Arnarfell
Gengið var til austurs frá bílastæðinu við skátasvæðið neðan við Skýjaborgir undir Bæjarfelli, suðvestan við Krýsuvíkurkirkju, meðfram Ræningjahjól, um tún Suðurkots og síðan var gamla túngarðinum fylgt sem lá lá í áttina að Arnarfelli.
Ræningjahóll er þar sem hæst ber, en skammt austan undir honum er Ræningjadys eða Ræningjaþúfur. Sagan segir að Tyrkir hafi komið að Heiðnabergi við Hælsvík. Gengu þeir upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – tilgáta.

Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.

Arnarfell

Arnarfell – varða.

Vörslugarðarnir umhverfis Krýsuvíkurbæina eru bæði úr grjóti og úr torfi. Grjóthleðslur eru við endana, þar sem þeir koma að fellunum beggja vegna, en á milli þeirra eru þeir úr torfi. Garðar þessi voru endurhlaðnir á 19. öld. Áður en komið var að Arnarfelli þurfti að fara yfir lítinn læk. Á honum eru leifar að hlaðinni brú þar sem garðurinn hefur legið. Skammt þar norður af, í mýrinni eru leifar húss eða stekks.
Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfellskotsins. Býlið er á 80x150m stóru svæði innan túngarðsins. Veggir eru úr torfi og grjóti. Sennilega eru 6 hólf í rústinni. Safnþró er framan við hana, líkt og fyrir framan Fitjabæinn undir Selöldu.

Krýsuvík

Krýsuvík – garður frá Bæjarfelli yfir að Arnarfelli.

Traðir eru undir fellinu, í grasi grónum hlíðum þess. Þær eru óljósar, en virðast hafa legið frá suðsuðvesturhorni bæjarins niður hlíðina og stefna síðan að Bæjarfellinu austan við túngarðinn. Beggja vegna traðanna má sjá grilla í lága garða sinn hvoru megin við þær. Traðirnar eru vel grónar. Beinteinn Sveinsson bjó síðastur að Arnarfelli, hagur maður á tré og járn. Hann byggði m.a. Krýsuvíkurkirkju árið 1857, en hún hefur þó síðan nokkrum sinnum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga.
Fræg er viðureign Beinsteins við Tanga-Tómas, drauginn á selatöngum. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó Beinteinn á Arnarfelli í Krýsuvík. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:

Arnarfell

Arnarfell – Í Guðbjargarhelli.

“Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Lá hann rúmfastur næstu daga.

Arnarfell

Arnarfell – bæjarbrunnurinn.

Bæjarbrunnurinn er utan garðs, fallega hlaðinn. Fallin varða er við forna götu skammt frá honum.
Þegar búið var að skoða svæðið innan heimagarðsins, bæjartóftirnar og umhverfi þeirra, var haldið rangsælis umhverfis fellið eftir gamalli götu er lá áfram til austurs, yfir að Jónsbúð, sauðakofa austarlega á Krýsuvíkurheiði. Varða er við götuna ofan við Arnarfellsvatn (Bleiksmýrartjörn). Þaðan var ágætt útsýni yfir Bleiksmýrina, sem ræst var út um miðja 20. öldina. Vestan við vatnið eru gamlar rústir. Sunnan þess var fyrrum áningarstaður skreiðarflutningamanna á leið þeirra frá verstöðvunum við sunnanverðan Reykjanesskaga austur í sveitir. Einnig mátti vel sjá fyrir sér og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Neðar eru Trygghólar. U.þ.b. miðja vegu milli þeirra og Arnarfells, skammt vestar, er Arnarfellsréttin, nokkuð heilleg fjárrétt í lægð.

Krýsuvík

Bærinn Arnarfell í Krýsuvík.

Suðaustan við Arnarfell er fyrrum gróðurvana svæði, sem komið er vel á veg að gróa upp. Blóðberg, lambagras, geldingahnappur ásamt lyngi eru nú á góðri leið með að þekja fokjarðveginn.
Við austurhorn Arnarfell er stekkur, á grasi gróinni rein við fjallsræturnar, vestan megin við uppþornaðan lækjarfarveg. Hann er 5x5m. Veggir eru úr grjóti.
Gengið var austur og norður með fellinu. Við norðurhorn þess er stekkur undir steini. Stínuskúti er í fellinu skammt austar og ofar í því. Ekki er vitað um tilurð nafnsins, en þó er ekki ólíklegt að það sé til komið líkt og Guðbjargarhellir á Hrauni við Grindavík, þ.e. tímabundið skjól þeirra, sem það var nefnt eftir, líklega frá amstri dagsins.

Arnarfell

Arnarfell – Stínuskúti.

