Setberg

Í “Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021” segir frá Setbergi:

Setberg

Setberg

Setbergsbærinn á ofanverðri 18. öld,

Jörðin Setberg hafði þá sérstöðu, öfugt við aðrar jarðir í kring sem voru annaðhvort í konungseign eða í eign Garðakirkju, að hún virðist hafa verið í bændaeign í gegnum aldirnar en elsta heimildin um byggð í Setbergi er frá árinu 1505 og var kvittunarbréf Þorvarðs Erlendssonar til Gríms Pálssonar um eignarbýtti þeirra.

Setberg

Setbergssel – landamerkjavarða.

Þar sagði fært yfir á nútíma stafsetningu: „Það gjörum vér Gunnlaugur Helgason, Jón Stullason, Jón Gíslason, Þorleifur Snorrason, Helgi Ormsson, Valdi Þorvarðsson, Hermann Hermannsson og Jón Eyvindsson góðum mönnum kunnugt með þessu voru opnu bréfi að þá er liðið frá guðs burði 1505 ár á Möðruvöllum í Eyjafirði. Daginn næstan eftir Maríumessu seinni um haust, vorum vér í hjá sáum og heyrðum í að Þorvarður Erlindsson lögmaður sunnan og austan í Íslandi haf með handabandi Grím Pálsson alldyngis kvittan og ókærulausan um það kaup og gjald er greindur Grímur hafði áður greiða látið og greitt, og þá amasala varð um það sem eftir stóð við fyrr greindan Þorvarð. Og að því luktu og höldnu er Grímur þá greiddi. Var það Setberg sunnan land við Hafnarfjörð. Og það með ij kúgildi eður iij hvort eður væri, iij vættir smjörs úr holum.

Setberg

Skilti Byggðasafns Hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.

Leigur frá hagatungu uppi iij ár var þetta alls x vættir sagðist Grímur hafa lokið Þorvarði áður xxxiiij kúgildi. Heyrðum vér þá engan óskilnað þessara þrátt greindra manna, heldur kom þeim allt vel saman svo nær heyrðum.
Og til sanninda hér um settum vér fyrr nefndir menn vort innsigli fyrir þetta kvittunarbréf og gjalds er skrifað var í sama stað, degi og ári sem fyrr segir.“
Næst var sagt frá Setbergi í bréfi frá 1523. Það var bréf sem vottaði að Pétur og Hallur Björnssynir hafi haft í arfaskiptum gefið Thomas Jónsson „frían og kvittan“ um jörðina Setberg á Álftanesi og handsalað honum jörðina. Í bréfinu segir frá landamerkjum jarðarinnar:

Setbergssel

Setbergssel.

„Úr miðjum Kjöthelli og í stein þann er stendur í fremstu Tjarnarholti. Úr honum og í flóðhálsinn, úr flóðhálsinum og í álftatanga, úr honum og í Hellu þá er stendur í Lambhaga.
Þaðan og í neðstu jarðbrú. Svo eftir því sem lækurinn af sker í túngarðs endann. Þaðan í Silungahellu. Svo þaðan í þúfuna og í miðjan Kjöthelli.“
Í bréfinu var einnig sagt að Garðastaður ætti á jörðinni tólf hesta reiðings ristu og að Setberg hafi á móti átt búðarstöðu í Garðalandi, þar var átt við búðarstöðu til siglinga, en jörð Setbergs náði ekki að sjó.

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í jarðabréfi frá 1703 var sagt frá því að árið 1658 seldi Tómas Björnsson 8 hndr. í jörðinni til sr. Þorsteins Björnssonar. Tómas seldi svo önnur 8 hndr. til fógetans og árið 1665 eignaðist Guðrún Björnsdóttir 8 hndr. í Setbergi.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Setbergs hafi verið sextán hundruðustu. Eigandi jarðarinnar var ekkjan Þóra Þorsteinsdóttir og bjó hún á jörðinni. Landskuld jarðarinnar var óviss en síðastliðin sextíu ár höfðu eigendur jarðarinnar búið á henni. Engar kvaðir voru á jörðinni þar sem eigandinn bjó þar sjálfur, kvikfénaður var fimm kýr, tuttugu og þrjár ær, fjórir sauðir veturgamlir, fjórir hestar og eitt hross með fyli.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – fyrrum landamerki Setbergs.

Túnin gátu fóðrað sex kýr og tuttugu lömb. Heimilsmenn voru sex. Jörðin átti selstöðu í Ketshelli, þar voru hagar góðir en vatnsból ekkert nema snjór í gjá sem sólarhiti bræddi.
Torfrista og stunga var nægileg og lyngrif mætti vera en var ekki notað fyrir hagbeitar sakir.
Setberg hafði til forna silungsveiði í Hamarskotslæk en henni hafði verið spillt með þeim netaveiðum þeirra sem neðar bjuggu. Jörðin átti ekki land til sjávar en var með búðarstöðu og skipsuppsátur við Skipaklett í Akurgerðislandi. Jörðin átti engjar en þær voru þó litlar.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Í jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 173, þá var hún í bændaeign og dýrleiki hennar 16, landskuld 0.90, kúgildin þrjú og ábúendur voru tveir leiguliðar.
Árið 1912 keypti Hafnarfjörður Setbergsland allt til Lækjarbotna. „Samkvæmt dómi frá 5. Desember 1924 eru landamerki milli Setbergs og þessa hluta Garðakirkjulands sem með lögum nr. 13, 1912 var selt Hafnarfjarðarkaupstað sem hér segir: Úr neðstu brú í Kaplakrika eftir Kaplalæk í hraunjaðrinum beint vestur af stað þeim, þar sem Kaplalæk er nú veitt úr eldri farveg sínum rétt norðan við Baggalágar vestur af Setbergslandi. Þaðan í beina línu í stíflugarð rafstöðvartjarnar, þá eftir garðinum og úr honum beint í markaþúfu suður og upp á holtinu þaðan í upptök lækjar þess sem Hafnarfjarðarbær fær vatn sitt úr, þá í Gráhellur og þaðan í miðjan Kjöthelli.“
Á túnakorti af Setbergi frá 1918 var sagt að tún bæjarins væru öll sléttuð og töldust 6,5 teigar og að kálgarðar væru samtals 1600m2. Á kortinu eru líka mældar inn bæjarrústir gamla bæjarins og „eyði kálgarður“ við þær. Vestan við nýja bæinn var líka mæld „rafleiðslu vatnsvél“.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Innan jarðarinnar er að finna Stekkjarhraun en það var friðlýst sem fólkvangur árið 2009.
Hraunið er hluti af hraunum sem runnu í Búrfellseldum fyrir um 7000 árum. Markmið friðlýsingarinnar var að „vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi þar sem jafnframt er athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. […] Með friðlýsingunni er einnig verið að vernda votlendisbletti við Lækinn þar sem hann rennur með Stekkjarhrauni, en þar vaxa m.a. horblaðka og starir sem eru fágætar tegundir i þéttbýli.“ Í bréfi frá 1670-80 sagði að Hamarskot og Garðar hafi haft stekki í Stekkjarhrauni, þ.e. stekkir og einnig hafði Setberg stekk í hrauninu.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Suðurbær. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VII-Setberg.pdf

Fornleifaskráning

Fornleifaskráning fyrir Setberg.