Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman við Ketilinn þar sem Ketilsstígur tekur við.
Ætlunin var að fylgja enn einni leiðinni af Ketilsstíg/Rauðamelsstíg frá Hrúthólma að Hrauntungum. Þessi kafli leiðarinnar hefur einnig verið nefndur Hrúthólmastígur.
Götur og stígar, sem legið hafa saman, hafa gengið undir fleiru en einu nafni. Þannig var stígurinn er lá upp frá Óttarsstöðum, yfir Alfaraleið og um Óttarsstaðasel ýmist nefndur Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur. Ein leiðin lá áfram upp úr selinu inn í Hrúthólma og önnur um Skógarnefið. Þar greindist hún í tvennt og hét hin anginn Mosastígur er lá upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Lagt var af stað frá Katlinum með Hrútafelli í Hrúthólma, niður með Mávahlíðahnúk að Sauðabrekkugjá, framhjá Fjallsgreni, um Almenning, niður í og inn í Hrauntungur og að Krýsuvíkurvegi. Áætlaður göngutíma var 5 klst og 5 mín. Í leiðinni var tilgangurinn m.a. að rekja og staðsetja stíginn í hraununum ofan og neðan við Almenning, en þar greinist hann í nokkrar leiðir og er hvað ógreinilegastur í mosa, lyngi og kjarri. Hefur sérhver valið sér hentuga leið, allt eftir tilgangi og tilefni ferðar hverju sinni. Gatan er greinileg í sléttu hellihrauninu, en ógreinlegri þar sem hraunið verður fjölgrónara og óreglulegra. Með lagni er þó hægt að rekja nokkra anga hennar áleiðis niður í Hrauntungur, þar sem þær sameinast ofan þeirra.
Leiðin frá Katlinum liggur um veg undir vestanverðum Sveifluhálsi, að Djúpavatnsvegi. Við gatnamótin er hlið á beitarhólfsgirðingu. Í dag má þar sjá stikur Undirhlíðavegar sem liggur undir hlíðunum að Kaldárseli og Ketilsstígs er liggur áfram niður hraunið til norðurs. Í Hrúthólma liggja saman Rauðamelsstígur og Hrauntungustígur, sem fyrr segir.
Ketilsstígurinn hefur, sem fyrr segir, verið stikaður spölkorn til norðurs, eða að mótum Reykjavegar (stika 58). Reykjavegur er nútímagöngustígur, 114 km langur, er stikaður var af stórhug milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Færa þarf þær stikur ca. 30 m til austurs svo einungis ein leið verði stikuð þessa leið á þessu svæði. Gatan þar er greinileg þar sem hún liggur um slétt helluhraunið.
Þarna, austan Hrútafells, er gott útsýni til Fíflavallafjalls og gíganna norðvestan Hrútafells. Teljast verður til tíðinda að svona mikilfenglegir, mosavaxnir, hraungígar skuli vera nafnlausir. Norðar, undir Fíflavallafjalli, eru Stórusteinabrekkur.
Norðaustan Hrútafells eru gatnamót “Ketilsstígs” og Reykjavegar. Þar eru um nýlega tilbúna götu að ræða þar sem Reykjavegur liggur að norðurhlíðum Hrútafells. Skammt norðar (GPS: 6356145-2203351) eru gömul gatnamót “Ketilsstígs” og götu er liggur að Lækjarvöllum norðan Hrútafells. Eðlilegra hefði verið að láta Reykjaveginn liggja eftir þeiri götu, sem vel er mörkuð í landslagið.
