Gengið var frá Straumi um Mosastíg upp á Alfaraleið, vestur eftir henni að Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) og stígnum fylgt upp í Óttarsstaðasel með viðkomu í Bekkjaskúta, Sveinshelli og Meitlaskjóli. Skoðaðar voru mannvistarleifar í selinu, s.s. fjárskjól, seltóttirnar, stekkir og kvíar, vatnsbólið og nátthaginn (réttin).
Þá var haldið lengra upp í Almenning og skoðað Gerðið og Straumselsfjárskjólið syðra, Straumselsfjárskjólið nyrðra, vatnsból og selið ásamt tilheyrandi mannvirkjum. Á bakaleiðinni var gengið um eystri Straumsselsstíginn með viðkomu í Stekknum ofan við Þorbjarnarstaði. Á leiðinni var reynt að rifja upp ýmislegt úr mannlífi bæjanna síðustu áratugina áður en þeir lögðust í eyði og þar með ofanverð mannvirkin, sem ætlunin var að skoða.
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 er m.a. fjallað um Straum og Óttarsstaði.
“Bærinn Straumur sunnan álversins og Straumsvíkur dregur nafn sitt af ferskvatni sem sprettur fram í fjörunni og í tjörnum í hrauninu. Talið er að vatnið eigi uppruna sinn í Kaldárbotnum og Undirhlíðum. Sjávarfalla gætir í þessum ferskvatnstjörnum, sem eru einstök náttúrufyrirbæri. Svæðið umhverfis Straum kallast Hraun. Þar voru um 12 býli og kot um aldamót 1900.
Straumshúsið var byggt 1926 af Bjarna Bjarnasyni (1889-1970), skólastjóra í Hafnarfirði og að Laugarvatni, sem ætlaði að reka þar stórbú. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið. Árið 1968 keypti Hafnarfjarðarbær Straumsbúið og leigði það út til ýmiskonar starfsemi. Á níunda áratug 20. aldar voru Straumshúsin gerð upp og hýsa nú listamiðstöð.
Gamli bærinn Straumur er í eigu Hafnarfjarðarbæjar og nýttur sem miðstöð listamanna, sem hafa stundum opið hús fyrir gesti og gangandi.
Árið 2006 og síðar ber mest á verkum Hauks Halldórssonar, stórlistamanns, í gamla bænum og utan hans (Þórsvagninn smíðaður í Kína).
Innanhúss er fjöldi vandaðra listaverka og mest ber á ævintýraheimi íslenzkra goðsagna, sem hefur sprottið úr hugarfylgsnum Hauks. Hann er einn fárra manna, sem hefur séð í gegnum goðafræðina og búið til heim hennar í formi módels, sem hann útskýrir á lifandi og mjög skemmtilegan hátt.
Straumur er stór jörð sem bezt sést af því að hún á land til móts við Krýsuvík. Austanmegin er land Þorbjarnarstaða, en land Óttarsstaða að vestan. Straumur hafði hinsvegar þann annmarka sem bújörð, að þar er nánast ekkert tún og heima við er varla hægt að tala um ræktanlegt land.
Ekki lét Bjarni Bjarnason, síðar skólastjóri á Laugarvatni, það aftra sér frá því að hefja fjárbúskap í stórum stíl í Straumi þegar hann var skólastjóri í Hafnarfirði. Hann hefur ekki fundið kröftum sínum fullt viðnám við kennslu og skólastjórn svo kappsfullur og átakamikill sem hann var.
Bjarni eignaðist Straum og hóf búskap þar 1918, þá ókvæntur. Fallegur burstabær sem fyrir var á jörðinni brann til kaldra kola 1926, segir Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Óttarsstöðum, sem horfði á eldsvoðann. En Bjarni hefur ekki látið þetta áfall draga úr sér kjarkinn, heldur snúið sér að því á næsta ári að koma upp nýju húsi (1927).
Með fullu starfi varð Bjarni að byggja búskapinn í Straumi á aðkeyptu vinnuafli og ólíklegt að nokkur maður hafi rekið stærra bú í Hraunum fyrr eða síðar. Ég hef fyrir því orð Þorkels sonar hans á Laugarvatni, að Bjarni hafi haft 400 fjár í Straumi, en Þorkell fæddist í Straumi 1929, sama ár og Bjarni flutti austur að Laugarvatni. Búskap hans í Straumi lauk þó ekki fyrr en 1930.
Nærri má geta að mjög hefur verið treyst á vetrarbeit, en samt verður ekki hjá því komizt að eiga allverulegan heyfeng handa 400 fjár, ef jarðbönn verða. Þeirra heyja varð aðeins aflað að litlu leyti í Straumi og mun Bjarni hafa heyjað austur í Árnessýslu.
Lítið eða ekki neitt sést nú eftir af fjárhúsunum, en eins og áður var vikið að, byggði Bjarni af verulegum stórhug hús í burstabæjarstíl, ólíkt þeim lágreistu byggingum sem fyrir voru á Hraunabæjunum. Húsið í Straumi stendur enn; það er staðarprýði og fellur ákaflega vel að umhverfinu.
