Í Morgunblaðinu 1998 kynnti Orri Páll Ormarsson sér sögu fornleifaskráningar á Íslandi, sem skiptist í nokkur góðæri með löngum harðindaskeiðum á milli, fræddist um starfið sem nú er verið að vinna og ræddi við Orra Vésteinsson, fornleifafræðing, undir fyrirsögninni „Fortíðinni forðað frá glötun„:
„Sá dýri arfur sem fólginn er í fornleifum þessa lands er að hverfa. Þetta fullyrða fornleifafræðingar. Svo virðist sem Íslendingar, sem til þessa hefur verið annt um sögu sína og uppruna, haíí gleymt sér í töfraheimi tækninnar – fortíðin er fótum troðin. Nú er mál að linni, segja fornleifafræðingar. Vöknum til vitundar um illvirkið áður en það er um seinan!
Fornleifar eru ekki ótæmandi auðlind. Þjóð sem veit ekki hvaðan hún kemur getur ekki vitað hvert hún er að fara!
Beittasta vopnið í baráttunni fyrir varðveislu fornleifa er sú tegund grunnrannsókna sem nefnist fornleifaskráning. En hún er lítt þekkt meðal almennings hér á landi.

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar eyðilagðar á fyrsta degi orkuframkvæmda 2025 – og það þrátt fyrir alla viðleytni hlutaðeigandi um vonlega varðveislu.
Fornleifaskráning er kerfisbundin leit og skráning á fornum mannvistarleifum en án slíkra upplýsinga er ekki hægt að gera ráðstafanir til að vernda minjarnar. Skráning af þessu tagi hefur verið unnin jafnt og þétt í rúma öld í nágrannalöndunum og á sumum stöðum er hafin önnur eða þriðja umferð. Á Íslandi lauk fyrstu yfirferð um 1823 en þær upplýsingar eru að mestu gagnslausar eða úreltar sem tæki til minjaverndar eða annarrar stjórnsýslu á nútímavísu. Engin heildarskrá yfir fornleifar landsins er enn fyrir hendi. Er því lítið vitað um fornleifar á Íslandi, hve margar hafa eyðst á síðustu áratugum, hve margar eru hólpnar. Þetta er þó óðum að breytast.
Markviss fornleifaskráning hefur opnað ýmsa nýja möguleika í fornleifavernd, að sögn Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings sem stjórnar fornleifaskráningarstarfinu hjá Fornleifastofnun, og nú er hægt að áætla hversu margir minjastaðir séu á landinu öllu, rúmlega 100.000, hversu stórt hlutfall þeirra hefur orðið fyrir skemmdum eða eyðileggingu, allt að 60%, og hvaða svæði eða minjaflokkar séu í mestri hættu. Forsendur hafa því skapast til að gera nákvæmar áætlanir um umfang og kostnað við skráningu fornleifa og leggja þannig grunninn að öflugri minjavernd á næstu öld.
Orri segir að á þeim stutta tíma síðan Fornleifastofnun byrjaði á skráningunni hafi hugmyndir fornleifafræðinga um íslenskar fornleifar tekið stakkaskiptum. „Við vissum lítið sem ekkert um þær í upphafi – hvorki hvað þær væru margar né hvers eðlis þær væru. Núna höfum við að minnsta kosti allgóða hugmynd um það og eftir nokkur ár munum við vita miklu meira. Við erum rétt byrjuð að fleyta rjómann ofan af þessum upplýsingum sem við höfum verið að safna en hægt verður að nýta þennan grunn mjög lengi, gera bæði skemmtilegar og gagnlegar rannsóknir á íslenskum fornleifum og miðla upplýsingum til ferðamanna um staði sem gaman er að heimsækja. Við teljum því nefnilega statt og stöðugt að með því að gera fornleifar meira spennandi vinnum við um leið að verndun þeirra.“
Hjátrúin betri en enginn
Skipuleg skráning fornleifa á Íslandi hófst árið 1817 er hin konunglega danska fornminjanefnd sendi spurningalista til allra sóknarpresta í landinu. Fékk nefndin upplýsingar um fomleifar af ýmsum toga á um 700 stöðum hringinn í kringum landið, einkum minjar tengdar söguöld, svo sem hauga, hof, þing og dómhringa. Frásagnir um þessar minjar voru umluktar þjóðsögulegri hulu og er þess víða getið að menn hafi reynt að grafa tilteknar minjar og orðið fyrir allskyns óhöppum fyrir vikið. Hefur hjátrúin, að sögn Orra, reynst betri en enginn við varðveislu fornleifa. Nefndin gekkst fyrir fyrstu friðlýsingunum í sögu íslenskrar minjaverndar og friðaði meðal annars Snorralaug í Reykholti, dómhring á Þórsnesi á Snæfellsnesi og allnokkra steina með rúnaáletrunum.
