Krýsuvík

Viðurkenndar prófgráður hafa jafnan verið metnar til verðleika þegar sótt er um störf.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Höfundur lauk m.a. barnskólaprófi, gagnfræðiprófi, menntaskólaprófi, stúdentsprófi, prófi frá Lögregluskóla ríkisins, prófi frá stjórnunarskóla FBI í Bandaríkjunum og prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, auk ótal prófgráða eftir hin og þessi námskeið í gegnum tíðina. Var auk þess í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, nefndarmaður í ótal nefndum og formaður nokkurra.
Sú “prófgráða”, sem þó hefur nýst honum hvað best í gegnum tíðina, er reynslan frá Vinnuskólanum í Krýsuvík. Þá var hann á aldrinum 8-11 ára. Að vísu var enginn “útskrifaður” frá skólanum þeim arna með prófgráðu, en í lok hverrar annar fengu flestir þátttakendur viðurkenningarskjöl, sem hvert og eitt var verðskuldað og ígildi prófgráðu.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls – HH.

Auk viðurkenninganna fengu hlutaðeigendur laun fyrir vinnuframlag sitt. Jafnan þurfti sérhver að vinna hálfan dag á launum. Vinnuframlag hvers og eins var metið frá degi til dags, allt frá 25 aurum til einnar krónu. Verðbólgan lék Vinnuskólann illa, líkt og aðra slíka vinnustaði. Á síðasta ári Vinnuskólans voru hæstu daglaunin 5. kr.
Eftir hádegismat var farið í gönguferðir um nágrennið, landlagið metið og útskýrt. Ratleikir eða aðrir slíkir voru um helgar. Þá var hópnum gjarnan skipt upp í hópa, sem hver og einn fékk það verkefni að stefna að ákveðnu marki. Oftar en ekki kom til átaka milli hópanna. Sérhver fékk “lífteygju” á upphandlegg – ef hún varð slitin var viðkomandi úr leik.
Kofar voru byggðir í gilinu við Hettulækinn, sundlaug grafin sunnan Bleikhóls og silungsveiðar stundaðar í Kleifarvatni, gengið upp að Arnarvatni á Sveifluhálsi eða inn að Víti í Kálfadölum.
Einhverja daga, virka sem og um helgar, þurfti hver og einn að aðstoða í eldhúsi; skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Þar voru daglaunin best. Boðið var upp á morgunmat (hafragraut og mjólk), hádegismat (bjúgur, fiskibollur o.s.frv.), kvöldmat (sem ég man nú ekki hver var) og kvöldkaffi. Miðdegiskaffið (mjólk á glerflösku og brauðsneið) tókum við jafnan með okkur í gönguferðirnar um nágrennið.
Aukreitis þurfti sérhver að búa um sitt rúm, skúra herbergisgólf og ganga, þvo sinn þvott, hengja upp og strauja hann síðan með rúmfjölunum, sem fólust undir rúmdýnunni.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Í fríum var leikið með tindáta í gólfskotstöðu á grámáluðu steingólfinu, lesið, spilað á mylluleik eða þátt tekin í úthugsuðum íþróttaviðburðum, s.s. fótboltamótum á milli herbergjanna, 1-5. Allan tímann voru foreldranir víðs fjarri.
Að kvöldi dags var kvöldvaka; kvikmyndasýning. Þá var setið með krosslagða fætur í röð á kjallaraganginum og horft á “Síðasta móhikanann” eða einhverja aðra spennandi dásemd. Í framhaldinu var kvöldkaffi; kakó og kex. Áður en gengið var til náða var farið sameiginlega með “faðir vorið”.
Allt starfsfólk Vinnuskólans stóð sig frábærlega – ekki bara í einu heldur og öllu. Í seinni tíð hefur gjarnan verið kvartað yfir meðferð barna á meðferðarheimilum ríkis og sveitafélaga, en því var alls ekki til að dreifa í Krýsuvík. Skólastjórar og skátaforingjar frá Hafnarfirði höfðu forgöngu með skólanum. Má þar t.d. nefna Helga Jónasson, Hauk Helgason, Ólaf Proppe, Hörð Zóphaníesson, Birgi Friðleifsson, Rúnar Brynjólfsson o.fl.

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962 er grein um Vinnuskólan í Krýsuvík undir fyrirsögninni “Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar”:

Unglingavinnan

Grein um Vinnuskólann í Alþýðublaði Hafnarfjarðar 1962.

“Undir forystu Álþýðuflokksins stofnaði bærinn sumarvinnuskóla í Krýsuvík fyrir 10 árum. Forstöðumaður vinnuskólans er Haukur Helgason, skólastjóri Öldutúnsskólans, og hefur hann unnið þar mjög gott starf ungum borgurum þessa bæjarfélags til heilla. Þar eru drengir bæði látnir vinna og leika sér. Þeir læra ýmis hagnýt vinnubrögð, eru undir góðum aga og er kennt að meta gildi vinnunnar. Þeim er einnig veitt tilsögn í leikjum, svo sem knattspyrnu. Drengirnir eru á aldrinum 8—12 ára. Þá er ótalin sú þjónusta, sem þetta er fyrir heimilin, sú hvíld, sem mæðurnar njóta á meðan synir þeirra eru við holl störf upp í Krýsuvík. Ekki má gleyma því heldur, hve drengirnir hafa miklu betra af því að vera við vinnu og leiki í Krýsuvík, en að vera að leika sér allan liðlangan daginn í göturykinu.
Vinnuskólinn var stofnaður fyrir 10 árum. Hafnarfjörður var fyrsta íslenzka bæjarfélagið, sem hóf rekstur vinnuskóla í þessari mynd, en síðan hafa fleiri bæjarfélög fylgt fordæmi Hafnarfjarðar.
Aðsókn að vinnuskólanum hefur verið mjög góð, og hafa færri drengir komizt en viljað hafa. Fyrir 3 árum voru 80 drengir í vinnuskólanum, en nú síðastliðið sumar 120.
Þess má geta, að í stærsta kaupstað landsins, Reykjavík, þar sem íhaldið hefur haft meirihluta í bæjarstjórn um tugi ára, mun engan vinnuskóla vera að finna hliðstæðan vinnuskólanum í Krýsuvík. En ætti Reykjavík að standa hlutfallslega jafnt Hafnarfirði í þessum málum, þyrfti hún að reka um 1200 barna vinnuskóla. Hamar hefur skiljanlega okki frætt Hafnfirðinga um þetta.
Vegna þess, hve vinnuskóli fyrir drengi hefur reynzt vel, hefur Alþýðuflokkurinn ákveðið, að láta einnig hefja rekstur vinnuskóla fyrir stúlkur nú á næsta kjörtímabili, fái hann umboð frá kjósendum til að stjórna bænum.”

Krýsuvík

Drengir við leik í Vinnuskólanum í Krýsuvík. – HH.

Vinnuskólinn í Krýsuvík var aflagður vegna ómerkilegra þrætur stjórnmálamanna bæjarins, einkum að hálfu sjálfstæðismanna, og tilkomu nýrrar heilbrigðisreglugerðar af hálfu ríksins, sem gerði honum ómögulegt að halda áfram hinni merkilegu starfsemi við þær aðstæður, sem þá var boðið upp á í Krýsuvík – illu heilli.

Hér má lesa Krýsuvíkursönginn, sem jafnan var upphafinn við hátíðleg tilefni. Höfundurinn er Hörður Zóp.

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug….

Sjá meira um Vinnuskólann  HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 10. tbl. 16.05.1962, Unglingavinnan í Krýsuvík sómi Hafnarfjarðar, bls. 5.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.