Hafnarfjörður 1910

Í ofanverðu Víðistaðatúni er stuðlabergssteinn. Á honum er eftirfarandi áletrun: “Til minningar um Bjarna Erlendsson 1881-1972 og Margréti Magnúsdóttur 1889-1960 sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka“.

Hver voru þessi Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir og hverjir voru þessir Víðistaðir?

Í skýrslu Byggðasafns Hafnarfjarðar árið 2002 segir m.a. svo um “Víðistaði – skráningu fornleifa og menningarminja“. Um var að ræða lokagerð Karls Rúnars Þórssonar um sögu Víðistaða:

Víðistaðir

Víðistaðir;
Mynd: Skýringar: I er Sigurgeirstún, II stykki Kristjáns Auðunssonar, III garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar (land Finnboga J. Arndals skálds), IV stykki Guðjóns Þorsteinssonar í Kletti, V stykki Benedikts Sigmundssonar, VI ungmennafélagsreiturinn (seinna athafnasvæði K.F.U.M.), VII knattspyrnuvöllurinn gamli. (IV, V, VI og VII eru afmörkuð með punktalínum, því að þau stykki eru nú öll í eigu Bjarna Erlendssonar.
1 er þar, sem Bjarni í Víðistöðum byggði fyrsta gripahús sitt, 2 íbúðarhúsið (hjá því er lítið steinhús, sem Bjarni byggði 1923 sem hænsnahús, en breytti síðar, svo að þar hefur oft verið húið), 3 lifrarbræðslustöðin, 4 gripahús og hlaða Bjarna.
Vegurinn, sem skiptir Víðistöðum að endilöngu, var lagður 1898—99, vegurinn að lifrarbræðslustöðinni, um þvera landareign Bjarna, árið 1923. Uppi á hraunjaðrinum rétt ofan við lifrarbræðslustöðina, hefur Guðmundur Þ. Magnússon nýlega byggt sláturhús.

“Bjarni riddari Sívertsen hafði sel á Víðistaðatúni fyrrum. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 lentu Víðistaðir innan bæjarmarkanna. Um svæðið lá “kerruvegur” út að Garðakirkju sem fram til 1914 var sóknarkirkja Hafnfirðinga. Svæðið geymir sögu ræktunartilrauna, þeirrar fyrstu frá árinu 1901 en þá tók Sigurgeir Gíslason verkstjóri til við að rækta tún í suðvesturhorni þess. Þá gerði Ungmennafélagið 17. júní tilraun árið 1907 til að rækta trjágróður í norðurhorni svæðisins, í krikanum upp við hraunbrúnina en allt kól frostaveturinn mikla 1918.

Víðistaðir

Víðistaðir – vatnsból.

Í svonefndu Sigurgeirstúni, sem var í suðvesturhorni svæðins var fyrrum vatnsból frá Langeyri og lá slóð þangað yfir hraunið. Þegar Finnbogi J. Arndal hóf að rækta kartöflur og gulrófur við austurhorn Víðistaða árið 1910, var þar enn brunnur fyrir Vesturbæinga.
Frumbernsku knattspyrnuiðkunar í Hafnarfirði má rekja til svæðisins en félögin Geyfir og Kári útbjuggu sér knattspyrnuvöll en félögin hættu starfsemi 1915. Frá 1919-1920 stunduðu knattspyrnufélögin Framsókn og 17. júní ennfremur æfingar á svæðinu. Upp úr 1936 eignaðist Fríkirkjan spildu sem hún nefndi Unaðsdal og þar voru haldnar skemmtanir til fjáröflunar, í dag eru á sumrin starfræktir skólagarðar á því svæði.

Víðistaðir

Víðistaðir – Minningarsteinn.

Svæðið geymir sögu grunnatvinnuvegarins, sjávarútvegsins, en stórfyrirtækið Brookless bræðra og síðan Helluers bræðra störfuðu í Hafnarfirði á tímabilinu 1910-1029, en þó ekki samfleitt. Létu þeir leggja fiskreiti vestan við gamla Garðaveginn. Á árunum 1923-28 starfaði svo lifrabræðsla fyrirtækisins Isac Spencer og Co á svæðinu og síðar, um 1950 var þar starfrækt sláturhús ekki langt frá Víðistaðakirkju.
Fyrstu eiginlegu landnemarnir á Víðistöðum voru hjónin Bjarni Erlendsson og Margrét Magnúsdóttir. Árið 1915 fékk Bjarni fyrst útmælt land á svæðinu og íbúðarhúsið var byggt árið 1918 og var efni í það fengið úr strönduðu skipi, að nafni “Standard” sem strandað hafði við Svendborg.
Bjarni var einskonar frístundarbóndi. Fyrstu kúna keypti hann árið 1920, hún var í litlum kofa sem byggður var austan við veginn ekki langt frá bugðunni þegar komið er niður á Víðistaðina. Árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir fjórar kýr og tvo hesta, ásamt hlöðu.