Um er að ræða mjög fallegan skúta, tvískiptan. Hægt er að ganga inn í hann að austanverðu, en að vestanverðu er líklegt að fé hafi legið. Svo virðist sem skútinn hafi myndast að tilstuðlan vatns, en það er hvergi að finna nú. Því virðist hér um nokkuð merkilegt jarðfræðifyrirbæri að ræða. Falleg, viðkvæm, móbergssúla skilur af hluta skútans.
Arnarfellið er í u.þ.b. 100 m hæð. Sjálft fellið er tæplega 100 metra hátt (93 m). Þegar gengið er upp gróna norðvesturhlíð þess sjást vel útihúsin frá bænum. Þar er rúst, stekkur og skúti ofan hans. Rústin er 4,5x7m. Veggir eru úr torfi og grjóti. Mjög stórir steinar eru í veggjum, sumir jarðfastir. Tvö hólf eru í rústinni og eru dyr á báðum. Stekkurinn er 5x10m. veggir eru úr grjóti og torfi. Tvö hólf eru í stekknum, líkt og almennt gerist með slík mannvirki á Reykjanesskaganum. Dyr eru ábáðum hólfum. Skútinn er 1,5x4m og 1,5m hár. Hann liggur skáhalt inn í áberandi hamar í fjallinu, nánast beint ofan við rústina og stekkinn.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Vestan við Arnarfell sést vel yfir að Læk þar sem Arngrímur bjó um tíma fyrir og eftir aldamótin 1700. Þekkt er þjóðsagan af Grákollu er tengdist honum og fjárhelli hans í Klofningum, sem eru í Krýsuvíkurhrauni þarna skammt austar.
Þegar upp á Arnarfell er komið blasir Eiríksvarða við á vestari toppi þess, en hún er kennd við Eirík prest (Magnússon) í Vogsósum sem þekktur er úr þjóðsögum fyrir fjölkyngi sína. Hann dó árið 1716. Hann þótti skrýtinn í ýmsu, eins og segir í örnefnalýsingu. Fellið er tiltölulega auðvelt uppgöngu að vestanverðu og þaðan er útsýni yfir Krýsuvíkurheiði og næsta nágrenni.

Arnarfell

Krýsuvíkurkirkja – horft af Arnarfelli.

Ef vel viðrar er hægt að sjá hvar Eldey rís úr hafi við sjóndeildarhring í vestri. Þegar horft er inn til landsins sést hvar Sveifluhálsinn teygir sig einn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna ásamt Selvogsheiðinni enn austar og suðurlands.
Á eystri toppi Arnarfells er fornt arnarsetur, enda dregur fellið nafn sitt af því. Hreiðrið er vel gróið og því ljóst að ernir hafa haft þar hreiðurstæði um langan tíma áður en þeir voru gerðir útlægir af svæðinu, enda þóttur þeir hinir mestu vágestir. Margar sagnir eru til af atferli þeirra, sumar reyndar verulega ýktar. Annað fornt arnarhreiður er þarna skammt frá, í austanverðu Ögmundarhrauni.

Arnarfellstjörn

Arnarfellsvatn.

Af fellinu sést vel yfir Arnarfellsvatn í suðaustri og mógrafir Krýsuvíkurbænda í norðri. Grafirnar, sem eru í mýri, eru a.m.k. fjórar talsins og misstórar, 3×4 til 6x8m. Allar eru þær fullar af vatni og hugsanlega eru eldri samanfallnar grafir allt í kring í kvosum og lægðum í næsta nágrenni. Þannig er líklegt að einungis yngstu mógrafirnar sjáist með berum augum, en þær eldri orðnar jarðlægar.
Þegar horft er til norðausturs sjást Vegghamrarnir vel. Ofan þeirra eru Kálfadalirnir. Niður í þann syðri rann hrauná, sem kallast Víti. Stórkostlegt er að standa ofan við strauminn, sjá hvernig hraunið hefur fossað niður hlíðina og storknað þar á leið sinni.

Kálfadalir

Kálfadalir – sviðmynd fyrstu leiknu íslenskrar kvikmyndar.

Skammt norðar er leiksvið einnar af fyrstu leiknu kvikmyndunum á Íslandi. Hluti hennar átti að hafa gerst á tunglinu og er landlagið ekki ólíkt því sem þar má ímynda sér. Geimfarar þeir, sem fyrstir stigu fæti sínum tunglið, skv. bestu heimildum, komu m.a. þangað til að aðlagast því sem við mátti búast. Svæðið er torfundið, en er ein af mestu náttúrperlum landsins.
Vakin er athygli á því að myndirnar, sem fylgja þessari vefsíðu, eru af minjum, sem hvergi er minnst á í fornleifaskráningu af svæðinu frá árinu 1998 og Fornleifavernd ríkisins hefur stuðst við í umsögn sinni um fyrirhugaða kvikmyndatöku við Arnarfell, en þó er síðasta myndin (af Eiríksvörðu) undanskilin. Þá hefur hvorki Landgræðsla ríkisins né Umhverfisstofnun tekið tillit til Arnarfellsins sjálfs þegar umsögn var gefin, einungis umhverfis þess. Í nefnda skráningu vantar a.m.k. 12 minjar, sem vitað er um á og við fellið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt í Krýsuvík.