Færslur

Ginið
Gengið var að Gininu. Með FERLIRsfólki í för var þjálfað sigfólk frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Ásdís Dögg Ómarsdóttir og Jón Árni Árnason.
Ginið reyndist um 20 metra djúpt og mestanpartinn lóðréttir klettaveggir. Sjálft gatið er um fjórir metrar á breidd og um átta metrar á lengd. Opið er í jarði þunnfljótandi helluhrauns, sem hefur runnið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það hraun virðist vera mun nýrra en hraunið allt um kring og gæti jafnvel hafa runnið á sögulegum tíma.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Stutt er í gjallgígana norðan Sauðabrekkugjár, sem mynda gígaröð í beina línu út frá gígunum ofan við gjárbarminn. Í einum gíganna, sem er holur að innan, hefur gólfið verið flórað, hlaðið er að hluta til fyrir munnann og hella lögð fyrir gluggaop (Sjá Sauðabrekkugjá).
Íshella var á botni Ginsins. Steinar hafa brætt sig um tvo metra niður í helluna og mynda holur ofan í hana. Þegar komið var niður er auðveldara að sjá hvers konar fyrirbæri þarna er um að ræða. Ginið er fyrrum gjá, sem hefur verið geysistór á þessum kafla. Hún er í sömu stefnu og aðrar gjá á svæðinu, s.s. Fjallgjá og Sauðabrekkugjá. Nýja þunnfljótandi hraunið hefur runnið ofan í gjána og fyllt hana. Sennilega hafa barmar gjárinnar risið einna hæsta þarna svo hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta.

Ginið

Ginið – loftmynd.

Til norðurs liggur rás undir hraunið. Hún ber keim af fyrrum sprungu. Eftir u.þ.b. átta metra endar gjáin í brekku. Ef farið er upp brekkuna tekur við mjó hraunrás, 6-8 metra löng, svo til beint upp á við. Þessi hluti var ekki kannaður með góðum luktum svo erfitt er að átta sig hvert framhaldið kann að vera. En ummerkin bera þess öll merki að þarna hafi verið gömul hraunfyllt sprunga. Sérstakur heimur út af fyrir sig og sennilega fágætt aðgengilegt jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hraunið í sprungunni var frauðkennt, ekki þó gjall, og var tekið sýnishorn af því.
Þau Ásdís Dögg og Jón Árni, fulltrúar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, eru að öllum líkindum fyrstu manneskjunar, sem fara þarna niður og kanna fyrirbærið.
Veður var stillt, blankalogn, og falleg kvöldsólin roðagyllti vesturhimininn.

Ginið

Ginið.

