Gjár

Gjár eru milli Klifsholts og Fremstahöfða, skammt ofan við Hafnarfjörð – norðan Kaldársels. Um er að ræða fjölbreytilegt hraunlandslag og sérstaklega afmarkað sem náttúruverndarsvæði. Hraunið virðist afmarkað og stakt, jafnvel einstakt – og það er það líka, ef betur er að gáð.

Inngangurinn í Gjáaskjólið

Uppruni hraunsins er í Búrfellsgíg, 1-2 km fjær. Búrfell er eldborg, u.þ.b. 7,5 km frá Hafnarfirði. Þaðan rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára (m.v. sýni, sem tekið var við Bala á Álftanesi).
Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Fellið sjálft er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Búrfellið gaus aðeins einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst fyrrnefnt Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Hraunið er bæði innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar.
Hrafnslaupur í GjánumTveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellið gengur, líkt og hraun þess, undir ýmsum nöfnum. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Í öðru eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun úr Gvendarselsgígum (nyrstu gígunum á 25 km langri sprungurein er fæddi m.a. Ögmundarhraun, Afstapahraun og Nýjahraun (Kapelluhraun)) niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. 

Hleðsla fyrir vesturenda Gjáaskjóls

Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá undir hraunyfirborðið. Þegar grunnvatnsyfirborðið er hærra í Kaldárbotnum rennur Kaldá hins vegar ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan. Það hraun er einmitt hluti af Búrfellshrauni, líkt og Gjárnar.
Þegar gengið er um Gjár má sjá allnokkra hella og skúta. Hér verða hins vegar einungis tveir þeirra gerðir að umtalsefni, báðir í sömu hrauntröðinni. Í rauninni má sjá allmiklar hrauntraðir á tveimur stöðum Gjánum, við Nátthaga og á Gjáabrúnum. Utan við Nátthaga eru t.a.m. Gróin hrauntröð í GjánumHreiðrið, Kaðalhellir og Gjáhús, en í Gjáabrúnum eru Gjáaskjólið og Gjáahellir. Sá fyrrnefndi er um 20 m löng hraunrás í myndarlegri hrauntröð. Fyrir austurendann hefur verið hlaðinn veggur. Einnig í vesturendann, sem er allnokkru þrengri. Svo virðist sem ætlunin hafi verið að nýta rýmið þar á millum. Einhverju sinni hefur fallið úr þunnu loftinu og gat myndast. Hellirinn er rúmgóður og greiðfær. Að vestanverðu tekur við opin hrauntröð, nú gróin og birkitrjáum þakin. Hún greinist skammt vestar og hefur meginstraumurinn runnið til norðurs undan hallanum. Áður hefur þó mikið gengið á um skamman tíma. Svo er að sjá að þar fyrir ofan hafi fyrst orðið nokkur kvikusöfnun um skeið. Bráðið hraunið hefur staðnæmst um stund, blásið frá sér gasefnum og myndað uppstreymi. Loks hefur bráðin kvikan náð að bræða grannbergið og finna sér leið áfram, bæði um hrauntröðina og einnig um rás, sem nú hefur lokast. Neðar birtist það sem Gráhelluhraun og síðan sem Stekkjarhraun neðan Setbergs. Í þeim hraunum er ekki að finna hraunrásir, enda á tiltölulega sléttu landi.
Gasuppstreymisopið í Gjánum má enn berja augum. Dýptin niður á botn geymisins er um 8 metrar. Hægt er að komast inn í hann (fyrir grannt fólk) um þröng op í hrauntröðinni. Í veggjum uppstreymisopsins má sjá tvo hrafnslaupa.
Svæðið í kringum hrauntröðina lætur ekki mikið yfir sér, en hefur upp á fjölmargt að bjóða. Sunnar er t.a.m. myndarleg hrauntröð. Við enda hennar er enn einn skútinn, enn ókannaður.

 

Gjár

Gjár – hleðslur.