Færslur

Flórgoði

Gengið var um Húshöfða og Höfðaskóg þar sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hefur aðstöðu á austanverðum Beitarhúsahálsi. Félagið hefur stundað þarna trjárækt frá 1956, fyrst á 32 ha landi við Húshöfða, en síðan hefur félagið aukið ræktunarsvæði sitt til muna í Höfðalandi.

Stekkur

Húshöfði – stekkur.

Góðir og greiðfærir stígar liggja um skóginn í hlíðinni og ef fólk vissi ekki betur mætti vel halda að verið væri að ganga um skóg einhvers staðar í útlandinu. Skógarþrestir höfðu hópað sig saman í kvöldkyrrðinni og fóru um loftin í stórum flokkum.
Hvaleyrarvatn er neðan við hlíðina. Það er í fallegri kvos sem er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Að vestan er Vatnshlíð, austanvert stendur Húshöfði, Miðhöfði og Fremstihöfði og Selhöfði að sunnan. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Ásbændur og Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást frá hlíðinni tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðurnar munu hafa verið.

Selhöfði

Selhöfði – fjárborg.

Húshöfði dregur nafn sitt af gömlu beitarhúsi eða fyrrum selstöðu frá Jófríðarstöðum og eru tóftir þess enn sýnilegar í höfðanum. Við Vatnshlíðina vestan við Hvaleyrarvatn er skógræktarsvæði Hákonar Bjarnasonar skógræktarstjóra ríkisins sem átti þar sumarhús og lagði gjörva hönd á plóginn við ræktunarstörfin.
Á síðustu árum hefur Skógræktarfélagið lagt göngustíga um Höfðaskóg og komið upp trjásýnireit sem áhugavert er að skoða. Ganga kringum Hvaleyrarvatn er auðveld því göngustígur hefur einnig verið lagður umhverfis það. Að þessu sinni var fyrst gengið að hlöðnum stekk eða gerði norðvestan við skála Skógræktarfélagsins. Hann tengist sennilega notkun beitarhústófta austar á hálsinum. Þar er nokkuð stór beitarhústóft og önnur minni skammt norðvestar. Hún virðist nokkuð eldri og er mun jarðlægari. Ekki er ólíklegt að beitarhúsið, sem var brúkað frá Jófríðarstöðum, hafi verið byggt þar upp úr eldri selstöðu eftir að hún lagðist af.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Skammt austar í hlíðinni er minningarlundur um Kristmundsbörn er munu hafa tengst upphafi skógrækar í Hafnarfirði. Skammt frá er Ólafslundur, til minningar um Ólaf Daníelsson, skógræktarmann.
Gengið var niður að vatninu og suður með því að austanverðu. Skammt sunnan við skála St. Georgs gildisskáta, sem stendur í miðri hlíð Kjóadalsháls, var komið að hálfgerðu nesi er skagar út í vatnið undir Selhöfða. Þar er komið að tóftarbrotum Ássels. Lúpínan er farin að teygja sig í selstöðuna. Einstaka blágresi reynir lyfta kolli sínum upp fyrir hanan til að ná í a.m.k. einhverja sólargeisla.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Skammt utar með vatninu eru tóftir Hvaleyrarsels. Það mótar enn fyrir seltóftunum og auðvelt að glöggva sig á húsaskipan. Trjágróður er farin að þrengja að rústunum. Saga tengist selinu. Hún segir frá nykri, sem átti að vera í vatninu og láti seljamatsstúlku í selinu (sjá HÉR).

Seldalur

Tóft í Seldal.

