færri en 19 og 17 þeirra náðu fullorðinsaldri. Með fyrri konu sinni Guðrúnu Egilsdóttur átti hann 9 börn, sem hún ól á 11 árum.
1. Egill f. 21. júní 1846 í Haukadal, hann dó 14. nóv. sama ár.
2. Guðlaug f. 20. okt. 1847, á Tortu í Biskupstungum hún dó á Setbergi 1869, þá 22ja ára gömul. Ógift og barnlaus.
3. Guðbjörg, eldri, f. 13, febrúar á Tortu 1849. Hennar maður var Sveinn Einarsson frá Miðfelli. Bjuggu fyrst í Syðra-Langholti svo í Ásum í Gnúpverjahreppi. Þau áttu 6 börn.
4. Guðrúnf. á Tortu 8. apríl 1850. Hennar maður var Árni Árnason verkam. Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
5. Guðbjörg, yngri, f. á Tortu 3. ágúst 1851. Hennar maður var Magnús Halldórsson frá Auðnum á Vatnsleysuströnd. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 dætur.
6. Guðjón f. á Tortu 29. nóv. 1852. Dó 1913. Hans kona var Stefanía Gísladóttir frá St. Lambhaga í Hraunum. Bjuggu fyrst á Setbergi svo í Suðurkoti í Krýsuvík, síðast í Gerði í Hraunum. Þau áttu 2 syni. (Hraunbæir var syðsta byggð í Garðahreppi).
7. Eiríkur f. á Tortu 5. águst 1854. Dó 1918. Hans kona var Kristín Guðmundsdóttir, frá Kjarnholtum. Þau bjuggu á ýmsum stöðum í Biskupstungum og alltaf við mjög lítil efni. Þau áttu 7 börn. Eiríkur og Kristín voru móðurforeldrar mínir.
8. Egill f. á Tortu 13. des. 1855. Hans kona Guðrún Ólafsdóttir frá Elliðakoti. Þau bjuggu í Krýsuvík. Þau voru barnlaus.
9. Ingveldur f. á Tortu 22. okt. 1857. Hún dó ungbarn. Með seinni konu sinni Vilborgu Jónsdóttur átti hann 10 börn, sem hún ól á 14 árum.
10. Guðrún f. í Einholti, maí 1859. Hennar maður var Sigurjón Jónsson frá Hraunprýði í Hafnarfirði. Þau fóru til Ameríku. Þau áttu 3 börn.
11. Sigríður f. á Tortu 20. maí 1860. Hennar maður var Helgi Sigurðsson verkamaður í Hafnarfirði. Þau áttu 7 börn.
12. Kristín f. á Tortu 12. maí 1861. Hennar maður Hans Linnet kaupmaður í Hafnarfirði. Þau áttu 3 börn.
13. Ingveldur f. í Helludal 22. okt. 1862. Hennar maður Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Bjuggu fyrst í Litla-Lambhaga og seinna á Þorbjarnarstöðum, sem eru Hraunbæir. Þau áttu 12 börn.
14. Vilborg f. á Bryggju 2. des. 1863. DÓ21. apr. 1941. Hennar maður var Jón Guðmann Sigurðsson frá Haukadal. Þau bjuggu fyrst í Haukadal síðan á Tortu en lengst á Laug og við þann bæ var Vilborg jafnan kennd. Þau áttu 14 börn.
15. Sigurbjörg f. á Hvaleyri 26. febr. 1865. Hennar maður var Guðmundur Jónsson frá Urriðakoti, sem er næsti bær við Setberg. í Urriðakoti bjuggu þau langa búskapartíð. Þau áttu 12 börn.
16. Elín f. á Hvaleyri 26. júní 1866. Hennar maður var Þorvarður Ólafsson frá Vötnum í Ölfusi. Þau bjuggu á Jófríðarstöðum. Þau áttu 10 börn.
17. Guðmundur f. á Setbergil. ágúst 1868. Hans kona var Guðrún Guðmundsdóttir frá Hlíð í Garðahreppi. Þau bjuggu fyrst á Setbergi fá ár, fluttust svo að Hlíð og þaðan til Hafnarfjarðar. Þau áttu 3 börn.
18. Jón f. á Setbergi 12. júlí 1870. Dó giftur og barnlaus 1926. Hafði ungur numið trésmíðar úti í Noregi. Dó frá miklum efnum en engum afkomendum.
19. Rannveig f. á Setbergi 8. júní 1873. Hennar maður var Kristinn Kristjánsson frá Hlíðarnesi á Álftarnesi. Þau áttu 4 börn.

Ekki er ofmælt að segja að Jón á Setbergi hafi verið sæmilega kynsæll. Af þeim 17 börnum hans sem upp komust áttu 14 þeirra afkomendur og barnabörn hans voru 89 talsins.
Einhvern tíman nálægt aldamótum brugðu þau búi Jón og Vilborg og flytjast þá til Hafnarfjarðar.
Langafi minn lifði fram á árið 1909 og hefir þá verið á 85. aldursári. Vilborg deyr árið 1917 og hefur líka verið á 85. aldursári því hún var átta árum yngri en hann.
Hér lýkur að segja frá langafa mínum Jóni á Setbergi. Hinum léttstíga smala og lundprúða dreng.”

Heimild:
Litli-Bergþór, 17. árg. 1996, 3. tbl. bls. 18-22.