Færslur

Hellishraunsskjól

Fornt fjárskjól, Hellishraunsskjól, er í gróinni lægð í Hellishrauni við Ásflatir milli Hamraness og Ásfjalls. Tvö önnur slík skjól, Grófarhellir og Grísanesskjól, eru í nágrenninu:
Í Örnefnalýsinu Ara Gísasonar um Ás segir m.a.:  „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“ Skýrslan fjallar einungis um Hvaleyri, en svæðið er að hluta til í Áslandi og þar er eina skráða fornleifin í skýrslunni; fjárhellirinn. Um hann segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um ÁS: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn”.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Út frá frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.  Þær liggja norðan við Bláberjahrygg.  En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.“ Landamerkja línan liggur s.s. í vörður á Grísaneshálsi og  Hamraneshálsi (Bleiksteinshálsi). Báðar þessar vörður verða að teljast fornleifar sem og leiðirnar verða að teljast til fornleifa skv. Þjóðminjalögum. Þarna lá um Skarðið  vegurinn frá Ási upp á Hrauntungu- og Stórhöfðastíg. Auk þess sem selstígarnir frá Ási og Hvaleyri lágu um Ásflatir og skáhallt yfir Hamraneshálsinn að Hvaleyrarvatni.
Við þetta má bæta að í örnefnalýsingum Hvaleyrar segir, sbr.  Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „….), “Vestur frá Ási og vestur frá Ástjörn ganga fram í hraunið tvær hæðarbungur óbrunnar. Sú sem er nær Ási heitir Grísanes, og þaðan beint í suður er annað nes, sem heitir Hamranes. Það þekkist á, að í því eru hamrar. Suðvestur af eða í Grísanesi er smáhellir, sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum, heitir Grófarhellir. Hamranesið er skógi vaxið, brekkur sunnan og vestan, háir hamrar að vestan en aflíðandi að ofan. Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyrir segir um svæðið: „Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól. Landamerkjalínan liggur um Grísanesháls, niður af honum og inn um Ásflatir. En undir brekkunni við hraunið, sem hér nefnist Hellisdalshraun og Hellisdalur, liggur Hrauntungustígur suður yfir að Hamranesi. Þar spretta fram tvær lindir, Hamraneslindir. Frá Hamranesi lá Hrauntungustígurinn vestur yfir hraunið út að Háabruna og vestur yfir hann í Hrauntunguna.“ Þarna er getið um Hrauntungustíginn um Ásflatir og Helludal.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól

Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni “Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness” frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar, auk þess sem skjólið er hluti af búsetuminjum svæðisins, sbr. stekkinn í Skarðinu skammt norðar.

Heimild:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Katrín Gunnarsdóttir: Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness Hafnarfirði. Byggðasafn Hafnarfjarðar. 2005.
Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.