Haldið var áfram suður með vatninu þangað til komið var upp á veginn áleiðis í Seldal. Sunnan hans er hlaðinn stekkur og fyrirhleðsla undir hraunbakka. Selhraunshóll, stakur klofinn hraunhóll, sést þaðan í vestri. Hóllinn er áberandi kennileiti og vegvísir þegar Stórhöfðastígur var fjölfarin alfaraleið milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur á fyrri tíð. Í honum er tófugreni að sunnanverðu.
Fremur létt er að ganga upp í hlíðar Selhöfða eftir gamla akveginum og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Suðvestan hans er svonefndur Seldalshálskofi, tvískipt tóft á hálsinum. Ekki eru neinar kunnar heimildir um hvaða hlutverki kofinn gegndi, en líklega hefur hann verið smalaskjól eða hluti selstöðunnar handan höfðans, s.s. stekkur. Hálsinn er þarna mjög vel gróinn, en mikil jarðvegseyðing allt um kring. Auðvelt er að ímynda sér að þarna hafi verið gróðursælt áður fyrr og því ekki ólíklegt að þar hafi verið útselstaða um tíma.

Miðhöfði

Haldið var á Selhöfða. Uppi á honum eru a.m.k. tvö mannvirki. Annað, það syðra og stærra hefur að öllum líkindum verið tvískiptur stekkur, rétt eða fjárborg, en hið nyrðra hefur líklega verið kví eða önnur afmörkun. Grjóthleðslurnar gefa útlitið glögglega til kynna, en sennilega hafa veggir verið tyrfðir, en þeir síðan horfið ásamt öðrum gróðri á höfðanum og grjótið þá fallið bæði út og inn í mannvirkið. Af Selhöfða er mjög gott útsýni yfir Seldal og Stórhöfða í suðaustri og Hvaleyrarvatn og Bleiksteinsháls í norðvestri. Einnig yfir að Undirhlíðum, Lönguhlíðum, Helgafelli, Búrfelli og Húsfelli í austri.

Stórhöfði

Stórhöfði.

Gengið var norður Selhöfða, um Kjóadalaháls og síðan yfir á Húshöfða. Þaðan var haldið til suðausturs að Miðhöfða. Bæði efst á Húshöfða og á honum suðvestanverðum eru vörður. Fuglaflokkurinn hélt för sinni áfram, fram og til baka yfir skóginum. Nánar um Höfðavörðurnar HÉR.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 59 mín.
(Sjá meira um skógræktina HÉR.)

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hvaleyrarvatn

Þegar skoðað er svæðið meðfram Hvaleyrarvatni má sjá þar nokkra nafngreinda höfða að austanverðu; Húshöfða, Selhöfða, Miðhöfða (Þormóðshöfða) og Efstahöfða (Fremstahöfða), auk Stórhöfða að suðaustanverðu. Auk þess eru þarna tveir hálsar; Kjóadalaháls og annar ónafngreindur í vestur frá Fremstahöfða (Efstahöfða).

Efsta

Alla þessa höfða og hálsa prýða vörður, hér nefndar Höfðavörður, reyndar tvær á Húshöfða er virðast greinast í Húshöfðavörðu (vestar) og Kjóadalsvörðu (austar). Sumar eru landamerkjavörður. Kjóadalsháls er einnig nefndur Langholt. Þetta þarfnaðist nánari skýringa. Spurning vaknaði og um hvort tilgangur varðanna hefði einungis verið sem kennileiti efst á annars áberandi stöðum eða ávísun á Fjárhús í Seldaleitthvert annað. Spurningin fékk áhugaverð svör.
Skoðum fyrst skráðar heimildir um svæðið. Í örnefnalýsingu AG fyrir Ás segir m.a.: “Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri. (Í örnefnalýsingu Hvaleyrar er getið um Bleikstein, landamerki á norðanverðum Bleiksteinshálsi.)
Fjárborg á SelhöfðaSunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp
af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.” Hér er hvorki varðan á “Húshöfða” austanverðum né aðrar slíkar nefndar.

Fremsthöfðavarða

Í örnefnalýsingu GS fyrir Ás segir m.a.: “Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremstahöfðavörðu á Fremstahöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa.