Auðvelt er að rekja stíginn (sem enn er óstikaður) að Hrúthólma. Hann er í rauninni óbrennishólmi (hæð) umlukinn hrauni frá nútíma (sennilega 1151). Norðvestar eru Mávahlíðar, ílangar og tignarlegar. Norðar er Mávahlíðahnúkur. Á leiðinni er fallegur, stór, rauðleitur gjallgígur, enn einn slíkur frá nútíma – nafnlaus. Segja má með sanni að svona stór gjallgígur verði að hafa nefnu. Það myndi auka gildi hans til mikilla muna – og jafnframt varðveislugildi til lengri framtíðar (aldrei að vita hvað stórhuga athafnamenn með mikilvirk véltæki dettur í hug á skömmum tíma þegar efni eru annars vegar). Seinni tíma ferðalangar hafa reyndar gefið gíg þessum nafn: “Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni)”. Sagan er vel við hæfi því þarna eru nokkur hraunskil er orðið hafa til á tiltölulega skömmu tímabili (á jarðsögulegum tímakvarða).
Hrúthólmi er vel grasi gróinn í hlíðum, en ber á “skalla” vegna gróðureyðingar seinni tíma. Af honum er gott útsýni til allra átta. Má af honum kenna fjallahringinn. Leiðin um stíg niður að Búðarvatnsstæði og áfram niður í Óttarsstaðarsel liggur norðvestur af honum, en gatan um Hrauntungustíg liggur til norðurs. Leiðin liggur með austanverðum hólmanum. Þaðan er auðvelt að glöggva sig á framhaldinu.
Í Hrúthólma er sérstakur sveppur á haustin (hér nefndur Hrúthólmasveppur). Hann er gulari, minni og fagurleitari en aðrir sveppir á og við leiðina sem og víðasthvar á þessu svæði.
Mávahlíðar eru norðvestan við Mávahlíðar og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur.
Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Á leiðinni er þarflegt vatnsstæði. Það er hægra megin götunnar, í skjóli við skeifulaga hraunhóla. Við þá eru gatnamót götu er liggur í gegnum úfið hraunið frá Hrútargjárdyngjubrúninni.
Skammt norðan við Hrúthólma er bæði sérkennilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri, ekki ólíkt brotahring. Hér mætti kalla fyrirbærið “brotaberg”. Það er austan götunnar. Um er að ræða afmarkað hraunssvæði. Hraunhellan, um 30-40 cm þykk, þá nýstorknuð, hefur brotnað upp vegna mikils undirliggjandi þrýstings glóandi hraunkviku er ekki hefur fundið sér auðveldari áframhaldandi leið undan hallanum. Glóandi kvikan hefur síðan náð að bræða grannbergið og þrýstingurinn minnkað. Í látunum, sem væntanlega hefur tekið mjög skamman tíma á jarðsöglegan mælikvarða, reis brotna hraunhellan upp í einingar og má berja þær augum á þessu tilkomumikla svæði.
Gatan er slétt og stefnir á Sauðabrekkur, sem sjást vel framundan. Varða á hraunbrún á hægri hönd. Við hana liggur gata upp með fyrrnefndri brotahraunraönd, að vesturbrún Hrútargjárdyngju (Reykjaveginum).
Að þessu sinni var ekki leitað að fyrri uppgötvun FERLIRs. Þá fundust í nálægri hraunæð gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var á sínum tíma tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar “dýri” beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Hrauntungustígurinn liggur að og vestan við Sauðabrekkuskjólin. Syðsta skjólið er stærst og tilkomumest. Stundum haf skjólin verið nefnd Sauðabrekkuhellar. Smalar Hraunamanna nýttu þessi skjól fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Þá er og ekki ólíklegt að ferðalangar um Hrauntungustíg hafi haft þar athvarf um stund þegar veður voru hundum óhagstæð.
Í nyrsta skjólinu má sjá leifar beina af hrossi. Ekki er ólíklegt að þarna geti verið um hluta af fyrrnefna hrossinu að ræða. Beinin eru mosavaxin, en vel greinileg.
