Færslur

Óttarsstaðasel

Gengið var vestur eftir Alfaraleiðinni frá Gerði, um Draugadali, frammeð Smalaskálahæð og að Gvendarbrunni undir Gvendarbrunnshæð. Þaðan var haldið spölkorn eftir leiðinni til vesturs uns komið var að gatnamótum Rauðamelsstígs eða Skógargötu, eins og hann stundum var nefndur, auk Óttarsstaðaselsstígs. Stígurinn liggur upp frá Óttarsstöðum, um Kothól og framhjá Borginni (Kristrúnarborg/Óttarsstaðaborg) og áfram upp Bekki að selinu skammt austan við Þúfhól.

Tóhólaskúti

Tóhólaskúti.

Einn tilgangurinn með göngunni að fara upp að Tóhólaskúta og skoða hvort þar gæti verið um að ræða sama fjárskjólið og nefnt er Skógarnefsskúti í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun. Í þeirri lýsingu á skútinn reyndar að vera í Skógarnefinu, en skv. upplýsingum Brunnastaðabræðra (Kristmundssona) á skútinn að vera svo til á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, skammt fyrir ofan Lónakotsmörkin, en neðan við Skógarnefsbrúnina. Mörkin liggja um Krossstapana og er brúnin skammt ofan við efri stapann. Undir þeim, skammt vestar, eru Skógarnefsgrenin.
Þá átti opið á Skógarnefsskúta að snúa mót suðri, en Tóhólaskútinn snýr opi mót austri eða norðaustri. Samt þótti ástæða til að gaumgæfa þetta enn og aftur.
Þegar komið var að gatnamótum Rauðamelsstígar, eða Óttarsstaðaselsstígar, og götu, hér nefnd Skógargata, sem liggur upp í Skógarnefið, var henni fylgt til suðurs. Þrjár vörður eru við gatnamótin, allar fallnar.
Gróið er yfir Skógargötuna fyrstu metrana, en þegar kemur að fyrstu vörðunni fer hann að verða greinilegri.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Gatan er vörðuð alla leiðina upp í Skógarnef og áfram upp í gegnum það. Skammt vestan við götuna, vestast í svonefndum Tóhólarana, er Tóhólaskúti. Áður hefur verið þar myndarleg hleðsla fyrir ílangan skúta innundir skeifulaga hraunhól, en miðhleðslan fallið niður. Enn má þó sjá hleðslurnar beggja vegna. Varða er á hól skammt sunnar, en engin ofan við skútann.
U.þ.b. 200-300 metrar eru þaðan í mörk Hvassahrauns svo varlega verður að telja að þarna geti verið um sama skúta að ræða og fyrr greinir. Sjá má vörður í hrauninu nálægt mörkunum, en á því hafði verið leitað fyrrum. Nú stendur til að leita það aftur fljótlega og þá með meiri nákvæmni. Um afmarkað svæði er að ræða.
Stígur liggur frá Tóhólaskúta áleiðis að Óttarsstaðaseli. Honum var fylgt að selinu, litið á Þúfhólsskjólið, seltóftirnar, Óttarsstaðaselshelli syðri, nátthagann og vatnsstæðið áður en haldið var niður Óttarsstaðaselsstíginn. Á leiðinni niður hann var kíkt á Meitlaskjólið, Sveinsskúta og Bekkjaskúta.
Fyrir ferðina hafði Tóhólaskúti verið hnitaður inn á kort og þá virtist staðsetning hans geta gengið Skógarnefsskúta í verustað, en við þessa nánari vettvangsathugun kom í ljós að það verður að teljast hæpin ágiskun.
Haustlitirnir settu svip sinn á hraunin með öllum þeim tilbrigðum sem kvöldsólin ein gat stuðlað að.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Tobba
Gengið var upp að Óttarsstaðaborg og um Smalaskálahæðir áleiðis upp í Brennisel. Á leiðinni var litið á Alfaraleiðina, skoðaðar leifar, sennilega kolasels, skammt norðvestan Brennisels og síðan haldið upp að Álfakirkju og skoðað fjárskjól þar undir kirkjunni; klofnum hraunkletti.
