Gísli Sigurðsson

“Góðir Rótarífélagar.
Á mun skorta mánuð eða tvo, að tíu ár séu liðin frá því ég hóf verulega, að leita mér fræðslu um Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Ég man það enn, ég var þá staddur inni hjá Jóel Ingvarssyni og voru við að ræða um þetta viðfangsefni. Það höfðum við reyndar gert oft áður. Við höfðum talað um kotin sem búið var í, um hraunið kringum þau og um fólkið sem í þeim bjó.
Gisli Sigurdsson - IIIIJá, mér er það minnisstætt, að Jóel sagði við mig: “Nú ferð þú af stað, Gísli, og safnar því sem safnað verður hjá fólki sem eitthvað veit og kann frá að segja”.
Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar heldur hóf göngu mína með því að fara til Maríu Kristjánsdóttur, hún lýsti nokkrum bæjum og húsum, og er hana þraut erindið, spurði ég: “Hver getur sagt mér nákvæmar frá þessu eða hinu”? Þannig gekk það koll af kolli þar til ég hafði rætt við um það bil 150 manns bæði hér í Hafnarfirði, í Reykjavík og víðar. Alla þessa vitneskju skrifaði ég niður hjá mér í dagbækur og færði síðan inn í aðrar bækur. Með þessu móti hafði ég upp á lýsingum nær 100 – eitthundrað bæja og 60 – sextíu húsa, vel að merkja íbúðarhúsa, auk þess útihúsa ýmiskonar og pakkhúsa verslana. Þessa rannsókn mína batt ég við svæðið frá Hvaleyri kringum Fjörðin vestur að Bala. Landið allt upp frá Firðinum með öllum þess dældum, hólum og lautum, fjöllum, hálsum og dölum, hvömmum, klettum, dröngum og gjögrum, stígum og slóðum og munu örnefni þessa svæðis að tölunni til nálgast 400 – fjögur hundruð. Eins og þið munið af upphafi þessa erindis míns, þá var einnig ráð fyrir gert, að kynnast fólkinu sem hér bjó í kotunum og húsunum. Ekki var aðeins nöfnin, sem duga mundu heldur varð að leita nokkuð uppruna því nær hvers og eins, leita foreldra, föður og móður, afa og ömmu, langafa og langömmu og miklu lengra fram eftir því sem nauðsyn krafðist og heimildir til treyndust. Til þess að fullnægja þessum þætti hefur verið farið yfir nokkur rit sem nú skulu upp talin. Vil ég góðir Rótarífélagar, strax biðja velvirðingar á þeirri upptalningu. En þar sem ég tel, að þetta verði samt að koma til nokkurrar glöggvunar, þá helli ég nú yfir ykkur þessum ófögnuði: Er þá fyrst að telja, að farið hefur verið yfir Manntöl frá árunum 1703 – 1762 – 1801 – 1816 – 1835 – 1840 – 1845 – 1850 – 1855 – 1860 – 1870 – 1880 – 1890 – 1900 – 1910 – 1920 – 1930.
Þessum bókum hefur verið flett austan frá Lómahnúp, landið allt um kring að Skeiðarársandi. Ekki einu sinni heldur mörgum sinnum aftur og aftur.
Farið hefur verið yfir Manntals-, Bændatals- og Gjaldabækur úr Gullbringu- og Kjósarsýslum frá 1696 allt til aldamótanna síðustu. Þetta eru góðar bækur og skilmerkilegar.
Gisli Sigurdsson-VÞá koma skiptabækur Gulbringu- og Kjósarsýslu frá 1760 til 1900, Ábúendaskrá Skálhólsstiftis 1681, Skjöl um Gjafakorn á 18. öld, Ministeríalbækur Garðaprestakalls frá 1747 allt til vorra daga og Húsvitjunarbækur sama prestakalls frá 1820 til 1910. Þrátt fyrir að bækur þessar eru ekki sem bezt skrifaðar, þá eru þær ágætar og hér vantar ekkert blað í, hvað þá bók.
Þá mætti nefna Ministeríalbækur flestra kirkna austan frá Mýrdalssandi til Eyjafjarðar.
Þá má ekki gleyma Úttekstarbókum Garða- Og Bessastaðasókna, eða hins gamla Álftanesshrepps, Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupsstaðar. Skipaskráningar og það sem til hefur náðst af verzlunarbókum héðan úr Firðinum. Ekki má gleyma Veðmálabókum Sýslanna frá 1806 til 1910, sem þó eru góðar heimildarbækur um margt sem varðar bú og bæ fólks og fé Hafnfirðinga. Nær allt það sem hér hefur verið talið eru skrifaðar heimildir. Kemur þá röðin að prentuðum heimildum. Það er fyrst að nefna: Íslendingabók, Landnámabók, Annál Flaeyjarbókar, Íslenska annála frá 1400 til 1800 og Annál 19. aldar. Þá hefur verið nauðsynlegt að fara í gegnum Biskupasögur Jóns Egilssonar, Sýslumannsævir Boga Benediktssonar, Alþingisbækur frá 1580, allt það sem út er komið. Fornbréfabækur frá upphafi til 1550. Yfirréttarbækur þær sem út eru komnar.
Þá hefur verið farið í gegnum Íslenskar æviskrár, 5 – fimm bindi, Prestatal og Prófasta, Guðfræðingatal, Lögfræðingatal, Verkfræðingatal og Kennaratal. Ættartölubækur ýmsat, svo sem Bólstaði og Búendur og Sögu Hraunhverfis eftir Guðna prófessor Jónsson og Bergsætt og nokkrar Árnesingaættir eftir Sigurð E. Hlíðar. Þá hefur ekki verið hægt að ganga framhjá Sögu hafnarfjarðar, Minningarriti Flensborgarskóla, Sögu Eyrarbakka, Sögu Bessastaða, Sögu Jóns Þorklessonar, skólameistara í Skálholti, Tímaritið “Ægir” og síðast en ekki sízt hefur margs verið leitað í hinni ágætu bók Ferðaminningum Sveinbjarnar ritsjóra Egilssonar, sem er ein ágætasta heimild um byggðina hér í Firðinum 1870 og þar í kring. Þá kemur og hér til greina bók Knud Zimsen “Við Fjörð og Vík”. Fleira mætti til tína, en þessum leiðindalestri læt ég nú hætt að sinni.
Ekki þætti mér það undur þó þið Rótarífélagar góðir segðuð sem svo í hjarta ykkar; “Fjöllin tóku jóðsótt, fæddist lítil mús”. Þegar ég nú reyni að gefa ykkur lítilnn “Prís” af því sem ég hef reynt að vinna úr þessum plöggum öllum.
Tek ég hér bæjarlýsingu á Ásbúðarbænum, Landamerkjalýsingu Hvaleyrar. Þátt þriggja kvenna er bjuggu í Ásbúð og ólust þar upp, og að síðustu nokkra þáttu einnar ættar hér í Firðinum, sem ég er nýbúinn að ná saman.”

Heimild:
-Handrit Gísla, nú varðveitt í Bókasafni Hafnarfjarðar.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.