Undir miðja 19. öld sendi Hið íslenzka bókmenntafélag sóknarprestum spumingalista um nærri allt milli himins og jarðar, enda hugðist félagið gefa út allsherjarlýsingu á landi og þjóð. Því verki lauk aldrei en skýrslur frá prestum, sem varðveist hafa, geyma upplýsingar um fornleifar í flestum sóknum þótt víða hafi menn svarað erindinu á þann veg að í þeirra sókn væri „engar fornleifar“ að finna. Fornleifar eru auðvitað alls staðar þar sem einhver mannvist hefur verið en þessi sérkennilegu viðbrögð segir Orri að megi væntanlega skýra með því að skýrsluhöfundar hafi talið að einungis væri verið að leita markverðra fornleifa. „Enn í dag eru þetta oft fyrstu viðbrögð ábúenda þegar skráningarmaður mætir á vettvang til að spyrjast fyrir um minjastaði.“
Er líða tók á 19. öldina hófst sjálfstæðisbaráttan og um leið jókst áhugi Íslendinga á fortíð þjóðarinnar. Í vísindum og fræðum birtist þessi áhugi einkum í rannsóknum á fornsögum en jafnframt var sjónum beint að staðháttum og fornleifum sem unnt var að fella saman við lýsingar á fornritum. Fornleifakönnun fluttist af höndum presta til sérfróðra manna og var það danski norrænufræðingurinn Kristian Kálund sem fyrstur ferðaðist um Ísland í því skyni að finna staði sem getið er um í fornsögum og lýsa staðháttum og fornminjum sem sagnir voru um að vörðuðu atburði eða einstaklinga frá söguöld. Rit hans, Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse av Island, sem birtist á árunum 1877-82, er enn meðhöndlað sem undirstöðurit í staðfræði Íslendingasagna og hinn vandaðasti leiðarvísir um söguslóðir, að því er fram kemur í máli Orra.
Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og á vegum þess fóru fornfræðingar í rannsóknarleiðangra vítt og breitt um landið í þrjá áratugi. Fyrir þeim fóru Sigurður Vigfússon og síðar Brynjúlfur Jónsson. Markmið þeirra var áþekkt markmiði Kálunds – að finna og lýsa fornleifum sem þeir töldu að gætu skýrt einstakar frásagnir í Íslendingasögum eða varpað ljósi á þjóðskipulag Íslands á söguöld.
Sigurður og Brynjúlfur skráðu fjölda rústa og birtu niðurstöður sínar jafnóðum í Árbók fornleifafélagsins.
Hlutlægari aðferðir
Um síðustu aldamót voru hér einnig á ferð danski kafteinninn Daniel Bruun og Þorsteinn Erlingsson skáld en þeir beittu heldur hlutlægari aðferðum en Sigurður og Brynjúlfur. Báðir reyndu þeir að lýsa og skilgreina tegundir fornleifa og Bruun gerði fyrstur manna skipulegar rannsóknir á landbúnaðarminjum og byggingarlagi íslenskra torfhúsa.
Fyrstu íslensku þjóðminjalögin, svonefnd „Lög um verndun fornmenja„, voru samþykkt árið 1907 og embætti fornminjavarðar – síðar þjóðminjavarðar – sett á laggirnar.