Óttarsstaðafjárborgin er heilleg. Hún hefur einnig verið nefnd Kristrúnarborg eftir samnefndri konu Sveinsdóttur frá Óttarsstöðum, sem hafði forgöngu um byggingu hennar um 1870.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Í Smalaskálahæðum eru sprungur. Ein þeirra kom við sögu í nýlegu sakamáli. Í hæðunum er falleg hraunskál með rauðamölshæð. Á henni var listaverk, sem nú er að mestu skemmt; Slunkaríki.
Tólf bæir, lögbýli, hjáleigur og þurrabúðir stóðu á ströndinni frá Straumsvík að Lónakoti. Þar var kallað í Hraunum og heitir svo enn þó að nú sjáist þar aðeins garðar, tóftir og nokkrir sumarbústaðir. Sjóróðrar voru snar þáttur í lífsbaráttunni, ekki sízt á Hraunabæjunum þar sem landkostir voru litlir og landþrengsli mikil. Þá hefur munað um sjávarfangið. Annar bjargræðisvegur á Hraunabæjunum var sauðfjárbúskapur, sem hefur þó verið í smáum mæli hjá flestum vegna þess að túnin voru varla annað en smáblettir og engjar ekki til. Hinsvegar var treyst á kvistbeit í hraununum og ekki tíðkaðist að taka sauði á hús. Þeir voru harðgerðar skepnur; leituðu sér skjóls í hraunskútum í aftökum, en gengu hrikalega nærri beitarlandinu.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Á heimildum eins og Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín má sjá að algeng búfjáreign á Hraunabæjunum í upphafi 18. aldar hefur verið 1-3 kýr og aðeins 18-20 kindur. Síðar á sömu öld snarfækkaði fé af völdum fjárkláðans sem átti upptök sín skammt frá, á Elliðavatni. Búfé í Hraunum fjölgaði á 19. öld og fram á þá 20. Þá var algengt að 80-100 fjár væri þar á bæjunum, svo og tvær mjólkandi kýr og ef til vill ein kvíga að auki. Á stærri jörðunum áttu menn tvo hesta en smákotin stóðu ekki undir hrossaeign. Af manntölum má sjá að víða hefur verið mannmargt á kotunum og stórir barnahópar komust þar upp. Það er nútímafólki gersamlega óskiljanlegt hvernig fjölskyldur gátu framfleytt sér á landlausum hjáleigum, þar sem bústofninn var nokkrar kindur . Líklega hefur munað mest um sjávarfangið.
Þarna bjó fólk fram á miðja 20. öld og lifði nánast á engu eftir því sem okkur finnst nú.
Hraunabæir áttu kirkjusókn að Görðum í Garðahreppi, sem er talsvert löng leið fyrir gangandi fólk. En það var engum vorkennt að ganga þessa leið til kirkju; heldur ekki börnunum sem á fyrstu áratugum 20. aldarinnar gengu alla þessa leið til þess að komast í skóla. Síðar fengu þau skólastofu í húsinu á Óttarstöðum eystri.

Brennisel

Brennisel – kolagröf fremst.

Umhverfis Óttarsstaðabæina er eina umtalsverða og samfellda graslendið í Hraunum, enda var byggðin þéttust þar. Í hrauninu sjást minjar um sauðfjárbúskapinn. Þar eru nátthagar, kvíaból og fjárskútar, fallega hlaðin fjárborgin og réttir. Í Almenningi eru fimm selstöður: Lónakotssel, Óttarsstaðasel, Straumsel, Gjásel og Fornasel. Þar var haft í seli og þar bjó fólk og starfaði sumarlangt, frá 6. til 16. viku sumars.
Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði. Raunar var það fagra land, þar sem Hraunabæirnir stóðu, alls ekki til. Ströndin var þá 2-3 km innar, en í goshrinum á Reykjanesskaga, sem einkum hafa orðið á 1000 ára fresti, rann hvert hraunlagið yfir annað og færði ströndina utar. Ein slík hrina varð fyrir um 2000 árum, önnur fyrir um 1000 árum og samkvæmt því ætti að vera kominn tími á næstu hrinu.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hér má sjá hverning hraunið mótaði umhverfi Hafnarfjarðar fyrir 5000 árum.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.
Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Hellnahraun

