Magnúsardys

Áður hefur verið gerð leit að örnefninu “Magnúsardys” í Lónakotslandi. Leitað hafði m.a. verið undir Hádegishæð, sem er eyktarmark frá Lónakoti, en miðað við lýsinguna virtist það svæði lítt sannfærandi.
KlettaborgÍ tilefni þess má vel koma fram að þótt hér hafi verið leitað að einstöku örnefni í heilum örnefnalýsingum getur slíkt orðið jafn tímasamt og ef leitað er eftir fleirum á stærri svæðum.
FERLIR ræddi við kunnuga á svæðinu áður en haldið var enn einu sinni á vettvang í Hraununum. Kom þeim saman um að Magnúsardys ætti að vera neðan við Hádegishæðina. Á hæðinni væri varða og ætti nefndur Magnús að hafa verið dysjaður í klapparsprungu, sem þar er. Ekki voru þeir fáanlegir til að vísa á staðinn. Að að sumra sögn átti Magnús að hafa verið sakamaður af Innnesjum, sem ferja átti að Bessastöðum. Á leiðinni átti hann að hafa sloppið frá gæslumönnum sínum ofan við Lónakot, en þeir náð honum, drepið og dysjað í hraunsprungu, sem þar var.
LónakotOg þá var að kanna örnefnalýsingar. Gísli Sigurðsson segir eftirfarandi um Magnúsardys í sinni ítarlegu lýsingu um Lónakot: “Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.”
Hér er maðurinn nafngreindur og Hádegishæð nefnd til sögunnar, sem og sprungin klöpp. Reyndar er hraunið allt klappasprungið, líka undir Hádegishæð. Á henni er varða, eyktarmark frá Lónakoti, sem undir það síðasta var tvíbýli þótt það komi ekki fram í lýsingunni. Síðari hluti lýsingarinnar verður að teljast “út og suður” því Hraunsnesþúfa er nálægt vesturmörkum Lónakots, allfjarri (ofan við Hraunsnes á mörkum Hvassahrauns) og Hausthellir er í Hraunsnesinu, hvorutveggja í vestur frá Hádegishæð. Það var því úr vöndu að ráða.
LandamerkiÁður hafði verið reynt að staðsetja dysina og Hausthelli m.v. framangreinda lýsingu.
Ekki var um annað að ræða en að fá einhvern enn staðkunnugri á svæðinu til að álykta um staðháttu og líklega staðsetningu. Haft var samband við Leif Sörensen og varð hann gófúslega við beiðni FERLIRs um samfylgd um svæðið. Svo vel vildi til að þann daginn í maí skall á 19°C hiti með tilheyrandi blíðviðri. Róleg síðdegisgangan um Lónakot varpaði því ljósi á fjölmargt í örnefnalýsingunum, sem ekki verður rakið hér því markmiðið var jú að staðsetja Magnúsardys umfram annað. Hitt geymist því þangað til síðar.