Með þessum lögum voru fornleifar skilgreindar með lagabókstaf og þjóðminjaverði heimilað að friðlýsa minjastaði. Bar honum jafnframt að semja skrá yfir allar fornleifar sem honum þótti ástæða til að friða. Lögðust leiðangrar Fornleifafélagsins þá af að mestu.
Á árunum 1926-30 var fjöldi fornleifa tekinn á friðlýsingaskrá. Friðlýsingar þessar byggðust einkum á rannsóknum Sigurðar og Brynjúlfs sem gerðar voru allt að öld áður. Út frá því dregur Orri þá ályktun að stefnan í minjavörslu á fyrri hluta aldarinnar hafi verið sú að varðveita einkum þá staði sem taldir voru sögualdarminjar.
Friðlýsingar frá árdögum opinberrar fornminjavörslu mynda meginhluta friðlýstra minja í landinu en að jafnaði hafa friðlýsingar verið stopular frá því á fjórða áratugnum.
Á sama tíma og dró úr sögustaðaskráningu í byrjun aldarinnar fór áhugi á örnefnum vaxandi og stóð Fornleifafélagið og síðar Þjóðminjasafnið að örnefnaskráningu um land allt.
Í örnefnaskrám er oft að finna upplýsingar um minjastaði, eða mikilvægar vísbendingar um staði þar sem mannvirki hafa staðið áður en eru nú horfin.
Fornleifaskráning í nútímaskilningi, þar sem leitast er við að skrá allar þekktar fornleifar en ekki aðeins þær sem þóttu „merkilegar“, hófst í Reykjavík á sjöunda áratugnum og hefur staðið með löngum hléum síðan. Henni er ekki lokið. Skráning er líka hafin víðar um land en hvergi að fullu lokið á þann veg að út hafi verið gefin rækileg fornleifaskrá.
„Í kjölfar húsverndunaráhuga, sem efldist mjög á 8. áratugnum, fóru menn að hugsa skipulega um fornleifaskráningu,“ segir Orri.
„Þjóðminjasafnið reið á vaðið og stóð fyrir skráningu í samstarfi við nokkur þéttbýlissveitarfélög, einkum á suðvesturhorninu, þar á meðal flesta kaupstaðina í kringum Reykjavík.
Að mörgu leyti var þetta skynsamleg nálgun því fornminjar eru auðvitað í mestri hættu í þéttbýli. Þarna var því unnið mjög mikilvægt starf.“
Ólíkt fornleifakönnun 19. aldar, sem hafði það markmið að finna áþreifanleg minnismerki um sögu lands og þjóðar, hefur áhugi á skráningu fornleifa síðustu tvo til þrjá áratugi þannig fyrst og fremst stafað af vaxandi áhyggjum af stórfelldri eyðileggingu fornleifa sökum stóraukinnar þéttbýlismyndunar og vélvæðingar í landbúnaði allt frá stofnun lýðveldisins.

Stórhöfði við Hafnarfjörð – nátthagi. Minjarnar eru enn óskráðar þrátt fyrir meinta fornleifaskráningu af svæðinu.
Segir Orri sveitarstjórnarmenn fyrir bragðið víða hafa tekið við sér og hlutast til um að hefja skráningu fornleifa í héraði.
