FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.
Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;
“Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.
,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“
Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu.
Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík”. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.
“Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…”
Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.”
Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.