Færslur

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: “Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.” Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól“.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Ásfjall

Gengið var frá Haukasvæðinu áleiðis að Grísanesi. Sunnan við hraunkantinn er, að því er virðist, hlaðið gerði eða rétt. Þá átti að vera hlaðin rétt vestan í neshorninu, en hleðslurnar hafa greinilega verið notaðar í fjárhús eða beitarhús. Þær eru í landi Hvaleyrar.

Ásfjall

Stekkur undir Hádegisskarði.

Efst í holtinu ofan við húsin er hlaðið skotbyrgi, sem nokkuð hefur verið raskað, en þó má enn sjá móta fyrir lögun þess og hleðslur. Skjólgarður er út frá byrginu til norðurs og vesturs og að inngangi austan hennar. Nokkru austar, sunnan í Grísanesi, er annað upphrófað skotbyrgi. Á milli byrgjanna eru tvær fallnar vörður, líklega landamerkjavörður milli Áss og Hvaleyrar.
Vestan undir hæðardragi norðan við Grísanes eru tvær tóptir hvoru megin við göngustíg, sem lagður hefur verið umhverfis Ástjörn, líklega sauðakofar frá Ási.
Gengið var eftir stígnum til austurs norðan undir hæðinni. Efst í henni norðantil er hlaðið byrgi er gæti hafa verið skjól eða aðhald. Borgin og aðhaldið hefur að öllum líkindum verið notað af Bretanum á stríðsárunum, en hann hafði bækistöðvar víðs vegar um þetta svæði. Víða má sjá smáhleðslur, en þær eru flestar með öðru handbragði en Íslendinganna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Austar, norðan undir öxlinni, eða rétt sunnan við þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur liggja yfir öxlina, er Hádegisskarð. Þar er gömul borg, sem virðist hafa verið breytt í stekk. Hluti borgarhringsins sést þó enn þótt gróið hafi yfir hann að hluta. Tvær fallnar vörður eru á Grísanesi, en þó enn vel greinilegar.

Haldið var áfram upp á Ásfjallsöxlina og á Ásfjall, Efst á öxlinni á vinstri hönd er gömul borg, sem lítið er þó eftir af. Þegar komið er langleiðina upp að Ásfjallsvörðunni stóru er hlaðið stórt skotbyrgi undir klöppum er horfir til suðausturs. Hér gæti einnig hafa verið gamal fjárskjól að ræða, en Bretinn síðar notað það sem skjól. Hlaðið byrgi er líka norðvestan undir Ásfjallsvörðunni. Ásfjall er 125 metra hátt.

Grísanes

Grísanes – fjárhús.

Þar sem byrginu hefur verið hróflað upp má sjá hlaðinn gang liggja út frá vörðunni til norðurs og fram á brúnina. Enn eitt hlaðna steinbyrgið í hæðinni er skammt austan við vörðuna og horfir mót norðaustri. Tvö önnur eru þar skammt suðaustar í Ásfjallsöxlinni.
Í bakaleiðinni var gengið suður af fjallinu og komið niður í Dalinn. Hann er nokkuð gróinn þar sem hann liggur milli hlíðar og Hamraness. Austan í Dalnum eru grónir hraunbollar og í a.m.k. einum þeirra er gamall fjárhellir. Sjá má hlaðið opið inn undir skúta, en þakið hans er að mestu fallið niður.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Annars eru Hellnahraunin tvö ef vel er að gáð – hið yngra og hið eldra. Hið yngra eru um 1100 ára.
Ásbærinn stóð undir Ásfjalli um aldir, en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Skammt sunnan við bæinn, undir klapparholti, er stekkur.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ásfjall

Ásfjall og Grísanes – uppdráttur ÓSÁ.