„Það er gaman að lesa greinar sem menn skrifuðu um þetta vandamál um síðustu aldamót. Þá sáu þeir ofsjónum yfir eyðileggingu fornleifa af völdum túnaslétta með handverkfærum, sem var auðvitað ekki nema brotabrot af því sem síðar varð. Þetta segir okkur það að maður er alltaf aðeins of seinn! Í svo til hvert einasta skipti sem við komum í nýja sveit er gamli maðurinn sem vissi allt nýdáinn. Þetta er eitt af því sem maður verður að sætta sig við. Við getum líka huggað okkur við það, að þótt við séum heldur sein fyrir núna verður þessi skráning óvinnandi vegur eftir fimmtíu ár.“
Vatnaskil í minjavernd
Auk fornleifaskráningar á vegum sveitarstjórna hafa einstakir vísindamenn staðið fyrir fornleifaskráningu í rannsóknarskyni. Þar hefur fyrst og fremst verið um að ræða skráningu á eyðibyggðum og afdölum þar sem rústir eru í lítilli hættu. Víða um land hefur áhugasamt fólk reyndar skráð fornleifar að eigin frumkvæði. Slíkar skrár eru, að hyggju Orra, misjafnar að gæðum en reynast oft ómetanlegar heimildir um fornleifar sem síðar hefur verið hróflað við.
Árið 1989 urðu vatnaskil í íslenskri minjavernd er Alþingi samþykkti ný lög um þjóðminjavörslu í landinu. Með nýjum lögum öðluðust allar fornleifar á Íslandi friðhelgi: „Fornleifum má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja…“ Á þetta jafnt við um fornleifar sem eru þekktar og sýnilegar og þær fornleifar sem koma í ljós við jarðrask af einhverju tagi. Brot gegn þessum ákvæðum varða sektum til ríkissjóðs eða þyngri refsingu.

Fjárskjól frá Ási, hið síðasta innan bæjarmarka Hafnarfjarðar. Eyðilagt af verktökum vegna framkvæmda 2023.
Í þessum lögum var einnig það nýmæli að fornleifaskráning varð lögbundin forsenda skipulagsvinnu: „Skylt er að fornleifaskráning fari fram á skipulagsskyldum svæðum áður en gengið er frá skipulagi eða endurskoðun þess…“
Árið 1993 voru einnig samþykkt lög um umhverfismat sem herða enn á fornleifavernd. Er nú ekki hægt að leggja í stórar framkvæmdir nema gerð hafi verið fornleifakönnun á undan.
Segir Orri þessa öru þróun í löggjöf í þágu minjaverndar kærkomna. „Til þess að fylgja mætti þessari löggjöf eftir var nauðsynlegt að þróa og bæta aðferðir við fornleifaskráningu. Til þessa hafði hún verið ómarkviss, hægvirk og afar kostnaðarsöm.

Horft niður á Kringlumýri, forna selstöðu frá Húshólmabæjunum. Selstaðan hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir að fornleifaskráningu svæðisins er sögð vera lokið.
Fornleifastofnun hefur unnið að endurbótum á skráningaraðferðum síðustu ár. Markmiðið með þessu óvenjulega samstarfi sveitarstjórnarmanna og fornleifafræðinga var að sameina ólíka hagsmuni minjaverndar, framkvæmdaaðila, skipulagsgerðar, ferðaþjónustu og almennrar héraðsstjórnar.“ Segir Orri árangurinn þegar vera að koma í ljós. Fjöldi minja hafi verið kortlagður og fornleifavernd og hagnýting minjastaða er tekin með í reikninginn við skipulagsvinnu og framtíðaráform í ferðaþjónustu. Þá gaf menntamálaráðuneytið út í júní síðastliðnum reglugerð með þjóðminjalögum, þar sem er að finna skilgreiningu á því í hverju fornleifaskráning er fólgin. Segir Oni þessa viðleitni ráðuneytisins stuðla að því að fagmannlega verði unnið að fornleifaskráningu framvegis og færa fornleifafræðingum beitt vopn í hendur í baráttu þeirra fyrir öflugri fornleifavernd á nýrri öld.

Tóftir Krýsuvíkursels austan Selöldu. Selið hefur aldrei verið fornleifaskráð þrátt fyrir meinta fullnaðarfornleifaskráningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.
Fornleifaskráning er nú eingöngu fjármögnuð af sveitarfélögum og framkvæmd að vilja og frumkvæði sveitarstjórnarmanna í hverju héraði. Þetta nýja hlutverk sveitarstjórna hefur að vísu ekki verið lögfest en Orri segir að í því felist umtalsverðir hagsmunir, meðal annars þar sem brýnt sé að til séu nákvæmar og aðgengilegar upplýsingar um menningarminjar. Þar að auki fari skilningur vaxandi á því að fornleifar séu vannýttar auðlindir í ferðaþjónustu.
