Færslur

Sauðabrekkuskjól

Gengið var frá Fjallsgjárenda við Krýsuvíkurveg með stefnu á Markhelluhól. Ætlunin var að koma við í Búðarvatnsstæðinu, kíkja á Sauðabrekkuskjólið og skjólið í Sauðabrekkugjárgígum, Fjallsgrenin og Gapið.

Markhella

Markhella – áletrun.

Svæðið, sem mótað er af u.þ.b. 8000 ára gömlu Hrúargjárdyngjuhrauninu, er þversprungið svo vissara er að fylgjast vel með vörðunum framundan. Þær vísa á brýr á gjánum. Ofan við fyrstu gjána var gengið yfir Stórhöfðastíginn. Frá honum lágu tvær aðrar greinilegar götur upp í heiðina. Litlar vörður voru við þær. Stígurinn liggur frá Ástjörn um Hédegisskarð og Ásflatir, sniðhallt yfir Bleikisteinsháls og út með Hamranesi og út á Selhraun. Gengið er suður með Stórhöfða þar sem Kaldársel blasir við, en þá hlykkjast leiðin á hraunhrygg að bruna og í áttina að Snókalöndum. Þegar þangað er komið er farið yfir Krýsuvíkurveg í áttina að Brundtorfum og Þrísteinavörðum fylgt að Fjallgjá. Gengið er með misgenginu að Fjallinu eina og austanverðum fjallsrótum fylgt að Hrútargjárdyngju. Þar mætast Stórhöfðastígur og Undirhlíðaleið sem fylgja norðanverðum Sveifluhálsi að Ketilsstíg.

Sauðabrekkugjá

Sauðabrekkugjá.

Stefnan var hins vegar tekin á grónar brekkur vestan við Sauðabrekkugjá. Frá þeim sást vel í suðurenda gjárinnar. Skv. landakortum er Stóra-Sauðabrekka sögð vera þar ofan og við suðurenda gjárinnar. Hún er vel grónin og beitarvæn. Sauðabrekkuhellar nefnast nokkrir hraunhellar sunnan hennar. Í raun nefnast þeir Moshellar. Í norðanverðum Sauðabrekkum er Sauðabrekkuskjólið, sem smalar Hraunamanna nýttu sér sem afdrep. Ofan við skjólið stóð stoltur hrútur með tvær ær og þrjú lömb. Sá hafði gefið beitarhólfi reykneskra fjárbænda og bæjarstjórnum svæðisins langt nef. Að sögn Lofts Jónssonar, Grindvíkins, fóru smalar Grindvíkinga inn að Hrútagjá fyrsta daginn og gistu þar í skúta. Þar gæti hafa verið um nefnt Sauðabrekkuskjól að ræða.

Sauðabrekkufjárskjól

Sauðabrekkufjárskjól (Moshellar).

Frá suðurenda Sauðabrekkugjár, eftir u.þ.b. 30 mín. gang, sást yfir að Markhelluhól. Gengið var að hólnum. Á honum eru áletranir; ÓTTA, HVASSA og KRÝSV. Þesssar jarðir eru sagðar liggja að klofnum klettadrangnum. Ofan á honum er tiltölulega nýleg varða. Skessuflétta er efst á brúnum sprungunnar, en steinarnir í vörðunni eru án mosa.
Í kröfugerð Óbyggðanefndar er sagt að “landamerkin séu í skoðun og til nánari athugunar, en “Markhelluhóll” mun þó vera þinglýstur markpunktur og síðan er dregin lína um Grænavatnseggjar í svonefndan Dágon.”

Markhelluhóll

Búðarvatnsstæði og Markhelluhóll. Á honum er mosavaxin varða.

Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur árið 1890 er Markhelluhóll sagður “hár steindrangi við Búðarvatnsstæðið”. Þegar staðið er við helluna má sjá í norðvestri háa vörðu. Ef letrið á hellunni er skoðað er ljóst að það er tiltölulega nýlegt. Bæði bendir mosinn umhverfis til þess sem og leturgerðin. Stafurinn “a” aftast í “Hvassa” bendir til þess að letrið hafi verið höggvið í steininn á 20. öld. Það eitt vekur tortryggni með hliðsjón af eldri landamerkjabréfum þar sem landamerkin eru áður sögð hafa verið við Búðarvatnsstæðið. Líklega má alveg eins færa rök fyrir því að mörkin séu þar, u.þ.b. kílómetra norðar, en nú er talið.

Áberandi götu var fylgt með hraunjarðinum niður að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikigirðingin. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað ti af mannhöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýniið vítt og falegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einskonar búðir. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hast við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.

Búðavatnsstæði

Búðarvatnsstæði.

Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðarvatnsstæðið sést að einungis er um mjótt hraunhaft að ræða. Í beina línu til norðvesturs sést fyrrnefnd varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel þegar komið er úr norðri. Búðarvatnsstæðið hefur verið þungamiðjan í lýsingum fyrri alda, enda fáum slíkum til að dreifa svo ofarlega í Almenningi. Það hefur því óumdeilt verið eitt helsta kennileiti í heiðinni fyrrum. Ekki er óraunhæft að álykta að um það hafi markalínan verið dregin og þar með hafa allar jarðirnar þrjár átt tilkall til þess, enda sennilega einn helsti áfangastaður á ferðum fólks milli byggðalaganna. Þar hefur verið tilvalið að slá upp búðum yfir nóttina, enda um “hálfnaðarleið” að ræða.

Markhella

Við Markhellu.

Haldið var yfir að Sauðabrekkugjárgígum. Efst í þeim er náttúrlegt skjól; Sauðabrekkuskjól. Hraunbekkur er í því og gluggi á hlið. Steinn var fyrir opinu. Skammt frá skjólinu liggur Hrauntungustíg yfir gjána. Henni var fylgt niður á stíginn. Þar sést vel hvar stígurinn liggur til suðausturs eftir sléttu helluhrauninu og yfir gjána.
Hrauntungustígur liggur frá Áslandi um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings og að Sauðabrekkum þar sem hann liggur yfir gjána.
Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa og stefnt á miðja Hrútargjárdyngju, þónokkuð vestur af fjallinu eina. Leiðin liggur að Hrúthólma þar sem farið er um helluhraun að Hrútafelli og þá er stutt i Ketilsstíginn, sem liggur yfir hálsinn til Krýsuvíkur.

Ginið

Ginið.

Fjallsgrenin eru þarna skammt norðar á sléttu helluhrauninu. Í því eru fjölmargir skútar og rásir. A.m.k. tvö hlaðin byrgi fyrir refaskyttur eru við grenin.
Frá Sauðabrekkugjárgígum nyrðri hefur runnið þunnfljótandi helluhraun, bæði til norðurs og suðurs. Hraunið er lítið, en sker síg úr grónu Hrútargjárdyngjuhrauninu. Í því sunnanverðu er Gapið, u.þ.b. 15 metra djúpt. Þunnfljótandi hraunið hefur runnið þarna niður í sprungu og fyllt hana, nema þar sem hún hefur verið dýpst og breiðust. Þar hefur hraunið ekki náð að fylla hana að fullu. Sigið var ofan í Gapið fyrir u.þ.b. ári síðan. Það er í rauninu merkilegt náttúru- og jarðfræðifyrirbæri, sem fáir vita af. Það kemur þó vel fram á loftmyndum.
Rjúpa lá á hreiðri skammt austar. Eggin voru 12 talsins.
Gengið var yfir Stórhöfðastíg. Ljóst er að ekki er um einn afmarkaðan stíg að ræða þótt einhver eða einhverjir hafi sett upp litlar vörður við einn þeirra. Sjá má hann vel mótaðan á a.m.k. þremur stöðum í hrauninu, en allir stefna stígarnir í sömu átt, að Fjallinu eina vestanverðu. Segja má því að ekki sé um einn tiltekinn Stórhöfðastíg að ræða þarna í grónum Almenningnum heldur fleiri. Þeir eru þó misgreinilegir á köflum.
Gangan tók 2 klst og 22 mín. Frábært veður.

