Gengið var vestur eftir Alfaraleiðinni frá Gerði, um Draugadali, frammeð Smalaskálahæð og að Gvendarbrunni undir Gvendarbrunnshæð. Þaðan var haldið spölkorn eftir leiðinni til vesturs uns komið var að gatnamótum Rauðamelsstígs eða Skógargötu, eins og hann stundum var nefndur, auk Óttarsstaðaselsstígs. Stígurinn liggur upp frá Óttarsstöðum, um Kothól og framhjá Borginni (Kristrúnarborg/Óttarsstaðaborg) og áfram upp Bekki að selinu skammt austan við Þúfhól.
Einn tilgangurinn með göngunni að fara upp að Tóhólaskúta og skoða hvort þar gæti verið um að ræða sama fjárskjólið og nefnt er Skógarnefsskúti í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun. Í þeirri lýsingu á skútinn reyndar að vera í Skógarnefinu, en skv. upplýsingum Brunnastaðabræðra (Kristmundssona) á skútinn að vera svo til á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, skammt fyrir ofan Lónakotsmörkin, en neðan við Skógarnefsbrúnina. Mörkin liggja um Krossstapana og er brúnin skammt ofan við efri stapann. Undir þeim, skammt vestar, eru Skógarnefsgrenin.
Þá átti opið á Skógarnefsskúta að snúa mót suðri, en Tóhólaskútinn snýr opi mót austri eða norðaustri. Samt þótti ástæða til að gaumgæfa þetta enn og aftur.
Þegar komið var að gatnamótum Rauðamelsstígar, eða Óttarsstaðaselsstígar, og götu, hér nefnd Skógargata, sem liggur upp í Skógarnefið, var henni fylgt til suðurs. Þrjár vörður eru við gatnamótin, allar fallnar.
Gróið er yfir Skógargötuna fyrstu metrana, en þegar kemur að fyrstu vörðunni fer hann að verða greinilegri.
Gatan er vörðuð alla leiðina upp í Skógarnef og áfram upp í gegnum það. Skammt vestan við götuna, vestast í svonefndum Tóhólarana, er Tóhólaskúti. Áður hefur verið þar myndarleg hleðsla fyrir ílangan skúta innundir skeifulaga hraunhól, en miðhleðslan fallið niður. Enn má þó sjá hleðslurnar beggja vegna. Varða er á hól skammt sunnar, en engin ofan við skútann.
U.þ.b. 200-300 metrar eru þaðan í mörk Hvassahrauns svo varlega verður að telja að þarna geti verið um sama skúta að ræða og fyrr greinir. Sjá má vörður í hrauninu nálægt mörkunum, en á því hafði verið leitað fyrrum. Nú stendur til að leita það aftur fljótlega og þá með meiri nákvæmni. Um afmarkað svæði er að ræða.
Stígur liggur frá Tóhólaskúta áleiðis að Óttarsstaðaseli. Honum var fylgt að selinu, litið á Þúfhólsskjólið, seltóftirnar, Óttarsstaðaselshelli syðri, nátthagann og vatnsstæðið áður en haldið var niður Óttarsstaðaselsstíginn. Á leiðinni niður hann var kíkt á Meitlaskjólið, Sveinsskúta og Bekkjaskúta.
Fyrir ferðina hafði Tóhólaskúti verið hnitaður inn á kort og þá virtist staðsetning hans geta gengið Skógarnefsskúta í verustað, en við þessa nánari vettvangsathugun kom í ljós að það verður að teljast hæpin ágiskun.
Haustlitirnir settu svip sinn á hraunin með öllum þeim tilbrigðum sem kvöldsólin ein gat stuðlað að.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.