Jónsbásar

Í miklu hvassviðri veturinn 2007-2008 rak tunnulaga járnstykki upp af Jóns[síðu]bás[um]. Gunnar Tómasson var þarna á ferð fyrir skömmu með þeim bræðrum Guðjóni og Halldóri frá Vík þegar þeir komu auga á gripinn. Grunur er um að þarna kunni að vera komið brak úr breska togaranum Anlaby, sem strandaði utan við ströndina veturinn 1902. Öll áhöfnin, 11 menn, á að hafa farist. Slysið átti sér sögulegan aðdraganda, bæði í árum talið og klukkustundum sem og eftirmála.Neðri siglingarvarðan - við Tóftabrunna
Í örnefnaskrá segir að “Markhóll, gróinn hóll, sé austast á mörkum, en vestan við hann er Hvalvík. Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður. Vestan Jónsbáss er hár malarkambur, kallaður Stekkjatúnskambur. Tóftabrunnar, sjóvatnstjarnir, eru fast vestan við gamla veginn, vestan við Bjarnagjá, vatnsfyllta gjá fast austan við Markhól. Þá er Stekkjartúnsbarð og þá kemur Stekkjatún vestan þess. Ofan við Stekkjatún er Stakibrunnur. Þann 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp og fórst öll áhöfnin.
Vestan við Stekkjartúnskamp eru klettabásar, nefndir Sölvabásar. Vestan við Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 km, er stór hlaðin varða. Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 [m] austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður.

Uppspretta við Vatnsstæðið/Tóftarbrunna

Efri varðan er um 800 m austan við bæjarhólinn á Húsatóptum, í uppgrónu hrauni.  Í örnefnaskrá segir að “þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi. Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóptarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Neðri varðan er skammt austan við þar sem hús fiskeldisins standa nú (suðvestar).
Þvottaklappir eru vestan við Vatnslónsvík, vestan við Vatnslónskletta. Á þeim eru daufar uppsprettur. Þær draga nafn sitt af því, að þegar lágsjávað var, rann þarna mikið vatn niður í fjöruna og var farið þangað með þvott frá Húsatóptum og hann skolaður. Var það kallað “að fara í Vötnin”. Vatnslónsvík er fyrir suðvestan fiskeldið.”

Siglingavörðurnar

Tóftarbrunnar eru sagðir skammt vestan við Bjarnagjá. Það er ekki rétt, en þar er ílöng tjörn ofan við kambinn, sem nefnist Brunnar. Gerðavallabrunnar eru norðaustan við þá. Tóftabrunnar eru hins vegar við svonefnt Vatnsstæði. Þegar skoðaðar voru aðstæður á svæðinu mátti enn greina mannvistarleifar frá því að vatnsstæðið, Tóftarbrunnar, ofan við Vatnslónsvík, var notað, bæði garðar og götur. Væn ferskvatnsuppspretta kemur þar undan hrauninu og rennur í vatnsstæðið. Þá standa siglingarvörðunar enn þótt kamburinn sé nú mun hærri en hann var þegar þær voru reistar. Hlaðinn garður er þar sem Bóndastekkatún var. Þar ofan við kemur vatn undan hrauninu, Stakibrunnur, en aflangur hraunhryggur skilur svæðið frá sjávaraðstreyminu. Jónsbásinn sjálfur er sennilega utan við millum Brunna og Tóftarbrunna, en fallegt vik er innan við þá. Á flóði má færa þar inn bát með góðu lagi. Þar innan við “lónið” sést hlaðinn garður og e.t.v. fleiri mannvirki – ef leitað væri.