Hraun í nágrenni Hafnarfjarðar.

Fyrir utan hraunið úr Hrútagjá hafa tvær aðrar dyngjur átt mikinn þátt í að móta ásýnd Reykjanesskagans vestantil. Þó það komi Hraunabæjunum ekki við má geta þess hér til fróðleiks að flæmi hrauna úr dyngjunni Þráinsskildi þekja svæðið frá Kúagerði að Vogastapa og enn vestar er dyngjan Sandfellshæð; hraun úr henni dreifðust allar götur vestur í Hafnir.
Síðar hafa yngri hraun fyllt upp í lægðir og stundum náð til sjávar. Nærtækt er að benda á snarbratta brún Afstapahrauns við Kúagerði. Það er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar. Stærsti hluti þessa hraunflæmis heitir Almenningar og bendir til að þar hafi verið óskipt beitiland.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Hin reglubundna dagskrá fór í gang á ný fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.
Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum.

Brennisel

Brennisel – skjól.

Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.
Alfaraleiðin suður með sjó lá ekki um hlöðin á Hraunabæjunum, heldur lítið eitt sunnar, raunar sunnan við Keflavíkurveginn eins og hann er nú. Þessar götur eru nú löngu upp grónar, en samt sést vel móta fyrir þeim.
Lengst af voru Hraunabæirnir í Álftaneshreppi, en þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp 1878, var talið að Hraunin væru hluti Garðahrepps eins og Hafnarfjörður. Eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1908 voru Hraunin áfram talin tilheyra Garðahreppi, en þau komu í hlut Hafnfirðinga árið 1967 þegar gerður var makaskiptasamningur við Garðabæ.

Þorbjarnastaðir

Þorbjarnastaðir – tilgáta.

Nú má spyrja hvers virði Hraunajarðirnar séu þegar búskapur þar hefur lagzt niður. Án efa eru Hraunin mikils virði, þó ekki væri vegna annars en þess að þau eru rétt við þröskuldinn á höfuðborgarsvæðinu. Mörgum þætti ugglaust freistandi að byggja þar og má minna á, að í tímaritinu Arkitektúr verktækni og skipulag frá 1999, viðrar Gestur Ólafsson arkitekt hugmynd um samfellda borgarbyggð frá Keflavík til Hafnarfjarðar. Með öðrum orðum: Höfuðborgarsvæðið verði í framtíðinni byggt á þann veginn í stað þess að teygja það upp á Kjalarnes.
Í landi Hafnarfjarðar er að finna mikla arfleifð gamalla bygginga og mannvistarleifa sem segja sögu bæjarins. Þessar minjar ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Álfakirkja

Fjárskjól undir Álfakirkju.

Upphaf náttúruverndar í Hafnarfirði má rekja til þess er málfundafélagið Magni fékk Hellisgerði til afnota árið 1922 og var tilgangur félagsins að koma í veg fyrir að sérkenni og tilbreytni frá náttúrunnar hendi hyrfi úr umhverfi byggðarinnar við mannvirkjagerð. Einnig var það markmið fyrstu skipulagsáætlunarinnar í bænum sem staðfest var árið 1933, að helstu einkennum hraunsins og fegurstu hraunborgunum skyldi lofað að standa án skemmda.
Mikið er af minjum í landi Hafnarfjarðar, rústum ýmis konar, gamlar alfaraleiðir, þurrabúðir, skreiðarklappir o.fl. Til þess að vernda þessar minjar þarf að hafa góða heildarsýn, hverju á að halda og hverju á að sleppa. Samkvæmt lögum teljast fornleifar hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á. Friðlýstar fornminjar í bæjarlandinu eru 16. Fornleifastofnun Íslands hefur útbúið skrá yfir fornleifar í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og fyrsti hluti þeirrar vinnu kom út árið 1998.