Sauðabrekkufjárhellar

Sauðabrekkufjárhellar (Moshellar).

Sauðabrekkur

Gengið var frá Krýsuvíkurvegi um Hrútargjárhraun yfir að Markhellu eða Markhelluhól eins og hún er stundum nefnd. Frá henni var gengið niður að Búðarvatnsstæði, upp um Sauðabrekkur að Sauðabrekkugjá og norður eftir henni um Sauðabrekkugíga á leið til baka niður hraunið. Í leiðinni var gengið framhjá Gapinu, mikilli holu í miðju hrauninu.

Markhella

Við Markhellu.

Á Markastein, oftar nefnd Markhella, á einnig að vera klappað “ÓTTA” “STR” “KRYSU”. Síðan lá línan að liggja frá þessum Markasteini í stefnu upp í Krýsuvíkurland. Merkingarnar fundust á Markasteini, en ekki á Klofakletti eða Klofningskletti,eins og hans er getið í sumum landamerkjalýsingum. Hér gæti verið um einhverja misvísun að ræða.
Landamerkjabréf milli Óttarstaða og Hvassahrauns er ritað 26. maí 1890 og undirritað vegna Óttarstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur. Lýsing merkja er svona: “Landamerki milli Óttarstaða og Hvassahrauns byrja í Mið-Krossstapa, frá honum í Klofningsklett, sem varða er hjá, sunnanvert við Einirhól. Frá Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, frá þeim stað í Markhelluhól, sem er hornmark frá Óttarstöðum, Hvassahrauni og Krýsuvík; í hann er klappað: Ótt, Hvass, Krv.”

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Landamerkjabréf er til milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarstaða ritað 13. júní 1890, samþykkt frá öllum þremur jörðunum. Lýsing merkja er þessi:
“Merkin byrja í svonefndum Markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes, úr Markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stórgrænahól, úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu, úr henni í Skorásvörðu, úr henni í Miðkrossstapa, sem er horn mark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu sunnanvert við Einirhól, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík.”
Vatn var í Búðarvatnsstæðinu. Vestan við það er klettur, einnig nefndur Markhella eða Markhelluhóll. Stundum hefur verið áhöld um við hvorn klettinn hafi verið miðað í landamerkjalýsingum. Búðavatnsstæðið hefur áreiðanlega skipt miklu máli fyrir beit í heiðinni og ferðir um hana hér fyrrum. Margir slóðar liggja að vatnsstæðinu og vel gróið er í lægðum í kring.

Sauðabrekkugígar

Sauðabrekkugígar.

Haldið var upp í Sauðabrekkur og fram á barm Sauðabrekkugjár. Honum var fylgt til norðurs, um svonefnda Sauðabrekkugíga. Um er að ræða fallega gígaröð ofan við gjána. Austar hafa verið aðrir gígar, en þunnfljótandi hraun fyllt í þá að mestu. Í einum gígnum er bæli, slétt gólf og hraunbekkur. Gluggi er í bælinu, en steinn hafði verið settur fyrir.
Ginið er hluti gamallar gjár, sem nýrra hraun hefur runnið ofan í og fyllt að mestu. Eftir stendur þessi hluti, óuppfylltur. Dýpið er um 20 metrar.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Sauðabrekkur

Gígur í Sauðabrekkugígaröðinni.

Tóustígur

Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.

Tóustígur

Stórvirkar vinnuvélar komnar að hlöðnum garði við Tóustíg.

Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).

Toustigur

Tóustígur.

Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.

Tóustígur

Tóustígur.

Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.

Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.

Skógarnef

Skógarnefsgreni.

Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.

Víkingaskip

“Víkingaskip” í Afstapahrauni.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

“Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.”

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
“Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.”

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu “Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi”, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
“Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
“Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.”

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

“Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.”

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.