Færslur

Seltún

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson “Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“.

„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma”.

Ólafur Þorvaldsson

Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.

Krýsuvíkurgötur
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata.

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.

Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.

Köldunámur

Köldunámur.

Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Seltún

Seltún.

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.

Seltún

Seltún.

Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.

Grænavatn

Grænavatn.

Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgatan milli Grænavatns og Krýsuvíkurbæjar.

Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.

Snókalönd

Snókalönd.

Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd”.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur norðan Snókalanda.

Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur – vegvísir.

Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.

Hrúthólmi

Hrúthólmi.

Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur (Rauðmelsstígur).

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.

Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.

Gvendarsel

Askur í Gvendarseli við Bakhlíðar.

Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Krýsuvíkurvegurinn um Helluna undir Sveifluhálsi. Dalaleiðin lá ofar á Hellunni.

Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.

Gullbringa

Gullbringa.

Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:

Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.

Slysadalur

Slysadalur.

Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur – Helgafell fjær.

Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.

Kaldársel

Kaldársel – gamla gatan.

Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.

Litli-Nýibær

Litli-Nýibær í Krýsuvík.

Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.

Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ás

Bærinn Ás ofan við Hafnarfjörð hefur jafnan látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að eiga sér langa og merka sögu.

Ás

Gamli bæjarhóllinn.

Í Örnefnaskrá segir að landamerki fyrir umboðsjörðina Ás í Garðahreppi séu: “Stefna á Fuglastapaþúfu fyrir vestan Skarð austast á Grímsnesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús”
Í Örnefnaskrá segir enn fremur: “Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim er lágu við fjörðinn”.

Ás

Gamli bærinn.

Í Jarðabók frá 1703 segir m.a.:
“Jarðardýrleiki á kóngsins parti er óviss og veit enginn neitt til að segja.
Jóns Peturssonar part segja menn almennilega vera iii [symbol] lxxx álnir, er þetta þó nokkuð á óvissu, þar bóndaeignin engvum tíundast nje tíundast hefur það menn til vita. Er sögn manna að þessi bóndahlutans tíund niður falli fyrir örðugan hreppamanna flutning yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum; sýnist líklegt að jörðin muni til samans öll xii [symbol] verið hafa, og væri þá kóngsparturinn viii [symbol] og xl álnir.
Eigandinn að meira hlut jarðarinnar er kóngleg Majestat, að minna hlut Jón Petursson á Hlíði lögrjettumaður. Ábúandinn Þórður Jónsson.
Landskuld af kóngsins parti er lx álnir, af bóndaeigninni xx álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandinn af báðum pörtunum.
Leigukúgildi með kóngsins parti í, með bóndaeigninni i. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eftir kóngskúgildið. En eftir bóndans kúgildið ýmist í smjöri eður fiski heim til eigandans eður í kaupstað. Kóngskúgildið uppýngdi í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer. So hafa og eignarmenn bóndahlutans eftir þörfum uppýngt sitt kúgildi.

Ás

Fjósið frá 1904.

Kvaðir af kóngspartinum eru mannslán um vertíð, sem leyst hefur verið stundum með einuri vætt fiska, stundum með því að ljá umboðsmanninum eitt tveggja manna far leigulaust um vertíð.

Ás - Stekkur

Ás – Stekkur í Hádegisskarði.

Item einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða; þótti næst umliðið ár umboðsmannsins fólki sá hrísshestur ekki nógu gildur, er bóndinn færði; var hönum því tilsagt að bæta þar við, og færði hann annan hrísshest lakari í því nafni. Hjer að auki einn dagsláttur heim til Bessastaða, og fæðir bóndinn sig sjálfur. Stundum hafa skipaferðir kallaðar verið og jafnvel nokkrum sinnum fleiri en ein á ári, fæðir þá bóndinn sig sjálfur. Í fyrra og margoft áður var maður heimtur að þjóna að húsastörfum staðarins á Bessastöðum og fæðir bóndinn verkmanninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem manninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem hann var umboðsmaður, og so í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer, eitt lamb í fóður hvört ár þessara þriggja með jörðinni. Hafði sú kvöð aldrei verið það menn til minnast, og hefur bóndinn ekkert fyrir það fóður þegið. Hjer á ofan voru í hittifyrra ár af Jens Jurgenssyni og nú í sumar af Páli Beyer útheimtur heyhestur til að fóðra kvikfjenað þann, er fálkanum var ætlaður til fæðis á útsiglingunni, og bóndanum sjálfum skikkað að flytja heyið inn í Hólmskaupstað. Þessi kvöð hafði og fyrr aldrei verið það menn muna. Áður þegar fálkarnir sigldu á Básendum og Keflavík var bóndanum skikkað að láta mann á tje til að bera fálkana ásamt öðrum frá Bessastöðum suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að öllu. Þessi kvöð var og aldrei fyr en í Ás

Innviðir fjósflórsins.

Heidemanns tíð og þaðan í frá iun til þess er fálkarnir sigldu með Hólmsskipi. Bóndinn gaf manninum xx álnir, sem hans vegna fór í þessa för, og fæddi hann. Á bóndans parti eru kvaðir alls öngvar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, viii ær, í sauður tvævetur, vii veturgamlir, viii lömb, i foli þrevetur. Fóðrast kann iii kýr og í úngneyti. Heimilissmenn iiii.

Ássel

Ássel við Hvaleyrarvatn.

Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.
Hrísrif hefur jörðin í almenningum til kolgjörðar og eldiviðar.
Lýngrif er í heimalandi brúkað nokkurn part til eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.
Torfrista og stúnga lök og lítt gagnvænleg.
Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margrét Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugu árum.

Ás

Norðurtúnsgarðurinn.

“Í lýsingu Selvogsþinga eftir síra Jón Vestmanns segir m.a. Kaupstaðavegur til hafnarfjarðar liggur úr Selvogi yfir Grindarskörð, stífgild þingmannaleið yfir fjallgarðinn nr. 1, brattur og grýttur mjög. Frá Krýsuvík liggur annar vegur til sama kaupstaðar nefndur Ketilsstígur, þrír partar úr þingmannaleið að lengd grýttur og brattur sem hinn. Hlíð í Selvogi er næsti bær við Grindarskarðsveg, en Litli-Nýibær í Krýsuvík næst við Ketilsstíg. Ás í Garðasókn á Álftanesi er næst[i] bær við Ketilsstíg að vestan er Hafnarfjörður í sömu sókn næstur Grindarskarðarveg að vestanverðu.
Lýsing Garðaprestakalls 1842 eftir síra Árna Helgason segir m.a.: Þar eru taldir upp bæir í sókninni og einn af þeim er Ás með tómthúsi. Einnig eru taldir upp alfaravegir, og er sá syðsti sem liggur upp í Krýsuvík, liggur hann frá Ási Garðasókn, og heitir Stórhöfðastígur.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a.:
Álftaneshreppur. Ás, jarðarnúmer 169; jörðin er í kojungseign. Dýrleiki er 12 hundruð, landskuld er 0.80, kúgildi tvö, ábúandi einn.
Jörðin Ás var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959 og bærinn eignaðist landið 1964.

Sjá eignarnámsskuldir Hafnarfjarðar gagnvart einstökum bæjum – https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Samkvæmt túnakorti frá 1918, er túnið á Ási 2.8 teigar og þar af helmingur sléttaður. Kálgarðar eru i, 670 m2.
Tún Stekks er talið 0.6 teigar, ýft að mestum hluta. Kálgarður 720 m2.

Ás

Ás-túnakort 1914.

Til er “Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði” 2005, en skráning sú verður að teljast í besta falli mjög hæpin. Skráningin sem slík veltir óneitanlega upp spurningunni um hvar takmörkin eru og eigi að vera á heimildum um opinberar samþykktir á slíkum skráningum hér á landi.

Stekkur

Bæjarstæði Stekks fyrrum.

Fyrst Ari Gíslason: “Jörð í Garðahreppi, næst Hvaleyri, nær ekki að sjó, vegna þess að Hafnarfjarðarbær er þar á milli. Upplýsingar um örnefni eru frá Oddgeiri Þorkelssyni að Ási.
Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Neðan við Stekksbæinn er lægð, grasi vaxin, sem heitir Leirdalur, og ve[stur] af Ásfjalli er Grísanes, hæð í Hvaleyrarlandi.
Norðan við bæinn að Ási er holtið nafnlaust, og brekkurnar þar næstar, sem tilheyra Ási, utan í fjallinu eru einnig nafnlausar. Slakki er í fjallinu, sem nefndur er Skarð. Þegar hallar svo niður af fjallinu sunnanverðu, koma þar börð og lægðir á milli. Þetta svæði er nefnt Grófir, og neðan þess tekur svo við svæði, sem heitir Lækir. Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness, Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því. Norðurendinn á Ásfjalli er nefndur Ásfjallsöxl, og þar er merkjavarða; svo í landsuður þaðan er varða á Bláberjahrygg, sem er á merkjum móti Jófríðarstöðum; svo eins og fyrr segir rétt við vatnsendann.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.”

Ás

Stríðsminjar á Ásfjalli.