Vatnagarðafjárskjól

Eftir að Hádegishæðin og nágrenni hennar neðanvert hafði verið gengið fram og til baka virtist staðsetningin á Magnúsardys lítt trúverðug.
Gengið var inn á Vesturtún (Seltún) Lónakots. Líklega hefur Seltúnsnafnið komið af því að fráfærur Lónakots voru um tíma við Réttarkletta, vestarlega í landareigninni.
Gengið var um Norðurtúnið ofan við Vörina (austast á því eru tóftir útihúsa) og yfir á Austurtúnið. Þar er tóft af hrútakofa. Sunnar eru Vökhóll og Sönghóll. Á þeim eru Vökhólsþúfa og Sönghólsþúfa.
Stefnan var hins vegar tekin að klapparhól á neðanverðum mörkum Lónakots og Óttarsstaða því skv. stuttri örnefnalýsiningu Ara Gíslasonar segir eftirfarandi um Magnúsardys: “Þar heita við sjóinn Vatnagarðar, og upp af þeim, á merkjum, er hóll, sem heitir Sjónarhóll. Niður og vestur af honum er dys í gjá. Dys þetta heitir Magnúsardys.”
KvosAð sögn Leifs eru Vatnagarðar austan og ofan við Lónakotslónin. Í stórstreymi fyllast garðarnir af vatni, sem líkt og annars staðar í Hraununum er ferskt yfirborðsvatn, en salt undir. Sagði hann það vera í fersku minni þegar Hraunamenn komu á aðra bæi og þar fengu kaffi að þeim fannst kaffið bragðvont. Í það vantaði saltbragðið.
Á  leiðinni má víða sjá jarðföll þar sem hlaðið hafði verið niður í svo fé gæti sjálfala komist upp ef svo illa færi. Bein í þeim gáfu til kynna hvernig til tókst.
Ofan við Vatnagarða er myndarlegt fjárskjól í stóru jarðfalli; Vatnagarðafjárskjól eða Vatnagarðahellir. Um Vatnagarðsfjárhellir segir Gísli Sigurðsson: “Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin; Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðunum er Vatnagarðahellir eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.”
SjónarhóllHér rataðist Gísla á réttan stað því fjárskjólið er augljóst þarna austan landamarkanna.
Áberandi kennileiti frá Vatnagarðafjárskjóli í suðaustri eru tvær háar vörður. Um þær segir Ari Gíslason í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: “Tvær ævafornar vörður eru neðan Sjónarhóls. Þær Varðaheita Ingveldar, og neðan þeirra eru hraunhólar, sem heita Tindhólar. Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir. Neðan þeirra er lægð með vatni í, sem heitir Leirlág.”
Leirlág er augljós. En stefnan hafði verið tekin á Sjónarhól. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar af Óttarsstöðum um Sjónarhól segir: “Rétt norður af Sjónarhól eru tvær vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð. Ekki er vitað, hvernig á Ingveldarnafninu stendur. Vestur og niður af Ingveldi voru kallaðir Tindhólar.”
Örnefnalýsingarnar eru skráðar á sjöunda áratugi 20. aldar. Hafa ber í huga að á Þorbjarnarstöðum í Hraunum bjuggu um tíma um aldarmótin 1900, tvær Ingveldar; annars vegar Ingveldur Jónsdóttir, Guðmundssonar, hreppstjóra á Setbergi, og nafna hennar Þorkelsdóttir, Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi. Þær mæðgur, eða dugmiklir synir og bræður, gætu auðveldlega hafa hlaðið vörður þessar á hæðinni, enda bæði forfeður og afkomendur þeirra beggja þekkt fyrir hleðsluverk, sbr. Þorbjarnarfjárborgina á Brunanum (sjá meira HÉR). Vörðurnar vísa augljóslega á nálæg greni. Þriðja varðan, sem nefna mætti Grenvörðu, er skammt suðaustar og með sama hleðslulagi. Þar er líka greni. Auk þeirra er sambærileg varða við greni allnokkru norðvestar í hrauninu, suðvestan við Lónakot.
IngveldarNú var komið upp að nefndum Sjónarhól, háum klapparhól í hraunfletinu. Frá honum mátti auðveldlega sjá upp að Lónkotsseli og í Krossstapana er tilgreindir eru í landamerkjalínum. Neðan og vestan hólsins er varða við klapparsprungu. Þegar horft var yfir hraunlendið virtist augljóst að þarna gæti Magnúsardys verið. Við skoðun á vettvangi var að sjá mikið af smágrýti í sprungunni – og gróið yfir að hluta. Varðan virtist allgömul og ekki hafa verið hlaðin af engu tilefni. Telja mætti því líklegt að þarna sé tilnefnt örnefni (Magnúsardys), eða hvað?
SjónarhóllÍ örnefnalýsingunni segir um Sjónarhól: “Þaðan [frá Markhól] liggur landamerkjalínan milli, eða um, austustu lónanna og hólmanna, upp þaðan hraunið í Sjónarhól, sem er stór, sprunginn hraunhóll, sem víða sést að, bæði neðan frá sjó, vestan úr hrauni og austan og sunnan langt að.  Landamerkjalínan lá um Sjónarhólsvörðu, sem er efst á Sjónarhólshæð, og þaðan áfram suður og yfir Högnabrekkur. Þar kom Lónakotsvegurinn á suðurveginn. En Lónakotsselsstígurinn lá áfram suður á alfaraleiðina, gömlu hestaslóðina á Suðurnes.”
Framangeind lýsing skiptir nefnilega meginmáli þegar staðsetja átti Magnúsardys. Þegar staðið er á Lónakotsvegi og horft til austurs (m.v. lýsinguna) má vel sjá Sjónarhólshæðina, aflanga frá norðri til suðurs. Suðurendi hennar leggur nú rétt norðan við núverandi Reykjanesbrautar, en Högnabrekkur ofan hennar. Á landakortum hefur nyrsti hluti hæðarinnar jafnan veriði nefndur “Sjónarhóll”. Þar er gróið vörðubrot, Sjónarhólsvarða. Girðing á mörkum Lónakots og Óttarsstaða liggur um norðurenda hæðarinnar og síðan áfram til suðurs vestan hennar. Þessi hluti hæðarinnar sést vel neðan frá Lónakotsbænum og af sjó. Aftur á móti þegar staðið er á Sjónahólshæð og horft er til upplandsins, að Lónakotsseli, stendur önnur gróin varða hærra, þ.e. syðst á hæðinni. Hún er sérstaklega áberandi þegar komið er ofan frá, eftir selsstígnum eða gengið eftir alfaraleiðinni. Þaðan er líka ágætt útsýni heim að Lónkotsbænum.
MagnúsardysEf tekið er mið að því að síðastnefna varðan væri Sjónarhólsvarðan og horft til þess að Magnúsardys ætti að vera neðan og vestan við hana er þar stakur klofinn hóll, kjörinn gálgi sbr. söguna hér á eftir. Suður undir og fast við hann er gróin gjóta. Efst á hólnum er hlaðin skófvaxin varða. Þegar komið var á vettvang fór hundur, sem var með í för, hiklaust niður í gjótuna, krafsaði í svörðin og lagðist síðan þar hinn rólegasti. Varla væri hægt að finna betri stað til að husla dauðan mann eftir það sem á undan var gengið.