Efstahöfðavarðan

Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðann er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni að austan og vestur á brún, þar sem landið hækkar, heitir Selhraun.” Hér er “Húshöfðavarðan eystri” nefnd “Kjóadalsvarða”. Ef vel er skoðað er það bara eðlilegt því Húshöfðanum sleppir þar sem hann er hæstur að handan og önnur óskilgreind hæð, Kjóadalsháls, vestan Kjóadals, tekur við. Það er því bæði eðlilegt og sjálfsagt að hæðin sú fengi sérstakt nafn. Svo virðist sem Langholtið sé efsti hluti Kjóadalshálsar. Þá er að sjá að Fremstihöfði og Efstihöfði séu einn og hinn sami.

Varðan á Selhálsi

Gengið var að vörðunum, fyrst á Fremstahöfða. Varðan sú er enn heilleg. Austan undir höfðanum eru mannvistarleifar; hálfhlaðið fjárhús. Líklega er hér um að ræða ætlaðar hleðslur frá Kaldárseli, enda eru bæði fjárskjól, gerði, rétt, fjárborg og selstaðan  ekki víðs fjarri.
Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Þó eru víða smávötn (Djúpavatn, Grænavatn, Seltjörn, Snorrastaðatjarnir, Hvaleyrarvatn og Urriðavatn) og tjarnir (Augun í Krýsuvík, Hraunsfells-Vatnsfells vatnstæðið, Fagradals-Vatnsfells vatnstæðið), bæði í lægðum og gígum. Vatnsstæðin og sum vötnin hafa þótt aðlaðandi selstæði, t.a.m. Hvaleyrarvatn, Seltjörn og Snorrastaðatjarnir sem og Kaldá við Kaldársel.

Skammt sunnan við Miðhöfðavörðuna eru hleðslur lítils skjóls, sennilega fyrir smala eða til yfirsetu. Skjólið hverfur í lúpínu.
Í örnefnalýsingu Hvaleyrar segir m.a.: “Miðhöfði eða Þormóðshöfði Skjólið öðru nafni. Hann er allmiklu lægri en Selhöfðinn. Þar suðaustar er svo þriðji höfðinn, sem heitir Efstihöfði.”
Varðan á Langholti við Kjóadalaháls (Kjóadalshálsvarða, ef tekið er mið af lýsingu GS), virðist hafa verið byggð upp úr fyrrum fjárborg eða skjóli. Sunnan vörðunnar má enn sjá leifar af hringlaga hleðslu, ef vel er að gáð (áður en lúpínan nær að þekja umhverfið).
Varðan á Kjóadalahálsi vísar á hlaðið skjól skammt sunnar. Skjólið hefur verið endurbyggt að hluta. Óvíst er hvaða öðrum tilgangi hleðslur þessar hafa þjónað.

Hleðslur af skjóli

Á Selhöfða er varðan augljós vísbending á fjárborg, gerði eða litla rétt (jafnvel stekk) efst á honum. Skammt frá má sjá leifar af öðrum mannvistum á höfðanum. Fjárborgin, ef um slíkt hefur verið að ræða, er orðin nánast jarðlæg. Hún virðist hafa verið hlaðin úr torfi og grjóti, en veðrun eytt torfinu svo grjótið féll smám saman bæði inn og út frá veggjunum. Niður  undir sunnanverðum höfðanum eru leifar af stekk, skjóli eða tvískiptu fjárhúsi.
Kort af HúshöfðasvæðinuVarðan á Stórhöfða virðist einungis hafa þjónað tvennum tilgangi; annars vegar hafi hún verið gerð einhverjum til minningar og/eða skemmtunar eða sem leiðarmerki á vörðuðum Stórhöfðastígnum; gamalli þjóðleið millum Áss og Krýsuvíkur.
Varðan efst á Húshöfða virðist vera ábending um gamla beitarhúsatóft frá Jófríðarstöðum suðvestan í höfðanum. Þar í nágrenninu má og sjá fleiri mannvistarleifar tengdum fjárbúskap.
Merkt gönguleið liggur nú um svæðið sem tiltölulega auðvelt er að fylgja milli höfðanna. Minjarnar eru flestar skammt frá gönguleiðinni. Þá er hið ágætasta útsýni af höfðunum yfir umhverfið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ás.

