Sundhnúkur

Gjár, sigdældir og misgengi eru fjölmörg í og við Grindavík. Þessi jarðfræðifyrirbrigði sjást nánast einungis í eldri hraunlögum, en nánast öll ofanverð Grindavíkur er hulin nýlegum hraunum og því erfitt, ef ekki ómögulegt, að greina sprungur undir þeim í eldri jarðlögum.

Vatnsheiði

Vatnsheiði (dyngja).

Dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði og Festarfjall, skópu undirstöðu Grindavíkurhverfanna fyrir meira en 11 þúsund árum. Þórgötlustaðanesið er t.d. sköpun Vatnsheiðarinnar. Í lágfjöru má t.d. sjá móta fyrir hinum forna gíg Festarfjalls/Lyngfells í sjónum framan við fellin. Talið er að hann sé jafnvel frá því á fyrra ísaldarskeiði (KS). Fyrir ca. 5-3 þúsund árum, mótuðu stök eldvörp umhverfið, en síðustu tvö þúsund árin hafa gígaraðirnar smurt nýju “deigi” sínu yfir gömlu “kökuna” og þar með hulið stóran hluta af framangreindum jarðfræðifyrirbrigðum sjónum nútímans.
Hér á eftir verður lýst þeim nafngreindum gjám og sprungum í og við Grindavík, sem getið er um í örnefnalýsingum, frá vestri til austurs.

Staður:

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá við Grindavík.

Sandgjá/Draugagjá: “Sandgjá, svört og dimm, liggur þvert yfir Hvirflana. Hún er kölluð Draugagjá. Nú er hún orðin nær full af sandi”.

Grænabergsgjá: “Austan við Grænaberg er Grænabergsgjá. Liggur hún í suðvestur til sjávar. Sést vel ofan í hana beggja megin við bílveginn, þar sem hann liggur yfir gjána á hafti”.

Lambagjá: “Austan við Reykjanesklif er hraunlægð, sem nær austur að Moldarlág, allmiklum, grýttum moldarflákum með smávegis gróðri. Upp af hraunlægðinni eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni”.

Húsatóftir:

Húsatóftir

Baðstofa.

Baðstofa: “Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar. Töluverður gróður er á hamrasyllum í gjánni. í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, aö Húsatóftabændur fengju að taka söl í landi Staðar”.

Hjálmagjá: “Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn. Vestri hamraveggurinn rís allmiklu hærra en sá eystri, og reyndar er enginn eystri veggur neðst. Gjá þessi heitir Hjálmagjá. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljósahjálmum, sem báru mjög af lýsiskollunum í mannheimi”.

Grindavík

Grindavík – eldgos í umdæmi Grindavíkur; blátt eru dyngjur (eldri en 5000 ára), grænt eru eldborgir (eldri en 3000 ára) og rautt eru gígaraðir (frá 3000 árum til nútíma).

Túngjá/Tóftagjá: “Framhald Hjálmagjár með túninu heitir Túngjá og síðan heitir hún Tóftagjá og er hún eina 2-3 km á lengd”.

Haugsvörðugjá

Haugsvörðugjá.

Haugsvörðugjá: “Á Hvirflum eru tvær vörður, Hvirflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna”.

Skothólsgjá: “Vestast í Tóftakrókum er Skothóll í mörkum milli Húsatófta og Staðar, fast upp undir apalhrauninu (Eldborgahrauni). Skothólsgjá liggur eftir endi-löngum hólnum frá norðaustri til suðvesturs. Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu”.

Grýtugjá: “Um 1/2 km norður af Skothól er Grýtugjá. Allmikið graslendi er á þessu svæði. Um 1500 m norður af Grýtugjá er Sauðabæli, hár hóll”.

Klifgjá

Klifgjá.

Hrafnagjá: “Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins, er Hrafnagjá. Hún liggur frá norðaustri til suðvesturs eins og allar gjár á þessu svæði og reyndar allar gjár á Reykjanesi. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla”.

Klifgjá: “Klifgjá er norðvestast í apalhrauninu, suðvestan við Þórðarfell, sbr. kortið. Gamli vegurinn frá Grindavík til Keflavíkur liggur austan við túnið á Húsatóftum, og liggur hann um Klifgjá vestast í jaðri hennar. Þar er svokallað Klif, snarbratt niður í gjána. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta”.