Sauðabrekkuskjól

Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman við Ketilinn þar sem Ketilsstígur tekur við.
HrauntungustígurÆtlunin var að fylgja enn einni leiðinni af Ketilsstíg/Rauðamelsstíg frá Hrúthólma að Hrauntungum. Þessi kafli leiðarinnar hefur einnig verið nefndur Hrúthólmastígur.
Götur og stígar, sem legið hafa saman, hafa gengið undir fleiru en einu nafni. Þannig var stígurinn er lá upp frá Óttarsstöðum, yfir Alfaraleið og um Óttarsstaðasel ýmist nefndur Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur. Ein leiðin lá áfram upp úr selinu inn í Hrúthólma og önnur um Skógarnefið. Þar greindist hún í tvennt og hét hin anginn Mosastígur er lá upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Lagt var af stað frá Katlinum með Hrútafelli í Hrúthólma, niður með Mávahlíðahnúk að Sauðabrekkugjá, framhjá Fjallsgreni, um Almenning, niður í og inn í Hrauntungur og að Krýsuvíkurvegi. Áætlaður göngutíma var 5 klst og 5 mín. Í leiðinni var tilgangurinn m.a. að rekja og staðsetja stíginn í hraununum ofan og neðan við Almenning, en þar greinist hann í nokkrar leiðir og er hvað ógreinilegastur í mosa, lyngi og kjarri. Hefur sérhver valið sér hentuga leið, allt eftir tilgangi og tilefni ferðar hverju sinni. Gatan er greinileg í sléttu hellihrauninu, en ógreinlegri þar sem hraunið verður fjölgrónara og óreglulegra. Með lagni er þó hægt að rekja nokkra anga hennar áleiðis niður í Hrauntungur, þar sem þær sameinast ofan þeirra.
Leiðin frá Katlinum liggur um veg undir vestanverðum Sveifluhálsi, að Djúpavatnsvegi. Við gatnamótin er hlið á beitarhólfsgirðingu. Í dag má þar sjá stikur Undirhlíðavegar sem liggur undir hlíðunum að Kaldárseli og Ketilsstígs er liggur áfram niður hraunið til norðurs. Í Hrúthólma liggja saman Rauðamelsstígur og Hrauntungustígur, sem fyrr segir.
sveppurKetilsstígurinn hefur, sem fyrr segir, verið stikaður spölkorn til norðurs, eða að mótum Reykjavegar (stika 58). Reykjavegur er nútímagöngustígur, 114 km langur, er stikaður var af stórhug milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Færa þarf þær stikur ca. 30 m til austurs svo einungis ein leið verði stikuð þessa leið á þessu svæði. Gatan þar er greinileg þar sem hún liggur um slétt helluhraunið.
Þarna, austan Hrútafells, er gott útsýni til Fíflavallafjalls og gíganna norðvestan Hrútafells. Teljast verður til tíðinda að svona mikilfenglegir, mosavaxnir, hraungígar skuli vera nafnlausir. Norðar, undir Fíflavallafjalli, eru Stórusteinabrekkur.
Norðaustan Hrútafells eru gatnamót “Ketilsstígs” og Reykjavegar. Þar eru um nýlega tilbúna götu að ræða þar sem Reykjavegur liggur að norðurhlíðum Hrútafells. Skammt norðar (GPS: 6356145-2203351) eru gömul gatnamót “Ketilsstígs” og götu er liggur að Lækjarvöllum norðan Hrútafells. Eðlilegra hefði verið að láta Reykjaveginn liggja eftir þeiri götu, sem vel er mörkuð í landslagið.
Auðvelt er að rekja stíginn (sem enn er óstikaður) að Hrúthólma. Hann er í rauninni óbrennishólmi (hæð) umlukinn hrauni frá nútíma (sennilega 1151). Norðvestar eru Mávahlíðar, ílangar og tignarlegar. Norðar er Mávahlíðahnúkur. Á leiðinni er fallegur, stór, rauðleitur gjallgígur, enn einn slíkur frá nútíma – nafnlaus. Segja má með sanni að svona stór gjallgígur verði að hafa nefnu. Það myndi auka gildi hans til mikilla muna – og jafnframt varðveislugildi til lengri framtíðar (aldrei að vita hvað stórhuga athafnamenn með mikilvirk véltæki dettur í hug á skömmum tíma þegar efni eru annars vegar). Seinni tíma ferðalangar hafa reyndar gefið gíg þessum nafn: “Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni)”. Sagan er vel við hæfi því þarna eru nokkur hraunskil er orðið hafa til á tiltölulega skömmu tímabili (á jarðsögulegum tímakvarða).