Frá Sauðabrekkukjólunum er gatan ógreinileg. Með lagni má þó rekja hana áleiðis að Sauðabrekkugjárgígunum, norðvestan gjárinnar. Gjáin sjálf er fallegt og tilkomumikið misgengi (N og S). Þegar sólin skín er veggurinn, sem snýr mót austri, ljós yfirlitum, en í regni verður hann svarleitur. Um svo til miðja gígaröðina liggur Hrauntungustígur þvert á gjána á greiðfærasta stað. Varða vísar leiðina.
Áður en komið er að gjánni, þ.e. austan við hana, liggur gata áfram til norðurs. Hægt er að velja hana ef halda á niður að Fornaseli. Þetta er beinasta leiðin þangað, en býsna óljós á köflum.
Ofan við Sauðabrekkugjár er gígaröð. Í syðri röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún er fjarlægð birtir verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðvestan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Stórholtsgrenin eru nokkru norðar, vestur undir Hafurbjarnarholti, en Gamlaþúfa er þar skammt vestar.
Þarna er Hrauntungustígurinn vel greinilegur, uns komið er að lágri hraunbrún. Með lagni, og réttum birtuskilyrðum, má sjá stíginn í gegnum mosahraunið, stundum grannan og stundum breiðan. Þá virðist hann hverfa, en Fjallsgrensvarðan framundan segir til um leiðina. Við hana greinist gatan í tvennt; annars vegar til hægri og hins vegar til vinstri. Hægri leiðin liggur beinna við Hrauntungunum, en hún er ógreinilegri. Vinstri leiðin, sem hér var valin, er greiðfærari og liggur með holtum og hæðum, áleiðis að Straumsselsstíg og Straumsseli. Vörður vísa leiðina (stundum reyndar litlar á löggiltan vörðumælikvarða alfaraleiðanna). Sú leið er rakin var greinir götuna á köflum þar sem hún kemur upp úr gróningunum og myndar áför á hraunhryggjum. Hún hlykkjast áleiðis að og austru fyrir Hafurbjarnaholt. Það mun vera kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum. Ekki má tengja þá frásögn Hafurbjarnastöðum innan við Sandgerði þar sem beinin fundust fyrrum og sjá má nú undir glergólfi Þjóðminjasafnsins.
Héðan verður að nota öll þau skilningavit, sem Guð gaf, ef rata á rétta leið. Með mikilli gaumgæfni, hiki, efassemdum og niðurstöðum er hægt að rekja sig eftir landslaginu, áleiðis niður að Brunntorfum. Gatan er hlykkjótt, en jafnan farið um lænur og gróninga. Jarðhallinn er bæði eðlilegur og sanngjarn; hvorki yfir sprungur að fara né brúnir.
Þegar komið var að brúnum Brunntorfanna var hægt að velja a.m.k. þrjár leiðir; um vestanvert Fornasel, leið um hraunlægð vestan hennar eða leið millum Fornasels og Gjásels. Þar eru gatnamót leiðar milli seljanna, vel greinileg og vörðuð. Valin var leiðin “á millum”. Þá var komið að skógarbrún Skógræktar ríkisins.
Með góðu móti var hægt að rekja sig niður gróna hraunhlíðina og gegnum skóginn. Ljóst er að þar þarf að ráðast í léttvægt skógarhögg á einstaka stað til að greiða fyrir einni rein Hrauntungustígsins eins og hann var fyrrum. Það ætti bæði að þykja eðlilegt og sjálfsagt því skógræktarfólk hefur fyrr á áratugum farið allfrjálslega með staðsetningu sína á nýgræðlingum. Víða hefur verið plantað í gamlar götur og jafnvel fornminjar. En vitund og vitneskja hinna sömu hefur vonandi breyst með betri upplýsingu í seinni tíð.