Stefán Júlíusson skrifaði um “Víðistaðina – vinin í úfna hrauninu” í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1959:

Stefán Júlíusson

Stefán Júlíusson.

“Margar ferðir átti ég um Víðistaði, þegar ég var drengur. Oft lágu sporin utan úr hrauninu, þar sem ég ólst upp, og inn í bæinn, og síðan heim aftur. Erindin voru margvísleg, í skóla, til vinnu, skemmtana eða aðfanga, stundum oft á dag. Þá var engin Herjólfsgata komin með sjónum, gamli vegurinn út í Garðahverfið var því oftast farinn.
Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðinga, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins? Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt. Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann. Hins vegar heyrði ég snemma þjóðsögu um Víðistaðina, fagra og dýrlega helgisögu, en þannig skýrir alþýðan löngum þau undur, sem hún ekki skilur.

Bjarni ErlendssonSvo bar til, þegar hraunið rann, að smalinn frá Görðum var með hjörð sína á þeim slóðum, þar sem nú heita Víðistaðir. Hann gætti sín ekki í tæka tíð, og fyrr en varði sá hann rauðglóandi hraunbreiðuna koma veltandi fram um vellina. Eimyrjan hafði þegar lokað leiðinni heim til Garða, og hún nálgaðist jafnt og þétt á þrjá vegu, en rjúkandi sjór fyrir neðan. Smalinn sá, að sér og hjörð sinni yrði hér bani búinn, ef svo færi fram sem horfði. Í sárri angist og kvíða kastaði hann sér á kné, fórnaði höndum til himins og ákallaði drottin. Hann bað hann af barnslegu trúnaðartrausti að frelsa sig og hjörð sína frá þessum óttalega dauðdaga. Síðan byrgði hann andlitið í höndum sér og beið átekta. Og kraftaverkið gerðist. Þegar hann leit upp, sá hann, að hraunstraumurinn hafði klofnað, kvíslarnar runnu fram til beggja handa, og síðan lokaðist eimyrjan hringinn í kring um hann og fjárhópinn, en þó svo fjarri, að öllu var borgið.
Guð hafði bænheyrt hann. — Þannig urðu Víðistaðirnir til.
Margrét MagnúsdóttirÉg trúði því í bernsku, að þessi helgisaga væri sönn. Eitthvert kraftaverk hlaut að hafa gerzt, þegar þessi einkennilega vin varð til. En með árunum kom þekkingin og kippti fótum undan helgisögninni: Hafnarfjarðarhraun rann löngu áður en land byggðist. Svo vill fara um barnatrúna, hún veðrast með árunum. Og samt er hin raunsanna saga um myndun Víðistaðanna stórfurðuleg. Enginn vafi er á því, að mér hefði þótt saga vísindanna næsta ótrúleg, hefði ég þekkt hana í bernsku, þegar ég braut hvað ákafast heilann um þetta efni.
Sagan er í sem allra stytztu máli á þessa lund: Endur fyrir löngu, um þúsund árum fyrir Íslandsbyggð, var Hafnarfjörður miklu lengri en hann er nú. Hann hann þá hafa náð allt upp undir Vífilsstaðahlíð, en Setbergshlíð, Öldur og Hamar verið strönd hans að sunnan. Mikil á mun hafa fallið í þennan Hafnarfjörð hinn meiri, og mætti kalla hana Kaldá hina meiri eða fornu. Átti hún upptök sín á Reykjanesfjallgarði, sem þá hefur vafalaust verið töluvert öðruvísi útlits. Leirur hafa verið í fjarðarbotni og grynningar allmiklar, eins og títt er, þegar stórar ár bera jarðveg í sjó fram. Hólmar hafa verið í árósum og fjarðarbotni, og sumir allháir. En þá gerðist undrið. Eldgos mikilverða í hnjúkunum austan við Helgafell, hraunleðja streymir úr gígunum dag eltir dag, rennur með jafnaþunga til sjávar og finnur sér fljótlega lægstu leiðina: farveg Kaldár hinnar fornu. Rauðglóandi hraunstorkan þurrkar upp ána, máir hana beinlínis út af yfirborði jarðar, og síðan hefur hún orðið að fara huldu höfði, nema örlítill angi hennar við Kaldársel. En hraunbreiðan gerði meiri hervirki: hún fyllti upp fjarðarbotninn, svo Hafnarfjörður varð aðeins svipur hjá sjón á eftir. Þykk og mikil hefur hraunleðjan verið, að slík undur skyldu gerast.

