Húshólmi

Til hvers er verið að grafa og hvaða merkingu hafa heimildir fornleifafræðinnar? Hvernig getur einstakur gripur sagt sögu? Hefur orðið þróun aðferða við uppgröft og úrvinnslu á langri leið? Er til kenning í íslenskri fornleifafræði?

Þingvellir

Búðartóft á Þingvöllum.

Svarið að augljóst: Líkt og í fornleifafræði þeirra landa, sem öllu jöfnu er miðað við, hefur íslensk fornleifafræði engu minni sess, þegar til ”heimanmundar” er litið. Hér á landi hafa orðið til ”einstakir” áfangar fornleifafræðinnar og má þá nefna bæði gjóskulaga- og frjókornarannsóknirnar. Líklegt er að ófyrirséð tímamótakenningasmíð í fornleifafræði verði þróuð enn frekar hér á landi á næstu árum og áratugum. Til að auka líkur á skjótari þroska mætti vel hugsa til breytilegri afbrigða, s.s. með því að snúa við sönnunarbyrðinni, sem jafnan hefur hvílt of þungt á fræðigreinininni. Sagnfræðin er mun ”opnari” og umburðarlyndari í dag en hún var fyrir einungis nokkrum árum. Hvers vegna ekki að opna fornleifafræðigreinina fyrir nýjum ”þolanlegum” hugmyndum (ideas) og reyna að laða þær fram í stað þess, kannski með fljótfærni, að ”slá” þær jafnóðum út af laginu. Nýjar hugmyndir og kenningar þurfa svigrúm og ”þolinmæði”. Án þeirra, eða áræði ”hugmyndasmíðanna”, verður engin þróun.Án kenningar er fornleifafræðin einungis magn gagna (upplýsinga). Án aðferða er enginn skipulagsmynd eða samhengi í beitingunni. Kenning og aðferð fara saman sem frumstig ástæðna þegar gera á eitthvað í fornleifafræði þegar framkvæmdin sjálf skipar annað sætið. Áður fyrr var hún í fyrsta sæti, en í ljósi reynslu, þróunar og möguleika verður ekki hjá því komist að nýta sér hvorutveggja, ekki síst þegar litið er til nýrra möguleika í túlkun gagna, bæði eldri sem og á vettvangi nýrri uppgrafta. Bæði markmið og hlutlægni fornleifafræðinnar hafa breyst líkt og tilgangur mannfræðinnar hefur þroskast með tímanum.

FornleifarNafn Ians Hodders er í hugum margra fornleifafræðinga nátengt síðvirknishyggju og rannsóknir í aðferðarfræði fornleifafræðinnar, einkum á dreifingu fornleifa (gripa, staða) með aðferðum rúmfræði og tölfræði. Hann samdi eitt fyrsta ritið (Reading the Past, 1986) sem kom út um kennilega fornleifafræði, en þar gerir Hodder grein fyrir kennilegum nálgunum á fornleifafræði og setur fram gagnrýni á virknishyggjuna. Ennþá er þó sú skoðun algeng meðal fornleifafræðinga að kenningar séu bæði óþarfi og tímasóun.
Á seinni árum hefur Hodder lagt áherslu á tækifærin sem nútímafjölmiðlar, einkum og sér í lagi Internetið – opna fyrir miðlun fornfræðilegra upplýsinga, og hvaða áhrif bættur aðgangur almennings – ekki síst í þróunarlöndum – hefur og mun hafa á það hvernig upplýsingar eru túlkaðar. Þegar internetið er skoðað í dag má ljóst vera að fornleifafræðin er farin að tileinka sér það í mun ríkari mæli en áður til að vekja athygli á viðfangsefnum og fræðum þeim er að henni lúta. Einstakar fræðastofnanir og einstakir fornleifafræðingar nýta netið til að koma upplýsingum um sig og skrif sín á framfæri. Má þar nefna til sögunnar Ian Hodder. Hins vegar en netið enn vannýttur möguleiki sem tengslanet milli fræðigreinarinnar og almennings. Þó má segja að hafi verið gerð svolitlar tilraunir til þess hér á landi, sbr. vefsíður Þjóðminjasafnsins og Fornleifastofnunar Íslands . Þá má benda á tilraunir áhugafólks um fornleifastaði á afmörkuðu svæði landsins .
Ef litið er yfir þróun kennilegrar fornleifafræði síðustu árin er ástæða til bjartsýni við upphaf nýrrar þúsaldar. Fornleifafræðingar eru nú, meir en nokkru sinni fyrr, meðvitaðir um að kenningar eru forsenda gagnasöfnunar, greiningar og röðunar. Eins eru menn meðvitaðri nú en áður um allar þær ólíku kennilegu nálganir sem mögulegt er að beita. Og því skyldi ekki slíkt og hið sama gilda hér á landi?

