Löngum hefur verið deilt um hvar mörk einstakra jarða liggja eða eiga að liggja.
FERLIR áskotnaðist nýlega kort af Reykjanesskaganum þar sem tíunduð eru mörk allra stærri jarða á skaganum. Landamerkja jarða er m.a. getið í afsals- og veðmálsbókum. Upphaflegar þinglýsingar er að finna hjá sýslumanninum í Hafnarfirði, hjá sýslumanninum í Keflavík eftir 1974 og einnig má hafa uppi á þeim á Þjóðskjalasafninu.
Krýsuvík, sbr. veðmálsbók 14.5 1890, þingl. 20.6. 1890, er sögð hafa mörk “1) að vestan; sjónhending úr Dágon (Raufarkletti), sem er klettur við flæðamál á Selatöngum, í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðavatnsstæði. 2) að norðan; úr Markhelluhól sjónhending norðanvert við Fjallið Eina, í Melrakkagil (=Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu. 3) að austan: samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur s: sjónhending úr Kóngsfelli sem er lág mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
Ítök sem kirkjan á eru þau, sem nú skal greina: 1) Einn fjóri hluti (1/4) alls hvalreka fyrir Strandarkirkjulandi samkvæmt máldögum og samningi, dags. 22. október 18??, staðfestum af Stiptsyfirvöldum Íslands 27. nóvember s.á. 2) Hálfur hvalrki á Hraunnefi, frá vestri fjörumörkum Krýsuvíkur, Dagon, að Rangagjögri, samkvæmt Wilkins og Gíslamáldaga. Skipsuppdráttur í Nausthólsvík í Kálfatjarnarkirkjulandi samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna. Ítök sem aðrir eiga í landi kirkjunnar eru þessi: Tveir þriðjungar af hvalreka fyrir Herdísarvíkurlandi, frá Seljabótanefi að Breiðabás (Helli) sem samkvæmt nefndum máldögum er eign Strandarkirkju. Mánaðarselsátur í Sogum, sunnanvert við Trölladyngju, samkvæmt munnmælum og vitnisburði kunnugra manna, eign Kálfatjarnarkirkju. Brennisteinsnámur allar á Krýsuvíkur- og Herdísarvíkurlandi með réttindum og skyldum, sem afsalsbréf, dags. 30.9. og 4.10 1858 tekur fram. Ítak þetta er eign útlendinga. Þess skal hér getið að ýmsir eigna kirkjunni talsvert meira land, sem ég ekki finn ástæðu til að taka til greina, geti hlutaðeigandi orðið ásáttir um landamerki þau sem hér eru talin.”
Mörk jarðarinnar Hrauns, skv. gögnunum, eru t.d. við mörk Þórkötlustaða úr “markabás” inn til heiða vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall upp af “Sogaselsdal”, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkum jarðarinnar Krýsuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Þaðan til suðurs fram yfir Festargnípu í fjöru.
Mörk Þórustaða í austri eru t.a.m. sögð vera “í hæsta hnúkinn á Grænavatnsengjum (-eggjum)” þar sem eru fyrir landamörk Krýsuvíkur.
Þarna hefur fólk löngum deilt um mörkin, en ef lesnar eru afsals- og þinglýsingar ætti ekki að vera svo erfitt að draga landamerkjalínuna, einkum er höfð er í huga yfirlýsing Vatnsleysustrandarbænda dags. í maí 1920 þar sem þeir “fyrirbjóða innbyggjendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er samkvæmt landamerkjalýsingu fyrir Knarrarnesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru…”. Þar draga þeir línu að fyrrnefndum viðurkenndum mörkum Krýsuvíkur í Trölladyngju.
Krýsuvík hafði, auk þess að nýta Sogagíg sem selstöðu, í seli austast í Selöldu (mjög gamalt), í Húshólma, á Vigdísarvöllum, í Seltúni og jafnvel í Litlahrauni, en þessir staðir eru allir innan landamarka jarðarinnar.