Og í framhaldinu Gísi Sigurðsson: “Landamerki fyrir umboðsjörðinni Ás í Garðahreppi eru: Stefna úr Fuglstapaþúfu í þúfu fyrir vestan svokallað Skarð austast á Grísanesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Úr Fuglstapaþúfu fyrir vestan Guðbrandsbæ bein lína í austur í vörðu milli Áss og Jófríðarstaða; þaðan í vörðu norðan til við Ásfjallsöxl. Þaðan til suðausturs í vörðu á Bláberjahrygg; sama lína í Vatnsenda efri; svo í vörðu á Kjóadalshálsi; þaðan beint í vörðu á Miðhöfða; þaðan í Fremstahöfða; þaðan upp í Steinhús.
(Úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu).
Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim, er lágu við fjörðinn. Ás, bærinn, stóð á Bæjarhólnum, sem var um það bil í miðju Ástúni. Allt var túnið umgirt Ástúngörðum. Norðurtúngarður lá að ofan og vesturtúngarður að vestan, suðurtúngarður sunnan og neðan og austurtúngarður austan upp með fjallinu.
Heiman frá bæ niður Brekkuna lágu Suðurtraðirnar niður í suðurtraðarhlið. Um Austurtúnið rann Lækurinn. Túnlækurinn rann varla nema í rigningartíð og í leysingum. Neðan við Hólinn vestan bæjarins var Ásbrunnur, og að honum lá Brunngatan. Austan lækjarins var Lambhústún og þar lambhúsið. Í Norðurtúni var Hjallabrekka, og þar sem saman komu Austurtún og Norðurtún, Hjallabyrgi. Þar eru nú sumarbústaðir. Heiman frá bæ lágu Norðurtraðir og þar á mótum garðanna, norður- og vesturgarðs, var norðurtraðarhlið. Ofanvert við traðirnar nyrzt var flöt, nefndist Dansflöt, en neðan traðanna var Fjarðarflöt, en þar niður af þýfður hluti, nefndist Harðhaus.
Utan suðurhliðs var Stöðullinn, þar fyrir neðan var kargþýfður mói, nefndist Ásmói, sem sumir nefndu Ásumói. Þá var þar neðar Ásmýri eða Mómýrin. Þar var mótak, og suður af var Móholtið. Þangað var mórinn borinn frá mógröf og þurrkaður. Út frá vesturtúngarði neðarlega var uppspretta, nefndist Áslindin. Þar var vatnsból fyrir Ás, ef brunninn þraut.

Ás

Bæjarlækurinn.

Vestur í holtinu var önnur uppspretta, sem var kölluð Lindin. Þar var vatnsból frá Stekknum.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Ofar hér í holtinu voru Börðin, þau hafa nú verið jöfnuð út, og er þar komið allgott tún. Hér ofar taka svo við Ásmelar. Þeir liggja austan og ofan frá Ásholti, en norðan landamerkja eru garðlönd Hafnfirðinga. Ásvegur liggur frá Norðurtröðum norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti , síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.
Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.
Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur, og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar. Þaðan lá landamerkjalínan í Axlarvörðu á Ásfjallsöxl eystri, en neðan og vestan undir Öxlinni var svokallaður Dagmálahvammur. Suðvestur og upp frá Öxlinni var Ásfjall og þar á Ásfjallsvarða.

Ás

Upplýsingaskilti nálægt Ási.

Suður eða suðsuðaustur frá háfjallinu var klettastallur, nefndist Mógrafarhæð. Ekki er nú hægt að sjá, að mótak hafi verið hér í fjallinu. Landamerkjalínan liggur úr vörðunni suður á svonefndan Bláberjahrygg, sem er misgengisbrún og þaðan um Vatnshlíðargil austast í Vatnshlíðinni.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi.

Hæst á Vatnshlíðinni er svonefndur Vatnshlíðarhnúkur. En vestan á Bláberjahrygg er Bláberjahnúkur.
Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremsthöfðavörðu á Fremsthöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa. Landamerkjalínan á vesturmörkum mun svo liggja úr Steinhúsi norður eftir Langholti um Þormóðshöfða og Selhöfða, en efst á höfðanum er Borgin, fjárborg allstór um sig. Héðan liggur línan niður á Selhraun eða Seljahraun. Það liggur alveg að Hvaleyrarvatni. Við suðurhlið vatnsins er Hvaleyrarsel og innar Ássel. Þar má enn vel sjá móta fyrir seljarústum. Úr Seljahrauni liggur línan upp á Bleikisteinsháls. Bleikisteinsstígur liggur rétt við klöpp, sem nefnd er Bleikisteinn, en austur og upp frá hálsinum er Bleikisteinshnúkur. Bliksteinshnúkur, Bliksteinn, Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.

Ás

Steinn af æsi við Ás.

Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir. En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg. En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Síðan liggur landamerkjalínan norður af hálsinum norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekkinn í Fuglstapaþúfu. En Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði. Þaðan liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.”
Sjá einnig Ás og Ástjörn – friðlýsing Áss og Ástjarnar.

Til mun vera “Fornleifaskráning vegna samkeppni um skipulag í Áslandi og Grísanesi, Birna Gunnarsd. og Ragnheiður Traustad, 1996”, en sú skráning mun vera öllum öðrum hulin nema skráningaraðilunum sjálfum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Ás.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðssonar um Ás.
-Jarðabókin 1703.
-“Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði” 2005.

Ás

Ástjörn og nágrenni.

Ketilsstígur

Gengið var um Ketilsstíg frá Seltúni, yfir Sveifluháls með norðanverðu Arnarvatni, niður Ketilinn, eftir Móhálsadal, austur fyrir Hrútafell, niður í Hrúthólma ofan við Mávahlíðar, austur fyrir Mávahlíðahnúka, um Sauðabrekkur vestan Hrútargjárdyngju og niður í Brunntorfur þar sem endað var við gamalt fjárskjól frá Þorbjarnastöðum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur ofan Mosa.

Í leiðinni var komið við í hraunæð vestan Hrútargjár og kíkt á gömul bein, sem þar eru, litið á skjól í gíg ofan við Sauðabrekkur og skoðuð gömul refabyrgi ofan við Hafurbjarnarholt.
Seltúnið er talin vera gömul selstaða frá Krýsuvík. Einu minjarnar er lítil tóft á stórum grasbala sunnan við hverasvæðið. Hún gæti einnig verið minjar frá brennisteinsvinnslunni, sem þarna var stunduð um tvær aldir.
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust.

Krýsuvík

Krýsuvík – tóftir brennisteinsnámsins í Hveradal frá því um 1755.

Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum.

Krýsuvík

Brennisteinsnámurnar ofan Seltúns í Krýsuvík um 1880.

Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir.
Einu minjar námuvinnslunnar, sem enn sjást, er hluti af einni stíflunni neðan þjóðvegarins.
Þegar komið er upp á Sveifluháls er Arnarvatn á vinstri hönd og Arnarnýpa á þá hægri. Fallegt útsýni er er norður eftir hálsinum. Ofan við Ketilinn er varða. Stígurinn liggur í sveigum niður bratta hlíðina, niður á slétt helluhraunið fyrir neðan og stefnir á Hrútafellið. Gatan er bæði bein og slétt. Norðan Hrútafellsins beygir gatan meira til austurs, áleiðis að Hrúthólma. Alla þá leið er hún vel greinileg. Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni).

Hrúthólmi

Hrúthólmastígur – Hrúthólmi framundan.

Hrúthólmi er allgróinn. Mávahlíðar er norðvestan við hann og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells..

Gatan stefnir austur fyrir hnúkinn með stefnu á Sauðabrekkur. Á leiðinni var litið á hraunæðar vestan við Hrútagjá, en í henni eru gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar “dýri” beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Ofan við Sauðabrekkugjár eru tvær gígaraðir. Í vestari röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún var fjarlægð birti verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er lítil varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Líklega er þarna um að ræða byrgi þau er getið er um og eiga að vera austur af Hafurbjarnarholti, svonefnd Stórholtsgreni, en Gamlaþúfa er þarna skammt vestar.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Gengið var áleiðis norður í Brunntorfur með viðkomu í fjárskjóli í skútum. Hlaðinn er tvískiptur gangur fyrir framan opin, en inni eru rúmgóð skjól.
Frábært veður – sól og blíða. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

-Heimild um brennisteinsvinnsluna:
(Sveinn Þórðarson, 1998) af http://hot-springs.org/krysuvik.htm

Ketilsstígur

Ketilsstígur h.m.

