Ginið

Farið var í Ginið. Um er að ræða um 15 metra djúpt op í hrauninu suðaustan við Sauðabrekkur og Sauðabrekkugjá. Ofan við brekkurnar að norðanverðu er falleg gígaröð með klepragígum. Mikil litadýrð er í þeim. Í einum þeirra er skjól þar sem gólfið hefur verið flórað og hella sett fyrir gluggaop. Skammt norðanfrá skjólinu eru hleðslur eftir refaveiðimenn.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ginið er í tvískiptu hrauni. Annars vegar er um að ræða nokkuð gróið hraun og hins vegar slétt helluhraun. Ljóst er að þarna hefur áður verið mikil gjá í eldra hrauni, en nýrra hraun, tiltölulega afmarkað, sennilega úr Sauðabrekkugígum, hefur runnið til suðausturs og m.a. fyllt gjána að huta. Þetta hefur verið efsti hluti gjárinnar þannig að hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta hennar nema að litlu leyti. Fallegar klepramyndanir eru í veggjunum. En ekki var vitað um það sem neðar var. Sennilega hefur maður aldrei stigið fæti þar niður á botn eða kannað hvað dýpið kynni að geyma.
Ákveðið var, a.m.k. fyrst um sinn, að segja ekkert um hvar það er að finna svo hér verður einungis sagt frá hluta þess. Ætlunin er að fara þangað aftur fljótlega.

Ginið

Ginið.

Hraunið hér er slétt helluhraun, sem fyrr segir, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við og öskraði á okkur “komið niður”. Um er að ræða um 15 metra dýpi. Lofthræddir ættu ekki að standa á barminum. Ekki verður komist niður nema síga þangað á böndum. Efitt gæti reynst að komast upp aftur. Gengið var tryggilega frá öllum festum.
Til að gera langa sögu stutta kom í ljós jökull á botninum. Stórbrotið er að horfa niður í Ginið, en ennþá mikilfenglegra er að horfa upp úr því. Við austurendann er hægt að komast inn í sprunguna. Í henni má sjá hvernig hraunið hefur runnið niður í hana og fyllt upp í holrúm. Hér er því um merkilegt jarfræðifyrirbæri að ræða. Hægt væri að komast áfram inn eftir sprungunni, en það var látið ógert að þessu sinni.
Erfitt er að finna Ginið fyrr en staðið er á barminum. Varhugavert væri að vera þarna í snjóalögum, því sá sem færi þarna niður óviljugur kæmi aldrei upp aftur.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst og 11. mín, en sigið tók drjúgan tíma (enda enginn að flýta sér).

Ginið

Ginið.