Fornleifar
Almennt
Ein sérgreina innan fornleifafræðinnar, og að mörgu leyti alveg sérstök, er að skrá minjastaði úti í náttúrunni. En hvað er fornleifaskráning og hvert er markmið hennar?
Eftirfarandi er dæmi um þróun og stöðu fornleifaskráningar, sem virðist vera nokkuð lík eftir ýmsum löndum Evrópu. Krísa hefur hins vegar orðið í skráningunni í seinni tíð, einkum vegna vanskráningar. Áhersla hefur í auknum mæli færst yfir á björgunaruppgrefti, en minna verið um leit og skráningu minja.
Í Austurríki (83.000m2) eru áætlaðar um 250.000 fornleifastaðir. Engin fornleifaskráning hefur farið fram eftir 1995 nema vegna umhverfismats. Á Spáni eru áætlaðir um 100.000 fornleifastaðir (505.000m2). Í Danmörku (43.000m2) eru um 158.000 fornleifastaðir skráðir í miðlægan gagnagrunn, þ.á.m. um 7.000 neðansjávar (t.d. skipsflök). Á Íslandi eru um 120.000 fornleifastaðir til í miðlægum skrám (103.000m2) eða 1.16 fornleif per km2. Sambærilegar tölur eru; Spánn 0.19 fornleif, Danmörk 3.67 fornleifar og Austurríki 3.01 fornleifar.
Í fyrstu voru fornleifar skilgreindar sem eitthvað skrýtið og skemmtilegt. Síðan var sett löggjöf til verndar fornminjum, t.d. allar eldri en 100 ára og hús eldri en 1918. Erlendis er allur gangur á slíkri skilgreiningu og jafnvel dæmi um að fornleifastaðir verði það ekki fyrrr en þeir hafa verið rannsakaðir, t.d. eftir uppgröft.
Það sem ráðið hefur skráningu fornleifa í gegnum tíðina eru margvíslegar. Í fyrstu réðu hagsmunir valdhafa (tengsl fornleifastaða og fyrri valdhafa), þeir voru fjarhagslegir eða jafnvel ímyndarlegir (mat á gæði þjóða). Hagsmunir hópa gátu ráðið hvað teldist til fornleifa, sameiginleg fortíð, s.s. helgir staðir í augum þjóðar (Þingvellir) eða jafnvel hagsmunir ferðaþjónustunnar á hverjum tíma. Um varðveislu fornleifa hefur verið tekist á, en mikilvægt er að vernda það sem telja má merkilegt fyrir sögu og tilfinningagildi þjóðar. Hagsmunir vísindasamfélagsins liggja fyrst og fremst í kröfunni um heildarskráningu (mikilvægt að hafa yfirsýn til að vita hvað er til), samræmi í skilgreiningum, samræmi í gagnavistun (til að auðvelda aðgengi) og nákvæmni skráninga.
Á Íslandi má segja að skipuleg fornleifaskráning hafi hafist með spurningum fornmenjanefndarinnar dönsku árið 1817, Sóknarlýsingum Hins ísl. bókmenntafélags frá 1839, skráningu Hins ísl. fornleifafélags 1879 og síðan með lögum til verndar fornleifum frá 16. nóv. 1907. Skilgreiningar á hugtakinu fornminjar var mjög víð. Í framhaldi af þeim voru 10 staðir friðlýstir. Lögin voru að mestu samani af Matthíasi Þóraðsyni, þjóðminjaverði. Þá komu Þjóðminjalög 19. maí 1969 og aftur 29. maí 1989. Þá kom inn 100 ára reglan um friðun og heimild til að friðlýsa yngri minjar. Þessi regla kemur ekki til með að eldast vel því hún kemur til með að úreldast þegar fram líða stundir (öll mannvirki verða mun varanlegri en áður var). Reglugerð með Þjóðminjalögum kom út 4. janúar 1998. Í henni var m.a. gert ráð fyrir að allir minjastaðir yrðu skráðir undir stjórn fornleifafræðings og færðir á kort. Reglugerðin hefur hins vegar ekki verið löguð að núgildandi Þjóðminjalögum, sem eru frá 31. maí 2001. Þau lög eru nú í endurskoðun. Vonandi verða gerðar róttækar breytingar á þeim, bæði hvað varðar “stofnanalénsveldi” og möguleika á “eðlilegri” samskiptagrundvelli fræðimanna og leikmanna.

