Gráhella

Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947. Þarna mættu afkomendur þessara manna ásamt fleira fólki til að minnast liðinna tíma.
gvendarlundur-231Þannig vildi til að síðasta dag sumars 1946, nánar tiltekið þann 25. október, mætti 21 Hafnfirðingur til fundar þar sem ákveðið var að stofna Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Mætingin var nokkuð lakari en fundarboðendur reiknuðu með því þá þegar höfðu 100 Hafnfirðingar gerst félagar í Skógræktarfélagi Íslands sem var stofnað á Alþingishátíðinni á Þingvöllum. Skógræktarfélag Íslands hafði sinnt ræktunarstörfum á suðvesturhorni landsins frá stofnun félagsins en vorið 1946 var ákveðið að stofna sérstök félög í Reykjavík og Hafnarfirði í anda þeirra héraðsfélaga sem störfuðu víða um landið.
Markmiðin sem lögð voru til grundvallar stofnun nýja skógræktarfélagsins voru háleit eins og kom fram í lögum þess: 
“Tilgangur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er að vinna að trjárækt og skógrækt í Hafnarfirði og nágrenni og auka skilning og áhuga Hafnfirðinga á þeim málum.
Tilgangi sínum ætlar félagið að ná með því að veita félagsmönnum fræðslu um skógrækt og trjárækt, með útbreiðslu ársrits Skógræktarfélags Íslands, fyrirlestrum, myndasýningum og öðrum leiðbeiningum. Félagið ætlar að greiða fyrir útvegun ýmissa frætegunda og trjáplantna handa félagsmönnum.”
Á stofnfundinum var ákveðið að allir hafnfirskir ársfélagar og ævifélagar  í Skógræktarfélagi Íslands, skyldu teljast félagsmenn í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, frá og með 1. janúar 1947.
Helmingur þeirra sem sátu stofnfundinn voru kosnir í embætti á vegum félagsins. Þar á meðal voru Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði sem tók að sér starf gjaldkera og sinnti því árum saman. Þorvaldur Árnason skattstjóri var meðstjórnandi til að byrja með en tók við formennskunni af Ingvari Gunnarssyni árið 1948 og gegndi embættinu til ársins 1954. Jón Gestur Vigfússon bókari var fyrsti ritari félagsins og tók síðan við formennskunni af Þorvaldi árið 1954 og sinnti því starfi til 1958, þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við formanns embættinu. Hann var formaður til ársins 1965. Þessir fjórir menn lyftu grettistaki og fóru fyrir áhugasömu skógræktarfólki á fyrstu árum félagsins, þegar mest á reyndi að sýna og sanna að skógrækt væri möguleg í upplandi Hafnarfjarðar. 