Hrauntungustígur Hrúthólmi er vel grasi gróinn í hlíðum, en ber á “skalla” vegna gróðureyðingar seinni tíma. Af honum er gott útsýni til allra átta. Má af honum kenna fjallahringinn. Leiðin um stíg niður að Búðarvatnsstæði og áfram niður í Óttarsstaðarsel liggur norðvestur af honum, en gatan um Hrauntungustíg liggur til norðurs. Leiðin liggur með austanverðum hólmanum. Þaðan er auðvelt að glöggva sig á framhaldinu.
Í Hrúthólma er sérstakur sveppur á haustin (hér nefndur Hrúthólmasveppur). Hann er gulari, minni og fagurleitari en aðrir sveppir á og við leiðina sem og víðasthvar á þessu svæði.
Mávahlíðar eru norðvestan við Mávahlíðar og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur.
Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Á leiðinni er þarflegt vatnsstæði. Það er hægra megin götunnar, í skjóli við skeifulaga hraunhóla. Við þá eru gatnamót götu er liggur í gegnum úfið hraunið frá Hrútargjárdyngjubrúninni.
Skammt norðan við Hrúthólma er bæði sérkennilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri, ekki ólíkt brotahring. Hér mætti kalla fyrirbærið “brotaberg”. Það er austan götunnar. Um er að ræða afmarkað hraunssvæði. Hraunhellan, um 30-40 cm þykk, þá nýstorknuð, hefur brotnað upp vegna mikils undirliggjandi þrýstings glóandi hraunkviku er ekki hefur fundið sér auðveldari áframhaldandi leið undan hallanum. Glóandi kvikan hefur síðan náð að bræða grannbergið og þrýstingurinn minnkað. Í látunum, sem væntanlega hefur tekið mjög skamman tíma á jarðsöglegan mælikvarða, reis brotna hraunhellan upp í einingar og má berja þær augum á þessu tilkomumikla svæði.
Gatan er slétt og stefnir á Sauðabrekkur, sem sjást vel framundan. Varða á hraunbrún á hægri hönd. Við hana liggur gata upp með fyrrnefndri brotahraunraönd, að vesturbrún Hrútargjárdyngju (Reykjaveginum).
Sauðabrekkuskjól Að þessu sinni var ekki leitað að fyrri uppgötvun FERLIRs. Þá fundust í nálægri hraunæð gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var á sínum tíma tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar “dýri” beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Hrauntungustígurinn liggur að og vestan við Sauðabrekkuskjólin. Syðsta skjólið er stærst og tilkomumest. Stundum haf skjólin verið nefnd Sauðabrekkuhellar. Smalar Hraunamanna nýttu þessi skjól fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Þá er og ekki ólíklegt að ferðalangar um Hrauntungustíg hafi haft þar athvarf um stund þegar veður voru hundum óhagstæð.
Í nyrsta skjólinu má sjá leifar beina af hrossi. Ekki er ólíklegt að þarna geti verið um hluta af fyrrnefna hrossinu að ræða. Beinin eru mosavaxin, en vel greinileg.
Frá Sauðabrekkukjólunum er gatan ógreinileg. Með lagni má þó rekja hana áleiðis að Sauðabrekkugjárgígunum, norðvestan gjárinnar. Gjáin sjálf er fallegt og tilkomumikið misgengi (N og S). Þegar sólin skín er veggurinn, sem snýr mót austri, ljós yfirlitum, en í regni verður hann svarleitur. Um svo til miðja gígaröðina liggur Hrauntungustígur þvert á gjána á greiðfærasta stað. Varða vísar leiðina.
Áður en komið er að gjánni, þ.e. austan við hana, liggur gata áfram til norðurs. Hægt er að velja hana ef halda á niður að Fornaseli. Þetta er beinasta leiðin þangað, en býsna óljós á köflum.

