Brunntorfur

Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni “Landvinningar á Reykjanesi” um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:

Fornasel

Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.

“Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.

Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.

Fornasel

Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.

Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
Brunntorfur—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.

Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst  jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.

Hraunin

Hraunin ofan Straumsvíkur.

Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.

Brunntorfur

Fjárskjólið í Brunntorfum.

Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.

Fornasel

Í Fornaseli (Brunnseli?).

Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —

Fornasel

“Brunnurinn” (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).

Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr

Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt “Brunnsel”, sbr. “Brunntorfur”. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.

Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.

Brunntorfur

Í Brunntorfum.