Óttarsstaðasel

Gengið var frá Óttarsstaðafjárborginni, öðru nafni Kristrúnarborg, skammt sunnan við Reykjanesbraut ofan við Lónakot, og inn á Alfararleið. Landamerki Óttarsstaða og Lónakots eru þarna skammt vestar. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundi Sveinssyni, um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.

Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Syðst í því er stórt og mikilfenglegt jarðfall, Smalaskálaker, með rauðamelsgúl í miðjunni. Í því er útilistaverk; lítið hús með ranghverfu. Hreinn Friðfinsson, myndlistamaður, reisti það 1974 og nefndi Slunkaríki (það er nú horfið (eftir stendur ótilgreint útlitsverk á sama stað)).
Leiðinni var fylgt skamma leið til vesturs uns komið var að Lónakotsselsstíg. Honum var fylgt upp að Lónakotsseli, en áður en komið var að selinu var gengið vestur með norðanverðum hraunhólunum og skoðað þar í kring. Gengið var að vörðunni efst á hólnum ofan við selið. Stendur hún við fallega sprungu á Skorási. Myndar hvorutveggja myndræna umgjörð um Keili ef horft er þaðan til suðurs.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Norðaustan undir hólnum kúra tóttir selsins, fjórar talsins. Suðaustan þeirra er fallegur stekkur og annar skammt norðar, handan lágrar hæðar. Opið vatnsstæði er skammt sunnar, en það þornar örugglega í þurrkum. Vestan við selið er stórt jarðfall. Í því er fallega hlaðinn stekkur og fjárskúti, nefndur kvenmannsnafni.
Um 20 mínútna gangur er í austur yfir í Óttarsstaðasel. Há varða sunnan þess segir til um stefnuna. Rétt áður en komið er að selinu, skammt sunnan vörðunnar, er fallega hlaðið fjárskjól.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Handan hraunhólsins birtist selið. Sunnan þess er hlaðinn stekkur. Vestan þess er skúti í jarðfalli, en þangað hefur líklega verið sótt vatn ef vatnsstæðið sunnan selsins þornaði. Það er þó bæði stórt og vatnsgott. Suðaustan selsins eru miklar hleðslur. Innan þeirra er nátthagi. Sunnan selsins eru hlaðið fyrir fjárskjól. Sennilega heitir þar Rauðhólsskúti, en fjárskjólið vestan selsins Þúfhólskjóls. Engar merkingar eru þarna frekar en í hinum seljunum 139 á Reykjanesi. Skammt norðan við Rauðhólsskúta er nátthagi með hlaðið gerði fyrir hraunlægð.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Óttarsstaðaselsstígur liggur til norðurs beint við tóttina. Eftir að hafa gengið spölkorn eftir henni er komið í hvamm. Sunnan í honum eru hleðslur fyrir fjárskjóli, Norðurskúti. Ef stígunum er fylgt áfram til norðurs birtist fljótlega há varða á vinstri hönd, skammt vestan stígsins. Undir henni er Sveinshellir í jarðfalli, falleg hleðsla á tveimur stöðum. Fyrir opinu er birkihrísla svo erfitt er að greina opið á sumartíma. Þegar farið er í gegnum hraunið áfram til norðurs er komið að grófu hrauni í svonefndum Bekkjum. Er yfir það er komið tekur við gróð hraun. Framundan eru hraunhólar. Í einum þeirra er Sigurðarhellir (Bekkjaskúti), stórfallegt fjárskjól utan í jarðfalli. Einstigi liggur að opinu í gegnum hraunklofa.

Brennisel

Brennisel.

Ef gengið er norður og niður úr jarðfallinu birtist varða framundan. Norður undir henni er Brennisel, heil falleg hleðsla og framan við hana er tótt í jarðfalli. Hún sést ekki yfir sumartímann þar sem hrísið þekur hana svo til alveg. Fast austan við stóru hleðsluna er önnur hleðsla fyrir fjárskjóli. Enn norðar er mjög gömul hleðsla utan í hraunhól. Þetta virðist vera enn eldra kolasel.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Ef hins vegar er gengið til norðausturs út á Óttarstaðaselsstíginn er komið að gatnamótum ef hann er genginn spölkorn til norðurs. Við þau eru tvær vörður. Liggur stígurinn til suðsuðvesturs upp landið og er varðaður áfram, a.m.k. upp í Skógarnef. Þarna er líklega kominn svonefnd Skógargata (eða Skógarnefsgata), en Óttarsstaðaselsstígur hefur stundum verið nefndur Skógargata og einnig Rauðamelsstígur. Stígurinn liggur að Óttarsstaðafjárborginni. Honum var fylgt að upphafsreit.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg.