Járngerðarstaðir

Þegar Vesturbraut í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík var nýlega grafin upp vegna úrbóta  á varanlegri gatnagerð kom verktakinn niður á hlaðið garðlag. Sá hafði þegar uppi snör handtök, fjarlægði garðinn og mokaði yfir. Vitni urðu þó að atvikinu. Skv. Þjóðminjalögum hefði verktakanum borið að tilkynna fundinn til Fornleifaverndar ríkisins. Ekki er ólíklegt að ætla að þarna hafi verið um að ræða leifar heimagarðs gamla bæjarins á Járngerðarstöðum, þeim er kom við sögu “Tyrkjaránsins”. Af meðfylgjandi uppdrætti að dæma liggur Vesturbrautin í gegnum gamla veggstæðið. Eðlilegt er því að spyrja: “Í ljósi gildandi laga; hvers vegna var ekki gert ráð fyrir að minjar myndu finnast á þessu svæði áður og á meðan á framkvæmdunum stóð og hvers vegna var ekki fylgst með hvort svo væri?”
Járngerðarstaðir - grá lína er ætlaðir garðarÍ
Þjóðminjalögum, 2001 nr. 107, 31. maí segir: “12. gr. Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Fornleifavernd ríkisins viðvart. Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal viðkomandi sveitarfélag eða framkvæmdaraðili gera Fornleifavernd ríkisins viðvart með hæfilegum fyrirvara. Fornleifavernd ríkisins ákveður að höfðu samráði við Náttúruvernd ríkisins hvort rannsóknar er þörf, hvort friðlýsa beri viðkomandi stað eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum.
13. gr. Nú finnast fornleifar sem áður voru ókunnar og skal finnandi þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn. Ef fornleifar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd uns fengin er ákvörðun Fornleifaverndar ríkisins um hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum.

Gamli bærinn á Járngerðarstöðum

14. gr. Nú telur landeigandi, ábúandi eða einhver annar, þar á meðal sá sem stjórnar opinberum framkvæmdum, að hann þurfi að gera jarðrask, svo sem vegna vegagerðar, veitulagnar, framræslu eða skógræktar, er haggað geti við fornleifum og skal hann þá skýra Fornleifavernd ríkisins frá því áður en hafist er handa við verkið. Lýst skal nákvæmlega breytingum þeim er af framkvæmd mundi leiða. Fornleifavernd ríkisins ákveður hvort og hvenær framkvæmd megi hefja og með hvaða skilmálum. Við allar meiri háttar framkvæmdir, svo sem vegagerð, virkjanaframkvæmdir, flugvallargerð, veitulagnir og skógrækt, skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum.
Kostnaður Fornleifaverndar ríkisins vegna athugunar á fornleifafundi sem gerð er í því augnamiði að staðfesta eðli og umfang fundarins skal greiddur af stofnuninni.
Framkvæmdaraðili greiðir kostnað vegna þeirra rannsókna á fornleifum sem Fornleifavernd ríkisins úrskurðar að séu nauðsynlegar vegna athafna hans
.”
Var bygginganefnd Grindavíkur í fríi? Þarf að fjölga byggingafulltrúum í bænum svo hægt verði að fylgjast með að fleiri fornleifum verði ekki spillt í framtíðinni? Mun verktakinn iðrast? Hvert verður frumkvæði Fornleifarverndar ríkisins? Spennandi tímar virðast vera framundan. Meira HÉR.

Járngerðarstaðir og Vesturbraut