Víðistaðir

Víðistaðir vinstra megin.

Og nú er komið að sögu Víðistaða. Þar var eyja áður, og á henni hóll ekki ómyndarlegur. Þegar eimyrjan lagði undir sig leirur, hólma og sker, og fyllti fjarðarbotninn úfinni steinstorku, veitti hóllinn á hólmanum viðnám, svo að kúfurinn stóð upp úr. Seinna fauk jarðvegur að hraunbrúninni, en kollurinn lækkaði. — Þannig varð hraunlausa vinin til.

Víðistaðir

Víðistaðir 1954.

Víðistaðirnir hafa frá öndverðu verið hluti af landnámsjörðinni, en nú er fullvíst talið, að Ásbjörn Össurarson landnámsmaður, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, hafi búið í Görðum. Þjóðsagan, sem hér var skráð að framan, bendir til þess, að þar hafi fé verið beitt frá Görðum. Þegar bújörðin Akurgerði var stofnuð sem hjáleiga úr Garðalandi, má vafalítið telja, að ábúandinn þar hafi fengið Víðistaðina sem hagablett. Löngu seinna, eða árið 1677, keyptu danskir kaupmenn Akurgerði, og er þá svo að sjá sem Víðistaðir hafi ekki fylgt. Þó hefur einhver vafi verið um þetta og Akurgerðismenn vafalaust beitt í Víðistöðum eins og þeim sýndist. Garðaklerkar og Akurgerðiskaupmenn deildu um landamerki Akurgerðislóðar, og þegar loks var sætzt á málið og mörkin gerð greinileg, árið 1880, lentu Víðistaðir utan við Akurgerðisland, en þó er svo að sjá af samningnum, að viðskiptavinir kaupmanna hafi mátt beita í Víðistöðum í lestaferðum átölu- og leigulaust. Þegar landamerki eru gerð um leið og Hafnarfjarðarkaupstaður er stofnaður árið 1908, lenda Víðistaðirnir innan bæjarmarkanna, og líður nú ekki á löngu áður en byggt er í Víðistöðum.

Víðistaðir

Kartöflugeymsla og skjólgarður, byggt af Gísla M. Kristjánssyni, líklega í kringum 1930.

Svo langt aftur sem heimildir greina, er örnefnið Víðistaðir kunnugt, og er það vafalaust fornt. Þar hefur víðir vaxið, og af því dregur hraunlausa svæðið nafn.
Ræktunarsaga Víðistaða hefst upp úr aldamótum. Árið 1901 fékk Sigurgeir Gíslason verkstjóri lóð í suðvesturhorni svæðisins og tók að rækta þar tún. Fékk hann landið hjá sr. Jens Pálssyni í Görðum. Seinna fékk hann hjá bæjarstjórn viðbótarstykki meðfram veginum, og varð stykkið allt tæpar 4 dagsláttur. Þetta tún átti Sigurgeir til ársins 1944, en þá keypti Björn Jóhannesson fyrrverandi bæjarfulltrúi það, og á hann það enn. Í Sigurgeirstúni var fyrrum vatnsból frá Langeyri, og lá slóð yfir hraunið fyrir vatnsburðarfólkið.

Víðistaðir

Víðistaðir 1959.

Norðan við Sigurgeirstúnið er lítill blettur, um fjórðungur úr dagsláttu, í norðvesturhorninu neðan vegar. Þennan blett ræktaði Kristján Auðunsson, faðir Gísla Kristjánssonar bæjarfulltrúa og þeirra systkina, og hefur hann aldrei gengið úr ættinni. Eignaðist Gísli blettinn eftir föður sinn, síðan systursonur hans, Valdimar Jóhannesson, og nú eiga hann foreldrar Valdimars, Guðrún Kristjánsdóttir og Jóhannes Narfason.
Kristján Auðunsson fékk þökurnar af þjóðkirkjulóðinni til að þekja með blett sinn í upphafi, en þá var þar melur, og hefur það að líkindum verið vorið 1914. Ekki eru önnur stykki vestan eða neðan vegar en þessi tvö.

Víðistaðir

Víðistaðir og Garðavegurinn.