Sauðabrekkuskjól

Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman við Ketilinn þar sem Ketilsstígur tekur við.
HrauntungustígurÆtlunin var að fylgja enn einni leiðinni af Ketilsstíg/Rauðamelsstíg frá Hrúthólma að Hrauntungum. Þessi kafli leiðarinnar hefur einnig verið nefndur Hrúthólmastígur.
Götur og stígar, sem legið hafa saman, hafa gengið undir fleiru en einu nafni. Þannig var stígurinn er lá upp frá Óttarsstöðum, yfir Alfaraleið og um Óttarsstaðasel ýmist nefndur Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur. Ein leiðin lá áfram upp úr selinu inn í Hrúthólma og önnur um Skógarnefið. Þar greindist hún í tvennt og hét hin anginn Mosastígur er lá upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Lagt var af stað frá Katlinum með Hrútafelli í Hrúthólma, niður með Mávahlíðahnúk að Sauðabrekkugjá, framhjá Fjallsgreni, um Almenning, niður í og inn í Hrauntungur og að Krýsuvíkurvegi. Áætlaður göngutíma var 5 klst og 5 mín. Í leiðinni var tilgangurinn m.a. að rekja og staðsetja stíginn í hraununum ofan og neðan við Almenning, en þar greinist hann í nokkrar leiðir og er hvað ógreinilegastur í mosa, lyngi og kjarri. Hefur sérhver valið sér hentuga leið, allt eftir tilgangi og tilefni ferðar hverju sinni. Gatan er greinileg í sléttu hellihrauninu, en ógreinlegri þar sem hraunið verður fjölgrónara og óreglulegra. Með lagni er þó hægt að rekja nokkra anga hennar áleiðis niður í Hrauntungur, þar sem þær sameinast ofan þeirra.
Leiðin frá Katlinum liggur um veg undir vestanverðum Sveifluhálsi, að Djúpavatnsvegi. Við gatnamótin er hlið á beitarhólfsgirðingu. Í dag má þar sjá stikur Undirhlíðavegar sem liggur undir hlíðunum að Kaldárseli og Ketilsstígs er liggur áfram niður hraunið til norðurs. Í Hrúthólma liggja saman Rauðamelsstígur og Hrauntungustígur, sem fyrr segir.
sveppurKetilsstígurinn hefur, sem fyrr segir, verið stikaður spölkorn til norðurs, eða að mótum Reykjavegar (stika 58). Reykjavegur er nútímagöngustígur, 114 km langur, er stikaður var af stórhug milli Nesjavalla og Reykjanestáar. Færa þarf þær stikur ca. 30 m til austurs svo einungis ein leið verði stikuð þessa leið á þessu svæði. Gatan þar er greinileg þar sem hún liggur um slétt helluhraunið.
Þarna, austan Hrútafells, er gott útsýni til Fíflavallafjalls og gíganna norðvestan Hrútafells. Teljast verður til tíðinda að svona mikilfenglegir, mosavaxnir, hraungígar skuli vera nafnlausir. Norðar, undir Fíflavallafjalli, eru Stórusteinabrekkur.
Norðaustan Hrútafells eru gatnamót “Ketilsstígs” og Reykjavegar. Þar eru um nýlega tilbúna götu að ræða þar sem Reykjavegur liggur að norðurhlíðum Hrútafells. Skammt norðar (GPS: 6356145-2203351) eru gömul gatnamót “Ketilsstígs” og götu er liggur að Lækjarvöllum norðan Hrútafells. Eðlilegra hefði verið að láta Reykjaveginn liggja eftir þeiri götu, sem vel er mörkuð í landslagið.
Auðvelt er að rekja stíginn (sem enn er óstikaður) að Hrúthólma. Hann er í rauninni óbrennishólmi (hæð) umlukinn hrauni frá nútíma (sennilega 1151). Norðvestar eru Mávahlíðar, ílangar og tignarlegar. Norðar er Mávahlíðahnúkur. Á leiðinni er fallegur, stór, rauðleitur gjallgígur, enn einn slíkur frá nútíma – nafnlaus. Segja má með sanni að svona stór gjallgígur verði að hafa nefnu. Það myndi auka gildi hans til mikilla muna – og jafnframt varðveislugildi til lengri framtíðar (aldrei að vita hvað stórhuga athafnamenn með mikilvirk véltæki dettur í hug á skömmum tíma þegar efni eru annars vegar). Seinni tíma ferðalangar hafa reyndar gefið gíg þessum nafn: “Norðan götunnar er fallegur eldgígur (Drekagígur – sagt er að drekinn hafi rutt úr sér hrauni á daginn, en flogið um og spúið eldi á nóttunni)”. Sagan er vel við hæfi því þarna eru nokkur hraunskil er orðið hafa til á tiltölulega skömmu tímabili (á jarðsögulegum tímakvarða).
Hrauntungustígur Hrúthólmi er vel grasi gróinn í hlíðum, en ber á “skalla” vegna gróðureyðingar seinni tíma. Af honum er gott útsýni til allra átta. Má af honum kenna fjallahringinn. Leiðin um stíg niður að Búðarvatnsstæði og áfram niður í Óttarsstaðarsel liggur norðvestur af honum, en gatan um Hrauntungustíg liggur til norðurs. Leiðin liggur með austanverðum hólmanum. Þaðan er auðvelt að glöggva sig á framhaldinu.
Í Hrúthólma er sérstakur sveppur á haustin (hér nefndur Hrúthólmasveppur). Hann er gulari, minni og fagurleitari en aðrir sveppir á og við leiðina sem og víðasthvar á þessu svæði.
Mávahlíðar eru norðvestan við Mávahlíðar og Mávahlíðahnúkur norðar. Ágætt útsýni er þarna yfir að Trölladyngju, Grænudyngju og Fíflvallafjalli. Ofar er Hrútargjárdyngja. Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móhálsdal. Dyngjan er kennd við gjána við vesturjarðar hennar. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur.
Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 5000 árum.
Á leiðinni er þarflegt vatnsstæði. Það er hægra megin götunnar, í skjóli við skeifulaga hraunhóla. Við þá eru gatnamót götu er liggur í gegnum úfið hraunið frá Hrútargjárdyngjubrúninni.
Skammt norðan við Hrúthólma er bæði sérkennilegt og stórbrotið jarðfræðifyrirbæri, ekki ólíkt brotahring. Hér mætti kalla fyrirbærið “brotaberg”. Það er austan götunnar. Um er að ræða afmarkað hraunssvæði. Hraunhellan, um 30-40 cm þykk, þá nýstorknuð, hefur brotnað upp vegna mikils undirliggjandi þrýstings glóandi hraunkviku er ekki hefur fundið sér auðveldari áframhaldandi leið undan hallanum. Glóandi kvikan hefur síðan náð að bræða grannbergið og þrýstingurinn minnkað. Í látunum, sem væntanlega hefur tekið mjög skamman tíma á jarðsöglegan mælikvarða, reis brotna hraunhellan upp í einingar og má berja þær augum á þessu tilkomumikla svæði.
Gatan er slétt og stefnir á Sauðabrekkur, sem sjást vel framundan. Varða á hraunbrún á hægri hönd. Við hana liggur gata upp með fyrrnefndri brotahraunraönd, að vesturbrún Hrútargjárdyngju (Reykjaveginum).
Sauðabrekkuskjól Að þessu sinni var ekki leitað að fyrri uppgötvun FERLIRs. Þá fundust í nálægri hraunæð gömul bein, m.a. stuttur, en mjög sver, leggur og stórt mjaðaspjald. Þá eru þarna rifbein og fleiri bein. Leggurinn var á sínum tíma tekinn til handargangs til að reyna að greina af hvers konar “dýri” beinin gætu hafa verið. Að mati Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis á Keldum, virðist vera um bóglegg af hrossi (hryssu) að ræða. Annað hvort hefur hún orðið til þarna eða refaveiðimenn borið út hræ og þetta verið leifarnar af því.
Hrauntungustígurinn liggur að og vestan við Sauðabrekkuskjólin. Syðsta skjólið er stærst og tilkomumest. Stundum haf skjólin verið nefnd Sauðabrekkuhellar. Smalar Hraunamanna nýttu þessi skjól fyrir sauði sína og nærsveitunga þegar veður voru válynd og ekki hundi út sigandi. Þá er og ekki ólíklegt að ferðalangar um Hrauntungustíg hafi haft þar athvarf um stund þegar veður voru hundum óhagstæð.
Í nyrsta skjólinu má sjá leifar beina af hrossi. Ekki er ólíklegt að þarna geti verið um hluta af fyrrnefna hrossinu að ræða. Beinin eru mosavaxin, en vel greinileg.
Frá Sauðabrekkukjólunum er gatan ógreinileg. Með lagni má þó rekja hana áleiðis að Sauðabrekkugjárgígunum, norðvestan gjárinnar. Gjáin sjálf er fallegt og tilkomumikið misgengi (N og S). Þegar sólin skín er veggurinn, sem snýr mót austri, ljós yfirlitum, en í regni verður hann svarleitur. Um svo til miðja gígaröðina liggur Hrauntungustígur þvert á gjána á greiðfærasta stað. Varða vísar leiðina.
Áður en komið er að gjánni, þ.e. austan við hana, liggur gata áfram til norðurs. Hægt er að velja hana ef halda á niður að Fornaseli. Þetta er beinasta leiðin þangað, en býsna óljós á köflum.

