Færslur

Gjár

Gjár eru milli Klifsholts og Fremstahöfða, skammt ofan við Hafnarfjörð – norðan Kaldársels. Um er að ræða fjölbreytilegt hraunlandslag og sérstaklega afmarkað sem náttúruverndarsvæði. Hraunið virðist afmarkað og stakt, jafnvel einstakt – og það er það líka, ef betur er að gáð.

Inngangurinn í Gjáaskjólið

Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg, 1-2 km fjær. Búrfell er eldborg, u.þ.b. 7,5 km frá Hafnarfirði. Þaðan rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára (m.v. sýni, sem tekið var við Bala á Álftanesi).
Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Fellið sjálft er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfellið gaus aðeins einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst fyrrnefnt Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Hraunið er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.
Hrafnslaupur í GjánumTveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur, líkt og hraun þess, undir ýmsum nöfnum. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Í öðru eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun úr Gvendarselsgígum (nyrstu gígunum á 25 km langri sprungurein er fæddi m.a. Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun)) niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. 

Hleðsla fyrir vesturenda Gjáaskjóls

Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá undir hraunyfirborðið. Þegar grunnvatnsyfirborðið er hærra í Kaldárbotnum rennur Kaldá hins vegar ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan. Það hraun er einmitt hluti af Búrfellshrauni, líkt og Gjárnar.
Þegar gengið er um Gjár má sjá allnokkra hella og skúta. Hér verða hins vegar einungis tveir þeirra gerðir að umtalsefni, báðir í sömu hrauntröðinni. Í rauninni má sjá allmiklar hrauntraðir á tveimur stöðum Gjánum, við Nátthaga og á Gjáabrúnum. Utan við Nátthaga eru t.a.m. Gróin hrauntröð í GjánumHreiðrið, Kaðalhellir og Gjáhús, en í Gjáabrúnum eru Gjáaskjólið og Gjáahellir. Sá fyrrnefndi er um 20 m löng hraunrás í myndarlegri hrauntröð. Fyrir austurendann hefur verið hlaðinn veggur. Einnig í vesturendann, sem er allnokkru þrengri. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að nýta rýmið þar á millum. Einhverju sinni hefur fallið úr þunnu loftinu og gat myndast. Hellirinn er rúmgóður og greiðfær. Að vestanverðu tekur við opin hrauntröð, nú gróin og birkitrjáum þakin. Hún greinist skammt vestar og hefur meginstraumurinn runnið til norðurs undan hallanum. Áður hefur þó mikið gengið á um skamman tíma. Svo er að sjá að þar fyrir ofan hafi fyrst orðið nokkur kvikusöfnun um skeið. Bráðið hraunið hefur staðnæmst um stund, blásið frá sér gasefnum og myndað uppstreymi. Loks hefur bráðin kvikan náð að bræða grannbergið og finna sér leið áfram, bæði um hrauntröðina og einnig um rás, sem nú hefur lokast. Neðar birtist það sem Gráhelluhraun og síðan sem Stekkjarhraun neðan Setbergs. Í þeim hraunum er ekki að finna hraunrásir, enda á tiltölulega sléttu landi.
Gasuppstreymisopið í Gjánum má enn berja augum. Dýptin niður á botn geymisins er um 8 metrar. Hægt er að komast inn í hann (fyrir grannt fólk) um þröng op í hrauntröðinni. Í veggjum uppstreymisopsins má sjá tvo hrafnslaupa.
Svæðið í kringum hrauntröðina lætur ekki mikið yfir sér, en hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sunnar er t.a.m. myndarleg hrauntröð. Við enda hennar er enn einn skútinn, enn ókannaður.

Fremstihöfði
Haldið var í Hreiðrið norðvestan Kaldársels á sumardaginn fyrsta með viðkomu í Gjánum. Í leiðinni var litið á hálfhlaðna tóft austan undir Fremstahöfða.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Opið á Hreiðrinu er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Þórarinn Björnsson hafði sýnt FERLIR hellinn fyrir nokkrum misserum síðan, en hann er örfáum kunnur. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Erfitt er að fara um Hreiðrið vegna þess hversu hrjúfur hellirinn er. Það er því betra að hafa með sér hnéhlífar og hanska þegar farið er þar niður, þ.e.a.s. ef einhver skyldi verða svo heppinn að finna opið.

Kaldársel

Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða.

Ágætt ústýni er yfir Gjárnar og Nátthagann úr norðvestri með Valahnúka í austri. Þarna hefur runnið mikil hrauntröð, en þegar fjaraði undan storknu yfirborðinu hefur yfirborðið fallið niður, en eftir standa standar hér og þar.
Tóftin undir Fremstahöfða er sennilega frá tímum Kristmundar í Kaldárseli eða Þorsteins, sem bjó þar nokkru fyrr, um aldarmótin 1900. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að hlaða hús úr sléttu hellugrjóti, en af einhveri ástæðu hefu rverið hætt við það í miðjum kliðum. Frásögn er til um útlit húsanna í Kaldárseli og sú mynd er ekki fjarri því lagi sem þessi tóft er. Hún gæti því verið síðustu leifarnar af hinum gömlu búsetuminjum í Kaldárseli, utan borgarinnar á Borgarstandi, stekksins undir honum, fjárskjólanna norðan hans og nátthagans í Gjánum.
Skammt frá tóftinni er gamla gatan að Kaldárseli, en það gæti hafa einhverju um staðarvalið. Þá er ekki langt frá henni í fjárskjólin. Skammt norðan við tóftina hafa hellur verið hreinsaðar á kafla og svo virðist sem þar hafi átt að búa til haga undir gerði.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Kaðalhellir

Gengið var með Þórarni Björnsyni, hellamanni, í Kaðalhelli norðvestan Kaldársels, og í Hreiðrið þar skammt frá. Þórarinn lék sér í Kaðalhelli ásamt ungum mönnum í Kaldárseli, en síðar fann hann Hreiðrið, sem mun vera einstakt í sinni röð. Hann var eini maðurinn, sem fram að þessu hafði litið innvolsið augum.

Kaðalhellir

Kaðalhellir.

Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjarðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals. Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum.
Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, sem með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur. Umhverfið er mjög myndrænt.
Nokkru vestar er Hreiðrið. Opið er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummmerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Frábært veður – reynar kemur veður ekkert við sögu inni í hellum – en hvað um það. Fljótlega verður farið á ný í Hreiðrið og það myndað, ásamt Kaðalhelli. Þá munu birtast hér myndir úr fyrirbærunum.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Kaldársel
Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Ás

Stekkur undir Hádegisskarði.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Seldalur

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.
Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.