Urriðakotshraun

Gengið var um Urriðakotshraun með  það fyrir augum að skoða nokkrrar klettamyndanir sem þar eru. Sumir klettanna hafa verið nefndir, s.s. Grásteinn og Einbúi, en aðrir bíða skírnar. Urriðakotshraun er hluti Búrfellshrauns.
Urridakotshraun-22“Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn. Nafnið Búrfellshraun er samheiti yfir allt hraunið en einstakir hlutar þess heita sínum nöfnum, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Stekkjarhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Flatahraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hraunið rann í tveimur meginkvíslum frá Búrfelli norðvestur á milli grágrýtisholtanna og allt í sjó í Hafnarfirði og Skerjafirði. Sjór stóð mun lægra við ströndina þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Urridakotshraun-23

Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Það er 18 km2 að flatarmáli, meðalþykktin hefur verið áætluð um 16 m og rúmmálið því um 0,3 km3 (Guðmundur Kjartansson 1972). Þykkt hraunsins norður af vatninu er samkvæmt svarfgreiningu í borholum sem þar hafa verið boraðar 6-11 m. Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, birti aldursgreiningar af því árið 1972.  Eitt af sýnunum er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins. Það er því um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f.Kr. Sprungur og misgengi í hrauninu sýna hvar jörð hefur hreyfst og brotnað á síðastliðnum 8000 árum, þ.e. frá því hraunið rann. Sprungusvæðin eru nær eingöngu í þeim hluta hraunsins sem nefnist Smyrlabúðarhraun, þ.e. grennd við gíginn sjálfan og við Kaldárbotna. Ekki er vitað um neinar sprungur eða brot í hrauninu á láglendi eða nærri byggð.”

“Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krýsuvík. Búrfellsgígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.
Urridakotshraun-24Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun. Búrfellshraunið gengur undir ýmsum nöfnum sem fyrr er getið, eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun.

Urridakotshraun-25

Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára. Hraunið er ólivínbasalt og stærð þess er 18 km2. Grunnmassinn er fremur fínkornóttur og samanstendur af plagióklas, pyroxen, olivín, ilmenít og seguljárni (magnetíti). Búrfellshraun er ólivíndílótt og eru dílarnir 5-8mm í þvermál og stundum stærri.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir fallegri hrauntröð sem nefnist Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur.
Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 Urridakotshraun-26metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni. Niðri í gjánni stendur fjárrétt sem nú er friðlýst.”
Hin ýmsu nafnkenndu hraun Búrfelsshrauns eru bæði lík og ólík. Í flestum þeirra rísa miklir klettadrangar, s.s. Gálgaklettar í Gálgahrauni, Gráhella í Gráhelluhrauni, Einstakihóll í Urriðakotshrauni, Miðdegishóll í Flatahraunu o.s.frv. Urriðakotshraun er hins vegar óvenjuríkt af stökum klettamyndunum eins og meðfylgjandi myndir sýna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Árni Hjartarson – Vatnafar við Urriðakotsvatn – Vatnafarsrannsóknir 2005.
-Verkefni í Jarðfræði 303 – Hildur Einarsdóttir og Þóra Helgadóttir – Flensborgarskólanum vorönn 2000.

Gálgaklettar

Við Gálgakletta.