Ofan við Sauðabrekkugjár er gígaröð. Í syðri röðinni er bæli í einum gígnum. Gólfið hefur verið sléttar, hellur lagðar innst í fletið og steinhella felld fyrir glugga. Þegar hún er fjarlægð birtir verulega í skjólinu. Ekki er auðvelt að finna opið. Norðvestan við gígaröðina er nokkuð slétt helluhraun. Í því er varða. Skammt norðan og vestan við hana eru tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttu. Byrgi þessi eru greinilega mjög gömul. Stórholtsgrenin eru nokkru norðar, vestur undir Hafurbjarnarholti, en Gamlaþúfa er þar skammt vestar.
Þarna er Hrauntungustígurinn vel greinilegur, uns komið er að lágri hraunbrún. Með lagni, og réttum birtuskilyrðum, má sjá stíginn í gegnum mosahraunið, stundum grannan og stundum breiðan. Þá virðist hann hverfa, en Fjallsgrensvarðan framundan segir til um leiðina. Við hana greinist gatan í tvennt; annars vegar til hægri og hins vegar til vinstri. Hægri leiðin liggur beinna við Hrauntungunum, en hún er ógreinilegri. Vinstri leiðin, sem hér var valin, er greiðfærari og liggur með holtum og hæðum, áleiðis að Straumsselsstíg og Straumsseli. Vörður vísa leiðina (stundum reyndar litlar á löggiltan vörðumælikvarða alfaraleiðanna). Sú leið er rakin var greinir götuna á köflum þar sem hún kemur upp úr gróningunum og myndar áför á hraunhryggjum. Hún hlykkjast áleiðis að og austru fyrir Hafurbjarnaholt. Það mun vera kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum. Ekki má tengja þá frásögn Hafurbjarnastöðum innan við Sandgerði þar sem beinin fundust fyrrum og sjá má nú undir glergólfi Þjóðminjasafnsins.
Héðan verður að nota öll þau skilningavit, sem Guð gaf, ef rata á rétta leið. Með mikilli gaumgæfni, hiki, efassemdum og niðurstöðum er hægt að rekja sig eftir landslaginu, áleiðis niður að Brunntorfum. Gatan er hlykkjótt, en jafnan farið um lænur og gróninga. Jarðhallinn er bæði eðlilegur og sanngjarn; hvorki yfir sprungur að fara né brúnir.
Þegar komið var að brúnum Brunntorfanna var hægt að velja a.m.k. þrjár leiðir; um vestanvert Fornasel, leið um hraunlægð vestan hennar eða leið millum Fornasels og Gjásels. Þar eru gatnamót leiðar milli seljanna, vel greinileg og vörðuð. Valin var leiðin “á millum”. Þá var komið að skógarbrún Skógræktar ríkisins.
Hrauntungustígur Með góðu móti var hægt að rekja sig niður gróna hraunhlíðina og gegnum skóginn. Ljóst er að þar þarf að ráðast í léttvægt skógarhögg á einstaka stað til að greiða fyrir einni rein Hrauntungustígsins eins og hann var fyrrum. Það ætti bæði að þykja eðlilegt og sjálfsagt því skógræktarfólk hefur fyrr á áratugum farið allfrjálslega með staðsetningu sína á nýgræðlingum. Víða hefur verið plantað í gamlar götur og jafnvel fornminjar. En vitund og vitneskja hinna sömu hefur vonandi breyst með betri upplýsingu í seinni tíð.
Þegar komið var norður fyrir skógræktarlundinn lá gatan augljós framundan – í gegnum Hrauntungur. Á landakortum eru Hrauntungur rangt staðsettar (en það er nú önnur saga, eða sögur, því mörg eru rangnefnin á þeim greyjunum). Við götuna er Hrauntunguhellrar, fyrirhleðsla um skúta er birkihrísla hefur nú hlulið. Varða er ofan við. Sagt er að í Hrauntungum sé óhreint, þ.e. fólk hefur á ferðum sínum bæði séð og skynjað ýmislegt er “óhreint” getur talist. Frásagnir um slíkt hleypti þátttakendu kappi í kinn, enda ekki vanþörf á eftir langa göngu.
Við enda Hrauntungustígsins, áður en hann fór upp á Brunabrúnina, situr nú settlegur hraunkarl er fylgist bæði vel með öllu er gerist og ekki gerist.
Í dag kemur Hrauntungustígurinn upp í nútímagryfjur Skógræktar ríksisins í Brunanum (Nýjabruna/Háabruna). Þær eru sem minnisvarði, eða a.m.k. áþreifanlegur vitundarvottur um það er þröngsýn hagsmunaöfl selja ómetanleg framtíðarverðmæti sýnum eigin metnaði til framdráttar. Ólafur Þorvaldsson segir í grein sinni um “Fornar leiðir…” í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48, að í gegnum Brunann hafi verið “rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðm tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessr vegabætur og eru þær sennilega fyrstu vegabætur sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur”.
Vörðu hefur verið þyrmt á hraunhól í gryfjunum. Líklega hefur sú varða verið við stíginn í gegnum fyrrum hraunið. Önnur varða er norðvestanvert við gryfjurnar. Þar liggur Hrauntungustígurinn niður á slétt hellurhraun Hellnahrauns og áleiðis að skarðinu á Ásfjallsöxinni. Tilkomumikill hraunkarl er á hægri hönd við götuna.
Hrauntungustígur Í þessari ferð endaði gangan við sunnanverðan Krýsuvíkurveginn. Þar er slétt helluhraun á kafla milli úfins aplahrauns Nýjahrauns (Kapelluhrauns). Gatan lá áfram til norðurs norðan vegarins, en nú er búið að gera veg ofan í hann að fiskhjöllum. Frá þeim lá leiðin um Dalinn norðan Grísaness og um fyrrnefnt skarð (Hádegisskarð) á Ásfjallsöxlinni – að Ási og áfram niður til Hafnarfjarðar.
Áður fyrr lá leiðin millum staða, sem ferðalangar eða “þurfalingar” þurftu að fara af ýmsum ástæðum. Þá var hún langt torfæri. Í dag er leiðin kærkomið tækifæri til að sjá og skynja, bæði fyrrum sögu og ekki síður stórbrotið útsýni og jarðsögu svæðisins. Það að ganga þessa leið, sem og aðrar, kostar í rauninni einungis þægilegt strit og eðlilegt skóslit, en ávinningurinn er slíkur að enginn, sem á annað borð er sæmilega göngufær og getur slitið sig frá sjónvarpsglápi eða öðrum ávana, ætti að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara.
Ekki er raunhæft að nefna Hrauntungustíg svo nema frá Hrúthólma. Þar koma saman Rauðamelsstígur, sem fyrr segir, og er liggur síðan áfram að Ketilsstíg. Hvort og hvaða götur megi telja svonefnda “heilsársstíga” er erfitt um að segja. Að öllum líkindum voru þeir allir, meira og minna eða misjafnlega, eftir aðstæðum, farnir allt árið. Ljóst er að Hrauntungustígurinn er einungis ein leiðin af nokkrum á þessu svæði. Auk þess ber að hafa í huga að Hrauntungustígurinn norðanverður var ekki “einn” heldur og nokkrar leiðir milli sömu endamarka.
Hrauntungustígur“Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, umhlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhliðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg” (Ólafur Þorvaldsson 1949).
Það áttu samt ekki allir hesta, samanber gamla konan sem hafði flutt til Hafnarfjarðar og fann að dauðinn nálgaðist. Hún tók sig til einn morguninn að vorlagi og hélt sína leið (þá stystu) um Hrauntungustíg til Krýsuvíkur, sótti sér vígða mold úr skjóðu og bar á baki sér heim í Hafnarfjörð. Hún vildi hafa sína mold úr Krýsuvík þegar rekunum var kastað.
Ólafur Þorvaldsson greindi m.a. frá því að: “Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum (Hrauntungustíg og Stórhöfastíg) en með Undirhlíðum og Hálsum.” Þar af leiðandi voru þessar leiðir farnar á hestum og gangandi á þeirri tíð þegar hestaferðir voru eingöngu tíðkaðar enda vagninn eða bíllinn ekki kominn til sögunnar. Og ekki var ósjaldan farið með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar á vetrum (JG).
Gengnir voru 18 km, þ.e. milli Ketilsins í vestanverðum Sveifluhálsi að Krýsuvíkurvegi.
Frábært veður – sól og blíða. Gengið var í 4 klst og 40 mín. Alls tók ferðin, með leitum og áningum, 6 klst og 30 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bls. 81-95.
-Jónatan Garðason

Kvöldútsýni úr Hrauntungunum

Kvöldsýn í Hraunum.

 

Almenningur

Ætlunin var að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur um trjáræktarsvæði Skógræktar ríkisins við Brunntorfur (Brundtorfur/Brunatorfur) norður undir Almenningi. Þarna ofan við hraunrönd hins mosavaxna Nýjahrauns (Kapelluhrauns), í gróður- og kjarrríkt Hrútargjárdyngjuhraunið, hefur verið plantað miklu magni af greni- og furutrjám.

Bruninn

Birkið hefur náð sér vel á strik í skjóli þeirra og er orðið allhátt. Vaxið hefur upp á örfáum áratugum myndarlegur skógur í bollóttum og hólóttum hlíðunum. Þegar trjánum var plantað á sínum tíma var þess, eins og svo víða annars staðar, ekki gætt að hlífa hinum gömlu götum um hraunlænurnar heldur trjám stungið niður hvar sem skjól var að finna. Ekki er víst að skógræktarfólkið hafi haft auga fyrir götunum eða það metið þær nokkurs. Fólk getur engu að síður blindast af litlum trjáplöntum en stórum. Reyndar ætti að vera í lagi að setja niður skóg í lægðum sem þarna eru, en gæta þarf þess vel að halda honum á takmörkuðum svæðum. Ísland er nú svo fallegt land að það er óþarfi að hindra útsýnið til dýrðarinnar. Svæði þessu var úthlutað til áhugasamra einstaklinga um skógrækt á sínum tíma.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þar hefur stígurinn vikið á löngum kafla fyrir efnisnámum Skógræktarinnar. Bera þær með sér einstakan vitnisburð hins einsleita gildismats. Fallegt nútímahraunið (rann 1151) fékk að fjúka til að hægt væri að ná inn aurum fyrir nokkrum trjáplöntum. Nú eru þarna stór sár, sem aldrei verða söm sem fyrr.