Sagan hér á landi – stutt yfirlit
Fram til 1850 voru ýmsir rannsóknarleiðangrar farnir hér á landi, en vísindalegar aðferðir við fornleifaskráningar voru varla til. Fór það eftir áhuga ferðalanga (t.d. Eggerts og Bjarna) að hverju athyglin beindist og hvað var skráð. Örnefni, einkum er tengdust sögustaðaminjum, dómhringjum og hofum, komu fram í prestaskýrslum dönsku fornminjanefndarinnar (1817) og sóknarlýsingum. Oft var vitnað í munnmæli studd texta fornritanna og einstakar eigin athuganir voru gerðar.
Um 1870 til 1910 fór fram víðtæk sögustaðaskráning (tengd Íslendingasögunum bæði beint og óbeint). Örnefni og frásagnir komu frá staðkunnugum og eigin athuganir höfðu aðallega þann tilgang að finna tiltekna staði er getið var um í Íslendingasögum eða Landnámu. Fram fóru nokkurs konar dómar hvort tillögur eða kenningar tiltekinna manna stæðust eður ei. Í flestum tilvikum stóðust þeir – að minnska kosti á meðan annað var ekki vitað. Kaalund hafði nokkra sérstöðu. Hann hafði aðgengi bæði að óprentuðum gögnum í Kaupmannahöfn og hafði lag á leiðsögn heimamanna á hverjum stað. Þá hafði Brynjúlfur Jónsson einnig nokkra sérstöðu á þeim tíma þar sem var áhugi á alþýðufróðleik þess tíma, byggðum á sögum og munnmælum en ekki algerlega á texta Íslendingasagnanna. Segja má að Brynjúlfur hafi verið fyrsti fornleifaskrásetjarinn, sem reyndi með eigin upplifun að túlka minjar, s.s. eyðibýli, oft sem engar ritheimildir voru til um.
Um 1895-1905 byrjaði hin menningarsögulega skráning fornminja. Þar voru fremstir í flokki Þorsteinn Erlingsson og Daniel Bruun. Sá fyrrnefndi safnaði minjum til stuðnings minjum í Kanada að beiðin þarlendrar konu, en sá síðarnefndi leitaði bæði skipulegar og ítarlegar að fornminjum en áður þekktist. Þá beindi hann athygli að fleiri og miður áhugaverðari minjum, s.s. stekkjum og kvíum. Þessi áhugi hans varð til þess að efni um þessar tegundir “sjálfsagðra” fornminja varðveittust síðar. Daniel byggði á fyrra skráningarstarfi, gerði skipulegar athuganir, leitaði á vettvangi og lagði áhersla á tilteknar gerðir og flokka fornminja, en gerði ekki upp á milli þess sem hann uppgötvaði og beinna ritheimilda.
Um 1920-1970 kom millikafli – örnefnaskráningin. Áherslan færðist yfir á sjálfan íslenska bóndann. Hann gerði örnefnaskrá fyrir sitt svæði (enda staðkunnugur) eða tekið var viðtal við hann um örnefni í landareign hans. Allt var skráð. Landið sjálft fékk einnig verðskuldaða athygli. Auknar eyðibýlarannsóknir fylgdu í kjölfarið samfara tóftaskoðunum.
Eftir 1970 hafa ýmsir áhrifaþættir ráðið fornleifaskráningunni, s.s. umhverfisverndarstefna, barátta fyrir friðun (þjóðgarðar) og aukinn almennur áhugi á verndun, einkum gamalla húsa. Rannsókn Sigurðar Þórarinssonar á jaðarbyggðum og útbreiðslu eyðibyggða fékk athygli og norrænt eyðibýlaverkefni fór í gang með þátttöku Björns Teitssonar (í Suður-Þingeyjarsýslu).