Járngerðarstaðir:

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Bjarnagjá: “Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó, um Bjarnagjá, þaðan í Hvíldarklett og úr honum sjónhending í Stapafellsþúfu um Þórðarfell. Bjarnagjá er norðaustur frá honum. Hún er stutt en í tveim hlutum og er efri partur hennar 18 faðma djúpur. Í Járngerðarstaðalandi eru allmargar gjár eins og Bjarnagjá, hyldjúpar og með söltu vatni”.

Hrafnagjá: “Markhól sem fyrr var getið. Fyrir ofan og austan hann er Stórhóll, sem áður er getið. Þar austur með er Hrafnagjá upp af Sandvikinu, en hún liggur til austurs. Stekkjarhólar eru rétt niður við kampinn”.

Silfurgjá: “Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í, sem á yfirborði er að mestu ósalt, og flæðir og fjarar í þeim eins og sjónum.

Sifra

Silfurgjá.

Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í þessari gjá segir sagan að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp, en þær hafa strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnst allt Járngerðarstaðarþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin sem á að hafa verið gjörð fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka”.
“Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu”.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Stamphólsgjá: “Stamphólsgjá er ofan við byggð í Járngerðarstaðahverfi. Hún er einnig í Hópslandi að hluta”.

Gjáhúsagjá: “Svo er Gjáhúsagjá í túninu. Í öllum upptöldum gjám og svo í dalnum og Vatnsstæði var fram um aldamót töluvert af ál, en heldur var hann smár, stærstur í Silfru. Þó var hún lengst frá sjó. Þó var eg ekki viss um Stamphólsgjá, að áll væri þar. Um álaveiðar okkar strákanna á eg uppskrifað. Allar gjár stefna eins, frá norðaustri til suðvesturs. Í raun og veru má rekja þessa gjá (Stamphólsgjá) alla leið ofan úr Hópsheiði og gegn um allt: Krosshúsagjá, Gjáhúsagjá, Vallarhúsagjá og Flúðagjá, þetta er allt í sömu stefnu, þó höft séu heil á milli og endar út í sjó vestast á Flúðum”.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir og nágrenni.

Nautagjá: “Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd. Ekki er hún breið, en þó stökkva hvorki menn né skepnur yfir hana. Öll talin er hún ekki lengri en 40-50 faðmar, og í hanni [svo] er hylur á einum stað nærri norðurenda. Hylji köllum við þar, sem ekki sést í botn, en þeir eru mjög misdjúpir. Í hana kemur Ræsirinn, það er rás úr Vatnsstæðinu. Stundum kom fyrir, að skepnur syntu þar inn á túnið, þegar þær sáu þar grængresið fyrir innan, en úthagar voru litlir”.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gjár; uppdráttur ÓSÁ.

Magnúsargjá: “Magnúsargjá er í raun og veru sama sprungan. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna. (Allar gjár stefna frá norðaustri til suðvesturs.) Á þeirri leið var þó opin “gjóta” með vatni í; þó var hún nafnlaus. Magnúsargjá var öll fremur grunn. Þar var enginn hylur, og á einum stað mátti stökkva yfir hana. Þar var hún svo sem einn og hálfur metri. Eg tel, að þessar gjár báðar hafi verið svo sem eitt hundrað og þrjátíu faðmar enda á milli, að meðtöldum þeim föðmum, sem á milli þeirra voru”.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá: “Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni”.

Hóp:
Vatnsgjá: “Austar á Kambinum var varða, sem nú er horfin, og hét hún Sigga. Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru”.

Gjáhólsgjá: “Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði”.

Þórkötlustaðir:

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáin: “Gjáin ofanverð er framhald Vatnsgjárinnar. Efst við hana er Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá”.

Hraun:
Ekki er getið um gjár í Hraunslandi, en vissulega má sjá misgengi í Borgarhrauni er liggur til norðausturs frá Hrafnshlíð að Einbúa.

Ísólfsskáli:
Hjálmarsbjalli: “Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli og er eins og smátota fram í sjóinn. Bjallinn er misgengi.
Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur”.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stað, Húsatóftir, Járngerðarstaði, Hóp, Þórkötlustaði, Hraun og Ísólfsskála.
-Map.is

Grindavík

Grindavík – sýnilegar gjár, sprungur og misgengi.