Miðhöfðavarða

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Hvaleyrarvatn

Í Náttúrufræðingnum 1998 segir m.a. að “Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Hvaleyrarvatni og Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar vötnin er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn. Selhöfði og Stórhöfði fjær, en Húshöfði og Vatnshlíð nær.

Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.”
Lítill lækur rennur frá Ásfjalli í Ástjörn, en í Hvaleyrarvatn hefur einungis safnast yfirborðsvatn eftir rigningar og snjóa. Hið síðarnefnda er því háðari veðursveiflum frá einum tíma til annars.

Selhöfði

Selhöfði – stekkur.

Ómar Smári Ármannsson skrifaði grein í Fjarðarpóstinn 2003 undir fyrirsögninni: “Á Gangi við Hvaleyrarvatn”. Í greininni er m.a. lýst gönguferð við vatnið, tóftum, seljum og borgum:
“Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun (Hellnahraun) lokar fyrir afrennsli vatnsins að vestanverðu.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem torfhlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað. Hús Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið. Í Húshöfða má t.d. sjá tóft af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tóft í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum, en var síðast notað árið 1922 frá Ási. Rétt vestar eru jarðlægar leifar, líklega af fyrrum selstöðu. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.

Ássel

Ássel.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla áríð 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – stekkur.

Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, uppá klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamals stekkjar, auk annars minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fólk að koma auga á minjarnar, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel. Í norðanverðum Seldal er stekkur og auk þess óljósar seltóftir á grónum hvammi.

Stórhöfði

Nátthagi við Stórhöfða.

Vestan við Stórhöfða er grjóthlaðinn nátthagi með fjárskjólum. Líklegt má telja að hafi tengst selstöðunni í Seldal fyrrum. Vestan við Hvaleyrarvatn eru einnig minjar, bæði hlaðinn stekkur og óljósar jarðlægar tóftir.
Vörður eru á höfðunum fimm umleikis. Flestar eru þetta landamerkjavörður frá bæjunum er landið tilheyrði fyrrum.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum. Þessi ganga tekur u.þ.b. klst.”

Sjá einnig MYNDIR frá Hvaleyrarvatni og nágrenni..

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, bls. 276.
-Fjarðarpósturinn, 17. tbl. 30.04.2003, Á Gangi við Hvaleyrarvatn – Ómar Smári Ármannsson, bls. 11.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar.

Hvaleyrarsel

Í “Svæðisskráningu fornleifa í Hafnarfirði 1998” er m.a. sagt frá “Hvaleyrarseli”:

Hvaleyrarsel

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1998.

1703: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott.” “Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru mikla rústir eftir Hvaleyrarsel.” “Héðan liggur svo línan suður á Seljahraun. Þar er Seljahraunsskjól skammt vestan Hvaleyrarvatns, en inn með því er lágur hóll, þar sem Hvaleyrarsel stóð, og má þar enn sjá móta fyrir byggingum. Línan liggur um Selhöfða, rétt hjá Borginni, fjárborg, sem er hæst á höfðanum.” “Rústirnar eru vestan í klöppum í jarðsygi í austurjaðri Selhraunsins, hraunið er mjög gróið, aðallega mosa og lyngi.”

Hvaleyrarsel?

Meint Hvaleyrarsel.