Þegar komið var norður fyrir skógræktarlundinn lá gatan augljós framundan – í gegnum Hrauntungur. Á landakortum eru Hrauntungur rangt staðsettar (en það er nú önnur saga, eða sögur, því mörg eru rangnefnin á þeim greyjunum). Við götuna er Hrauntunguhellrar, fyrirhleðsla um skúta er birkihrísla hefur nú hlulið. Varða er ofan við. Sagt er að í Hrauntungum sé óhreint, þ.e. fólk hefur á ferðum sínum bæði séð og skynjað ýmislegt er “óhreint” getur talist. Frásagnir um slíkt hleypti þátttakendu kappi í kinn, enda ekki vanþörf á eftir langa göngu.
Við enda Hrauntungustígsins, áður en hann fór upp á Brunabrúnina, situr nú settlegur hraunkarl er fylgist bæði vel með öllu er gerist og ekki gerist.
Í dag kemur Hrauntungustígurinn upp í nútímagryfjur Skógræktar ríksisins í Brunanum (Nýjabruna/Háabruna). Þær eru sem minnisvarði, eða a.m.k. áþreifanlegur vitundarvottur um það er þröngsýn hagsmunaöfl selja ómetanleg framtíðarverðmæti sýnum eigin metnaði til framdráttar. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, að í gegnum Brunann hafi verið “rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðm tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessr vegabætur og eru þær sennilega fyrstu vegabætur sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur”.
Vörðu hefur verið þyrmt á hraunhól í gryfjunum. Líklega hefur sú varða verið við stíginn í gegnum fyrrum hraunið. Önnur varða er norðvestanvert við gryfjurnar. Þar liggur Hrauntungustígurinn niður á slétt hellurhraun Hellnahrauns og áleiðis að skarðinu á Ásfjallsöxinni. Tilkomumikill hraunkarl er á hægri hönd við götuna.
Í þessari ferð endaði gangan við sunnanverðan Krýsuvíkurveginn. Þar er slétt helluhraun á kafla milli úfins aplahrauns Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Gatan lá áfram til norðurs norðan vegarins, en nú er búið að gera veg ofan í hann að fiskhjöllum. Frá þeim lá leiðin um Dalinn norðan Grísaness og um fyrrnefnt skarð (Hádegisskarð) á Ásfjallsöxlinni – að Ási og áfram niður til Hafnarfjarðar.
Áður fyrr lá leiðin millum staða, sem ferðalangar eða “þurfalingar” þurftu að fara af ýmsum ástæðum. Þá var hún langt torfæri. Í dag er leiðin kærkomið tækifæri til að sjá og skynja, bæði fyrrum sögu og ekki síður stórbrotið útsýni og jarðsögu svæðisins. Það að ganga þessa leið, sem og aðrar, kostar í rauninni einungis þægilegt strit og eðlilegt skóslit, en ávinningurinn er slíkur að enginn, sem á annað borð er sæmilega göngufær og getur slitið sig frá sjónvarpsglápi eða öðrum ávana, ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara.
Ekki er raunhæft að nefna Hrauntungustíg svo nema frá Hrúthólma. Þar koma saman Rauðamelsstígur, sem fyrr segir, og er liggur síðan áfram að Ketilsstíg. Hvort og hvaða götur megi telja svonefnda “heilsársstíga” er erfitt um að segja. Að öllum líkindum voru þeir allir, meira og minna eða misjafnlega, eftir aðstæðum, farnir allt árið. Ljóst er að Hrauntungustígurinn er einungis ein leiðin af nokkrum á þessu svæði. Auk þess ber að hafa í huga að Hrauntungustígurinn norðanverður var ekki “einn” heldur og nokkrar leiðir milli sömu endamarka.
“Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg” (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Það áttu samt ekki allir hesta, samanber gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Ólafur Þorvaldsson greindi m.a. frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.” Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Og ekki var ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum (JG).
Gengnir voru 18 km, þ.e. milli Ketilsins í vestanverðum Sveifluhálsi að Krýsuvíkurvegi.
Frábært veður – sól og blíða. Gengið var í 4 klst og 40 mín. Alls tók ferðin, með leitum og áningum, 6 klst og 30 mín.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.
-Jónatan Garðason