Færslur

Grísanes

Gengið var um Dalinn norðan Hamraness. Í grónum krika í Hellishrauninu er gamalt fjárskjól, að öllum líkindum frá Ási. Hleðslur eru við opið, en hluti loftsins er fallið niður. Dalurinn er vel gróinn og líklega verið mikið nýttur á tímum sauðbúskaparins. Þarna gæti hafa verið skjól fyrir sauði, en fé var á þeim tímum jafnan látið ganga úti um vetur.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás segir m.a.: “Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.” Ás hafði í seli við Hvaleyrarvatn um tíma og má sjá selstóftina á bakkanum austan við vatnið, skammt norðaustan við tóftir Hvaleyrarselsins. Þá eru minjar selstöðunnar uppi á og við Selhöfða, neðan hans og sunnan vatnsins.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjólið í dag, 2023.

Til baka var gengið eftir Stórhöfðastígnum, yfir Ásfjallsöxlina, áleiðis að Ási. Tóftir eru í norðanverðri öxlinni. Gengið var vestur með norðanverðu Grísanesi og yfir á Hvaleyrarhöfða, en þar munu áður hafa verið mörk strandarinnar á þessu svæði, áður en Hellnahraunin runnu. Undir austurbrún Hellnarhrauns er hlaðinn rétt og a.m.k. tvær tóftir skammt austan hennar. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir þetta svæði segir m.a.: “Það mun vera þetta svæði, flatir meðfram hrauninu, sem í skjali frá 1444 nefnist Hraunvellir, en nú nefnast þeir Grísanesflatir. Þá er hér klettatunga mikil, nefnist Grísanes, og norður [leiðrétt; suður] af því á holti er Grísanesfjárhús. Þar eru nú veggir einir uppistandandi. Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól“.
Fjárskjólið í Dalnum hefur nú verið eyðilagt vegna mistaka starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Grísanesfjárhús

Grísanesfjárhús.

Dalurinn

Í Fjarðarpóstinum 2. mars 2023 er m.a. fjallað um “Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti – Minjastofnun með málið í skoðun“.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

“Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar. Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsingarnar á síðustu öld.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjól; ratleikjaspjald 2021.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleikskortið þar sem fjárskjólið er merkt. Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

DalurinnVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

DalurinnSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minjastofnunar hafi ekki komist til skila í
skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna byggingaframkvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“

DalurinnÍ pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu. Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamelsnámurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjarlandinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrirhugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.”

FERLIR fjallaði um eyðileggingu fjárskjólsins, sjá HÉR. Einnig hafði verið fjallað um fjárskjólið á vefsíðunni mörgum árum fyrr, bæði HÉR  og HÉR.

Dalurinn

Svar Hafnarfjarðarbæjar við eyðileggingunni.

Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: “Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi“, segir: “Í bréfi frá Minjastofnun dags. 2. mars s.l. er óskað eftir frekari upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess að minjar sem stofnunin benti á í bréfi sínu dags. 20. júlí 2020 að þyrfti að taka tillit til í deiliskipulagsvinnu hefðu verið eyðilagðar. Bréf frá því 2020 var sent vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Hamraneshverfis.
Umhverfis- og skipulagssvið harmar að fornminjarnar hafa verið eyðilagðar og engar afsakanir til sem réttlæta það, þarna er um mannleg mistök að ræða.

Skipulag í Hamraneshverfi var unnið með óhefðbundnum hætti. gert var rammaskipulag þar sem svæðið var reitað niður og reitunum var úthlutað til verktaka og þeir sáu síðan um að deiliskipuleggja sinn reit og byggja. Götur og lagnir voru lagðar í samræmi við rammaskipulagið. Þessi vinnubrögð verða ekki reynd aftur þar sem margt hefur gengið á og farið úrskeiðis og flækjustig eru mörg.

Dalurinn

Fjárhellirinn í Dalnum.