Leifar garðs við Bóndastekktún

Í örnefnalýsingu segir ennfremur: “Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur. 14. janúar 1902 sigldi enski togarinn Anlaby í strand við Stekkjartúnskamp. Lenti hann í klappabás framan við kampinn og brotnaði i spón, og fórst öll skipshöfnin. Líkin voru grafin á Stað. Úr togaranum var hirt koparklukka, um 18 cm að þvermáli að neðan. Í ytra borð klukkunnar er steypt nafnið Anlaby Hull. Þessi klukka hefur verið höfð í klukknaporti Grindavíkurkirkjugarðs (líksöngsklukka) til þessa dags. Skipstjóri á Anlaby var Carl Nilson, sænskur maður, sá sami og drap tvo fylgdarmenn Hannesar Hafstein á Dýrafirði 1899. “Tunnulaga járnsstykkið fyrstnefnda er skammt ofan við kampinn, skammt austan við lón utan við Jónsbás[a]. Jónsbásar eru austan í Vörðunestanga. Ummál þess er um 1.20 m og lengd um 1.80 m. Sagnir hafa verið um að “gufuketillinn” úr Anlaby væri undir Jónsbásum og sæist hann á útsoginu þegar lágfjara væri. Staðsetningin mun hafa verið svo að segja neðan og nálægt þeim stað þar sem stykkið kom upp. Stykkið bendir þó ekki til þess að hafa verið gufuketill, eins og þeir voru. Ekki er því ólíklegt að hafið sé þarna að skila einhverju öðru úr togaranum. Þá gæti það verið úr öðrum togurum og bátum, sem farist hafa við Staðarhverfisströndina, s.s. Skúli fógeti (10. apríl 1933 vestan við Staðarhverfi), sem og þýskur togari er siglt var svo til beint upp í Malarenda. Innan þeirra eru tjarnir. Þessi þýski togari, Schluttup, kom upp á Malarendana í ársbyrjun 1924. Sagan segir að fólkið í Móakoti og fleira fólk hafi verið að spila um þokukennt kvöldið þegar einhver hafi haft á orði að gott væri nú að fá svo sem eitt strand þarna fyrir utan. Um morguninn stóð togari í heilu lagi uppi á Mölunum fyrir neðan bæinn. Hafði honum verið siglt upp í fjöruna um nóttina. Varð að reisa planka með síðu hans til að ná skipstjóranum frá borði því feitari gerðust þeir varla í þá daga.
Þegar meðfylgjandi myndir birtast af “stykkinu” við Bóndastekktún mun Gugga eflaust leggjast á Erling, afkomanda Einars í Garðhúsum (sjá hér á eftir), þrýsta á að hann fari á jeppanum þeirra og sæki gripinn – því myndarlegur er hann. Hafa ber þó í huga, ef um grip úr Anlaby er um að ræða., þá nýtur hann verndar Þjóðminjalaga, líkt og allir gripir 100 ára og eldri. Skv. því er “stykkið” eign íslenska ríkisins – án þess að það hafi svo sem hugmynd um það, eða kæri sig yfirleitt kollótt um slíka eign – að fenginni reynslu af takmörkuðum áhuga þess af fornleifum á Reykjanesskaganum yfirleitt.
Í bókinni “Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók” er m.a. fjallað um Anlaby-strandið:
“Það var nokkur fyrir jól 1901, að frú Helgu Ketilsdóttur Stykkiðdreymdi að knúnar væru hurðir á Stað. Var skjótt til dyra gengið. Úti fyrir beið hópur manna, 9 eða 10 að tölu. Þeir báðust gistingar. Frú Helga taldi nokkur vandkvæði á að hýsa slíkt fjölmenni. Hún væri ekki undir það búin að hafa rúm handa þeim öllum. Komumenn sögðu að það myndi ekki saka. Hann Einar mundi sjá fyrir því.
Svo liðu jólin og Staðhverfingar fögnuðu fyrstu áramótum aldarinnar. Að morgni þess 14. janúar var Björn Sigurðsson, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda út með sjó. Veður fór lygnandi eftir hvassa hafátt. Þegar Björn var kominn út í Hvalvík sér hann alllmikið rekald í fjörunni og eitt lík skammt ofan við flæðarmálið. Virtist sá hafa komizt lifandi á land.
Björn gerði strax hreppstjóra, Einar Jónssyni á Húsatóftum, aðvart um fund þennan. Kom hann á vettvang að vörmu spori ásamt fleiri mönnum. Þegar hann hafði gert sér grein fyrir aðstæðum, skrifaði hann sýslumanni bréf og sendi mann með það til Hafnarfjarðar.
“Skip þetta hitti á svo vonda landtöku” segir hreppstjóri í bréfi sínu, “að það spónbrotnaði – sést aðeins eftir nokkuð af skipsskrokknum að framan, en þó [er] ekki hægt að komast að því um fjöru. – Út frá skrokknum liggur reiðinn allur og þar innan um gufuketillinn, sem losnaður er við skipið. Töluvert er rekið úr skipinu af timburbraki, allt annað eyðileggst. – Líklegt þykir að mannskapurinn hafi farizt”.