Í austurhorni Víðistaða er nú garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. Þetta svæði fékk Finnbogi J. Arndal útmælt árið 1910. Er það sex dagsláttur að stærð. Finnbogi ræktaði þar kartöflur og gulrófur. Þar var þá brunnur fyrir Vesturbæinga. Hann seldi það þrem árum síðar Gísla Kristjánssyni, sem áður er nefndur, en hann aftur Jóni Einarssyni og Gísla Sigurgeirssyni, en árið 1935 seldu þeir það Guðmundi Þ. Magnússyni kaupmanni. Eftir hann eignaðist Fríkirkjan landið, og var það nefnt “Unaðsdali”. Hugðust forráðamenn kirkjunnar hafa staðinn til fjáröflunar fyrir kirkjuna, m. a. með skemmtanahaldi, en ekki mun það hafa lánazt. Kirkjan átti landið stuttan tíma, en þá keypti Kristján Símonarson það, og ræktar hann nú í Unaðsdal margar tegundir nytjajurta.

Víðistaðir

Víðistaðir – Atvinnuhús á tveimur hæðum með gluggum á neðri hæð og bíslögum til beggja hliða. Tvöfaldar dyr eru á öðru bíslaginu og standa þær opnar. Stokkur gengur frá húsinu. Mikið magn af tunnum er í stæðum og röðum framan og ofan við húsið. Lifrarbræðslustöð Isaac Spencer & Co. í Víðistöðum.

Austan við veginn, þegar kornið er niður brekkuna úr bænum, var stykki, sem Guðjón Þorsteinsson, kenndur við Klett, mun hafa fengið útmælt um svipað leyti og Finnbogi J. Arndal fékk sitt land. Þarna var votlent mjög og mógrafir og erfitt til ræktunar. Hafði faðir Guðjóns tekið þar mó. Var stykkið tæpur hektari á stærð.
Austan við þetta stykki, meðfram garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar og upp að hraunbrúninni, fékk Benedikt Sigmundsson verzlunarmaður útmælda lóð um líkt leyti og þeir Guðjón og Finnbogi. Var þetta stykki um dagslátta að stærð.
Eftir að Helgi Valtýsson gerðist kennari við Flensborgarskólann árið 1907, beitti hann sér fyrir stofnun ungmennafélags hér í bænum, og hlaut það nafnið 17. júní. Eitt af verkefnum þessa félags var að koma upp vísi að trjárækt og gróðurreit í Víðistöðum. Reiturinn var í norðurhorni svæðisins, í krikanum alveg upp við hraunbrúnina. Þetta félag lifði ekki mörg ár, og gróðurreiturinn gekk fljótt úr sér. Síðustu leifar trjásprotanna, sem þar voru settir niður, kól alveg til dauða frostaveturinn 1918. Fór þannig um fyrstu tilraun til skóggræðslu í Hafnarfirði. Þetta litla svæði mun drengjaflokkur í K. F. U. M. hafa erft eftir ungmennafélagið. Stýrði sr. Friðrik Friðriksson þessum flokki. Bjuggust þeir litklæðum að fornum sið, þegar þeir voru á athafnasvæði sínu. Strýtulagaður klettur var ræðustóll, sandgryfja matskáli, og var starfsemi þeirra frískleg meðan hún entist. K.F.U.M. mun hafa ráðið yfir þessum bletti til 1924.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan.

Skammt frá trjáreit ungmennafélagsins, á stórgrýttum mel til suðurs, ruddu knattspyrnumenn fyrsta knattspyrnuvöll, sem gerður var í Hafnarfirði. Mun það hafa verið eftir stofnun knattspyrnufélaganna Geysis og Kára, en þau störfuðu á stríðsárunum fyrri. Síðan tóku við félögin Framsókn og 17. júní, sem stofnuð voru sumarið 1919, og munu þau einnig hafa æft í Víðistöðum í fyrstu.
Hér að framan hefur í örstuttu máli verið rakið, hverjir fyrst fengu útmældar lóðir og lendur í Víðistöðum og hófu þar ræktun og starf.”
Nú koma til sögunnar hinir eiginlegu landnemar í Víðistöðum, sem þar reistu sér hús og þar hafa búið í fjörutíu ár, en það eru þau hjónin Margrét Magnúsdóttir og Bjarni Erlendsson.
Bjarni Erlendsson er Árnesingur að ætt, fæddur að Vogsósum í Selvogi 30. marz 1881, en uppalinn í Króki í Hjallahverfi í Ölfusi. Hann er því kominn last að áttræðu, en aldurinn ber hann ágæta vel. Margrét kona hans er Hafnfirðingur, fædd hér í bæ 22. maí árið 1889, og stendur hún því á sjötugu.
Bjarni lauk skósmíðanámi í Reykjavík, en aldrei hefur hann stundað þá iðn. Hann fór utan árið 1902 og dvaldist í Bretlandi um tíu ára skeið, mest í Aberdeen í Skotlandi. Vann hann þar aðallega við fiskverkun og önnur lík störf. Árið 1912 kom Bjarni heim til Íslands og settist að í Hafnarfriði. Réðst hann til fyrirtækisins Brookless Bros, sem þá hafði fyrir skömmu hafið litgerðarstarfsemi hér í bænum. Vann hann hjá fyrirtækinu, meðan það starfaði hér.

Víðistaðir

Víðistaðir – hér stóð bærinn fremst á myndinni.

Bjarni hóf starf í Víðistöðum árið 1915, en það ár fékk hann útmælt hjá bæjarsjóði allt það land þar, sem ekki hafði áður verið tekið. Afmarkaðist það af veginum að vestan, hrauninu að norðan, stykki Guðjóns Þorsteinssonar og Benedikts Sigmundssonar að sunnan, en að austan af hraunbrún, knattspyrnuvelli og athafnasvæði K.F.U.M., eða gamla ungmennafélagsreitnum. Árið 1917 keypti Bjarni stykki Guðjóns og Benedikts, og árið 1924 fékk hann bæði knattspyrnuvöllinn og K.F.U.M.-svæðið. Þá fékk hann einnig viðbótarlandsvæði uppi á hraunjaðrinum að austan.
Jarðlag í Víðistöðum var þannig áður en ræktun hófst þar, að syðst var mýrkenndur jarðvegur og votlent, og er svo raunar enn. Var þar mótekja áður eins og sagt er hér að framan. Þurramóar voru þar, sem nú er garðyrkjustöð Kristjáns Símonarsonar. En að norðanverðu var harður melur eða ísaldarhraun, ekki ósvipað holtunum sunnan við bæinn, og var allstórgrýtt á köflum.
Á svæðinu, sem Bjarni fékk útmælt, var hvergi stingandi strá nema í hraunjaðrinum, en stórgrýti víða og djúpar sandgryfjur, því að ofaníburður hafði verið tekinn í Víðistöðum um skeið. Þurfti því bæði áræði og ötulleik til að ráðast í ræktunarframkvæmdir þarna, en Bjarna skorti hvorugt. Hófst hann handa á því að rækta kartöflur, þar sem tiltækilegast var, en réðst jafnframt miskunnarlaust á stórgrýtið og sandgryfjurnar.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamli Garðavegurinn.

Ekki leið á löngu áður en Bjarni tók að hugleiða um byggingu í Víðistöðum. Og þrem árum eftir að hann fékk landið, eða haustið 1918, hóf hann byggingu hússins, sem enn stendur og er eina íbúðarhúsið, sem byggt hefur verið í Víðistöðum. Bjarni byrjaði að hlaða grunninn 18. október, en einmitt þann sama dag tók Katla að gjósa. Grjótið í grunninn var tekið upp úr landinu í kring.
Efni í húsgrindina keypti Bjarni úr skipi, sem strandað hafði við Svendborg nokkru áður. Hét það Standard og var mikið skip. Ekki gekk smíði hússins slyndrulaust, því að einmitt um þetta leyti geisaði spanska veikin svonefnda, og veiktust smiðirnir hver af öðrum. Lengst entist Guðjón Jónsson, núverandi kaupmaður, en loks var hann tekinn í að smíða líkkistur, því að mikið var um dauðsföllin, en fáir smiðir vinnufærir. Gekk á þessu fram undir jól.
En um vorið var smíði hússins þó að mestu lokið, og var flutt í það 14. maí 1919. Fyrst fluttu þangað hjónin Þorgrímur Jónsson og Guðrún Guðbrandsdóttir, en Þorgrímur vann manna mest með Bjarna að landnáminu fyrstu árin. Nokkru seinna fluttu þau hjónin, Margrét og Bjarni, í hús sitt, en þau giftust 7. júní 1919.
Bjarni í Víðistöðum fékk fljótt að kenna á miklum erfiðleikum í hinu nýja landnánri sínu. Mestur Þrándur í Götu var honum áburðarleysið. Hann sá brátt, að ófrjó jörð sín greri seint og illa, ef hann yrði sér ekki úti um lífrænan áburð.

Víðistaðir

Víðistaðir – gamall garður.

Á fyrstu árum sínum í Víðistöðum tók hann því að sér sorphreinsun í bænum, og fyllti gryfjur og lautir með ösku og úrgangi, en notaði áburðinn við ræktunina, er hann tók að plægja melinn og sá í flögin.
Árið 1923 hefst nýr þáttur í sögu Víðistaðanna. Þá gerði Bjarni samning yið skozkt fyrirtæki, Isaac Spencer og Co, um byggingu lifrarbræðslustöðvar þar á staðnum. Tvennt bar til þess, að Bjarni stofnaði til þessarar starfrækslu. Annað var það, að árið 1921 varð fyrirtækið Brookless Bros gjaldþrota, en þar hafði Bjarni unnið frá heimkomu sinni. Hitt var áburðarvonin. Lóðarleigan var því sama sem engin, eða aðeins 1 sterlingspund til málamynda, en Bjarni skyldi hafa atvinnu hjá fyrirtækinu og allan afgangsgrút fékk hann ókeypis til áburðar.
Stórt stöðvarhús var byggt í hraunjaðrinum að norðaustan og síðan grútarpressuhús. Bjarni veitti byggingunni forstöðu, og jafnframt var hann verkstjóri, en forstöðumaðurinn var skozkur, William Kesson að nafni, og kom hann hingað á sumrin og dvaldist í Víðistöðum ásamt konu sinni. Meðan verið var að koma fyrirtækinu á laggirnar unnu 10—20 menn við það, en 5 menn að jafnaði síðan, eftir að tekið var að bræða. Lengst munu þeir hafa unnið þar, Þorgrímur Jónsson, sem áður er nefndur, Einar Napoleon Þórðarson, Kristinn Brandsson og Helgi Hildibrandsson.

Víðistaðir

Víðistaðir – lifrarbræðslan. Víðistaðir fjær h.m. Gripahús og hlaða Bjarna v.m.

Lifrarbræðslustöðin í Víðistöðum var starfrækt í 5 ár, á árunum 1923—28, en þá var tekið að bræða lifrina um borð í togurunum, og leið þá fyrirtækið undir lok. Stóðu þá húsin eftir auð og ónotuð, og komu þau í hlut Bjarna, því ekki þótti skozka fyrirtækinu borga sig að kosta til að rífa þau. Standa þau enn.
Um það leyti sem lilrarbræðslustöðin hætti störfum mátti svo heita, að Bjarni hefði komið allri landareign sinni í nokkra rækt. En langur vegur var frá því, að þetta væri nein bújörð, enda er allt svæði Bjarna aðeins 5 ha, ef með eru taldir balarnir austur og vestur á hraunbrúninni, en Víðistaðirnir allir innan hrauns eru um 6 ha. Búskapur Bjarna í Víðistöðum hefur því alla tíð verið frístundaiðja og aukastarf og löngum ekki svarað kostnaði.
Fyrstu árin hafði Bjarni enga kú, en hesta eignaðist hann fljótt, því að hann stundaði um skeið akstur á hestvögnum. Bíl hafði hann ekið áður en bílaöldin gekk í garð, og mun hann vera með fyrstu mönnum í Hafnarfirði, sem þá list kunni.

Víðistaðagráni

Vörubifreið, Ford-TT árgerð 1917 sem Bjarni Erlendsson (1881-1970) bóndi og athafnamaður á Víðistöðum við Hafnarfjörð átti lengst. Hann var nr. HF-27, síðar G-247. Bjarni notaði hann við lýsisbræðslu sína en síðast nánast sem dráttarvél við garðyrkju. Bílinn í daglegu tali oft nefndur Víðstaðagráni.

Bjarni keypti fyrstu kúna árið 1920, og var hún til húsa í litlum kofa, sem hann hafði byggt austan við veginn, ekki langt frá bugðunni, Jægar komið er niður í Víðistaðina. Mun það vera fyrsta húsið, sem byggt var í Víðistöðum. En árið 1924 byggði Bjarni gripahús fyrir 4 kýr og 2 hesta, ásamt hlöðu, í hraunbrúninni spölkorn sunnan við lifrarbræðslustöðina. Aldrei hefur Bjarni haft fleiri en 4 kýr, en stundum færri. Nú hefur hann 3 kýr. Fé hefur hann aldrei haft. Jafnan þurfti hann að kaupa hey að, enda varð að beita kúnum á túnið, því að um aðra beit var naumast að ræða.

Víðistaðir

Víðistaðir 1979.

Á kreppuárunum, aðallega árin 1932—36, leigði Bjarni dálitla spildu af túni sínu undir útiskemmtanir. Voru stundum 3 skemmtanir á sumri, og var þá mikið um að vera í Víðistöðum. Þetta var gert í Jjví skyni að afla fjár á erfiðum tímum, því enn þurfti landið sitt. En þetta varð þó lítt til fjár, leigan lág og skemmdir miklar á túni og girðingum. Því hætti Bjarni að leigja tún sitt til þessara hluta.
Enginn vafi er á því, að þau hjónin í Víðistöðum hefðu að ýmsu leyti átt áhyggjuminni daga og næðissamara líf, ef þau hefðu ekki hafið ræktunarstarf sitt þar. Þetta ævistarf þeirra hefur tekið frístundir þeirra allar, umhugsun mikla og oft valdið þeim áhyggjum. Bjarni er manna bezt verki farinn, hugmyndaríkur og greindur vel. Hann hefur jafnan haft mikinn áhuga á að brjóta nýjungar til mergjar og oft fitjað upp á þeim sjálfur. Hann var eftirsóttur við störf, enda þaulvanur að veita framkvæmdum forstöðu. Hann hefði því vafalaust getað fengið gott, fast starf. En vegna Víðistaðanna batt hann sig aldrei til lengdar, því að þar var jörð, sent hann hafði sjálfur grætt, hugsjón orðin að veruleika, en verkefninu þó aldrei til fullnustu Iokið. Þetta land var orðinn hluti af honum sjálfum, og hann gat ekki annað en helgað því krafta sína.

Víðistaðatún

Víðistaðatún – loftmynd.

Árið 1933 hóf Bjarni að gera veðurathuganir í Víðistöðum. Gerði hann þetta af áhuga fyrir athugunum sjálfum, en Veðurstofan lagði til tæki. Þessu hefur hann haldið áfram síðan fyrir litla sem enga þóknun, en mörg stundin hefur í þetta farið þessi 27 ár. Er þetta eina veðurathugunarstöðin, sem verið hefur í Hafnarfirði.
Þótt landgræðslan í Víðistöðum hafi aukið landnemunum erfiði, og vafalaust komið í veg fyrir að Bjarni festi sig í ábatasamara starfi, hafa umsvifin í Víðistöðum orðið Þeim hjónum uppspretta ánægju og lífsnautnar. Svo er jafnan, þegar unnið er að hugsjónastarfi. Því eru þau hress í anda og heilsugóð, þótt ellin knýi nú fast á hurðir.
Ég hef hér í fáum dráttum sagt ágrip af sögu Víðistaðanna, hraunlausu vinjarinnar í úfna hrauninu, sem var mér löngum undrunarefni í bernsku. Margt fleira mætti segja, en ég læt hér staðar numið. Sé í einhverju hallað réttu máli, óska ég leiðréttinga.
Víðistaðirnir eru furðusmíð náttúrunnar, en mannshöndin hefur unnið þar mikið starf. Enn geng ég þangað stundum og nýt áhrifanna af hinu sérstæða náttúrufyrirbrigði og elju mannsins.”

Í Morgunblaðinu 14. desember 1972 birtist minningargrein um Bjarna Erlendsson:

Vogsósar

Vogsósar í Selvogi.

“Bjarni Erlendsson frá Víðistöðum. Bjarni fæddist 30. marz 1881.
Foreldrar hans voru Erlendur Bjarnason bóndi í Vogsósum Selvogi og kona hans, Sigríður Hansdóttir. Átta ára missti Bjarni móður sína, brá þá faðir hans búi og fluttist að Króki í Ölfusi, þrem árum síðar fór hann til Guðrúnar Magnúsdóttur, Hrauni í Ölfusi og þaðan fór hann eftir fimm ára dvöl til Reykjavíkur.
Í Reykjavík hóf Bjarni nám í skósmíði en áður en námstíma lauk fékk hann sig lausan frá námi og fór til Skotlands, þar dvaldi hann í hálft ár, kom síðan aftur til Reykjavíkur og lauk áður byrjuðu námi. Síðan fór hann á ný til Skotlands en nú var dvölin þar lengri en áður því í sjö ár samfleytt dvaldi hann þar, fyrst sem sjómaður, en síðar í 6 ár umsjónarmaður við fiskverkun hjá samvinnufélagi í Aberdeen. Um skeið starfaði hann við veðurathuganir undir handleiðslu þekkts vísindamanns á því sviði, dr. Charles Williams.

Víðistaðir

Söfnunarsaga þessa elsta varðveitta bíl landsins er í raun fróðleg. Árið 1970 voru afar fáir ef nokkrir bílar til í íslensku safni. Bjarni Erlendsson átti bílinn til 1970. Þór Magnússon hafði forgöngu að safna tækniminjum og er T-Fordinn þessi fyrsta verkefnið sem fylgt var eftir af hálfu Þjóðminjasafns Íslands.

Atvikin höguðu því svo að Bjarni kom aftur til Íslands og gerðist verkstjóri hjá brezku útgerðarfyrirtæki, Bookles Brothers, sem þá rak mikla útgerð og fiskverkunarstöð í Hafnarfirði. Við þau störf var hann um árabil en stundaði líka smíðar og eru þau mörg húsin í Hafnarfirði, sem Bjarni teiknaði og stóð fyrir smíðum á, á þeim árum.
Brautryðjandi var Bjarni á sviði lifrarbræðslu og kom upp í Hafnarfirði í samvinnu við fleiri, einni fullkomnustu lifrarbræðslu, sem þá var til í landinu. Af þessu leiddi, að Bjarni var fenginn til þess að gera teikningar af fyrirhuguðum lifrarbræðsLum í Keflavík og Sandgerði, en kom við atvinnusögu fleiri byggðarlaga, því hann var verkstjóri við hafnargerðir á nokkrum útgerðarstöðum.
Lengi mun Bjarna verða minnzt fyrir ræktun og búskap í landi því, er hann fékk til afnota árið 1914, en það eru Víðistaðir fyrir vestan Hafnarfjörð, sem nú eru komnir inn í byggð bæjarins.

Víðistaðir

Ford-T, árgerð 1917, hjá Víðistöðum við Hafnarfjörð, líklega um 1970. Bjarni Erlendsson eigandi bílsins og Otto Christensen.

Árið 1919 kvæntist Bjarni Margréti Magnúsdóttur, sem hann missti eftir 41 árs sambúð, en hún andaðist árið 1960. Þeim hjónum varð þriggja barna auðið, sem öll komust á legg og giftust. Það eru dæturnar Kristbjörg, gift Guðmundi Sveinssyni, og Sigríður Kristin, gift Garðari Guðmundssyni, en eini sonurinn, Guðjón, lézt 13. október 1965, en hann var kvæntur Ólöfu Erlendsdóttur.
Þótt Bjarni væri hlédrægur maður, fór ekki hjá því að hæfileikar hans yrðu þess valdandi, að honum væri falin trúnaðarstörf í þeim félögum, sem hann starfaði í, en þau voru mörg, þar sem hann var félagslyndur í meira lagi. Ekki verður sá þáttur í ævi hans rakinn hér, að öðru leyti en að minnast starfa hans í Verkamannafélaginu Hlíf.

Víðistaðir

Víðistaðir  og Hafnarfjörður 1960.

Á hinum erfiðu árum fyrir síðari heimsstyrjöldina og á fyrstu árum styrjaldarinnar voru umbrotatímar í sögu verkalýðshreyfingarinnar eins og reyndar í þjóðfélaginu öllu. Bjarni tók virkan þátt í þeim átökum og hlaut fyrir trúnað hafnfirzkra verkamanna og árið 1943 var hann kjörinn í stjórn Hlífar og átti þar sæti síðan í 11 ár og 1946 til 1948 sat hann í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Mér er það minnisstætt hversu mikill stuðningur það var í öllum störfum að njóta reynslu og þekkingar þessa manns, sem hlotið hafði jafnalhliða þekkingu og var laus við að sjá málefni aðeins frá einni hlið.
Eigi er hægt svo sem vert væri, að gera skil í stuttri minningargrein hinni merku og löngu ævi Bjarna Erlendssonar og verður því hér staðar numið með einlægri ósk um að honum verði að veruleika sú bjargfasta skoðun er hann lét oft í ljós, að þegar þessari jarðvist lyki, tækju við aðrir fegurri og betri heimar.” – Hermann Guðmundson.

Heimildir m.a.:
-Víðistaðir – skráning fornleifa og menningarminja – lokagerð, Karl Rúnar Þórsson, Byggðasafn Hafnarfjarðar 28. nóvember 2002.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 19.12.1959, Víðistaðirnir – Stefán Júlíusson, vinin í úfna hrauninu, bls. 6-8.
-Morgunblaðið 14. desember 1972, Bjarni Erlendsson – minningargrein, bls. 23.

Víðistaðir

Víðistaðir (í miðið) og vestanverður Hafnarfjörður 1959. Mikið af trönum eru við og ofan við Víðistaði.