Gengið var að hlaðinni brú vestan við Arnarfell. Hún er í skarði á innri heimagarðinum að sunnanverðu. Gamla þjóðleiðin að Krýsuvík að austan lá um brúna, annars vegar til norðausturs að Eystrilæk og hins vegar til vesturs með garðinum utanverðum. Sett var niður prik við brúna.
Þá var gengið að vörðum með gömlu leiðinni til austurs sunnan Arnarfells, utan garðs. Hún lá framhjá brunninum sunnan Arnarfells og skiptist síðan í tvennt; annars vegar til austurs yfir Bleiksmýrina og hins vegar niður að Arnarfellsvatni (Bleiksmýrartjörn). Vestan við tjörnina mótar fyrir rústum. Áningarstaður vermanna í verum á sunnanverðum Reykjanesskaganum og skreiðarflutningamanna var þarna við sunnanverða tjörnina. Þá var jafnan slegið upp tjöldum. Vörðurnar eru fallnar, en vel móta fyrir innleggi þeirra. Annars var óþarfi að hafa vörður við Arnarfell því það var jafnan hið ágætasta kennileiti ferðamanna til og frá Krýsuvík að austan.
Merkt var umhverfis hinar gömlu tóftir Arnarfells vestan bæjarhólsins og síðan haldið upp á fellið. Ofan við syðri útihúsatóftina í fellinu er skúti. Þeir eru reyndar tveir. Annar er ofar og austar. Þar er fjárskjól, en engar hleðslur. Hinn er ofan og sunnan við tóftina. Þar er hleðsla fyrir, gróin. Svo virðist sem tákn séu þar skráð á veggi, en þau gætu eins verið af náttúrlegum ástæðum.
Gengið var niður skarðið og í Stínuskúta. Við hann var settur staur. Skútinn er með þeim fallegri í Krýsuvíkurfellunum.
Staur var sett við hlaðið og gróið skjól norðan undir stórum steini neðan við Stínuskúta. Þar gæti hafa verið kví og tengst stekknum þarna skammt vestar.
Loks var gengið að hinni gömlu þjóðleið milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur, er lá um Deildarháls. Þjóðleiðin sést enn mjög vel norðan við Eystrilæk. Þar liggur hún um mela, en því miður… Jarðýtustjóri er nú búinn að ýta duglega yfir hluta leiðarinnar. En verið róleg…
Samkvæmt bestu heimildum á að færa allt í samt lag aftur að lokinni kvikmyndatöku, einnig gömlu þjóðleiðina. Fylgst verður gaumgæfulega með hvernig það verður gert.
Hið skemmtilega (eða hið leiðinlega) við þessa þjóðleið er að fulltrúi Fornleifaverndar ríkisins var sérstaklega spurður að því á fundi, sem haldinn var með nefndarfólki og öðrum í Hafnarborg (daginn áður en skipulags og byggingarráð tók ákvörðun sína) hvort hann væri handviss um að þjóðleiðin gamla lægi ekki um þær slóðir sem ætti að raska. Spyrjandi sagðist hafa lesið það í hans gögnum að þetta væri talinn gamall árfarvegur. Fulltrúi Forneifaverndar móðgaðist mjög, sagði að þetta væri örugglega gamall árfarvegur og engin ástæða væri til að efast um þekkingu hans. Þetta væri ekki gömul þjóðleið, en nú er annað komið í ljós. Mjög mikilvægt er að fólk, sem vinnur við mat og skráningu fornleifa skoði svæði sem þetta með opnum hug og nýti sér vel þær upplýsingar, sem fyrir eru, bæði um einstakar minjar sem og sögu svæðisins. Mikið magn upplýsinga er til um Krýsuvík og ábúð það fyrrum.
Öryggisverðirnir voru beðnir um að fygjast vel mannaferðum um svæði, einkum að kvöld- og næturlagi því skemmdir hafa verið unnar að undanförnu bæði á Krýsuvíkurkirkju og skátaskálanum Skýjaborgum undir Bæjarfelli. Þá væri og gott ef þeir, nærtækir, gættu þess vel að fólk væri ekki að ganga mikið til suðurs að Arnarfelli, því mýmörg hreiður væru enn í móanum milli vegarins og þess. Ljóst er því að heildarhlutverk öryggisvarðanna á svæðinu getur orðið til gangs þegar til alls er litið.
Hið skemmtilega var að annar öryggisvarðanna reyndi að telja FERLIRsfélögum trú um að girðingin um beitarhólfið hafi verið sett upp til að koma í veg fyrir að fólk færi um svæðið. Þá reyndi hann að telja hinum sömu trú um að straumurinn á henni gæti reynst varhugaverður. Hann vissi greinilega ekki við hverja hann var að tala.
Þriðja sagan segir að “á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið. Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
“Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
“Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?”
Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna en er þeir hafa legið litla stund heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:
“Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
 Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafzt þar við síðan.”
Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt: ”Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: ”Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu.
Hann mælti til þeirra: ”Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fjórða sagan segir af Arnarfellslabba. “Í Arnarfelli skammt frá Krýsivík var draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur. Var
Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsivíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsivíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.
Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsivík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar.
”Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,” segir bóndi; ”get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.”
”Rétt getur þú til,” segir Björn, ”sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.”
”Kaup vilda ég eiga við þig,” segir bóndi; ”vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arnarfellslabba, en ég býst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.”
Þeir sömdu nú þetta með sér; reri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsivík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.”
Heimildir m.a.:
-SIGFÚS IV 39
-RAUÐSKINNA I. 41
-JÓN ÁRNASON I. 562
-JÓN ÁRNASON III 593

Arnarfell.