Ekki kemur á óvart að höfundur hússins er Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari ríkisins, og hefur hann þá teiknað húsið um líkt leyti og Laugarvatnsskólann. Teikningin er til og merkt manni sem að líkindum hefur starfað hjá Guðjóni, en Þorkell Bjarnason á Laugarvatni segir, og hefur það eftir föður sínum, að Guðjón sé arkitektinn. Það er einnig staðfest á minningarskildi sem upp var settur í Straumi.
Ýmisskonar búskapur var um árabil í Straumi, þar á meðal svínabú. Í meira en 20 ár bjó enginn í húsinu og það var að grotna niður, bæði að innan og utan. Sáu sumir þann kost vænstan að rífa húsið, en ekki varð þó af því og Hafnfirðingar sýndu þann metnað að vilja varðveita það.
Sett var á laggirnar menningarmiðstöð í Straumi með vinnuaðstöðu fyrir listamenn. Sverrir Ólafsson myndhöggvari hefur frá upphafi verið forstöðumaður listamiðstöðvarinnar, auk þess sem hann hefur eigin vinnustofu í Straumi. Það kom í hans hlut að endurgera húsið að innan og utan með fulltingi Hafnarfjarðarbæjar og styrk frá Álverinu og einstaklingum. Hlöðunni hefur verið breytt í 150 fermetra sýningarsal eða vinnustofu sem fær birtu frá þrem kvistgluggum á framhliðinni. Þar fyrir aftan er stór vinnustofa með þakglugga og birtu eins og allir myndlistarmenn sækjast eftir.
Á þeim áratug sem listamiðstöðin í Straumi hefur starfað hafa um 1000 listamenn dvalið í Straumi; fólk úr öllum listgreinum og frá 32 þjóðlöndum. Í þeim hópi eru rithöfundar, kvikmyndagerðar-menn, tónlistarfólk, arkitektar, hönnuðir, málarar, myndhöggvarar og leirlistafólk.
Í íbúðarhúsinu eru íbúðir fyrir listamenn; þar geta búið 5 í einu. Mikil spurn er eftir vinnustofum í Straumi, sem menningarmálanefnd Hafnarfjarðar og forstöðumaðurinn ráðstafa, enda eru allskonar verkfæri látin í té.
Straumsland náði lítið eitt út með Straumsvíkinni að norðan en fyrst og fremst er það í hrauninu fyrir sunnan. Bæjarstæðið í Straumi var fyrr á tímum á sama stað, en túnin voru ekki annað en smáblettir og hefur líklega munað mest um Lambhúsgerði sem þekkist af hlöðnum grjótgarði lítið eitt vestan við Straum. Við bæinn var sjálft Straumstúnið, sem aðeins var smáskiki, og sunnan við Keflavíkurveginn var ein skák til viðbótar og grjótgarður í kring; þar hét Fagrivöllur.
Þar sem Keflavíkurvegurinn liggur fyrir botni Straumsvíkur stóð áður hjáleigan Péturskot og eru Péturskotsvör og Straumstjarnir þar niður af. Austan við Ósinn var býlið Litli-Lambhagi en sunnar, undir brún Kapelluhrauns, var hjáleigan Gerði. Þar er nú sumarbústaður.”
“Svo að segja beint suður af Straumsvík, snertuspol handan við Keflavíkurveginn, eru rústir bæjarins á Þorbjarnarstöðum. Ekki ber mikið á þeim; grasbeðjan miskunnar sig yfir þessi fátæklegu mannanna verk. Um búskap og mannlíf á Þorbjarnarstoðum er næsta lítið að finna í rituðum heimildum, en búsetu þar lauk eftir 1930. Svo er að sjá af tóftunum að þarna hafi alla tíð verið torfbær. í kring er talsvert graslendi sem venð hefur tún. Hlaðnir túngarðar standa enn uppi, svo og Þorbjarnarstaðarétt.
Einn af mörgum fallegum blettum í landi Þorbjarnarstaða, sem nú er í eigu Hafnarfjarðar, er við tjarnirnar sem verða inn af Straumsvík. Þar eru silfurtærar upppsprettur undan hraumnu, vatnsból sem ekki hefur brugðist.
Gamalt íbúðarhús er á Óttarsstöðum eystri, en það er ónýtt vegna hirðuleysis. Í gegnum brotna glugga og opnar dyr eiga snjór, regn og vindar greiða leið, en á hlaðinu skartar vörubílshræ. Annað bílhræ er í fallega hlaðinni tóft lítið eitt sunnar.
Óttarsstaðahúsið er samt sögulega merkilegt. Upphaf þess má rekja til skipsstrands sem varð við Þórshofn, skammt sunnan við Stafnes árið 1881. Þá rak kaupfarið James-town mannlaust að landi og var bjargað úr því góðum feng af dýrindis húsaviði, um 100 þúsund plönkum. Þótti þetta mikil himnasending í timburskortinum og risu af þessum viðum mörg ný hús suður með sjó og þetta eina hús í Hraununum, á Óttarstöðum eystri (1885). Húsið var síðar bárujárnsklætt.