FornleifarMargir telja Binford einn helsta áhrifavald í fornleifafræði síðustu hálfa öldina. Í bókinni In Pursuit of the Past, fjallar Lewis Binford (f. 1930) m.a. um kenningar og hugmyndir í fornleifafræði. Hans framlag til “Nýju fornleifafræðinnar” (New Archaeology) breytti fræðigreininni og þróun vísindalegra forsenda hennar, hvort sem um var að ræða uppgrefti eða túlkun gagna. Bókin var fyrst gefin út fyrir tveimur áratugum, en var síðast endurútgefin árið 2002. Binford skýrir hugmyndir sínar fyrir nemendum og almennum lesendum sem og skilning hans á fortíð mannsins. Í gegnum bókarina spyr Binford spurninga um gamlar hugmyndir og leggur fram nýjar kenningar, byggðar á samanburðafornleifafræðilegum og mannfræðilegum (comparative archaeological and ethnographic) rannsóknum í Norður-Ameríku, Evrópu, Suður-Afríku og Ástralíu.
En líkt og Hodder leggur Binford, eins og svo margir aðrir, einungis fram kenningar um meginatriði, en aðrar ”kenningar” um smáatriði eða nánari túlkun byggja að mestu á hugmyndum (ideas), tillögum (proposals) eða ályktanunum (suggestions). Hodder leggur áherslu á það, í annars sérfræðilegum skrifum sínum, að vera sannfærandi fremur en fræðandi. Hugmyndir hans og ”kenningar” bera keim af því. Svo er reyndar um aðra fornleifafræðinga. Meðan t.d. Hodder leggur áherslu á innri þætti (internal) samfélaga og samfélagsmótunar (cultural) leggur Binford áherslu á hina ytri (external) og sögulegu (historial) áhrifaþætti hennar.

Fornleifar

“Fornleifafræðin hefur gengið í gegnum miklar kennilegar hræringar undangegna hálfa öld og sjá má í þeim umbrotum þroskaferil fræðigreinar, sem er sífellt að bæta við sig nýjum aðferðum og hugmyndum. Stærstu stökkin flelast annars vegar í virknishyggju sjöunda áratugarins þegar fornleifafræðin gleypti í heilu lagi aðferðir félagsvísinda og umhverfisvísinda og bætti þeim í sitt áhaldasafn og hins vegar í síðvirknishyggju níunda áratugarins þegar afstæðishyggja og túlkunarhyggja bættust við. Með aðferðum virknishyggju var fornleifafræðin ekki lengur einskorðuð við að lýsa einkennum horfinna samfélaga heldur gat hún í fyrsta skipti sett fram rökstuddar hugmyndir um skipulag slíkra samfélaga – um stjórnskipun þeirra, félags- og hagkerfi. Það er ótrúlegt vísindaspekilegt stökk þegar haft er í huga að heimildirnar sem slíkar hugmyndir byggja á eru lítið annað en ósjálegir haugar af leirkerabrotum, afhöggum steináhaldasmiða og múrsteinshrúgur. Með aðferðum síðvirknishyggjunnar er fornleifafræðin farin að takast á við þá þætti mannlegs samfélags sem menn hefðu síst ætlað að hægt væri að að spá í út frá úrgangi hversdagslífs venjulegs fólks; hugmyndafræði, fagurfræði, tilfinningar og hvatir – þætti sem hafa ekki síður áhrif á hegðun og ákvarðanir mannanna en umhverfi og efnahagur.
Mikilvægasta framlagið til fræðilegrar umræðu innan sívirknishyggjunnar hefur sennilega verið frá femeniskri fornleifafræði og kynjafornleifafræði sem hafa verið undir miklum áhrifum frá öðrum greinum. Femenísk fornleifafræði hefur skýr pólitísk viðmið og kappkostar að vinna á karllægum hugsunarhætti í greininni, einkum hinni vestrænu hugmynd um verkaskiptingu kynjanna.

Þessi síðari bylting í fornleifafræði er ennþá í gangi í þeim skilningi að aðeins hefur verið sýnt fram á möguleikana. Enn hafa ekki komið fram sannfærandi samfélagslýsingar sem byggja á þessum grunni. Þær liggja hins vegar í loftinu og er óhætt að segja að það séu spennandi tímar í fornleifafræði.”

Heimildir:
-Leskaflar í íslenskri fornleifafræði, Fornleifastofnun Íslands, Sagnfræðiskor HÍ, Adolf Friðriksson, haust 2003.
-Umfjöllunar um nýja framsetningu um “Gamla sáttmála” í Fréttablaðinu þann 2. nóv. 2005 þar sem sagnfræðingar við H.Í segja skoðun sýna á nýframkominni véfenganlegri kenningu um ritun og tilgangi hans.
-www.saa.org/
-www.stanford.edu/dept/anthroCASA/people/faculty/hodder.html
-www.natmus.is/thjodminjar/fornleifar/
-http://www.instarch.is/
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 195-211.
-Lewis R. Binford: In Pursuit of the Past, California News, 2002, 260 bls.
-Kennileg fornleifafræði, Ian Hodder, Orri Vésteinsson og Uggi Ævarsson þýddu, Ritið, Tímarit hugsvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 206.
-Orri Vésteinsson, Staða íslenskrar fornleifafræði, Ritið, Tímarit hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, 2004, bls. 65-66.

Landnámssýning

Landnámssýningin í Aðalstræti – skáli.