Hrauntungustígur

Úr Hrauntungunum liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Það var sem sagt leiðin frá Hrauntungunum og upp á milli Fornasels og Gjásels, að Stóra-Steini, sem ætlunin var að rekja að þessu sinni – í gegnum skógræktina og upp fyrir hana, austur fyrir Hafurbjarnarholt.
Gatan sést vel þar sem hún fer í gegnum Hrauntungurnar og undir girðingu Skógræktarinnar. Príla er á girðingunni skammt norðar. Þarna er mosinn ráðandi og hefur hann náð að afmá götuna á körflum. En ef vörðunum er fylgt af nákvæmni má rekja götuna í gegnum og upp grónar hraunkvosir, undir hraunhólahlíðum og áfram áleiðis upp norðurhlíð Almennings.
Í rauninni er hægt að velja um þrjár leiðir þegar komið er spölkorn upp í skóginn. Hér á eftir verða tvær raktar upp eftir (til suðurs) og ein síðan til baka (til norðurs). Gatnamótin eru þar sem lækkunin er hvað mest í skógræktinni, en erfitt er að kom auga á þau vegna trjánna.
Áður en komið er að Fornaseli greinist fyrsta gatan, sú austasta, í tvennt; annars vegar áfram til suðausturs að Fornaseli, og hins vegar upp nokkuð þægilega gróna lægð norðvestan þess. Ef götunni upp í selið er fylgt kemur hún að við vörðu skammt norðvestan við það. Frá vörðunni sést gróið selið og umhverfi þess mjög vel, einkum selsvarðan austan þess. Áfram liggur gatan síðan til suðausturs og beygir síðan til suðurs austan við kúptlagaðan (ávalan) hraunhól.

Í Almenningi

Ofan hans eru gatamót þeirrar götu og götunnar, sem greindist af henni neðan Fornasels. Ef henni er fylgt upp eftir kemur hún vestan við þennan ávala hól. Sú leið er greiðfærust og þægilegust allra gatnanna, hvergi klöngu, einungis aflíðandi gangur. Báðar leiðirnar eru varðaðar með litlum vörðum. Á þeim báðum koma fram stærri vörður svolítið utan við þær, en þar er um að ræða landamerkjavörður Þorbjarnarstaða. Línan liggur úr vörður á Hafurbjarnarholti til norðausturs yfir hraunhlíðina. Við leiðirnar má sjá a.m.k. þrjár þeirra. Tvær varðanna eru stærri en gengur og gerist með vörður við Hrauntungustíginn.
Þegar komið er upp fyrir ávala hólinn sameinast göturnar á ný. Þá liggur gatan í krókum upp hlíðina uns hún beygir til vesturs og síaðn aftur til suðurs á hábrúninni. Þaðan sést í vörður við Stóra-Stein og aðra ofar. Gatan liggur síðan með hraunhólnunum upp að Fjallsgrensvörðu þar sem hún beygir til austurs, eins og áður hefur verið lýst (Hrauntungustígur – norðan Sauðabrekkugjár).
Þá var gatan rakin til baka, að gatnamótum þess stígs sem vestast liggur niður í Hrauntungur. Farið var að halla að ljósakiptum. Ljósir sveppirnir urðu skyndilega áberandi í landslaginu. Lyngið og kjarrið runnu saman í eitt.
VarðaGatan liggur til norður vestan við ávala hraunhólinn og er augljós í gróningunum. Vörður eru á stangli. Þegar komið var niður á holtið austan Gjásels fór gatan yfir hina augljósu götu milli seljanna, Gjásels og Fornasels. Nútímamenn hafa gengið til nýrri götu suðvestan skógræktargirðingarinnar, en ef gömlu götunni er fylgt á milli seljanna þarf að fara inn fyrir girðinguna og í lægð á milli hraunhóla. Þaðan liðast hún um hvylftir milli hraunhóla. Litlar vörður eru á þeim. Trén hindra að vísu eðlilega leið, en þó óverulega.
Þegar gatan fyrrnefnda er rakin áfram niður að Hrauntungum þarf að hafa augu vel opin. Á kafla virðast tré hafa vaxið yfir leiðina, en hægt er að feta sig framhjá og meðfram þeim inn á götuna að nýju. Með góðu móti er þannig hægt að rekja hana alla leið niður að fyrstnefndu gatnamótunum þar sem jafnsléttan er hvað mest undir hlíðunum. Í rauninni þyrfti bæði að merkja þau gatnamót sem og þau efri. Fyrir þá sem vilja ganga styttri götu en allan liðlangan Hrauntungustíginn væri kjörið að ganga vestustu götuna upp fyrir ávala hólinn (réttast væri að nefna hann Vegamótahól) og síðan til baka um austustu götuna með viðkomu í Fornaseli. Um er að ræða bæði fallega og fjölbreytilega leið, ca. 1 1/2 – 2 km).

Varða

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gefið út leiðbeiningar hvernig og hvað skógræktarfólks þurfi að varast þegar fornminjar eru annars vegar. Þar segir m.a.: “Skógrækt í nágrenni fornleifa þarf að skipuleggja þannig að þær spillist ekki. Slikum minjum á að reyna að gera hátt undir höfði á ræktunarsvæðunum, enda eykur vitneskja um þær fjölbreytileika svæðanna. Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Minjar 100 ára og eldri teljast til fornleifa, en heimilt er þó að friðlýsa yngri minjar.
Hér á eftir eru listaðar helstu tegundir fornleifa, sem búast má við að finna á Íslandi en ekki má þó líta á þennan lista sem tæmandi upptalningu allra fornleifa: Búsetuminjar, vinnustaðir, samgöngumannvirki (Gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingarmerki ásamt kennileitum þeirra), varnarmannvirki, áletranir og fleira.

Hrauntungur

Eftirtalin atriði þarf að varast þegar skógrækt er undirbúin nærri fornleifum:
1. Mikilvægt er skógræktin sé skipulögð þannig að hún falli sem best að slíkum minjum í landinu. Ekki síst á það við um skógarjaðarinn næst minjunum. Einnig fer oft betur að hafa meira en 20 m radíus í kringum minjarnar. Fornminjasvæði auka mjög á útivistargildi viðkomandi skógræktarsvæða og gera þau áhugaverðari.
2. Ekki skal jarðvinna með vélum á svæðum þar sem talið er að fornminjar séu í jörðu.
3. Oft eru fleiri einstakar fornminjar nálægar og mynda heild. Þá skal opið, skóglaust svæði vera nægjanlega stórt umhverfis þær allar.
4. Þess skal gætt að girðingar, vegir og slóðar liggi ekki þvert yfir fornminjarnar.”
Að öllu jöfnu eiga allir að forðast að skemma verðmæti sem fyrir eru s.s. fornminjar og útsýni. Hafa ber í huga að hinar gömlu götur eru fornminjar. Í rauninni er sárgrætilegt að sjá nýlega gróðursettar plöntur í fornum tóftum, t.a.m. seljum – nú þegar skilningurinn ætti að vera miklu mun meiri en raun ber vitni.

Hrauntungustígur

Hvað um það – Hrauntungustígurinn er ekki einn. Hann liggur um Almenning á fleiri en einum stað, enda má ætla að kunnugir hafi farið þar sínar eigin götur, allt eftir því á hvaða leið þeir voru og hverra erinda.
Víða eru litlar vörður við hraunker og klofninga. Þær hafa leitarmenn hlaðið til að auðvelda þeim sín verk. Vörður við leiðir hafa ferðamenn hlaðið til að gera þeim kleift að fara auðveldustu, og jafnvel stystu leiðina á langri leið – og svona mætti halda lengi áfram.
Sameiginlegt með þessum leiðum er að þær liggja um tilkomumikið, fjölbreytilegt og gróið hraunsvæði, sem nútímamanninum ætti að vera kærkomið tækifæri til útivistar.
Sjá MYNDIR.
Frábært veður.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg.

Sauðabrekkuskjól

Ætlunin var að rekja þann kafla Hrauntungustígs er liggur frá Hrauntungum upp að Sauðabrekkugjá. Hlutarnir beggja vegna liggja nokkurn veginn ljósir fyrir, en á Í Sauðabrekkugígaskjóliþessum kafla ofanverðum koma a.m.k. þrjár götur til greina, einkum að austanvörðu. Í leiðinni var m.a. litið á Fjallsgrensvörðuna, Fjallsgrenin og Sauðabrekkugjárgígaskjólið.
Hrauntungustígurinn liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum. Þá er farið yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnan er síðan á Hrúthólma og farið um nokkuð slétt helluhraun að Hrútafelli. Þá er stutt yfir á Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.
Hrauntungustígurinn er ein af hinum gömlu þjóðleiðum millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Markmiðið var að eftir þessa ferð lægi ljóst fyrir hvar “meginleið” Hrauntungustígsins hafi legið fyrrum.
Sem fyrr sagði var aðaltilgangur ferðarinnar að skoða þann hluta Hrauntungustígsins, sem liggur á milli Sauðabrekkugjár að Fjallgrensvörðunni á hæsta hluta Almennings. Þessi kafli virðist hafa reynst mörgum erfiður og fáum hefur tekist að rekja hann réttu leiðina. Líklega er torræðið ein af ástæðum þess að Hrauntungustígurinn hefur greinst í nokkrar leiðir ofan við Sauðabrekkugjár, flestar austar en sú sem hér var ætlunin að greina.
Í SauðabrekkugígaskjóliGengið var upp austanverðan Almenning. Mikið kjarr er nú aftur komið í Almenning, en hann var fyrr á öldum eitt helsta hrísforðabúr Hraunamanna og Álftnesinga og eitt besta beitarland, sem völ hefur verið á á Reykjanesskaganum. Stefnan var tekin upp fyrir Þrísteinsvörðu með beina stefnu á Fjallgrensvörðuna. Austan hennar var beygt til suðurs og miðið sett á Fjallsgreinin norðan Sauðabrekkugjárgígaraðarinnar ofan Sauðabrekkugjár.