Ofan við Sauðabrekkugjár er gígaröð. Í syðri röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún er fjarlægð birtir verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðvestan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Stórholtsgrenin eru nokkru norðar, vestur undir Hafurbjarnarholti, en Gamlaþúfa er þar skammt vestar.
Þarna er Hrauntungustígurinn vel greinilegur, uns komið er að lágri hraunbrún. Með lagni, og réttum birtuskilyrðum, má sjá stíginn í gegnum mosahraunið, stundum grannan og stundum breiðan. Þá virðist hann hverfa, en Fjallsgrensvarðan framundan segir til um leiðina. Við hana greinist gatan í tvennt; annars vegar til hægri og hins vegar til vinstri. Hægri leiðin liggur beinna við Hrauntungunum, en hún er ógreinilegri. Vinstri leiðin, sem hér var valin, er greiðfærari og liggur með holtum og hæðum, áleiðis að Straumsselsstíg og Straumsseli. Vörður vísa leiðina (stundum reyndar litlar á löggiltan vörðumælikvarða alfaraleiðanna). Sú leið er rakin var greinir götuna á köflum þar sem hún kemur upp úr gróningunum og myndar áför á hraunhryggjum. Hún hlykkjast áleiðis að og austru fyrir Hafurbjarnaholt. Það mun vera kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum. Ekki má tengja þá frásögn Hafurbjarnastöðum innan við Sandgerði þar sem beinin fundust fyrrum og sjá má nú undir glergólfi Þjóðminjasafnsins.
Héðan verður að nota öll þau skilningavit, sem Guð gaf, ef rata á rétta leið. Með mikilli gaumgæfni, hiki, efassemdum og niðurstöðum er hægt að rekja sig eftir landslaginu, áleiðis niður að Brunntorfum. Gatan er hlykkjótt, en jafnan farið um lænur og gróninga. Jarðhallinn er bæði eðlilegur og sanngjarn; hvorki yfir sprungur að fara né brúnir.
Þegar komið var að brúnum Brunntorfanna var hægt að velja a.m.k. þrjár leiðir; um vestanvert Fornasel, leið um hraunlægð vestan hennar eða leið millum Fornasels og Gjásels. Þar eru gatnamót leiðar milli seljanna, vel greinileg og vörðuð. Valin var leiðin “á millum”. Þá var komið að skógarbrún Skógræktar ríkisins.
Hrauntungustígur Með góðu móti var hægt að rekja sig niður gróna hraunhlíðina og gegnum skóginn. Ljóst er að þar þarf að ráðast í léttvægt skógarhögg á einstaka stað til að greiða fyrir einni rein Hrauntungustígsins eins og hann var fyrrum. Það ætti bæði að þykja eðlilegt og sjálfsagt því skógræktarfólk hefur fyrr á áratugum farið allfrjálslega með staðsetningu sína á nýgræðlingum. Víða hefur verið plantað í gamlar götur og jafnvel fornminjar. En vitund og vitneskja hinna sömu hefur vonandi breyst með betri upplýsingu í seinni tíð.
Þegar komið var norður fyrir skógræktarlundinn lá gatan augljós framundan – í gegnum Hrauntungur. Á landakortum eru Hrauntungur rangt staðsettar (en það er nú önnur saga, eða sögur, því mörg eru rangnefnin á þeim greyjunum). Við götuna er Hrauntunguhellrar, fyrirhleðsla um skúta er birkihrísla hefur nú hlulið. Varða er ofan við. Sagt er að í Hrauntungum sé óhreint, þ.e. fólk hefur á ferðum sínum bæði séð og skynjað ýmislegt er “óhreint” getur talist. Frásagnir um slíkt hleypti þátttakendu kappi í kinn, enda ekki vanþörf á eftir langa göngu.
Við enda Hrauntungustígsins, áður en hann fór upp á Brunabrúnina, situr nú settlegur hraunkarl er fylgist bæði vel með öllu er gerist og ekki gerist.
Í dag kemur Hrauntungustígurinn upp í nútímagryfjur Skógræktar ríksisins í Brunanum (Nýjabruna/Háabruna). Þær eru sem minnisvarði, eða a.m.k. áþreifanlegur vitundarvottur um það er þröngsýn hagsmunaöfl selja ómetanleg framtíðarverðmæti sýnum eigin metnaði til framdráttar. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, að í gegnum Brunann hafi verið “rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðm tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessr vegabætur og eru þær sennilega fyrstu vegabætur sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur”.
Vörðu hefur verið þyrmt á hraunhól í gryfjunum. Líklega hefur sú varða verið við stíginn í gegnum fyrrum hraunið. Önnur varða er norðvestanvert við gryfjurnar. Þar liggur Hrauntungustígurinn niður á slétt hellurhraun Hellnahrauns og áleiðis að skarðinu á Ásfjallsöxinni. Tilkomumikill hraunkarl er á hægri hönd við götuna.
Hrauntungustígur Í þessari ferð endaði gangan við sunnanverðan Krýsuvíkurveginn. Þar er slétt helluhraun á kafla milli úfins aplahrauns Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Gatan lá áfram til norðurs norðan vegarins, en nú er búið að gera veg ofan í hann að fiskhjöllum. Frá þeim lá leiðin um Dalinn norðan Grísaness og um fyrrnefnt skarð (Hádegisskarð) á Ásfjallsöxlinni – að Ási og áfram niður til Hafnarfjarðar.
Áður fyrr lá leiðin millum staða, sem ferðalangar eða “þurfalingar” þurftu að fara af ýmsum ástæðum. Þá var hún langt torfæri. Í dag er leiðin kærkomið tækifæri til að sjá og skynja, bæði fyrrum sögu og ekki síður stórbrotið útsýni og jarðsögu svæðisins. Það að ganga þessa leið, sem og aðrar, kostar í rauninni einungis þægilegt strit og eðlilegt skóslit, en ávinningurinn er slíkur að enginn, sem á annað borð er sæmilega göngufær og getur slitið sig frá sjónvarpsglápi eða öðrum ávana, ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara.
Ekki er raunhæft að nefna Hrauntungustíg svo nema frá Hrúthólma. Þar koma saman Rauðamelsstígur, sem fyrr segir, og er liggur síðan áfram að Ketilsstíg. Hvort og hvaða götur megi telja svonefnda “heilsársstíga” er erfitt um að segja. Að öllum líkindum voru þeir allir, meira og minna eða misjafnlega, eftir aðstæðum, farnir allt árið. Ljóst er að Hrauntungustígurinn er einungis ein leiðin af nokkrum á þessu svæði. Auk þess ber að hafa í huga að Hrauntungustígurinn norðanverður var ekki “einn” heldur og nokkrar leiðir milli sömu endamarka.
Hrauntungustígur“Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg” (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Það áttu samt ekki allir hesta, samanber gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Ólafur Þorvaldsson greindi m.a. frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.” Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Og ekki var ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum (JG).
Gengnir voru 18 km, þ.e. milli Ketilsins í vestanverðum Sveifluhálsi að Krýsuvíkurvegi.
Frábært veður – sól og blíða. Gengið var í 4 klst og 40 mín. Alls tók ferðin, með leitum og áningum, 6 klst og 30 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.
-Jónatan Garðason

