Ginið
Gengið var að Gininu. Með FERLIRsfólki í för var þjálfað sigfólk frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Ásdís Dögg Ómarsdóttir og Jón Árni Árnason.
Ginið reyndist um 20 metra djúpt og mestanpartinn lóðréttir klettaveggir. Sjálft gatið er um fjórir metrar á breidd og um átta metrar á lengd. Opið er í jarði þunnfljótandi helluhrauns, sem hefur runnið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það hraun virðist vera mun nýrra en hraunið allt um kring og gæti jafnvel hafa runnið á sögulegum tíma.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Stutt er í gjallgígana norðan Sauðabrekkugjár, sem mynda gígaröð í beina línu út frá gígunum ofan við gjárbarminn. Í einum gíganna, sem er holur að innan, hefur gólfið verið flórað, hlaðið er að hluta til fyrir munnann og hella lögð fyrir gluggaop (Sjá Sauðabrekkugjá).
Íshella var á botni Ginsins. Steinar hafa brætt sig um tvo metra niður í helluna og mynda holur ofan í hana. Þegar komið var niður er auðveldara að sjá hvers konar fyrirbæri þarna er um að ræða. Ginið er fyrrum gjá, sem hefur verið geysistór á þessum kafla. Hún er í sömu stefnu og aðrar gjá á svæðinu, s.s. Fjallgjá og Sauðabrekkugjá. Nýja þunnfljótandi hraunið hefur runnið ofan í gjána og fyllt hana. Sennilega hafa barmar gjárinnar risið einna hæsta þarna svo hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta.

Ginið

Ginið – loftmynd.

Til norðurs liggur rás undir hraunið. Hún ber keim af fyrrum sprungu. Eftir u.þ.b. átta metra endar gjáin í brekku. Ef farið er upp brekkuna tekur við mjó hraunrás, 6-8 metra löng, svo til beint upp á við. Þessi hluti var ekki kannaður með góðum luktum svo erfitt er að átta sig hvert framhaldið kann að vera. En ummerkin bera þess öll merki að þarna hafi verið gömul hraunfyllt sprunga. Sérstakur heimur út af fyrir sig og sennilega fágætt aðgengilegt jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hraunið í sprungunni var frauðkennt, ekki þó gjall, og var tekið sýnishorn af því.
Þau Ásdís Dögg og Jón Árni, fulltrúar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, eru að öllum líkindum fyrstu manneskjunar, sem fara þarna niður og kanna fyrirbærið.
Veður var stillt, blankalogn, og falleg kvöldsólin roðagyllti vesturhimininn.

Ginið

Ginið.