Grenin eru a.m.k. tvö. Það austara er merkt með lítilli vörðu, en norðvestan við það vestara er hlaðið skjól fyrir refaskyttuna. Skammt vestar er hlaðið byrgi í lítilli klettasprungu. Frá því sést vel yfir neðri hluta hraunsléttunnar norðan grenjanna. Skolli hefur ekki getað komist þeim megin að grenjunum óséður.
Þá var haldið upp í Skjólið í Sauðabrekkugjárgígunum. Það er í einum gíganna. Gengið er inn um þröngt op, en þegar inn er komið er þar rúmgott skjól. Innsti hluti gólfsins hefur verið flóraður svo þar hefur verið hið besta bæli. Gluggi er á skjólinu, en hella fyrir. Op er fyrir stromp. Separ eru í loftum svo þarna inni er fagurt um að litast. Að öllum líkindum hefur þetta verið afdrep fyrir refaskytturnar í Fjallsgrenjunum – og jafnvel aðra er leið áttu um og þekktu vel til, því opið er ekki auðfundið.
Meginhluti Almennings er hraun úr Hrútargjárdyngju. Þó má sjá yngri hraun þar inni á milli, s.s. hraun úr gígum Sauðabrekkugjár. Hraunið hefur verið þunnfljótandi og líklega tekið fljótt af. Meginhluti hraunsins er, líkt og gígarnir, norðan gjárinnar, en hún er auk þess að vera sprunga er Sauðabrekkugjá misgengi. Það er mest áberandi efst í gjánum, upp undir austanverðum Sauðabrekkum. Lítill hrauntaumur hefur runnið til austurs, myndar þunnfljótandi tjörn og m.a. fyllt upp samhliða djúpa sprungu austan Sauðabrekkugjár. Einungis lítill hluti, sennilega sá dýpsti og breiðasti, hefur “lifað af” fljóðið, en á veggjum hans má sjá hvernig þunnfljótandi hraunið hefur smurt veggina. Um merkilegt jarðfræðifyrirbæri er þar um að ræða.
Og þá var að hefjast handa við að greina Hrauntungustíginn frá þeim stað er hann kemur inn á gjána. Stígurinn sést mjög vel austan gjárinnar og er auðrakinn þaðan áleiðis að Hrútárgjárdyngu. Þá er hann mjög áberandi ofan við gjána þars em hann liggur um slétt helluhraun Sauðabrekkugjárgíganna. Hraunið er einungis þakið mosa, en að mestu ógróið að öðru leyti er segir nokkuð til um aldur þess.
Skammt norðvestan gíganna beygir gatan upp á hrauntjarnarbrún með stefnu til norðurs. Stígar þar geta auðveldlega

Fjallgrensvarðaafvegaleitt fólk, en ef mjög vel er að gáð má sjá stíginn liðast “mjúklega” um hraunið. Þar er hann bæði breiður og augljós. Austan við stíginn er jarðfall og í því rúmgóður skúti (gott skjól – 6359316-02200230). Þá heldur stígurinn áfram um annars nokkuð slétt hraunið. Þessi kafli hefur afvegaleitt marga, en að þessu sinni voru kjöraðstæður til rakningar. Stígurinn sást mjög vel í hrauninu. Þegar komið er út úr nýrra hrauninu taka við gróningar. Þar stefnir stígurinn til vinstri, áleiðis að Fjallsgrensvörðu, sem er áberandi á þessari leið.
Við vörðuna greinist Hrauntungustígur í tvennt, vinstri og hægri, en báðir angarnir koma saman á ný neðan við holt eitt (varða á því) suðvestan Hafurbjarnaholts. Þaðan liðast stígurinn um norðanverðan Almenning að Gjáseli og frá því áfram inn á Skógræktarsvæði ríkisins. Þar hefur trjám verið plantað í stíginn. Vörðurnar má sjá í skóginum, en nauðsynlegt er að saga niður þau tré, sem eru í stígsstæðinu, enda bæði ágætt og skemmtilegt að leyfa stígnum að halda sér um hraunið niður að Hrauntunguopinu. Stígurinn liggur inn í tungurnar og er augljós, framhjá hlöðnu Hrauntunguskjólinu og að brún þeirra að norðanverðu. Þar hefur hrauninu verið eytt sem og stígnum.
Ef haldið er áfram yfir hrauntungusvæðið og stefnt á vörðu þar að handan kemur stígurinn í ljós að nýju. Þar sést hann vel þar sem hann liðast niður að Krýsuvíkurvegi. Vestan vegarins er slétt hraunhella og færi vel á því að gera þar lítið bílastæði og láta stíginn enda við það. Óþarfi er að rembast við hann lengra, enda svæðið þar austan við nú óðum að byggjast óðslega upp til lengri framtíðar.
Um er að ræða fallega gamla þjóðleið millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Hér að framan er lýst þeirri leið stígsins, sem telja verður skemmstan þar á millum. byrgiGengið er um fallegt hraunlendi með miklu og stórbrotnu útsýni á allar hendur – alla leiðina.
Ástæða er til að viðhalda hinum mörgu gömlu þjóðleiðum á Reykjanesskaganum. Vaxandi áhugi er meðal fólks að fá tækifæri til að feta í fótspor forfeðra og – mæðra og njóta þess umhverfis og þeirrar náttúru er þau urðu aðnjótandi fyrrum.
Ef leiðin væri gengin enda á milli tæki það ca. 6 klst.
Frábærlega skemmtilegt slagveður er setti dulúðlegt yfirbragð á fjarrænt útsýnið. Vel mátti ímynda sér hvaða takmarkaða skjól fólk fyrr á öldum hafði af fatnaði sínum við þær “hefðbundu” aðstæður er nú voru á svæðinu. Þátttakendur voru nú í þeim besta hlífðarfatnði, sem völ er á, en gegnblotnuðu samt. Á móti kom að tiltölulega hlýtt var í veðri svo gangan var fyrst og fremst ánægja yfir að uppgötva “týnda” hlekkinn sem og kærkomið tækifæri til að grandskoða svæði, sem sjaldan er gengið – af fáum.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkufjárskjól.

Hrauntungustígur

Gengið var eftir Hrauntungustíg frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum, sem eru á sunnan vegarins, á milli hans og Hrauntungu. Eini sýnilegi hluti stígsins, sem ekki hefur enn verið eyðilagður, er um 300 metra langur. Hann sést greinilega í tiltölulega sléttu hrauninu og síðan upp hraunbakka við gryfjurnar.

Hrautungustígur

Hrauntungustígur.

Efst á bakkanum er varða, en við hana hefur stígurinn verið tekinn í sundur. Hann sést síðan handan við gryfjurnar þar sem hann kemur inn í Hrauntunguna. Tungan er stór gróin tóa inni í nýrra mosahrauni. Þegar stígnum er fylgt inn í gegnum tunguna má sjá vörðu upp á hraunhól á vinstri hönd. Handan við hólinn er jarðfall. Í jarðfallinu er stór birkihrísla. Við norðurjaðar þess er stór fyrirhleðsla með opi á. Innan við opið er smalaskjól (Hrauntunguskjól). Þegar komið er út úr Hrauntungunni að vestanverðu er stutt upp í Kolbeinshæðaskjólin og þaðan upp í Straumssel.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur austan Hrútfells.

Þá var Stórhöfðastíg fylgt í gegnum Dyngnahraun við Stórhöfðahraun. Eins og við Hrauntungustíginn hefur Stórhöfðastígurinn af skammsýni verið hreinsaður upp að hluta þar sem eru stórar malargryfjur. Ef gryfjurnar hefðu verið örlítið norðar hefði stígurinn sloppið. Við norðausturjaðar þeirra er stór hraunklettur. Stígurinn liggur niður með klettinum og liðast síðan um hraunið í átt að suðurhorni Stórhöfða. Stígurinn hefur einhvern tímann verið ruddur hluta leiðarinnar og þannig gerður akfær inn í hraunið. Ruðningurinn endar við háan flatan hraunstand. Frá honum til norðurs sést gamli Stórhöfðastígurinn vel þar sem liggur að línuvegi, sem liggur þvert á hann. Þegar komið er yfir línuveginn liggur stígurinn um nokkuð slétt helluhraun alveg að höfðanum. Á leiðinni eru nokkur lítil jarðföll og stór hraunskúti, en engir hellar. Stórhöfðastígurinn á þessum kafla er nú einungis heill á u.þ.b. 500 metra kafla. Sunnan við Krýsuvíkurveginn liggur hann upp og suður í hraunið með stefnu í vörðu á hraunhól. Stígurinn er óljós á nokkrum kafla í grónu hrauninu, en þegar komið er ofar í það verður hann aftur greinilegur. Hann er varðaður á hluta leiðarinnar, en þar sem hann liggur í áttina og ofan við Fjallið eina er stígurinn vel greinilegur. Hann liggur síðan upp með Húshelli, framhjá Hellinum eina (Steinbogahelli) og áfram suður með vestanverðri Hrútargjárdyngju og upp á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Kolbeinshæðaskjól

Kolbeinsstaðaskjól.

