Krýsuvík

Krýsuvík er landnámsjörð. Þar nam Þórir haustmyrkur land. Þá hefur búsetan verið vestar en nú er, eða þar sem kölluð er gamla Krýsuvík í og við Húshólma í Ögmundarhrauni.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Nokkrar bæjarrústir, garðar og borgir eru þar í hrauninu, á svæði sem hefur verið talið óbyggilegt eftir að hraunið færði byggðina í kaf um miðja 12. öld. Meginbyggðin var m.a. færð að sunnanverðu Kleifarvatni, upp undir Gestsstaðavatn og austur fyrir Bæjarfell þar sem hún var allt fram á miðja 20. öld.

Um skeið var Krýsuvík höfuðból með mörgum hjáleigum – heimildir segja allt að 14 um tíma á 19. öld. Jörðin fóstraði margan manninn og skilaði sf sér dugmiklum afkomendum. Nú er hins vegar lítið orðið eftir af fornri frægð höfuðbólsins, en eftir stendur heilstætt búsetulandslag er minnir á mannlífið og atvinnuhættina fyrrum – allt frá upphafi byggðar hér á landi (og jafnvel eldri). Eftir að búseta lagðist af í Krýsuvík hófust framkvæmdir við áætlanir er jafnan fóru út um þúfur. Undantekning er þó starfsemi Vinnukólans Í Hafnarfirði þar sem ungir drengir frá Hafnarfirði elfdu hug og hönd, líkt og segir í söngtexta HZ, sem jafnan var á vörum drengjanna. Textinn gæti og vel lýst afstöðu Krýsvíkinga fyrrum:

Krýsuvík

Krýsuvík.

“Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vonleysi, þrefi og þrætum,
þeytum á bug….

Kempur í kappasveit,
í Krýsuvík vinnum heit,
að duga og treysta vort drenglyndi og þor.
Vorhugans verkin kalla
verkglaða drengi snjalla.
Sindrar um sali fjalla
sólskin og vor.“

Mörgum leikur forvitni að vita eitthvað um örnefnið “Krýsuvík”. Ýmsar getgátur hafa verið uppi um tilurð þess, s.s. að heitið tengist orðinu “kross” eða þarna hefðu í fyrstu búið “krýsverjar” eða “Krýsir”. Ef skoðaðar eru gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að “krýs” táknar einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar sem nú er hraun vestan við sunnanverðan Húshólma mun fyrrum, að öllum líkindum, hafa verið grunn vík – neðan við þar sem nú eru tóftir “Gömlu Krýsuvíkur”. Ásgeir Blöndal telur að nafnið hafi verið fengið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar. Orðið “krís” er einnig til, en í öðru samhengi; vandi eða óáran.

Indíáninn

Indíáninn í Kleifarvatni.

