Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.