En hvað eru fornleifar?

Ingvaldarsel í Grafningi. Var fyrst nýlega fornleifaskráð þrátt fyrir nokkrar fyrrum skráningar á svæðinu.
Orri segir að skoðanir manna á því hafi breyst mikið á undanförnum áratugum. Byggingar sem voru hversdagslegar fyrir hundrað árum séu nú orðnar minjar um horfna lífshætti. Í lögum eru fornleifar skilgreindar á eftirfarandi hátt: „Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk era á… Að jafnaði skal telja minjar 100 ára og eldri til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar…“
Í lögunum eru gefin allnokkur dæmi, svo sem byggðaleifar, bæjarstæði, húsleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum.
Einnig vinnustaðir þar sem aflað var fanga, gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; varnamannvirki; þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brannar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; áletranir, greftranarstaðir og skipsflök.
Það er skýrt af þessari skilgreiningu að fornleifar eru ekki aðeins öll mannvirki í víðasta skilningi heldur einnig staðir sem á einn eða annan hátt tengjast menningu og atvinnuvegum.

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu.
Er þessari skilgreiningu nú fylgt við fornleifaskráningu, auk þess sem allar byggingar úr torfi og grjóti eru skráðar sem og önnur mannvirki sem eru vitni um horfið verklag eða tækni, þótt þau séu yngri en 100 ára. Þar með geta talist elstu steypubyggingar, byggingar úr blönduðu efni (torf, grjót, timbur, steypa, bárajárn) og mannvirki eins og heimarafstöðvar, sundlaugar, upphlaðnir vegir frá því fyrir jarðýtuöld, fiskplön, áveituskurðir og hvers kyns minjar aðrar sem tengjast umbreytingum í atvinnuvegum og lífsafkomu á fyrri hluta 20. aldar. Minjar sem tengjast seinni heimsstyrjöldinni, veru setuliðsins og framkvæmdum á vegum þess (vegir, flugvellir, braggahverfi, skotgrafir o.s.frv.) eru einnig skráðar að jafnaði.
Nauðsynlegnr undirbúningur

Refagildra við Hraun. Gildran sú er með fjórum inngöngum, sem verður að þykja verulega sjaldgæft. Refagildran, sem er ein af u.þ.b. 100 slíkur á Reykjanesskaganum hefur aldrei verið fornleifaskráð. Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, er hér ásamt Sesselju Guðmundsdóttur o.fl.
Nauðsynlegar upplýsingar um gerð og ástand fornleifa er aðeins hægt að afla með vettvangsathugun og við það er venjulega átt með hugtakinu fornleifaskráning. Til þess að vettvangsathugun komi að fullu gagni verður, að sögn Orra, þó fyrst að taka saman ýmiskonar upplýsingar, bæði skriflegar og munnlegar, sem vísa á minjastaði og geta gefíð vísbendingar um hlutverk mannvirkjaleifanna. „Slík heimildakönnun er nauðsynlegur undirbúningur undir vettvangsathuganir en hún getur líka skilað sjálfstæðum niðurstöðum. Til eru heimildir sem geta gefið grófa mynd af fjölda, eðli og ástandi minja á ákveðnum svæðum og skipuleg heimildaúttekt í því skyni getur komið að gagni við skipulagsgerð jafnt sem minjavernd og rannsóknir.“

Brunnur (lind) við Gufuskála í Suðurnesjabæ. Lindin hefur aldrei verið fornleifaskráð. Skammt neðan hennar er meint bæjarstæði Steinunnar gömlu, sem einnig hefur ekki verið fornleifaskráð.
Aðferðir fornleifaskráningu fela í sér að skráningunni er skipt í þrjú afmörkuð stig og eru þar höfð til riðmiðunar þrjú stig skipulagsvinnu, það er svæðis-, aðal- og deiliskipulag.
Svæðisskráning felst í því að taka saman gögn annars vegar um þekktar fornleifar og hins vegar um atriði sem geta gefið vísbendingar um staðsetningu og eðli fornleifa. Á þeim grunni er lagt mat á fjölda, dreifingu, eðli og ástand menningarminja viðkomandi svæða og gerðar tillögur um verndun, nýtingu og frekari athuganir. Niðurstaða svæðisskráningar er annars vegar skýrsla með heildarmati á menninganninjum á svæðinu og hins vegar skrá yfir allar þær upplýsingar sem safnað hefur verið með kortgrunni sem aðalskráning fornleifa mun síðan byggjast á.

Hlöðunesleiði. Helgi Davíðsson í Vogum, þá 84 ára, var manna fróðastur um Ásláksstaði og nágrenni, en hann ólst þar upp og bjó þar lengi framan af. Helgi gat bæði bent á leiði Hlöðvers í Hlöðunesi og Hjónaleiðið á Ásláksstöðum. Helgi lést skömmu síðar.
Á því stigi skráningar, sem kallast aðalskráning, er farið á vettvang og viðtöl tekin við ábúendur eða aðra staðkunnuga. Markmið með viðtölum er að endurskoða þær upplýsingar sem þegar hefur verið safnað, fá upplýsingar um nýja staði og síðan leiðsögn um viðkomandi landareign.
Með hliðsjón af munnlegum og rituðum heimildum er síðan gengið á þá minjastaði sem upplýsingar hafa fengist um, en jafnframt eru athuguð svæði þar sem líklegt getur talist, út frá gróðurfari og öðram aðstæðum, að fornleifar leynist. Orri segir að á velflestum minjastöðum séu tóftir eða aðrar mannvirkjaleifar ekki sýnilegar og því ekki annað hægt að gera en komast sem næst staðsetningu minjanna og færa hana á kort. Er það gert með því að finna hnattstöðu staðarins með staðsetningartæki.
Þar sem fornleifar eru huldar sjónum er lögð áhersla á að komast að því fyrir hvers konar hnjaski þær geta hafa orðið, hvernig aðstæður voru áður á viðkomandi stað og reynt eftir fóngum að meta hvort staðurinn sé enn í hættu.
Þar sem tóftir eða mannvirkjaleifar eru sýnilegar er þeim lýst á staðlaðan hátt og gerður af þeim uppdráttur, auk þess sem þær eru færðar á kort og hnattstaða þeirra fundin. Áhersla er lögð á að fá skýra mynd af umfangi, lögun og ástandi minjanna en að öðra leyti er ekki um að ræða nákvæma rannsókn á hverjum stað. Einnig er ástæðum lýst og reynt að meta hvort minjastaðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.
Ólíkt svæðis- og aðalskráningu fornleifa er ekki gert ráð fyrir að deiliskráning verði gerð á öllum minjastöðum. Deiliskráning er fyrst og fremst gerð þar sem verið er að vinna deiliskipulag og niðurstöður umhverfismats benda til að séu markverðar fornleifar sem rannsaka þarf nánar og þar sem haft er í hyggju að kynna minjastaði fyrir almenningi.
Markmið deiliskráningar er öðru fremur að fá nákvæmar upplýsingar um einstaka minjastaði eða minjar á litlum afmörkuðum svæðum. Aðferðirnar sem beitt er geta verið mismunandi eftir markmiði athugunarinnar en í minnsta lagi er gerð nákvæm yfirborðsmæling á minjunum og þeim lýst í smáatriðum. Sömuleiðis getur í sumum tilvikum verið æskilegt að grafa litla könnunarskurði, til dæmis til að komast að aldri minjanna eða þegar staðfesta þarf að um mannvirki sé að ræða.
Aðferðir deiliskráningar eru í aðalatriðum þær sömu og beitt er í rannsóknum í vísindaskyni og raunar er æskilegt að vísindaleg sjónarmið séu látin ráða ferðinni við uppgröft þótt tilefni athugunarinnar séu önnur.