Í deiluskipulagi sem nú er í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun er gerð grein fyrir gatnakerfi, stígum og stofnanalóðum hverfisins og það varð út undan þegar úthlutaðir reitir voru deiliskipulagðir. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á lóðinni Hringhamri 16 verði grunn- og leikskóli. Áður en deiliskipulagsvinna þessi hófst var búið að ákveða að leggja lögn þvert á lóðina. Við þá vinnu voru minjarnar eyðilagðar. Um er að ræða regnvatnslögn sem á að miðla vatni innan lóðarinnar.
Framkvæmdarleyfi fyrir gatna- og lagnavinnu í Hamraneshverfi var gefið út af skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 3. mars 2021.
Því miður láðist að merka þessar minjar inn á kortagrunna sveitarfélagsins sem og inn á aðalaskipulagið með þeim afleiðingum sem nú er raunin.” – Anna Margrét Tómasdóttir, Verkefnastjóri

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Í bréfi Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: “Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi“, segir: “Í tölvupósti 11. apríl 2023 óskar Anna Margrét Tómasdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði hafnarfjarðarbæjar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um ofangreinda deiliskipulagstillögu. Fylgigagn var skipulagsuppdráttur dagsettur í janúar 2023. Fornleifaskráning liggur fyrir á svæðinu; Heiðrún Eva Konráðsdóttir: Hafnarfjörður, Hamranes. Fornleifaskráning vegna deiliskipulags (Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019). Fornleifaskráin er fullnægjandi fyrir afgreiðslu deiliskupulagsins, sbr. 16. gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt henni eru einar skráðar minjar á skipulagssvæðinu, fjárskýli nr. 2061-1, sem er fyrirhleðsla við hraunhelli.

Dalurinn

Bréf Minjastofnunar.

Með bréfi dagsett 30 júlí 2020 gaf Minjastofnun umsgögn um ofangreint svæði vegna breytinga á aðalskipulagi. var þá vakin athygli á þessum minjum, að gæta þyrfti að þeim við frekari deiliskupulagsvinnu. Deiliskipulagið var hins vegar ekki sent til umsagnar Minjastofnunar á auglýsingatíma þess, Þann 23. febrúar 2023 fékk Minjastofnun svo ábendingu um að friðaðar minjar í Hamranesi hefðu verið eyðilegðar og reyndist það vera ofangreint fjárskýli. Eftir að tilkynnt var um málið fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að athuga um ástand minjanna. Ljóst er að minjarnar hafa verið eyðilagðar vegna framkvæmda á svæðinu og er það mat stofnunarinnar að þær verði ekki lagaðar eða komið í fyrra horf. Í kjölfarið óskaði Minjastofnun Íslands eftir skýringum hjá Hafnarfjarðarbæ, með bréfi dagsett 2. mars 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess atviks. Svar Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi dagsett 17. mars 2023. Minjastofnun telur skýringar sem þar eru raktar fullnægjandi og er ljóst að um mannleg mistök er að ræða. Mikilvægt er að tryggja að gott verklag komi í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíðinni. Með bréfi þessu er friðun minjanna (fjárskýlis nr. 2061-1) aflétt, sbr. 25. hr. laga um menningarminjar, þar sem segir: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga”. Fyrirliggjandi skráning minjanna telst fullnægjandi rannsókn.
Minjastofnun Íslands hefur ekki frekari athugasemdir við ofangreint deiliskipulag.” – Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Í svari Þórs Hjaltalíns við fyrirspurn fréttastjóra Fjarðarfrétta dags 23. ágúst 2023 kemur eftirfarandi fram:”Sæll Gísli. Verkferlar og samskipti eru hér í stöðugri þróun og skoðun til að lágmarka hættuna á að minjar skemmist af vangá, en ef það gerist er það auðvitað áminning til okkar allra.
Eins og rakið er í bréfi bæjarins var skipulagið fyrir Hamraneshverfið unnið með óhefðbundnum hætti (rammaskipulag), sem reyndist illa og segjast þau hverfa frá þeim vinnubrögðum í framtíðinni, sem er vel.
Ef minjar eru skemmdar, þá kemur vissulega til álita að kæra. Eftir að hafa farið yfir málið hér innanhúss varð niðurstaðan hins vegar sú að reyna að laga vinnubrögð/samskipti þannig að slys af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Við eigum í reglulegum samtölum við byggingar- og skipulagsfulltrúa hringin í kringum landið sem miða að því að tryggja vernd menningarminja og það á við um Hafnarfjarðarbæ eins og önnur sveitarfélög. Nú liggur fyrir vönduð heildarskráning minja í Hafnarfirði og stöndum við því mun betur að vígi varðandi vernd fornleifa en við gerðum fyrir örfáum árum síðan. En það kom því miður ekki í veg fyrir að þessar minjar skemmdust. Slík mál lítum við ávallt alvarlegum augum og eins og ég nefndi verður reynt að bæta vinnlag til að lágmarka hættuna á slíkt endurtaki sig.”