Fornasel
Gengið var í gegnum trjáræktarsvæði Skógrækar ríksins sunnan við Hrauntungur með beina stefnu að Laufhöfðavörðu ofan við Laufhöfða, norðvestan Gjásels. Vörður greina Hrauntungustíginn þarna í gegnum norðaustanverðan Almenning, sem nú hefur náð að ala af sér birkikjarr að nýju.
Þá var gengið upp í Gjásel og síðan að LaufhöfðavarðaSteininum sunnan Hafurbjarnarholts, Klofaklettsvörðu, Fjallgrensvörðu, síðan niður í Fornasel og að Þorbjarnarstaðaborginni utan í Háabruna norðvestan við Brunntorfur.
Laufhöfðavarða stendur á klettasnös og vísar leiðina milli Þorbjarnastaða og Gjásels, Fornasels og Fjárborgarinnar (Þorbjarnarstaðaborgar). Vestan vörðunnar eru þrjár smávörður, sem vísa á Illuholu, jarðfall sem gat reynst hættulegt mönnum og búfénaði, sérstaklega að vetrarlagi.
Stígur liggur upp með Laufhöfða frá Alfaraleið sunnan Þorbjarnastaða, svonefndur Straumsselsstígur. Á kafla markar stígurinn djúp för í harða hraunhelluna, sem ber vitni um mikla umferð í langan tíma. “Af honum” neðan Laufhöfða liggur síðan stígur upp í gegnum Gjásel og áfram upp í Fornasel. Þar heldur stígurinn áfram upp í Brunntorfur. Samkvæmt Jarðabókinni 1703 áttu Þorbjarnarstaðabændur selstöðu í Gjáseli; “Selstöðu á jörðin þar sem kallað er Gjásel, en þar eru hagar góðir, en vatn slæmt”, en óljósara er með Staðarhaldara í Fornaseli. Stígurinn liggur hins vegar, varðaður, svo til beint upp í fjárskjól Þorbjarnarstaðabóndans í Brunntorfum. Í Jarðabókinni 1703 segir að Lambhagabændur hafi “brúkað selstöðu ásamt Þorbjarnarstöðum þar sem heitir Gjásel…”. Hið vandkvæða er, og mun síðar verða útskýrt, hvers vegna er einungis ein selstaða í Gjáseli, en tvær í Fornaseli, þar skammt ofar. Gætu nöfnin hafa víxlast?
Steinninn Annar stígur, og mun greiðfærari, frá Straumi liggur upp í Straumssel, um gróið hraun vestan Draughólahrauns. Hann er enn vel greinilegur. Draughóll er kjarri vaxin hæð í miðju kargahrauni norðvestan Straumselshöfða. Villuráfandi sauðir áttu það til að gera fjármönnum lífið leitt er þeir sóttu í kjarrlendið í Draughólahrauni. Smalar reyndu þá að lokka sauðina úr hrauninu frekar en elta þá uppi, enda hraunið sjálft erfitt yfirferðar.
Gjásel er dæmigert sel á Reykjanesskaganum, þrískipt seltóft, stekkur (norðvestan við hraunholtið, sem selið er á) og vatnsstæði (vestan tóftanna). Víðsýnt er frá Gjáseli yfir Hrauntungur og Nýjahraun (Kapelluhraun).
Eftir að hafa skoðað Gjásel var stefnan tekin á Steininn um Hrauntungustíg.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum. Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestur fyrir Fjallið eina að Hrútagjárdyngju. Stefnt er á Hrúthólma og farið um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt í Ketilstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur (Seltúns). Hrauntungustígur sést enn við Krýsuvíkurveginn, einkum milli hans og malarnámu, sem þar er. Malarnámið hefur síðan tekið stíginn í sundur, en hann sést síðan aftur sunnan þess. Þar má rekja sig eftir stígnum í gegnum Hrauntungurnar, framhjá Hrauntunguskjóli og áfram upp með Gjáseli.

Steinninn

Þegar skoðað er “vörðukort” af þessu svæði Almennings má sjá að hinar gömlu leiðir hafa eitthvað “misfarist” á kortum, a.m.k. Hrauntungustígurinn sem og Stórhöfðastígurinn. Þessar leiðir voru jafnan varðaðar. Skv. kortinu, ef vörðunum væri fylgt, ætti Hrauntungustígurinn að liggja í gegnum Fornasel og Stórhöfðastígurinn nokkuð vestar en hann er nú merktur inn á kort.
Steinninn er margsprunginn hraunhæð, sem er á landamerkjum Þorbjarnastaða og Straums. Umhverfis hæðina var gott beitiland, en mosi og lynggróður hafa náð að breyta ásýnd landsins frá því sem áður var. Fuglaþúfa á Steininum vekur athygli þegar horft er á hann frá réttu sjónarhorni. Í raun er Steinninn í austanverðri sprungu hæðarinnar og sést ekki fyrr en komið er að honum. Helsta leiðarmerkið eru tvær vörður á hæðinni. Sú vestari er steinn, sem stendur upp á endann, en skammt frá sprungunni er mjó varða með þremur eða fjórum steinum. Hún sést ágætlega úr fjarlægð, en á flestum hólum á þessu svæði eru litlar vörður er gætu villt fyrir fólki.
Steinninn, eða hraunhóllinn sem hann er í, er nokkurn veginn í suður af landamerkjastöplinum á Hafurbjarnarholti. Stöpullinn sést vel af hólnum. Frá honum sést einnig vel til Klofningskletts í vestri.
Þegar sólin dansar við skýin gleðjast mennirnir. Geislar hennar leika þá við valin svæði. Það sjónarspil er einka fallegt í Almenningi þar sem hver hraunhóllinn, ýmist mosavaxinn eða kjarrivaxinn, skipta litum á víxl eftir gróðrinum. Það gefur regnbogadansi sólarinnar lítið eftir.

Fornaselsvarða

Klofaklettsvarða er toppmjó landamerkjavarða á klofnum hraunkletti efst í hraunbrekkum, sem nefnast Bringur (nokkru vestar). Varðan sést ágætlega frá Steininum. Einnig Gamla Þúfa þar skammt norðnorðvestar. Frá Steininum ber vel á klettinum og varðan er auðþekkjanleg á löguninni. Svæðið ofan Klofakletts er kallað Mosar – líkt og svo mörg önnur í eða við Almenning. “Greinilegustu” Mosarnir eru þó vestan við Skógarnefið þar sem Mosastígur liggur upp með norðanverðu Lambafelli. Í því fallegur klofningshóll þar sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að smyrja “klofið” mælt upp yfir handarkrika hærri manna.
Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá. Á norðurbrúninni verða umskipti; annars vegar er að baki hið daglega amstur, fagurt útsýni er yfir hraunsvæðin norðan Almennings og hin sjálfsagða nálægð við mennina, og hins vegar er framundan hið sérstaka, áskorunin og vonin um sigur á sljóttugri veiðibráð – tófunni. Brúnin hefði þess vegna mátt heiða “Umskiptabrún”.

Fjallsgrensvarða

Fjallsgrensvarða.

Þegar gengið var til baka áleiðis niður að Fornaseli mátti víða sjá fugla fljúga af hreiðrum eða með mat í goggi. Ungar voru greinilega að komast þarna til fugls.
Fornaselsvarða er tignarlega hlaðin og stendur austan við selið. Sá, sem sett hefur stærsta steininn í hana, hefurverið rammir að afli. Nema það hafi verið kona. Varðan vísar á selið (skammt norðvestar) og, að sögn, Hrauntungustíg, forna þjóðleið sem liggur um selshlaðið.
Fornleifarannsókn, sem gerð var 2000-2001 leiddi í ljós að selstaða mun hafa verið í Fornaseli frá u.þ.b. 1550 fram á miðja 19. öld. Grafið var í eldhústóftina sunnan seltóftanna tveggja, sem þarna eru. Þær eru báðar tvískiptar svo þarna hafa verið tvær selstöður, búr og baðstofa í hvoru um sig.
Gott vatnsstæði er við Fornasel. Líklegt má því telja að það hafi jafnan verið nýtt. Landið tilheyrir Þorbjarnarstöðum svo spurningin er hvort nöfn Gjásels og Fornasels hafi víxlast á einhverju tímabili. Það sem einkum styður þessar vangaveltur er það að í Fornaseli eru tvær selstöður, en einungis ein í Gjáseli. Samt áttu bæði Þorbjarnarstaðir og Lambhagi að hafa haft þar selstöðu. Hins vegar er einungis að sjá þar eitt eldhús, sem styrkir líkur á framkominni lýsingu á samnýtingu. Mögulegt er að Lambhagi, eða annar bær í Hraunum, hafi síðar nýtt sér selstöðuna, sem nú er nefnd Gjásel.

Gjáselsvarða

Sagt hefur verið að milli Gjásels og Fornasels liggi stígur um háhrygg Almennings, yfir Brunnhólagjá á jarðbrú, sem tvær smávörður vísa á. Þegar komið er yfir gjána er stefnan tekin á Fjallið eina og þar tekur Hrauntungustígur við. Austan Brunnhólagjár var gjöfult beitiland, svonefndir Brunnhólar, en líka kallaðir Sauðahólar. Trúlega er hér um eina leið af mörgum að ræða um þetta hraunssvæði. Þegar komið er ofan frá Hrúthólma og ætlunin er að feta mögulega leið niður um austanverðan Almenning verða ávallt nokkrir möguleikar úr um að velja. Þegar “vörðukort” er skoðað að svæðinu gefur það tilefni til að ætla að leiðirnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær. Og ekki er endilega víst að hver um sig hafi heitið eitthvað umfram annað. Fólk, sem þurfti að fara þarna um tók bara mið af greinilegum kennileitum og hélt sinni stefnu um þetta annars greiðfæra hraunsvæði. Víðast hvar eru góð skjól til áninga og jafnvel má finna þar vatn til að brynna skeppnum. Ágætt dæmi er um slíkt í “afbrigðilegum útidúr” frá Hrauntungustíg. Ef vikið er spölkorn af honum til austurs nokkuð sunnan Sauðabrekkuskjóla má finna þar hið ágætasta vatnsstæði. Að því liggur stígur og síðan áfram inn á hinn fyrrnefna aftur skammt sunnar. Kunnugir hafa að öllum líkindum getað fetað aðrar leiðir en þeir sem minna þekktu til.
 Ofar er Stórhöfðastígur. Hann liggur einnig frá Ástjörn um Hádegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleiksteinsháls að Hamranesflugvelli og út á Selhraun. Gengið er suður með vestanverðum Stórhöfða þar til komið að suðurhorni hans. Þar sést stígurinn liðast inn á hraunið til suðurs, hlykkjast á hraunhrygg að Bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brunntorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum eða vestanverðum (báðar leiðir farnar) fjallsrótum þess fylgt að Hrútargjárdyngju. Þegar farið er að austanverðu kemur að því að mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðavegur, sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg. Þegar farið er að vestanverðu er gengið með norðanverðum Dyngjubökkum um Hrúthólma, framhjá Hrútafelli og inn á Ketilsstíg. Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur sameinast Rauðamelsstíg, sem liggur upp frá Óttarsstaðaseli, við Hrúthólma.