Rústunum má skifta í tvö hólf. Sunnanmegin er hlaðinn veggur úr grjóti og e.t.v. torfi, en veggurinn er mjög gróinn. Veggur þessi liggur samsíða hraunhellu sem hefur risið nokkuð upp fyrir jarðsigið og slútir undir sig. Veggurinn nær að löngum hellisskúta í suðri.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Skútinn er fullur af grjóti nú en hugsanlega hefur hann verið nýttur sem hluti af mannvirkinu. Veggur þessi er 11.2 m langur og 1.5-2m breiður. Rýmis milli hans og hraunhellu er 2-4 m á breidd, allt eftir hvort mælt er frá efri brún hellunnar eða þeirri neðri. Rými undir hellunni er mjög lágt eða um 0.3-0.5m á hæð og hefur því væntanlega ekki geta nýst mikið nema til geynslu. Vel getur verið að reft hafi verið yfir en engin merki er að finna um það. Inngangur er á vesturveggnum. Syðst, milli þess mannvirkis og veggja tóftarinnar, sem er þarna sunnan við. Hæsta hæð veggjar er 1.1-1.2 m. Syðsta tóftin er einnig hlaðin utan í klöpp og eru 3 veggir hennar hlaðnir úr grjóti sem nú er mjög gróið. Inngangur hefur líklega verið á norðurvegg við vesturhornið og hefur því verið innangengt úr nyrðri tóftinni. Innanmál tóftarinnar eru; um 3.5 m frá A-V og 2.4m frá N-S. Veggjaþykktir eru 1.3-1.5m þar sem ekki er hrun. Vestur og norðurveggur er nokkuð hrundir en suðurveggur stendur þokkalega. Suðurveggurinn er 1.3m á hæð þar sem hann er hæstur. Vestur frá SV-horni syðri tóftarinnar liggur einföld steinröð þvert yfir jarðsigið. Þetta munu vera leifar garðs sem hjálpað hefur við aðrekstur fjársins.”

Hvaleyrarsel

Fjárborg á Selhöfða.

Framangreind umfjöllun er miklum annmörkum háð. Ef vel er skoðað hefur þarna aldrei verið selstaða, einungis hluti selstöðu, þ.e. stekkur. Þessar minjar munu hafa tilheyrt eldri selstöðu Hvaleyrar vestan við Hvaleyrarvatn, skammt frá Seljahraunsskjóli (gróið jarðfall), en heimildir um selstöðuna þar fyrrum virðast ekki hafa varðveist. Þó má þar sjá minjar hennar enn í dag, ef vel er skoðað, s.s. vanhirtar vegghleðslur með skógræktanlegu ívafi og tilheyrandi eyðileggingu. Annars er umrædd “Svæðisskráning” lesendum einstaklega ruglingsleg; hlaupið er úr einu í annað án nokkurs samhengis. Meira um það síðar…

Hvaleyrarsel

Stekkjartóft í Seldal.

Áþreifanlegustu minjar Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn, áður en það fluttist upp í Kaldárssel, eru á tanga norðan undir Selhöfða. Þar má enn sjá móta fyrir baðstofu, búri, eldhúsi og stekk. Tilvist selsins er m.a. staðfest með frásögninni, sem hér má lesa HÉR, HÉR og HÉR.

Rétt 

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.

“Selhöfði eða Hvaleyrarselhöfði er sunnan við Hvaleyrarvatn, en það er allt í Áslandi. Sunnan undir höfðanum eru miklar rústir eftir Hvaleyrarsel. Vestan við Selhöfðan er svo alldjúpur dalur, sem heitir Seldalur, sem að vestan myndast af hæstu hæðinni á þessum slóðum, sem heitir Stórhöfði. Hraunið milli Hamraness og Stórhöfða og frá Hvaleyrarvatni austan og vestur á brún, þar sem landið lækkar, heitir Selhraun. Niðri í því er réttarhleðsla.”

Sjá meira um Hvaleyrarsel HÉR.

Heimildir:
-Svæðisskráning fornleifa í Hafnarfirði, fornleifastofnun Íslands 1998, bls. 99-100.
-JÁM III, 168; Ö-Hvaleyri A, 2; Ö-Hvaleyri B,5; Þjóðminjaskráning í Hafnarfirði 154.

Hvaleyrarsel

Réttin (nátthagi) undir Stórhöfða.