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, fréttastjóri Fjarðarfétta.

Viðbrögð fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta voru:
“Sæll og takk fyrir svarið.
Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?
Já, mannleg mistök, þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hefði verið upplýst sérstaklega um minjarnar af Minjastofnun og að þær hafi verið skráðar fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar. Forstöðumanni Byggðasafns var bent á að minjarnar væru ekki inn á minjakorti Hafnarfjarðar á map.is en hann gerði ekkert í því.
Það varð til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sáu minjarnar ekki á minjakorti.
Minjarnar höfðu verið í Ratleik Hafnarfjarðar þar sem bæjarstjóri fékk fyrsta kortið.
Er hægt að kalla þetta mistök? Ef svo er getum við búist við að miklu fleiri minjar hverfi.”

Með góðri kveðju,
Guðni Gíslason, útgefandi/ritstjóri

FERLIR sendi Minjastofnun eftirfarandi fyrirspurn í ágústmánuði s.l.: “Sæl, getið þið upplýst um hver voru viðbrögð Minjastofnunar við svari Hafnarfjarðarbæjar v/fyrirspurn hennar um eyðileggingu fjárskjóls í Dalnum norðan Hamraness s.l. vor?” Minjatofnun hefur ekki talið ástæðu til svara.

Fornleifaskráning katrínarFERLIR tekur undir svör fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta. Viðbrögð og svör minjavarðar Reykjaness[kaga] verða að teljast sérstaklega léttvæg í ljósi eyðileggingar fornminja í umdæmi Hafnarfjarðar þar sem fyrir lá staðfest vitneskja um þær þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Ljóst er að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið vanhæft til verka, en skýringar á misferlinu er að hluta til við stofnunina að sakast. Strax þegar fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu hefði átt að merkja þekkt minjasvæðið til að koma í veg fyrir eyðilegginguna, en það var ekki gert. Þá verður að telja viðbrögðin harla máttlaus í ljósi þeirra verðmæta, sem stofnunni ber að vernda, en aðrir komast upp með því að raska með þeirri einni afsökun að um “mannleg mistök” hafi verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir um minjarnar. “Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?” Þessi dæmalausu viðbrögð eru fordæmi til framtíðar? “Minjastofnun telur skýringar sem að framan eru raktar fullnægjandi vegna þess að um mannleg mistök hafi verið að ræða”. Ljóst er að Minjastofnun þarf að líta sér nær þegar kemur að málum sem þessu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Í Lögum um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní segir m.a. í 23. gr. laganna: “Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða. Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.”
Þá segir í 25. gr.: “Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.” Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir affriðun þegar um eyðilagðar  fornleifar er að ræða, enda er það ekki hlutverk Minjastofnunar að fyrirgefa skemmdarvörgum eða veita þeim syndaaflausn, líkt og tíðkaðist fyrrum í kaþólskri trú.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn 2. mars 2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi, bls. 10.
-Bréf Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi.
-Bréf Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi.
-Lög um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjólið fyrrum.

Hellishraunsskjól

Fornt fjárskjól, Hellishraunsskjól, er í gróinni lægð í Hellishrauni við Ásflatir milli Hamraness og Ásfjalls. Tvö önnur slík skjól, Grófarhellir og Grísanesskjól, eru í nágrenninu:
Í Örnefnalýsinu Ara Gísasonar um Ás segir m.a.:  „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“ Skýrslan fjallar einungis um Hvaleyri, en svæðið er að hluta til í Áslandi og þar er eina skráða fornleifin í skýrslunni; fjárhellirinn. Um hann segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um ÁS: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn”.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Út frá frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.  Þær liggja norðan við Bláberjahrygg.  En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.“ Landamerkja línan liggur s.s. í vörður á Grísaneshálsi og  Hamraneshálsi (Bleiksteinshálsi). Báðar þessar vörður verða að teljast fornleifar sem og leiðirnar verða að teljast til fornleifa skv. Þjóðminjalögum. Þarna lá um Skarðið  vegurinn frá Ási upp á Hrauntungu- og Stórhöfðastíg. Auk þess sem selstígarnir frá Ási og Hvaleyri lágu um Ásflatir og skáhallt yfir Hamraneshálsinn að Hvaleyrarvatni.
Við þetta má bæta að í örnefnalýsingum Hvaleyrar segir, sbr.  Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „….), “Vestur frá Ási og vestur frá Ástjörn ganga fram í hraunið tvær hæðarbungur óbrunnar. Sú sem er nær Ási heitir Grísanes, og þaðan beint í suður er annað nes, sem heitir Hamranes. Það þekkist á, að í því eru hamrar. Suðvestur af eða í Grísanesi er smáhellir, sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum, heitir Grófarhellir. Hamranesið er skógi vaxið, brekkur sunnan og vestan, háir hamrar að vestan en aflíðandi að ofan. Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyrir segir um svæðið: „Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól. Landamerkjalínan liggur um Grísanesháls, niður af honum og inn um Ásflatir. En undir brekkunni við hraunið, sem hér nefnist Hellisdalshraun og Hellisdalur, liggur Hrauntungustígur suður yfir að Hamranesi. Þar spretta fram tvær lindir, Hamraneslindir. Frá Hamranesi lá Hrauntungustígurinn vestur yfir hraunið út að Háabruna og vestur yfir hann í Hrauntunguna.“ Þarna er getið um Hrauntungustíginn um Ásflatir og Helludal.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól

Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni “Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness” frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar, auk þess sem skjólið er hluti af búsetuminjum svæðisins, sbr. stekkinn í Skarðinu skammt norðar.

Heimild:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Katrín Gunnarsdóttir: Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness Hafnarfirði. Byggðasafn Hafnarfjarðar. 2005.
Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Kaldársel

Gengið var frá Ásvöllum um Grísanes, um Hádegisskarð yfir Dalinn norðan við Hamranes og skoðuð fjárskjól, sem þar hafa verið. Haldið var áfram yfir Hamranesið, um selhraun vestan Hvaleyrarvatns, upp á Selhöfða, niður í Seldal, um Stórhöfða og síðan áfram áleiðis inn í Kaldársel með norðurbrún Stórhöfðahrauns, beygt til norðurs gegnt Langholti og síðan gengið um Fremstahöfða inn í Gjárnar norðan Kaldársels.

Hádegisskarð

Stekkurinn við Hádegisskarð.

Norðvestan við Grísanesið er lítil rétt. Hlaðið mannvirki er skammt sunnar, sennilega leifar af fjárhúsi. Þegar gengið var frá henni austur um norðanvert nesið mátti sjá tvær tóftir á vinstri hönd, gætu verið sauðakofar frá Ási eða jafnvel frá Hvaleyri eða Hjartarkoti, sem var sunnan undir Hvaleyrarholtinu.
Um Hádegisholtið, sem er milli Grísaness og Ásfjallsaxlar, lá gamla leiðin frá Ási um Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg. Gengið var suður Dalinn og litið á fallin fjárskjól í grónum dal í honum innanverðum. Enn sést móta fyrir hleðslum við innganginn, en hraunþakið hefru falli að hluta. Drasl hefur síðan safnast fyrir í jarðfallinu.
Gengið var yfir Hamranesið og áleiðis framhjá Hvaleyrarvatni á leið upp á Selhöfða.

Hvaleyrarvatn

Stekkur í Seldal.

Hvaleyrarvatn er umlukin lágum hæðum á þrjá vegu. Vestan vatnsins er Selhraun sem lokar fyrir afrennsli þess úr kvosinni. Áður fyrr höfðu Hvaleyrarbændur í seli við vatnið og sjást tóftir undir Selhöfða þar sem selstöðin mun hafa verið.
Það er fremur létt að ganga upp á Selhöfðann og fæst þá góð sýn yfir svæðið. Við vesturenda vatnsins blasir Selhraun við í nokkrum fjarska.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur. Sunnan hans er Stórhöfði. Á Selhöfða eru leifar gamallar fjárborgar, auk annarrar minni skammt austar, en uppi á hálsinum sunnan undir höfðanum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt.

Kaldársel

Hálfhlaðið hús við Fremstahöfða.

Veginum var fylgt framhjá Stórhöfða og síðan stigið út af honum uppi á öxlinni. Gengið var austur með úfnu Stórhöfðahrauninu þangað til komið var á móts við Miðhöfða. Þá var gengið áleiðis að honum, en síðan stefnan sett á Fremstahöfða. Sunnan undir honum er hálfhlaðið fjárhús, sennilega frá Kaldárseli. Þar fyrir austan taka Gjárnar við, merkilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri; hrauntraðir og stöplar. Í þeim má m.a. finna hlaðinn nátthaga þar sem heitir Nátthagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn.

Ásfjall

Gengið var frá Haukasvæðinu áleiðis að Grísanesi. Sunnan við hraunkantinn er, að því er virðist, hlaðið gerði eða rétt. Þá átti að vera hlaðin rétt vestan í neshorninu, en hleðslurnar hafa greinilega verið notaðar í fjárhús eða beitarhús. Þær eru í landi Hvaleyrar.

Ásfjall

Stekkur undir Hádegisskarði.

Efst í holtinu ofan við húsin er hlaðið skotbyrgi, sem nokkuð hefur verið raskað, en þó má enn sjá móta fyrir lögun þess og hleðslur. Skjólgarður er út frá byrginu til norðurs og vesturs og að inngangi austan hennar. Nokkru austar, sunnan í Grísanesi, er annað upphrófað skotbyrgi. Á milli byrgjanna eru tvær fallnar vörður, líklega landamerkjavörður milli Áss og Hvaleyrar.
Vestan undir hæðardragi norðan við Grísanes eru tvær tóptir hvoru megin við göngustíg, sem lagður hefur verið umhverfis Ástjörn, líklega sauðakofar frá Ási.
Gengið var eftir stígnum til austurs norðan undir hæðinni. Efst í henni norðantil er hlaðið byrgi er gæti hafa verið skjól eða aðhald. Borgin og aðhaldið hefur að öllum líkindum verið notað af Bretanum á stríðsárunum, en hann hafði bækistöðvar víðs vegar um þetta svæði. Víða má sjá smáhleðslur, en þær eru flestar með öðru handbragði en Íslendinganna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Austar, norðan undir öxlinni, eða rétt sunnan við þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur liggja yfir öxlina, er Hádegisskarð. Þar er gömul borg, sem virðist hafa verið breytt í stekk. Hluti borgarhringsins sést þó enn þótt gróið hafi yfir hann að hluta. Tvær fallnar vörður eru á Grísanesi, en þó enn vel greinilegar.

Haldið var áfram upp á Ásfjallsöxlina og á Ásfjall, Efst á öxlinni á vinstri hönd er gömul borg, sem lítið er þó eftir af. Þegar komið er langleiðina upp að Ásfjallsvörðunni stóru er hlaðið stórt skotbyrgi undir klöppum er horfir til suðausturs. Hér gæti einnig hafa verið gamal fjárskjól að ræða, en Bretinn síðar notað það sem skjól. Hlaðið byrgi er líka norðvestan undir Ásfjallsvörðunni. Ásfjall er 125 metra hátt.

Grísanes

Grísanes – fjárhús.

Þar sem byrginu hefur verið hróflað upp má sjá hlaðinn gang liggja út frá vörðunni til norðurs og fram á brúnina. Enn eitt hlaðna steinbyrgið í hæðinni er skammt austan við vörðuna og horfir mót norðaustri. Tvö önnur eru þar skammt suðaustar í Ásfjallsöxlinni.
Í bakaleiðinni var gengið suður af fjallinu og komið niður í Dalinn. Hann er nokkuð gróinn þar sem hann liggur milli hlíðar og Hamraness. Austan í Dalnum eru grónir hraunbollar og í a.m.k. einum þeirra er gamall fjárhellir. Sjá má hlaðið opið inn undir skúta, en þakið hans er að mestu fallið niður.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Annars eru Hellnahraunin tvö ef vel er að gáð – hið yngra og hið eldra. Hið yngra eru um 1100 ára.
Ásbærinn stóð undir Ásfjalli um aldir, en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Skammt sunnan við bæinn, undir klapparholti, er stekkur.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ásfjall

Ásfjall og Grísanes – uppdráttur ÓSÁ.