Kvöldútsýni úr Hrauntungunum

Kvöldsýn í Hraunum.

 

Sauðabrekkuskjól

Ætlunin var að rekja þann kafla Hrauntungustígs er liggur frá Hrauntungum upp að Sauðabrekkugjá. Hlutarnir beggja vegna liggja nokkurn veginn ljósir fyrir, en á Í Sauðabrekkugígaskjóliþessum kafla ofanverðum koma a.m.k. þrjár götur til greina, einkum að austanvörðu. Í leiðinni var m.a. litið á Fjallsgrensvörðuna, Fjallsgrenin og Sauðabrekkugjárgígaskjólið.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Hrauntungustígurinn er ein af hinum gömlu þjóðleiðum millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Markmiðið var að eftir þessa ferð lægi ljóst fyrir hvar “meginleið” Hrauntungustígsins hafi legið fyrrum.
Sem fyrr sagði var aðaltilgangur ferðarinnar að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur á milli Sauðabrekkugjár að Fjallgrensvörðunni á hæsta hluta Almennings. Þessi kafli virðist hafa reynst mörgum erfiður og fáum hefur tekist að rekja hann réttu leiðina. Líklega er torræðið ein af ástæðum þess að Hrauntungustígurinn hefur greinst í nokkrar leiðir ofan við Sauðabrekkugjár, flestar austar en sú sem hér var ætlunin að greina.
Í SauðabrekkugígaskjóliGengið var upp austanverðan Almenning. Mikið kjarr er nú aftur komið í Almenning, en hann var fyrr á öldum eitt helsta hrísforðabúr Hraunamanna og Álftnesinga og eitt besta beitarland, sem völ hefur verið á á Reykjanesskaganum. Stefnan var tekin upp fyrir Þrísteinsvörðu með beina stefnu á Fjallgrensvörðuna. Austan hennar var beygt til suðurs og miðið sett á Fjallsgreinin norðan Sauðabrekkugjárgígaraðarinnar ofan Sauðabrekkugjár.