Grahelluflot-231

Staðreyndin var sú að ekki höfðu allir bæjarbúar trú á að skógræktaráhuginn ætti eftir að endast lengi. Það blés ekki byrlega til að byrja með og reyndi verulega á þrautsegju og þolgæði þeirra sem stýrðu málum af hálfu Skógræktarfélagsins. Þar munaði miklu um þekkingu og dugnað frumkvöðlanna sem létu ekki deigan síga þó svo að á móti blési. Gunnlaugur Kristmundsson sandgræðslustjóri átti sæti í stjórn félagsins fyrstu fjögur árin. Hann var kunnur af störfum sínum við uppgræðslu landsins og þekkti betur til en flestir aðrir. Að ráði hans var leitað til bæjaryfirvalda og óskað eftir landi til ræktunar við Hvaleyrarvatn, í svonefndum Vatnsenda neðan við Beitarhúsaháls og Húshöfða. Þegar til átti að taka vorið 1947 var mikil kuldatíð og útlitið við Hvaleyrarvatn allst ekki nógu gott. Gunnlaugur stakk þá upp á því að reynt yrði að fá leyfi til að girða af nokkra hektara nyrst í Gráhelluhrauni, skammt frá Lækjarbotnum. Hann taldi að þar yrði vænlegt að planta út trjám, þrátt fyrir kuldann, og hann hafði rétt fyrir sér.
Jón Magnússon frá Skuld í Hafnarfirði var hörkudulegur og vanur að taka til hendinni. Jón hafði fengið úthlutað landi í Smalaskálahvammi í Klifsholti árið 1945 sem hann girti og hófst handa við að stinga niður rofabörð og bera á þann gróður sem fyrir var. Hann breytti á nokkrum árum grýttu holti í ræktanlegt land og plantaði út furu, greni, birkitrjám og fleiri tegundum sem hann komst yfir. Jón breytti þessum ofbeitta hvammi í sannkallaðann sælureit á nokkrum áratugum og sýndi fram á að þetta var kjörið land til ræktunar. Smalaskáli ber Jóni og fjölskyldu hans gott vitni og það er ljóst að hann og ættmenni hans eru með græna fingur, eins og frægt er. Nægir að nefna gróðrastöðina Skuld sem Jón stofnsetti árið 1952. Gróðrarstöðin útvegaði Hafnfirðingum og íbúum helstu nágranna byggðarlaga fjölbreyttan trjágróður um langt árabil og þar ræktað Jón m.a. beinstofna birkitré sem sett hafa svip á garða um allan bæinn.
Jón í Skuld tók að sér að annast girðingavinnuna í Gráhelluhrauni og fékk til liðs við sig þrjá unga menn sem girtu 7 hektara spildu vorið 1947. Gunnlaugur sandgræðlsustjóri útvegaði girðingaefnið, en á þessum tíma var afar erfitt að fá girðingarefni nema til að girða lönd bænda, enda voru höft á öllum innfluttum vörum. 