Fornaselsvatnsstæði

Á leiðinni til baka niður að Þorbjarnarstaðaborg sýndu rjúpur þátttakendum sérkennilegt háttarlag. Í stað þess að fljúga frá viðkomandi flugu þær að þeim. Það gat einungis gefið eitt til kynna – jarðfætlingarnir voru of nálægt hreiðinu. Ekki var staðnæmst til að skoða hreiðrið, enda keppikeflið að raska sem minnst ró heimabúandi á svæðinu.
Þorbjarnarstaðaborgin var hlaðin af nokkrum barnanna ellefu á Þorbjarnarstöðum um aldamótin 1900. Hleðslulagi hennar og væntanlegu byggingarlagi hefur verið lýst í öðrum FERLIRslýsingum. Hið áhugaverða að þessu sinni var vörðuð leið er frá henni að skúta ofan við Brunntorfur. Vörður liggja þétt yfir hálsinn að hlöðnu fjárskjóli í Brunntorfum, þar sem nú er skógræktarsvæði. Það er há og löng hleðsla fyrir innskot undir háum hraunbakka með op til norðurs. Allt hefur þetta, vörður og aðrar mannvistarleifar, jú ákveðinn tilgang, sem óþarfi er að horfa framhjá.
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður – mikið fuglalíf er nú í Almenningi.

Heimildir m.a.:
-Ratleikur Hafnarfjarðar 2006.
-Gísli Sigurðsson.
-Ásbjörn (kort).

Steinninn

Steinninn.

Sauðabrekkuskjól

Loftur Jónsson, hinn margfróði Grindvíkingur um fyrri tíma, hafði verið, líkt og svo fjölmargir aðrir, að lesa FERLIRsvefsíðuna. Hann hafði verið að skoða þar umfjöllun um Sauðabrekkuskjólin.
Í Féframhaldinu sendi hann eftirfarandi ábendingu: “Þá datt mér í hug að segja þér (kannske veistu þetta), að áður fyrr þegar Grindvíkingar smöluðu afréttinn ríðandi, þá fóru þeir fyrsta daginn í Hrútagjá vestan við Sveifluháls. Þar gistu þeir í hellisskúta. Og þaðan byrjuðu þeir smölun daginn eftir. Ég veit ekki hvar þessi hellir er svo það þýðir ekki að spyrja mig frekar um það”.
Þegar leitað var nánar til Lofts um fjárleitir Grindvíkinga fyrrum barst eftirfarandi svar: “Ég veit svo sem ekki mikið um fjárleitir hjá Grindvíkingum áður fyrr. Ég veit bara, að þeir  höfðu ótrúlega mikið fyrir þessum skjátum sínum. Vegna heyleysis var fénu sleppt í fjallið í Góulok (eða einhverntíma eftir miðja Góu). Síðan var smalað tvisvar um sumarið. Fyrst til að marka lömbin og síðan til rúnings. Landið sem smala þurfti var víðfemt, allt vestan frá Þórðarfelli og austur á Vörðufell og Herdísarvíkurfjall.  Þar sem rekið var til réttar var í = 1. Í Skálarétt, vestur undir Borgarfjalli. 2. Á Vigdísarvöllum.  3. Í Krýsuvík, réttin var vestan undir Bæjarfelli (eins og þú veist).
Ég veit ekki Féhvar rekið var til réttar, þegar smalað var kringum Þorbjörn og Þórðarfell. Sennilega rekið niður í Járngerðarstaða-hverfi. Þar sem menn snéru við til smölunar var;  í Sóleyjarkrika innan við Höskuldarvelli; í Hrútagjá (eða Sauðabrekkugjá) þar sem gist var yfir nótt. Síðan í Krýsuvík var farið austur á Vörðufell og Herdísarvíkurfjall. Landið er víða  hrauni orpið og illreiðfært, þá voru hrossin taglhnýtt og einn maður settur í það að koma þeim á einhvern ákveðinn staða þar sem menn gátu tekið hrossin sbr. trússmaður. Menn lágu við í tjöldum á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík. Við fjallskil (á fjallskilaseðli) voru alltaf tilgreindir menn til að fara í útréttir sem kallað var, það var í réttir í öðrum sveitarfélögum; allt frá Njarðvík og austur í Ölfus og jafnvel til Þingvalla.
Fyrir Sauðabrekkuskjólfjárskipti var sauðfé á Reykjanes-skaganum sunnan  og vestan Hafnarfjarðar um það bil 20 þús. auk 70 – 80 hrossa sem rekin voru í fjallið. Bændur í Vogum og á Vatnsleysuströnd áttu alltaf stóð og það var oft vitnað í flókatrippin á Ströndinni. Þórður á Stóru-Vatnsleysu (faðir Sæmundar) átti u.þ.b. 1000 vetrarfóðraðar kindur og var fjárflestur í Gullbringusýslu. Hjálmar á Þórkötlustöðum átti u.þ.b. 100 sauði og þeir fóru allt austur i Þingvallasveit og Ölfus. Það var engin furða, 70 – 80 hross þurfa mikið að éta og voru eins og ryksugur á þessum grasteygingum á Reykjanesskaganum. Kindurnar sóttu alltaf lengra og lengra og enduðu þess vegna á annarra manna afréttum.
Ég veit ekki hvað ég get týnt fleira til svo ég læt þessu lokið í bili.”
Svo fá voru þau orð – en gagnleg
.

Heimild:
-Loftur Jónsson

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

Brunntorfuskjól

Hrauntungustíg var fylgt suður Selhraun frá Krýsuvíkurvegi, inn í malargryfjur sunnan Brennu og síðan handan þeirra inn í Hrauntungu. Þar var litið á fyrirhlaðið skjól, en síðan gengið áfram til suðurs um Háabruna upp að Þorbjarnarstaðarfjárborginni norðan við Brunntorfur (Brundtorfur – tilhleypingastaður).

Hrauntungur

Hraunkarl við Hrauntungu.

Hrauntungustígur sést vel í sléttu helluhrauninu vestan Krýsuvíkurvegar. Varða er á hraunhól við jaðar malargryfjunnar. Stígurinn hefur verið fjarlægður í gryfjunum, en við suðurjaðar þeirra má sjá vörðu. Frá henni liggur stígurinn áfram inn í Hrauntungu, kjarri vaxinn hólma inni í vesturjarðri Kapelluhrauns. Tungan, sem er á milli Efri-hellra og Þorbjarnarstaðarborgarinnar, hefur verið skjólgóð og beitarvæn. Inni í henni austanverðri er fyrirhleðsla fyrir skúta. Erfitt er að koma auga á opið vegna þess að birkihríslur hylja það að mestu. Lítil varða er á hólnum ofan við opið. Skjólið, sem var smalaskjól, nefnist Hrauntunguhellir og er í hraunhól skammt norðan við nyrstu hrauntunguna úr Brunanum, en svæðið er nefnt eftir tveimur slíkum tungum vestur út frá meginhrauninu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Brunann að Hrauntungum. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum.
Brunanum var fylgt áfram til suðurs. Hver hraunkynjamyndin tók við af annarri.
Þorbjarnarstaðarborgin er efst í Háabrunanum. Hún er heilleg og fallega hlaðin. Það munu hafa verið börn hjónanna á Þorbjarnarstöðum í Hraunum, sem hlóðu hana um aldarmótin 1900. Börnin voru 11, samhent og dugleg til allra verka. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að topphlaða borgina, líkt og Djúpudalaborgina í Selvogi, en hætt hafi verið við það.

Þorkell Árnason, bóndi á Þorbjarnastöðum hefur þekkt til byggingarlags hennar því hann var ættaður frá Guðnabæ í Selvogi. Kona kans var Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, hreppsstjóra á Setbergi.

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól.

Ofarlega í Brundtorfum eru Brundtorfuhellar (Brunntorfuhellir), lágreistir, en þóttu hæfa vel til að hýsa hrúta Hraunamanna og Hvaleyeringa um fengitímann þegar hleypt var til ánna.
Gengið var til baka norður brunann skammt austar. Fylgt var refaslóð þar sem hún lá í gegnum mosahraunið áleiðis að fiskitrönunum austan Krýsuvíkurvegar. Rebbi hefur greinilega fetað slóðina þarna lengi.
Þegar komið var norður fyrir Rallykrossbrautina virtist gamall maður sitja þar á steini. Þegar komið var nær sást hversu steinrunninn hann var.
Kapelluhraunið er talið hafa runnið um 1151, á sama tíma og Ögmundarhraun og Afstapahraun. Öll hraunin eru talin hafa komið úr sömu gossprungunni, u.þ.b. 50 km langri, er náði frá suðurströndinni austan Ísólfsskála að Helgafelli ofan við Hafnarfjörð.

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.