Grenin eru a.m.k. tvö. Það austara er merkt með lítilli vörðu, en norðvestan við það vestara er hlaðið skjól fyrir refaskyttuna. Skammt vestar er hlaðið byrgi í lítilli klettasprungu. Frá því sést vel yfir neðri hluta hraunsléttunnar norðan grenjanna. Skolli hefur ekki getað komist þeim megin að grenjunum óséður.
Þá var haldið upp í Skjólið í Sauðabrekkugjárgígunum. Það er í einum gíganna. Gengið er inn um þröngt op, en þegar inn er komið er þar rúmgott skjól. Innsti hluti gólfsins hefur verið flóraður svo þar hefur verið hið besta bæli. Gluggi er á skjólinu, en hella fyrir. Op er fyrir stromp. Separ eru í loftum svo þarna inni er fagurt um að litast. Að öllum líkindum hefur þetta verið afdrep fyrir refaskytturnar í Fjallsgrenjunum – og jafnvel aðra er leið áttu um og þekktu vel til, því opið er ekki auðfundið.
Meginhluti Almennings er hraun úr Hrútargjárdyngju. Þó má sjá yngri hraun þar inni á milli, s.s. hraun úr gígum Sauðabrekkugjár. Hraunið hefur verið þunnfljótandi og líklega tekið fljótt af. Meginhluti hraunsins er, líkt og gígarnir, norðan gjárinnar, en hún er auk þess að vera sprunga er Sauðabrekkugjá misgengi. Það er mest áberandi efst í gjánum, upp undir austanverðum Sauðabrekkum. Lítill hrauntaumur hefur runnið til austurs, myndar þunnfljótandi tjörn og m.a. fyllt upp samhliða djúpa sprungu austan Sauðabrekkugjár. Einungis lítill hluti, sennilega sá dýpsti og breiðasti, hefur “lifað af” fljóðið, en á veggjum hans má sjá hvernig þunnfljótandi hraunið hefur smurt veggina. Um merkilegt jarðfræðifyrirbæri er þar um að ræða.
Og þá var að hefjast handa við að greina Hrauntungustíginn frá þeim stað er hann kemur inn á gjána. Stígurinn sést mjög vel austan gjárinnar og er auðrakinn þaðan áleiðis að Hrútárgjárdyngu. Þá er hann mjög áberandi ofan við gjána þars em hann liggur um slétt helluhraun Sauðabrekkugjárgíganna. Hraunið er einungis þakið mosa, en að mestu ógróið að öðru leyti er segir nokkuð til um aldur þess.
Skammt norðvestan gíganna beygir gatan upp á hrauntjarnarbrún með stefnu til norðurs. Stígar þar geta auðveldlega

Fjallgrensvarðaafvegaleitt fólk, en ef mjög vel er að gáð má sjá stíginn liðast “mjúklega” um hraunið. Þar er hann bæði breiður og augljós. Austan við stíginn er jarðfall og í því rúmgóður skúti (gott skjól – 6359316-02200230). Þá heldur stígurinn áfram um annars nokkuð slétt hraunið. Þessi kafli hefur afvegaleitt marga, en að þessu sinni voru kjöraðstæður til rakningar. Stígurinn sást mjög vel í hrauninu. Þegar komið er út úr nýrra hrauninu taka við gróningar. Þar stefnir stígurinn til vinstri, áleiðis að Fjallsgrensvörðu, sem er áberandi á þessari leið.
Við vörðuna greinist Hrauntungustígur í tvennt, vinstri og hægri, en báðir angarnir koma saman á ný neðan við holt eitt (varða á því) suðvestan Hafurbjarnaholts. Þaðan liðast stígurinn um norðanverðan Almenning að Gjáseli og frá því áfram inn á Skógræktarsvæði ríkisins. Þar hefur trjám verið plantað í stíginn. Vörðurnar má sjá í skóginum, en nauðsynlegt er að saga niður þau tré, sem eru í stígsstæðinu, enda bæði ágætt og skemmtilegt að leyfa stígnum að halda sér um hraunið niður að Hrauntunguopinu. Stígurinn liggur inn í tungurnar og er augljós, framhjá hlöðnu Hrauntunguskjólinu og að brún þeirra að norðanverðu. Þar hefur hrauninu verið eytt sem og stígnum.
Ef haldið er áfram yfir hrauntungusvæðið og stefnt á vörðu þar að handan kemur stígurinn í ljós að nýju. Þar sést hann vel þar sem hann liðast niður að Krýsuvíkurvegi. Vestan vegarins er slétt hraunhella og færi vel á því að gera þar lítið bílastæði og láta stíginn enda við það. Óþarfi er að rembast við hann lengra, enda svæðið þar austan við nú óðum að byggjast óðslega upp til lengri framtíðar.
Um er að ræða fallega gamla þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Hér að framan er lýst þeirri leið stígsins, sem telja verður skemmstan þar á millum. byrgiGengið er um fallegt hraunlendi með miklu og stórbrotnu útsýni á allar hendur – alla leiðina.
Ástæða er til að viðhalda hinum mörgu gömlu þjóðleiðum á Reykjanesskaganum. Vaxandi áhugi er meðal fólks að fá tækifæri til að feta í fótspor forfeðra og – mæðra og njóta þess umhverfis og þeirrar náttúru er þau urðu aðnjótandi fyrrum.
Ef leiðin væri gengin enda á milli tæki það ca. 6 klst.
Frábærlega skemmtilegt slagveður er setti dulúðlegt yfirbragð á fjarrænt útsýnið. Vel mátti ímynda sér hvaða takmarkaða skjól fólk fyrr á öldum hafði af fatnaði sínum við þær “hefðbundu” aðstæður er nú voru á svæðinu. Þátttakendur voru nú í þeim besta hlífðarfatnði, sem völ er á, en gegnblotnuðu samt. Á móti kom að tiltölulega hlýtt var í veðri svo gangan var fyrst og fremst ánægja yfir að uppgötva “týnda” hlekkinn sem og kærkomið tækifæri til að grandskoða svæði, sem sjaldan er gengið – af fáum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Sauðabrekkuhellar