Straumssel

Straumssel.

Til þess að minjar í Hafnarfirði öðlist gildi fyrir almenning er nauðsynlegt að auka fræðslu og upplýsingar um einstaka staði og hluti af verndunarstarfi að kynna og fræða. Því er þörf á átaki í minjaskiltum, merkingu svæða og stikun þeirra. Sérstaklega á þetta við innan bæjarmarkana, því þar eru rústir víða án vitneskju bæjarbúa. Í dag er eitt minjaskilti í landi Hafnarfjarðar og er það við Krýsuvíkurkirkju.
Svonefnt Brennisel virðist hafa verið aðstaða til kolagerðar. Slík aðstaða hlýtur að hafa verið víða frá Hraunbæjunum því mikil hrístekja og skógarhögg hefur átt sér stað í grónum hraununum og uppi í Almenningum. Norðvestan við Brenniselið má slá leifar af annarri svipaðri aðstöðu. Í hraunbollanum þar sem selið er, er tóft, nú þakin runnum. Skammt utar, í norðaustur, er hlaðið fyrir skúta; gæti verið fjárskjól.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem saman var tekin 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á Almenningum. Skiptin er þannig eftir hreppum: “Grindavíkurhreppur 7 jarðir, Rosmhvalaneshreppur 24 jarðir, Vatnsleysustrandarhreppur 20 jarðir, Álftaneshreppur 21 jörð og Seltjarnarneshreppur 5 jarðir.
Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með Almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Nokkrar jarðir hafa ennþá haft skógarhögg á heimajörð og eru þessar nefndar.

Almenningur

Gengið um Almenning í Hraunum.

Krýsuvík, heimaskógur lítill, Hvassahraun, hrísrif á heimalandi og einnig notað í heyskorti. Lónakot á Álftanesi, skógur að mestu eyddur, en notaður jafnvel fyrir nautpening. Hvaleyri, að mestu eytt. Setberg, hefur átt skóga til forna. Garðar á Álftanesi á skóg og tekur mjög að eyðast. Vífilsstaðir, skóg hefur jörðin átt og er hann nú eyddur svo mjög að kolagerð minnkaði um fjórar tunnur. Hólmur, skóg hefur jörðin átt, sem nú er aldeilis eyddur. Jörðin Reykjavík átti þá sel undir Undirhlíðum norðan við Kleifarvatn, þar var hrísrif til nota fyrir selið.”
Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir.
Í gegnum þessi skrif má lesa, að menn hafa gert sér grein fyrir því, að skógarnir eyddust, en annað var ekki tiltækt til kolagerðar og eldiviðar.
Gengið var upp að Álfakirkju. “Kirkjan” er klofinn hraunhóll. Undir honum er fjárskjól. Hlaðið er upp í lárétta sprungu í hólnum. Inni er rúmgott skjól, sem virðist hafa verið mikið notað. Páfakjör kaþólikka fór fram um svipað leyti og gangan. Minnti hraunhóllinn óneitanlega á Sixtusarkapelluna í Róm þótt enginn væri reykurinn.

Smalaskjól

Smalaskjól við Smalaskálahæð.

Ekki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin. Í Straumsseli og Óttarsstaðaseli voru brunnar.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu oft einmanalegt og erfitt starf.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986.

Heimildir m.a.:
-http://www.simnet.is/annalar/hvassahraun/temp5-gudmundur-hvassahraun.htm
-http://www.hafnarfjordur.is/hafnarfjordur/skipulag_og_framkvaemdir/stadardagskra/

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Lónakot

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir “Lónakot” segir um landssvæði bæjarins ofanvert:

Lónakotssel

Lónakotssel.

“Svo er nafnasnautt upp undir veginn, en um hann liggja hraunbrekkur þvert. Þær heita Högnabrekkur. Svo er þar á vesturmerkjum, nokkuð ofan vegar, Taglhæð og Hólbrunahæð. Enn ofar er svo Lónakotssel. Ofan þess liggur hraunás þvert yfir landið, sem heitir Skorás, og þar, sem landið nær lengst í suður, heitir Mið-Krossstapi. Meira er svo ekki til hér að sinni.”
Vesturlandamerki Lónakots í Lónakotsseli lágu um Skorás, í áberandi vörðu, sem þar er. Skammt austar er landamerkjavarða utan í klapparhól, líkt og segir í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Landamerkjavarðan sú (með hattinn) stendur enn óröskuð. Skammt vestan hennar er austasti selstekkurinn.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar um Lónakots segir m.a. um framangreint svæði:

Lónakotssel

Lónakotssel – Skorásvarða.

“Ofan vegar liggur landamerkjalínan um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Héðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás og þaðan í Mið-Krossstapa.

Lónakotssel

Lónakotssel – landamerkjavarðan með “hattinn”.

Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða “Klett” austan til við Lónakotssel. Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorási er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali var klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.”

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a. um svæðið norðan Lónakotssels:

Bekkjaskjól

Bekkjaskjól.

“Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni. Þar var mikið bláberjalyng og var mikið farið þangað til berja í gamla daga. Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni suður yfir Seljahraun og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker. Framan við hellinn óx fyrrum mikil birkihrísla. Hana kól í frostunum 1918, en rafturinn er þarna enn.

Brennisel

Brennisel.

Töluvert vestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita. Vestur og niður af þeim er hæð, sem nefnist Breiðás. Skammt suður frá fjárbyrginu eru Litluskútar og þar austur af slétt hæð, sem nefnist Litliás.

Sveinshellir

Sveinshellir.

Skógargatan liggur suður rétt við Rauðumelana, vestan við Gvendarbrunnshæð, áfram yfir Seljahraun og upp Mjósundin. Þá liggur stígurinn á brún grunnrar lægðar. Í henni, rétt suður af Bekkjahrauninu, er hellir, sem nefndur er Sveinshellir. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla mikil. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið. Varða, sem nefnd er Sveinsvarða, er á klapparbrún yfir hellisopinu.”

Lónakotssel

Lónakotssel – fjárskjól.

Í bókinni “Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, sem Sesselja Guðmundsdóttir, skrifaði, segir um framangreint svæði:
“Þegar staðið er á Taglhæð sést sléttlendi nokkurt til suðausturs og þar ofar blasir Skorás við en það er hæð sem liggur til suðvesturs út frá Lónakotsseli í Hafnarfjarðarlandi. Við augum blasir þversprunginn klapparveggur og ber hæðin Skorásnafnið því með sóma. Sunnan til á ásnum er varða sem heitir Skorásvarða en hennar er getið í gömlum merkjalýsingum.”

Líkt og fram kemur hér að framan eru þrjár “aðgreindar seljatættur” í Lónakotsseli, auk einnar stakrar. Tóftin sú hefur væntanlega verið eldhús frá vestasta tóftarhólnum. Lýsingin passar vel við fjölda stekkja á svæðinu. Þeir eru þrír; einn nyrst, annar austast og sjá þriðji í jarðfalli vestan við selið. Í því er einnig fjárskjól.

Í Brenniselshæðum eru reyndar ummerki eftir eldri selstöður er höfðu þjónað sama tilgangi fyrrum. Þar er og að finna kolagrafir er styðja tilvist þeirra.

Heimildir:
-örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði.
-Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, bl.s 119.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.