Hefur gefið góða raun

Hafnargerðin í Reykjavík á árunum 1913—17 var á sínum tíma stærsta verklega framkvæmd sem ráðist hafði verið í hér á landi. […] Vegna seinni tíma uppfyllinga hefur lítið varðveist af sýnilegum ummerkjum um þessa merku framkvæmd.
Við framkvæmdir þróunarfélagsins Landstólpa hefur hafnargarður frá Reykjavíkurhöfn sem fór undir landfyllingu árið 1939 komið í ljós. Garðurinn var reistur á fyrri stríðsárunum sem hluti af hafnargerðinni en hún var á þeim tíma stærsta og merkasta verklega framkvæmd sem Íslendingar höfðu ráðist í.
Garðurinn tengdist steinbryggju sem var við enda Pósthússtrætis. Nú horfinn undir byggingaframkvæmdir.
Orri segir þessa skráningartilhögun hafa gefið góða raun. Nú liggja fyrir um fimmtíu skýrslur með skrám um fornleifar á hverri jörð í allnokkrum hreppum. Framundan er þó mikið starf, því ætla má að einungis um 15-20% minjastaða séu komin á skrá og þar af hefur minna en fjórðungur verið skráður á vettvangi.
„Vöxturinn í greininni hangir saman við miklu meiri skipulagsvinnu. Nú er landið allt orðið skipulagsskylt og stefnt er að því að aðalskipulag fyrir það verði til á næstu áram eða áratugum. Í sambandi við þá vinnu á, samkvæmt lögunum, að fara fram fornleifaskráning og stefnum við að því að henni verði lokið eftir um tvo áratugi.“
Fornleifastofnun Íslands hefur þjálfað nokkurn fjölda manna í fornleifaskráningu. Segir Orri starfið fjölbreytilegt en að mörgu
leyti erfitt. „Það krefst þess að menn kunni á ritaðar heimildir, geti tekið viðtöl og séu tilbúnir að leggja á sig miklar göngur, meðal annars á fjöllum, og talsverða útivist. Þetta er óvenjulegt starf en skemmtilegt finnst okkur sem stundum það.“
En eitthvað hlýtur skráning sem þessi að kosta?
„Vissulega. Fornleifaskráning er dýr, til dæmis í samanburði við sagnfræðirannsóknir, en reynt hefur verið að taka á þessu annars vegar með því að lækka kostnað með hraðari og staðlaðri vinnubrögðum en áður þekktust og hins vegar með því að efla skilning almennings á þeim verðmætum sem felast í starfi af þessu tagi. Ég held að þær sveitarstjórnir sem þegar hafa ráðist í fornleifaskráningu hafi að verki loknu yfirleitt verið undrandi á því hversu miklum upplýsingum tókst að safna á skömmum tíma. Þetta er þannig spurning um verðmætamat og ef menn skilja hvílík verðmæti felast í upplýsingum um fornminjar og sögu byggðar, þá má alveg eins segja að fornleifaskráning sé hlægilega ódýr.
Það hefur líka verið tiltölulega auðvelt að sannfæra almenning, sérstaklega sveitarfélög, um að það sé mikilvægt að setja pening í rannsóknir og skráningu af þessu tagi. Áhuginn er fyrir hendi – það þarf bara að virkja hann. Það hefur því ekki verið vandamál að fá þau verkefni sem við höfum borið okkur eftir.“
Orri segir það meira áhyggjuefni hversu fáir fornleifafræðingar séu í landinu og hversu fáir leggi stund á nám í þeim fræðum.“
Framangreind grein er athyglisverð, 27 ára gömul opinber umfjöllun. Allt sem sagt er lýsir mikilli bjartsýni og góðri von fyrir hönd minjavörslu landsins.
-Morgunblaðið, 208. tbl. 15.09.1998, Fortíðinni forðað frá glötun – Orri Vésteinsson, bls. 32-33.