Áður hafði bærinn á Óttarsstöðum eystri verið vestar, uppi í brekkunni hjá vesturbænum. Fátt er þar til minja um hann annað en hlöðuveggir sem hafa verið fágætlega vel hlaðnir og standa enn.
Síðustu ábúendur á jörðinni, hjónin Guðrún Bergsteinsdóttir og Sigurður Kristinn Sigurðsson hættu búskap þar 1952. Síðasti maður sem hafði fasta búsetu í Hraunum var hinsvegar Guðmundur sonur þeirra. Hann var bátasmiður og byggði sér hús niðri við fjörukambinn, en það er nú horfið. Guðmundur bátasmiður lézt 1985.
Þennan jarðarpart, sem talinn var 5 ha, á fjolskyldan þó ekki lengur. Guðni Ívar Oddsson keypti hann 1979 og flutti síðan til Ameríku. Hann er dáinn en sonur hans, Paul I. Oddsson, erfði jörðina og hefur hann aldrei til Íslands komið.
Spölkorni vestar og uppi á hæð stendur bærinn á Óttarsstöðum vestri, fallega varðveittur timburbær, bárujárnsklæddur, og gefur góða hugmynd um útlit bæja snemma á öldinni áður en steinsteypuöld hófst. Þarna er fallegt bæjarstæði og líklega það elzta í Hraunum, einkum er víðsýnt út yfir Norðurtúnið, Langabakka og flóann til norðurs.
Til suðurs sést minna en ætla mætti, því hraunbrúnin þar er há. Vestur af bænum hefur myndast hryggur tignarlegra hraunhóla og eftir honum endilöngum er frábærlega fallega hlaðinn grjótgarður. Austan við bæinn, þar sem eru grasi grónar lautir, er merkilegur hraunhóll í einni lautinni. Hann er svo sprunginn að hann er ekki kallaður hóll, heldur Hrafnagjá, enda hægt að ganga á jafnsléttu í gegnum hann á ýmsa vegu. Munnmæli herma að kirkjugarður hafi verið hjá Óttarsstöðum og hefur verið talið að enn móti fyrir honum. Þar eru og leifar af bænahúsi.
Á Óttarsstöðum vestri var búið til 1966, en bænum hefur verið vel við haldið. Þar bjuggu Ragnheiður Hannesdóttir, húsfreyja og Guðmundur Sigurðsson, bátasmiður. Hann var síðasti maður sem átti heima í Hraunum.
Síðustu ábúendur á Óttarsstöðum eystri: Hjónin Sigurður Kristinn Sigurðsson og Guðrún Bergsteinsdóttir ásamt ungum syni, og síðan hjónin Áslaug Jónsdóttir og Guðmundur Ingvarsson frá Ketilvöllum í Laugardal. Þau hófu búskap þar 1918, keyptu jörðina þá og bjuggu þar til 1966, en dóu þá með þriggja vikna millibili. Þau Óttarsstaðahjón áttu tvær dætur, Jónínu og Ragnheiði, sem er 84 ára og lét greinarhöfundi ýmislegt gagnlegt í té. Hún minnist þess úr föðurhúsum að faðir hennar sló allt túnið með orfi og ljá, enda var það ekki véltækt. Bústofninn var um 100 kindur þegar mest var, einn hestur og tvær kýr. Síðustu fimm árin bjuggu þau aðeins með kindur.
Ragnheiður minnist þess að fénu var haldið að fjörubeit og þá staðið yfir því, en langmest var þó beitt á hraunið. Faðir hennar og Sigurður bóndi á Óttarsstöðum eystri reru saman til fiskjar þegar gaf á sjó, en þeir fóru aðeins Þórunn Bergsteinsdóttlr í Eyðikoti um aldamótin 1900.”
Búskapur í Eyðikoti lagðist af um miðja 20. öld. Það kom þátttakendum helst á óvart hversu fjölmargar áhugaverðar mannvistarleifar væri að sjá í Almenningi á ekki lengri leið. Fornleifaskráning á þessu svæði er líka mjög takmörkuð og segja má með nokkurri hóflegum sanni að hún sé til bágborinnar skammar. Fjölmargar vefsíður FERLIRs fjalla um göngusvæðið. Ef áhugi er fyrir hendi má huga að leitarmöguleiðum hér fyrir ofan…
Jónsbúð, sem var hjáleiga frá Straumi, var í ábúð frá 16. öld fram til 1910. Kotið er ágætt dæmi um slík í Hraununum sem og víðar á Reykjanesskaganum frá þeim tíma.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín.
Heimildir m.a.:
-Menningarblað/Lesbók – laugardaginn 18. mars, 2000, BYGGÐ OG NÁTTÚRA Í HRAUNUM – 2. HLUTI – EYÐIBYGGÐ VIÐ ALFARALEIÐ.
-Menningarblað/Lesbók – laugardaginn 25. mars, 2000, NÚTÍMINN FÓR HJÁ GARÐI – Gísli Sigurðsson