Kútter Fríða

Laugardaginn 11. mars 1911 voru sjö opnir róðrabátar á sjó frá Grindavík. Alls voru 58 manns um borð, blómi manna í fámennu byggðarlagi. Flestir bátanna voru áttæringar en nokkrir með 10-12 í áhöfn. Veðrið í grindavík var gott þegar bátarnir fóru í róður en veðurútlit ótryggt. Því réru þeir í styttra lagi þennan dag.

Kútter Fríða RE 13

Kútter Fríða RE 13.

Á stuttum tíma gerði hið versta veður, hávaðarok og slydduhríð. Strax þótti sýnt að bátarnir myndu ekki ná landi. Líklega hefur mörgum Grindvíkingum verið órótt þennan dag enda náði aðeins einn bátur landi á meðan aðrir þurftu frá að hverfa. veðrið var orðið það slæmt að ólíklegt væri að bátarnir héldust ofansjávar. Eina von þeirra var að þeir kæmust um borð í skútu sem sást á ferð úti fyrir um það leyti sem veðrið skall á.

Skútan nefndist Kútter Fríða og var að koma af miðunum með fullfermi og var á leið til Reykjavíkur. Úti fyrir Krýsuvíkurbergi veittu skipverjar litlum báti athygli þar skammt unadn og hafi sá uppi neyðarflagg. Þegar skipstjórinn, Ólafur Ólafsson, lét beina skútuni í átt til bátsins komu fljótlega fleiri bátar í ljós. Öðru hverju hurfu bátarnir sjónum skútumanna er þeir fóru niður í bárudalina, en þess á milli mótaði fyrir þeim í slydduéljum, að því er virtist á mörkum hafs og himins.

Kútter

Kútter svipaður Fríðu.

Skipverjarnir á Fríðu röðuðu sér meðfram borðstokknum, en leggja átti skútunni að bátunum og freista þess að kippa mönnunum um borð þegar bátarnir voru á öldutöppunum og borðstokkar lágu saman. Ekki þurfti að spyrja að leikslokum þegar kippa átti mönnunum um borð. Með þessum hætti bjargaði áhöfnin á Kútter Fríðu öllum Grindvíkinganna utan eins er klemmdist á milli báts og skútunnar.
Um kvöldið sigldi Kútter Fríða inn á Járngerðarstaðarvík í Grindavík, en þá var mesti ofsinn úr veðrinu. Þar lá Fríða um nóttina en um morguninn eftir tókst að ferða skipsbrotsmennina í land og voru þá miklir fagnaðarfundir í Grindavík.
FERLIR fékk eftirfarandi ábendingu frá Bergrós Fríðu Jónasdóttir: “Svo skemmtilega vill til að Ólafur Ólafsson er langafi minn í móðurætt, og er ég nefnd í höfuðið á kútter Fríðu!”

Kútter Fríða

Líkanið af Kútter Fríðu.

Hvað er kútter?
Kútter (e. cutter) er lítið þiljuð seglskip með eitt eða tvö möstur þar sem stórseglið er, stundum gaffaltoðð, tvö framsegl og bugspjót að framan. Kútterar eru upprunir á Englandi en voru vinsælir á Íslandi frá lokum 19. aldar fram á 20. öld. Þar sem kútterar voru í notkun langt fram á vélbátaöld fengu sumir þeirra vel og stýrishús síðar á lífsleiðinni.

Kútter Fríða

Kutter Frida

Kútter Fríða ásamt Elvari Antonssyni.

Kútter Fríða RE 13 var smíðuð hjá William McCann sb Shipyard on Carrison Side í Hull árið 1884 fyrir Richard B Simpson & George Bowman í Hull. Skipið kom til Íslands árið 1897 þegar Geir Zoega kaupmaður í Reykjavík keypti skipið ásamt fjórum öðrum kútterum. Skipið sinnti ýmsum verkefnum fyrir eigendur sína á Íslandi, í Færeyjum og á Englandi til ársins 2000. Árið 1957 var sett díselvél í skipið.
Skipið var gert upp í upprunalegri mynd árið 1980 en hélt þó vélinni. Í dag er skipið í kví í Lowestoft í Englandi þar sem það bíður þess að vera gert upp.

Líkanið

Kútter Fríða

Kútter Fríða – líkan.

Líkanið, sem sjá má á meðfylgjandi myndum og er nú til sýnis í Saltfikssetrinu (Kvikunni) í Grindavík, var smíðað af Elvari Antonssyni á árunum 2019-2020 fyrir Minja- og sögufélag Grindavíkur. Líkanið er í hlutföllunum 1:25. Það er um þriggja metra langt, 2.10 metrar á hæð og um 60 sentimetrar á breidd. Þá vegur það um 60 kíló.

Styrktaraðilar
Eftirfarandi aðila styrktu smíði líkansins; Grindavíkurbær, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, Vísir, Besta, Einhamar Seafood og Sigmar Júlíus Eðvarðsson.

Kútter Friða - líkan

Ólafur R. Sigurðsson við líkanið af Kútter Fríðu.