Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.