Gengið var niður að gígnum í Hrútagjárdyngju frá Djúpavatnsvegi (Undirhlíðaleið), yfir Hrútagjá og gamalli götu fylgt niður (norður) slétt mosagróið helluhraun austan við úfin hraunkant uns komið var Dyngjugrenjunum nyrst í brúninni áður en hraunið lækkaði til norðurs, í átt að Stóru-Sauðabrekku. Milli hans og brekkunnar eru Sauðabrekkuhellarnir sagðir vera, nokkrir hellar í stórum hraunbólum. Í örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík eru þeir nefndir Moshellar.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum (gígur).

Nefnt Sauðabrekkuskjól er í Sauðabrekkum, en einungis FERLIR hefur hingað til tekist að staðsetja það [2001]. Að hellunum liggja götur úr þremur áttum. Einni þeirra var fylgt til austurs uns komið var að Skjólinu, fallegu sæluhúsi í mjórri hraunræmu í annars grónu hrauninu. Lítil varða er skammt norðan við sæluhúsið. Þá var haldið upp í Hrútagjárhella og síðan til baka um nyrstu Hrútagjárhrauntröðina, upp í þá austustu og áfram að upphafsstað.

Hrútagjárdyngja

Hrútagjárdyngja.

Undirhlíðaleið hefst við Kaldársel og liggur norðan Undirhlíða yfir Bláfjallaveg að vatnsskarði. Þar er farið yfir Krýsuvíkurveg og gengið með Sveifluhálsi um Norðlingasand og Sandfellsklofa upp að Hrútagjárhrauni, yfir Norðlingaháls um Stórusteinabrekku, framhjá Köldunámum, um Hofmannaflöt í áttina að Katlinum. Ketilsstígur liggur yfir Sveifluháls framhjá Arnarvatni að Seltúni og þar taka heimalönd Krýsuvíkur við.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þegar komið var yfir fyrstu stóru sprunguna efst í Hrútagjá tók við tiltölulega slétt hraun vestan við austurtröð dyngjunnar. þegar komið var að enda hennar blasti dyngjuopið við. Það er hringlaga og reglulegt. Ljóst er að hraunið hefur bullað og kraumað í gígnum eftir að eiginlegu hraungosi lauk.