MagnúsardysÞegar FERLIR var að undirbúa þessa ferð um Lónakot var m.a. rætt við gamlan fjárbónda á svæðinu. Hann sagðist hafa heyrt eldri menn tala um sakamannadys á þessu svæði. Sagan hefði verið þessi: ” Fyrr á öldum, ekki er vitað nákvæmlega hvenær, átti að flytja mann, Magnús að nafni, sem sakaður var um að hafa stolið snærispotta á Vatnsleysuströnd, til Bessastaða. Fangarar höfðu reitt hann á taglhnýttum hesti í lest um gömlu götuna millum Nesja. Þegar undir hæð (Taglhæð) eina var komið hefði fanginn fallið af baki. Hann hefði þá náð að smeygja af sér höftunum og hlaupa hraðfóta niður hraunið, áleiðis að Lónakoti. Fylgdarmenn veittu manninum eftirför á hestum.
SjónarhóllÞrátt fyrir hraðfygli Magnúsar hefði verið um ójafnan leik að ræða. Hann hefgur náð að fela sig í klapparspurngu neðan og vestan við Sjónarhól, en eftirfylgdarmennirnir, spennuhlaðnir, móðir og másandi, náðu honum þar. Við eftirförina hafði þeim hlaupið svo mjög kapp í kinn svo þeir ákváðu að ljúka verkinu á staðnum; þar og þá, án dóms og frekari laga, þ.e. hengt hann við kjöraðstæður. Líkið hefðu þeir síðan urðað í klapparsprungu á vettvangi.
Að sögn hefur vitneskjan jafnan verið um staðinn því einn afkomenda Magnúsar hefði hlaðið litla vörðu ofan við dysið, eins og það hefur gjarnan verið nefnt.
Þegar vettvangurinn var skoðaður komu í ljós nokkur lítil en djúp jarðföll. Í sum þeirra hafði verið hlaðið svo fé, sem leitaði niður í þau, kæmist upp aftur. Í öðrum var grjót. Líklegt má telja að dysið sé eða hafi verið í einu jarðfallanna. Hafi einhver Magnús fallið niður í þau, líkt og fram kemur í lýsingu Gísla, t.d. á snjó að vetrarlagi, er ólíklegt að hann hafi komist upp aftur af sjálfsdáðum.
Sjá meira um Lónakot HÉR.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS um Lónakot og Óttarsstaði.
-Leifur Sörensen, fæddur og uppaldinn á Óttarsstöðum vestri.
-NN.

Lónakot