grahella-322

Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Bæjarbúar fjölmenntu og meðal þeirra sem tóku þátt í þessari fyrstu gróðursetningu í hrauninu voru kennarar, prestar, læknar, embættismenn, fiskverkafólk, sjómenn, húsmæður og börn. Flestir voru í sínu fínasta pússi enda um helgidag að ræða. Fjölmargir vildu leggja sitt af mörkum til að klæða landið skógi og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður í hraunið. Þetta var erfitt starf og þurfti að útbúa sérstaka haka til að koma plöntunum niður í hrjóstrugt hraunið.
Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt eins og Gunnlaugur sá fyrir. Fyrirkomulag útplöntunarinnar var með þeim hætti að þarna áttu að vera falleg rjóðrur umkringd trjágróðri sem gæti brotið vindinn og skapað skjólsæla unaðsreiti fyrir íbúa bæjarins og aðra sem vildu njóta þess sem skógurinn hefði upp á að bjóða. Vissulega stórfenglegt markmið og þetta vor var sá grunnur lagður að ræktun sem hefur skilað gjörbreyttri ásýnd þessa hluta bæjarlandsins.  
Stjórnarmennirnir Þorvaldur Árnason, Jón Gestur Vigfússon og Jón Magnússon voru dugmiklir félagsmenn á upphafsárunum og unnu af miklum krafti að ræktuninni og öflun styrkja frá fyrirtækjum og bæjaryfirvöldum. Þegar Ingvar Gunnarsson ákvað að hætta sem formaður vorið 1949 varð Þorvaldur Árnason sjálfkrafa formaður félagsins. Stjórnarfundir voru haldnir á skrifstofu Þorvaldar á Skattstofunni frá upphafi. Fyrsta verk nýja formannsins var að fá aukið land í Gráhelluhrauni til útplöntunar. Girðingin var stækkuð og náði austur að Hraunsrétt sumarið 1949. 
Framkvæmdagleðin var mikil í þessu litla félagi og afar brýnt að halda vel utan um fjármálin. Jón Magnússon í Skuld stóð sig með stakri prýði og var  manna duglegastur við að afla nýrra félaga. Á þessum tíma gerði hann út strætisvagna sem gengu milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Sú saga gekk um bæinn að það fengi enginn far með strætó nema vera í Skógræktarfélaginu. Jón gerði lítið úr þessari sögu, enda orðum aukin, en honum fannst sagan góð engu að síður.
Jón í Skuld hélt tryggð við félagið alla tíð og sat í stjórn þess í 40 ár. Hann átti mikinn þátt í að félagið gat útbúið eigin græðireiti í Höfðaskógi sem var  mikilvægt framfaraskref. Hann var gerður að heiðursfélaga á 40 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1986 og var sá fyrsti sem hlaut þann heiður.    
grahelluheaun-233Vorið 1954 urðu formannaskipti þegar Jón Gestur Vigfússon tók við af Þorvaldi Árnasyni. Jón Gestur var þekktur ræktunarmaður og hafði stundað landbætur og trjárækt í Sléttuhlíð frá sumrinu 1925. Á aðalfundinum var ákveðið að fjölga í stjórninni úr fimm í sjö manns, því það þurfti að fá fleiri til að sinna starfinu enda stækkaði félagið stöðugt. Árið eftir gat félagið ráðið til sín sumarstarfsmann á launum. Sumarið 1956 voru sumarmennirnir tveir og veitti ekki af enda ætlunin að hefja girðingavinnu við Hvaleyrarvatn árið eftir.
Þegar 32 ha spilda við Hvaleyrarvatn hafði verið girt vorið 1958 hófst gróðursetning með aðstoð félagsmanna Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, sem gróðursettu 7000 plöntur. Almennir félagsmenn gróðursettu annað eins þetta sumar og starfið var blómlegt.
Vorið 1958 óskaði Jón Gestur eftir því að hætta formennskunni og var séra Garðar Þorsteinsson kjörinn í hans stað. Garðar var áhugamaður um trjárækt og hafði m.a. komið sér upp glæsilegum gróðurreit í hvammi ofan við Grænugrófarlæk, sunnan Jófríðarstaða. Þegar hér var komið sögu hætti Jón í Skuld sem gjaldkeri, en Haukur Helgason kennari tók við af honum. Haukur var starfsmaður félagsins sumarið áður og vann við að planta út í Gráhelluhrauni. Hann átti eftir að koma mikið við sögu félagsins næstu árin.
Séra Garðari fylgdu nýjar áherslur í starfinu. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré. Garðar kom því til leiðar að félagi fékk úthlutað 56 hektara landsvæði við Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu sumur unnu drengirnir í sumarbúðunum í Krýsuvík að útplöntun í Stóra-Skógarhvammi undir stjórn Hauks Helgasonar. 

Gráhella

Tóftir við Gráhellu.

Árið 1961 fékkst samþykki bæjaryfirvalda fyrir því að endurnýja girðingarnar við Skólalund í Litla-Skógarhvammi í Undirhlíðum. Ræktunarsvæðið var á sama tíma stækkað um 30 hektara með Kúadalagirðingunni, sem náði langleiðina að Kaldárbotnum. Segja má að ræktunarsvæði í umsjón Skógræktarfélagsins hafi vaxið úr 7 hekturum vorið 1947 í 200 hektara vorið 1961, sem var vonum framar.
Séra Garðar var formaður félagsins til vorsins 1965 en þá tók Ólafur Vilhjálmsson við og sinnti því hlutverki lengst allra, eða næstu tvo áratugina. 
Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í  dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.
Þessir menn stóðu ekki einir, því þeir áttu maka, börn, ættingja og vini sem skiluðu ekki síður miklu og merku starfi til eflingar skógræktar í bæjarlandinu. Fjöldkyldur þeirra stóðu heilshugar að baki þeim og studdu þá til góðra verka. Minningarsteinar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar eru virðingarvottur við allt það merka fólk sem hefur lagt sig fram um að bæta landið með hag komandi kynslóða fyrir brjósti. 

Heimild:
-http://www.skoghf.is/greinar

Gráhella

Gráhella.