Hrauntaumurinn í austurtröðinni hefur runnið til baka í átt að gígnum og hraðkólnandi apalhraun hefur hrúgast upp norðan gígsins. Þegar staðið er á brún “hrúgaldsins” er horft yfir slétt hellurhraunið norðan af því. Það hraun hefur runnið áður og er dæmigert dyngjuhraun. Sérkennileg hrauntota kemur úr suðri, frá Mávahlíðahnúk, þar sem hraunið er allt markbrotið í hellur þvers og kruss. Svo virðsit sem hraun hafi náð aðskríða undir hið elda og brotið það upp á kafla. Norðan og austan viðþað er slétt og greiðfært helluhraunið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Gömul gata liggur norður hraunið með stefnu á brúna yfir Sauðabrekkugjá sunnan við Stóru-Sauðabrekkur. Hún stefnir beint á Dyngjugrenin. Þau eru í hraunæðum fremst í brúninni. Varða er við grenin þar sem skjól refaskyttunar hefur verið. Frá því er gott útsýni yfir hraunbreiðuna neðanverða, milli brúnarinnar og Stóru-Sauðabrekkna.
Stutt er yfir að Sauðabrekkuhellum, en svo nefnast nokkrir hraunhellar sunnan Stóru-Sauðabrekku. Þar á meðal er Sauðabrekkuskjól, sem smalar Hraunamanna nýttu fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Hellarnir eru fallegar, bjartar og rúmgóða hraunbólur. Ein er sýnum stærst; Sauðabrekkuskjólið. Op þess nýr til austurs. Það hefur rúmað góðan fjárhóp, auk þess sem innan þess er hið ágætasta mannaskjól. norðaustan við skjólið er falleg hraunbóla. Einnig á gjárbarmi norðan þess. Austan skjólsins er hægt að ganga niður um sprunguenda og er þá komið inn í dimmara skjól, en rúmgott. Best er að finna hella þessa með því að koma að þeim úr suðri, líkt og nú var gert.

Híðið

Híðið – op.

Sauðabrekkuskjólið sást vel á loftmynd, sem var meðferðis.
Götu var fylgt til austurs frá hellunum. Var þá, eftir stutta göngu, komið að Skjólinu, gömlu sæluhúsi nálægt Hrauntungustíg. Gengið hefur verið vel um Skjólið. Það er opið til suðurs. Hleðslur hafa verið við opið, en þær eru nú að mestu fallnar niður í það. Einhverju sinni fyrrum hefur meri orðið úti eða endað lífdaga skammt frá skjólinu. Sjá má enn þann hluta beinagrindarinnar, sem refurinn hefur ekki hirt.
Haldið var áfram upp í Hrútagjárhella. Hellarnir er samheiti fjölda hella sem eru í nokkrum hraunrásum vestan við Fjallið eina. Þetta er spennandi hellasvæði, en rétt er að fara varlega því víða leynast sprungur og glufur í hrauninu. Margir hellar eru í hrauninu og sumir þeirra alllangir. Sjá má hvar opnar hafa verið rásir og má fylgja sumum þeirra langar leiðir inn undir hraunið.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Hrútagjárdyngja er í rauninni heimur út af fyrir sig með sínum stórkostlegu hrauntröðum, hrikalegu gjám og upplyftingum á jöðrum meginsvæðisins. Talið er að dyngjan hafi gosið fyrir u,þ.b. 5000 árum. Hún er því með yngstu dyngjunum á Reykjanesskaganum.
Í Hrútadyngjuhrauni er margir hellar. Í ferðinni var m.a. kíkt á Neyðarútgöngudyrahelli. Steinbogahelli eða Hellin eina, Langahelli, Aðventuna, Húshelli, Híðið og fleiri, sem ekki hafa enn fengið nöfn.
Hraun frá dyngunni hafa runnið frá Hvaleyrarholti vestur í Vatnsleysuvík og austur að Undirhlíðum og niður í Sandfellskola. Til suðurs hafa einnig runnið hraun frá dyngjunni, nú að mestu þakin yngri hraunum. Jón Jónsson telur lágmarksútbreiðslu hraunsins ekki undir 80 ferkílómetrum og rúmmálið um 3,2 rúmkílómetra.

Húshellir

Í Húshelli.

Sumir hellanna eru yfir 100 metra langir. Híðið er a.m.k. 500 m að lengd. Í honum er viðkvæmar dropsteinamyndanir og sumir allháir. Hellirinn eini er um 170 metrar, en hann er víða lágur er innar dregur. Í Húshelli, sem fannst 1988, er hlaðið skjól. Það er fallegt og greinilega gamalt.
Gengið var upp í norðurtröð Hrútagjárdyngju og henni fylgt til suðurs. Leiðin er greiðfær. Í fyrstu liggur hún um helluhraun, en ofar liggur hún um gróna rás. Þá var komið að eystri hrauntröðinni. Gengið var niður í hana norðanverða og henni síðan fylgt til suðurs. Hrauntröðin er tvískipt að austanverðu, en hún hefur rúmað mikla hrauná þegar atgangurinn var hvað mestur.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Dyngjur

Dyngjur og Mávahlíðar.

Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.