Helstu vörður þessa tíma má segja að séu þó söguminjaskráning Helga Hallgrímssonar 1974 í Mývatnssveit þar sem lögð var til grundavallar staðgóð þekking á tilteknus væði (ritheimildir, örnefni, náttúrufar og tóftaskoðun). Hann lagði fram mjög stuttar lýsingar á staðháttum, en engar myndir. Minjar voru staðsettar á uppdrætti og þær voru flokkaðar.
Nýjar eyðubýlarannsóknir fóru fram um 1980. Sveinbjörn Rafnsson (í Hrafnkelsdal og á Brúardölum) og Guðrún Sveinbjarnardóttir (undir Eyjafjöllum, í Skagafjarðadölum, í Berufirði og víðar) gerðu ítarlega heimildakönnun á svæðunum, skipulögðu leit á vettvangi og afmörkuðumsvæðum, nýaldarminjum var sleppt, nákvæmir uppdrættir gerðir, prufuskurðir til gjóskulagagreiningar grafnir, formleg útgáfa gefin út og doktorsritgerð Guðrúnar tók á verkefninu. Tilraunir voru gerðir með aðferðir, loftmyndir notaðar og innrauðar ljósmyndir skoðaðar.
Kristján Eldjárn gaf síðan tóninn. “Örnefni og minjar í landi Bessastaða” (1981) var nærtækt verkefni eftir að hann varð forseti, en í lagði hann línuna í skráningu og frágangi slíkra skráa. Hann gekk eftir örnefnum og gerði vettvangsathuganir, tók ljósmyndir af 13 minjastöðum, tilnefndi garðlög, tóftir, runna og rústabungur, lýsti minjum og gerði uppdrátt af svæðinu. Þá framkvæmdi hann fornleifaskráningu í Papey (kom út 1989) þar sem hann tiltók minjar frá öllum tímabilum.
Þrátt fyrir friðlýsingar fornleifa fyrrum var könnun á tilvist friðlýstra fornminja árið 1980 mögum áhyggjuefni. Í henni kom m.a. fram að 7.7% minjanna voru horfnar, 19% skemmdar, 12.2% í hættu, 13.1% óþekktar hvað staðsetningu varðaði (gætu hafa verið horfnar eða týndar ábúendum) og 31.7% landeiganda vissu hreinlega ekki um friðlýsingu minja á þeirra landssvæði.
Þá má nefna baráttu Þjms, einkum Guðmundar Ólafssonar, fyrir skipulegri fornleifaskráningu eftir 1980. Ákvæði þess efnis komst inn í lögin og eftir þeim hefur verið unnið við skipulagsvinnu sveitarfélaga.
Skipuleg fornleifaskráning fór fram á árunum 1982-89, ekki síst fyrir vinnuframlag Ágústar Ólafs Georgssonar, en eldri fornleifaskráningar hafa ekki enn verið gefnar út og því lítt aðgengilegar.
Ný Þjóðminjalög komu 1989, en veruleg kreppa varð í öllu framlagi fornleifarannsókna á árunum þar á eftir (til 1994). Deilur og óeining settu mark sitt á fræðin. Samdráttur varð í fornleifaskráningunni, nema ef vera skyldi fornleifaskráning fyrir Reykjavík, sem varð sú fyrsta heilstæða á landinu.
Framundan eru bjartari tímar, en gera þarf gangskör í skipulegri fornleifaskráningu á landinu, ekki síst á grundvelli “field walking” þar sem ákveðin svæði er gengin skipulega og fornleifa leitað, hvort sem um er að ræða sýnilegar minjar eða jarðlægar.
Ekki er öllum gefið að skynja og greina minjar í landinu. Til er þó það fólk, sem það getur með tiltölulega auðveldum hætti.Byggt á kennslu í fornleifafræði (OV) hjá Háskóla Íslands – 2006.

Fornleifar

Fornleifar undir Bessastaðastofu. Fundust við uppgröft.