Stykkið

Það reyndist rétt, sem hreppstjórinn sagði. Af skipi þessu höfðu allir farizt.
Það hét Anlaby, lítill, nýlegur togari frá Hull, sem strandaði þess skammdegisnótt á Jónsbásklettum skammt utan við Hvalvíkina.
Skipsstjórinn á Anlaby var alkunnur afbrotamaður úr sögu íslenzku landhelgisbáráttunnar, Carl Nilson, eða sænski Nilson, eins og hann var almennt kallaður. Hann hafði verið skipstjóri á togaranum Royalist frá Hull, sem varð tveimur mönnum að bana í Dýrafirði, þegar Hannes sýslumaður Hafsteinn vildi ráðast til upgöngu á skip hans á Haukadalsbót 10. okt. 1899. Fyrir það ódæði hafði skipstjórinn verið dæmdur í tveggja ára fangelsi í Danmörku. Er hann var búinn að taka út hegningu sína, hélt hann á Íslandsmið og hét því að nú skyldi hann ekki hlífa Íslendingum. (Sjá meira HÉR).

Næstu daga rak 9 lík af Anlaby. Lét Einar hreppstjóri bera þau í Staðarkirkju, þar sem þau voru lögð til inni í kórnum. Var þá kominn fram draumur frú Helgu, sem fyrr er getið.
Vik milli Brunna ofan við JónssíðubásaÞegar líkin höfðu þvegin og skráð einkenni og merki, sem á þeim voru til þess síðar væri hægt að nafngreina mennina.
Þann 23. jan. fór fram uppboð á skipinu og braki því, sem úr því hafði rekið. Voru það 69 númer, mest spýtur, sem seldust á 2-10 krónur. Skipsflakið með öllu, sem við það hékk og í því var; kolum, akkeri, maskínu o.fl., var slegið Einari í Garðhúsum á 301 krónu. Sr. Brynjólfur á Stað keypti mahogniborð á 7 krónur og 25 aura.
Daginn eftir uppboðið voru jarðsett fjörgur lík. Fleiri kistur hafa líklega ekki verið tilbúnar. Þrem dögum seinna, eða þann, 27., voru jarðaðir 5. Tíunda líkið rak eftir mánaðarmótin og var það greftrað 6. febrúar.
Alls munu hafa verið 11 manns á skipinu. Það sem vantaði var talið að verið hefði lík skipstjórans.
Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú [1974] er það horfið með öllu nema ketillinn, sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Úthafsaldan gnauðaði um það í næstum 4 áratugi. Þá voru síðustu leifar þess hirtar og seldar sem brotajárn. En við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt skipsklukkunni úr Anlaby yfir legstað Grindvíkinga.
Klukkan í klukknaportinu í StaðarkirkjugarðiSænski Nislon átti ekki afturkvæmt til Íslands eins og hann hafði þó ætlað sér. Brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag. En hann átti samt eftir að gera vart við sig á næsta eftirminnilegan hátt. Þennan vetur var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Þegar kom fram á útmánuði fór hana að dreyma Carl Nilson, sem lét ótvírætt í ljós, að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast. Skipstjórinn á Anlaby var að vitja nafns. – Síðasta dag júlímánaðar ól vinnukonan son. Fimm dögum síðar var hann vatni ausinn og látinn heita Carl Nilson. ” Segir annars staðar að sá hafi orðið gæfumaður.
Þegar Helgi Gamalíelsson frá Stað var spurður um Anlaby-slysið, sem reyndar varð fyrir hans daga, varð hann sposkur á svipinn. Taldi hann ekki rétt að skrá sögu þess í Staðarhverfi því sumt því tengdu þyldi kannski ekki alveg dagsins ljós – fyrr en eftir ca. 100 ár eða svo. Á Húsatóftum var t.a.m. venjan að ganga rekann daglega. Vegna áveðurs var það ekki gert þennan dag. Ef svo hefði verið, hefði manninum, sem komst lifandi í land, hugsanlega verið bjargað. Það nagaði hugsun íbúanna löngu á eftir.
Lík skipstjórans fannst aldrei. Samt skilaði Ægir öllum öðrum áhafnameðlimunum fljótlega á land. Nú eru liðin ein öld og 6 ár. Er hugsanlegt að hann hafi komist lifandi í land, dulist meðal Staðhverfinga og eignast afkomanda? Stígvél fannst t.d. það langt ofan við básana að ekki hefur getað rekið þangað af sjálfdáðum. Í hverfinu er til sögn um ónafngreindan bæ, alþiljaðan. Staðarhverfi hefur löngum verið dulmagnaður staður  – mannfólks mikilla sæva.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Húsatóftir.
-Gísli Brynjólfsson, “Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók”, 1974, bls. 123-125.
-Helgi Gamalíelsson.

Stykkið - í nærmynd