Núverandi akvegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður um 1944. Um svipað leyti var lagður vagnfær vegur frá Grindavík að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Áður fyrr lágu hestagötur á milli staðanna. Segja má að Krýsuvík hafi verið í þjóðleið því vermenn og  bændur að austan komu þar við á leið þeirra í verstöðvarnar og verslunarstaðina við Grindavík, á Suðurnesjum og á Ströndinni. Erlendir ferðamenn lögðu jafnan leið sína til Krýsuvíkur, ekki síst vegna hveranna, sem þar eru fjölmargir í nágrenninu. Þá sýndu þeir fjölbreytilegum búskaparháttum bænda nokkurn áhuga.
Gamlar leiðir frá Hafnarfirði lágu t.d. um Undirhlíðaveg og Dalaleið frá Kaldárseli og um Hrauntungustíg og Stórhöfðastíg frá Ási. Þrjár þessara leiða mættust í Ketilsstíg um Sveifluháls.
Þá lágu götur yfir hálsinn að Vigdísarvöllum, vestur að Seltöngum og áfram að Ísólfsskála og austur um Deildarháls að Herdísarvík. Allar þessar götur eru enn vel greinilegar og áhugaverðar til göngu.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Minjar má enn sjá eftir alla bæi, sem heimildir eru um að hafi verið í Krýsuvík frá upphafi. Mjög litlar rannsóknir hafa farið fram á aldri minjanna og því lítið vitað um sögulegt samhengi byggðarinnar í heild. Elstu tóftirnar eru að öllum líkindum, sem fyrr sagði, í Húshólma. Þar eru leifar þriggja skála, kirkju- eða bænhúss, grafreits, fjárborgar og langra garða, sem benda til langtíma búsetu. Rannsókn hefur sýnt að landnámsöskulagið (frá árinu 871) er í pælunni í einum garðanna, sem þarna er enn og hraunið hlífði fyrir átta og hálfri öld. Bendir það til þess að minjarnar getið verið allt að því frá upphafi norræns landnáms hér á landi – eða jafnvel eldri. Minjar í nálægum óbrennishólma styrkir þá tilgátu, en þar er m.a. að finna leifar af virki, topphlöðnu húsi og görðum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Leifar elsta bæjarins utan Húshólmasvæðisins eru taldar vera í svonefndum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn og tóftum Gestsstaða sunnan við Gestsstaðavatn. Allar eru þessar minjar friðlýstar.
Auk þess má sjá leifar eftirfarandi bæja: Krýsuvík (Austurb/Vesturb.), Hnaus/a, Stóra-Nýjabæjar (Austurb/Vesturb.), Litla-Nýjabæjar, Norðurkots, Suðurkots, Læks (Austurbæjarr?), Snorrakots, Arnarfells, Fitja (Efri- / Neðri-), Eyrar, Vigdísarvalla, Bala og Fells. Þá má enn sjá leifar selja þessara bæja, s.s. Kaldranasels undir Hvammahlíð, Krýsuvíkursels austan Selöldu, selstöðu í og við Sogaselsgíg, selstöðu á Vigdísarvöllum og selstöðu á Seltúni. Verminjar eru á Seltatöngum og í Húshólma (ofan við Hólmasund) og víða eru fjárskjól og beitarhús því Krýsuvík þótti góð sauðajörð og urðu bændur og búendur því mest að treysta á sauðfjárrækt, enda bera minjarnar þess glögg merki. Útbeit er ágæt, þótt engin væri fjörubeit, en féð þurfti nákvæmrar hirðingar og varð maður alltaf að fylgja því á vetrum. Segja má með nokkrum sanni að ábúendur hafi lagt mikið á sig til að halda lífi í fénu því á því lifði fólkið. Fjárskjól og -gerði tengd fjárbúskapnum má t.d. sjá í Bæjarfelli, í Klofningum, á Krýsuvíkurheiði, í Stóra-Lambafelli og á Borgarhálsi. Mógrafir eru í Rauðhólsmýri, undir Baðstofu og í Innralandi.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Krýsuvíkurkirkja er það kennileiti við bæjarhólinn í Krýsuvík, sem jafnan vekur hvað mesta athygli ferðalanga. “Elsta heimild um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka. Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag. Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun helur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman. Auk þessa ýmis ítök. Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Árið 1553-’54 telur Marteinn biskup “kirkju þar góða, – en enginn bær er þá í sókninni”. Með bréfi 27. sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot “sem þar er hjá”, til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. “Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja.” Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Í kirkjuskrá 1748 er kirkjan til, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880 -og þá líklega einungis að nafninu til.
Núverandi timburkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli.
Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar.
Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri.
Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni.

Brennisteinn var unninn í Krýsuvík á 18. og 19. öld. Frægar eru ljósmyndir í ensku 19. aldar blaði er sýndu “arðvænlega” vinnslu náttúruauðlinda á svæðinu. Á þeim sáust miklir hraukar brennisteins og allt virtist í fullum gangi. Tilgangurinn með myndunum var m.a. að selja enskum hlutabréf í námuvinnslufélaginu. Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unninn brennisteinn í Krýsuvík. Til er uppdráttur af námuvinnslusvæðinu frá þessum tíma. Þau voru tvö; annars vegar í Baðstofu milli Hettu og Hatts og hins vegar við Seltún (Hveradal). Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Þeir seldu síðan námuréttindin fyrir peninga og þótti þá í frásögu færandi. Upphæðin var þó lítil miðað við væntingar. Enn þann dag í dag má slá leifar brennisteinsnámsins í Krýsuvík, einkum við Seltún.

Ýmsar þjóðsögur og sagnir hafa spunnist í Krýsvík. Má þar nefna söguna um Herdísi og Krýsu. Dysjar þeirra má sjá í Kerlingardal undir Stóru-Eldborg. Þjóðsagan um Mókollu gerðist í Klofningum. Þar má sjá fjárhelli, fyrirhleðslur og hústóft. Tanga-Tómas var draugur á Selatöngum. Á Töngunum má sjá miklar verminjar frá fyrri öldum, einkum frá 19. öld. Séra Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík um tíma, mætti Tyrkjum utan við kirkjuna. Þeir eru grafir í Ræningjadys. Sagnir eru og um skímsli í Kleifarvatni. Sumir telja sig hafa séð það, jafnvel á síðari árum.

Hvað sem öðru líður geymir Krýsuvík heilstætt búsetulandslag fyrrum íbúa. Við bæina var t.a.m. garðar, matjurtargarður, brunnur eða vatnsstæði, fjárból, nátthagi, traðir og önnur mannanna verk. Í nágrenninu voru fjárskjól, gerði, borgir og beitarhús. Hlaðnar refagildrur má finna við greni, arnarhreiður og vörður við gamlar leiðir. Allt þarnast þetta varðveislu svo komandi kynslóðir fái tækifæri til að sjá og skilja betur aðbúnað og aðstæður þær er forveður þeirra lifðu við og dugðu til að bæta hag þeirra sem á eftir komu.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson.
-Árni Óla.
-Jarðabókin 1703.
-Hörður Zóhaníasson.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn.