Í örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun segir að Skógarnefsskúti, fjárskjól, sé á mörkum Hvassahrauns og Óttarsstaða, í beina línu milli Hrauns-Krossstapa og Klofningskletts ofan Skógarnefs. Í skilgreiningunni er skógur sagður í Skógarnefi, kjarri vaxinni hlíð. Skógarnefsgren eru sögð neðar. Samkvæmt þessu á skútinn, sem svo mikið hefur verið leitað að, að vera svo til í beinni línu ofan við efsta Krossstapann, í gegnum grenin (sem hleðslur sjást við neðan norðurbrúnar Skógarnefs) og í sömu línu milli þeirra og Klofningskletts norðan Búðarvatnsstæðis. Hann leynist því, skv. þessu, í Skógarnefinu sjálfu, ofan við grenin.
Til eru a.m.k. þrjár örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun er varða austurmörk jarðarinnar. Þar á hún land að Lónakoti upp að Krossstöpum, en ofan við þá á Hvassahraun land mót Óttarsstöðum, allt upp í Búðarvatnsstæði og Markhól þar fyrir ofan, að mörkum Krýsuvíkur.
Í upplýsingum gefnum af Sigurði Sæmundssyni frá Hvassahrauni og þá aðallega kona hans, sem Ari Gíslason skráði, segir m.a. um þessi austurmörk jarðarinnar:
“Á veginum, rétt þegar komið er inn í Hvassahraunsland að austan, er hraunlendi nokkuð greiðfært og slétt af hrauni að vera, þar heitir Sprengilendi, nær það alllangt niður fyrir veginn. Þar rétt neðar, aðeins vestan merkja, er hóll sem heitir Grænhóll. Þar enn neðar er hraunhóll eins og miðsvæðis milli sjávar og vegar, sá heitir Skógarhóll. Upp við veg og um veg er Sprengilendið, það er hæð ofan vegar, er þar nafnlaus lægð. Neðan við Skógarhól á merkjum er svo nes það sem heitir Hraunsnes.” Þarna er sem sagt verið að lýsa mörkunum neðan hins gamla Keflavíkurvegar, sem nú sést þarna skammt ofan núverandi Reykjanesbrautar. Síðan segir:
“Svo byrjum við aftur við þjóðveginn við merki Lónakots. Þar er varða sem heitir Markavarða, upp af henni er með mörkum Taglhæð. Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast.” Lengra til suðurs nær þessi lýsing ekki.
Í lýsingu Gísla Sigurðssonar koma hins vegar fram ítarlegri lýsingar á mörkunum:
“Landamerki milli Hvassahrauns í Vatnsleysustrandarhreppi og Lónakots í Álftaneshreppi, síðar Garðahreppi, eru talin þessi (1889): Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi; úr Markakletti í Skógarhól uppi á hrauninu, úr Skógarhól í Stóra-Grænhól ofar á hrauninu, úr Stóra-Grænhól í Taglhæð, úr Taglhæð í Hólbrunnshæð, úr Hólbrunnshæð í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Mið-Krossstapa.” Hér erum við komin að þeim stað, sem hin fyrri lýsing endaði. Þá heldur áfram: “Landamerki milli Hvassahrauns og Óttarsstaða eru þessi (1889): Mið-Krossstapi, þaðan í Hraun-Krossstapa, úr Hraun-Krossstapa í Klofningsklett, úr Klofningskletti í Búðarvatnsstæði, úr Búðarvatnsstæði í Markhelluhól, og eru þar klappaðir stafirnar Ótta. Hvass. Krv.”
Í enn einni örnefnalýsingunni, sem fela í sér upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, en hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti, segir m.a.:
“Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti. Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren. Skógur er í Skógarnefi.”
Skv. framanskráðu ætti Skógarnefsskúti að vera ofan við grenin og neðan við Klofningskletts. Vandinn virtist einungis vera sá að feta sig eftir línunni milli þessarra tvegga staða (efsta Krossstapans) með stefnu á Búðarvatnsstæðið (WGA84 – 6359064-2201878). Í örnefnalýsingunni segir að “norðar er Snjódalaás, hraunás með keri, sem kallast Snjódalir. Þá tekur við Hraun-Krossstapi, Mið-Krossstapi og Krossstapi eða Neðsti-Krossstapi. Þá liggur lína um Skorás með Skorásvörðu. Þar norðar er svo Hólbrunnur, vatnsból í klöpp, sem heitir Hólbrunnshæð. Á henni er Hólbrunnsvarða, Þá er Taglhæð með Taglhæðarvörðu. Þá er Markavarða rétt við þjóðveginn.” Og þá er hringnum lokað.
En nánar að leitinni sjálfri. Byggt var á þessum fyrrum skráðum upplýsingum. Hafa ber í huga að FERLIR hefur þegar gert nokkrar “atlögur” að svæðinu með það að markmiði að finna og staðsetja nefndan skúta (sem hingað til hefur látið lítið yfir sér). Þorkell Kristmundsson á Efri-Brunnastöðum (nú látinn) í Vatnsleysustrandarhreppi, sem oft hafði smalað þetta svæði, taldi skútann vera heldur inni á Óttarsstaðalandi (að það hann minnti). Ekki mundi hann hvort sjást ættu hleðslur í eða við skútann. Skógarnefsskúta er hins vegar ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði. Af því mætti ætla að skútinn væri heldur til “vestlægur”, þ.e. inni í Hvassahraunslandi.
Mófuglasöngurinn hljómaði um kjarr, kvosir og kletta.
Haldið var upp frá Kristrúnarborg (Óttarsstaðaborg), gengið hiklaust framhjá Litluhellum, skoðað þrastarhreiður í brún lítils jarðfalls ofan Alfaraleiðar, fornrar þjóðleiðar milli Innnesja og Útnesja, haldið um Taglhæð og síðan austan Hólbrunnshæðar að Skorási. Austan við hann kúra tóftir Lónakotssels.
Gengið var framhjá Krossstapagrenjunum og upp að Hraunkrosstapa, efsta krossstapanum. Landamerkjahæll er í honum. Þaðan var línan tekin á Skógarnefsgrenin. Löngu fallin girðing, sem vera átti á mörkunum, er þarna skammt austan við “örnefnalýsingarmörkin”. Þegar komið var upp á norðurbrún Skógarnefnsins sást til vörðunnar á Klofningskletti í suðri, sem og vörðu á Krossstapanum og Skorási. Í þessari línu er svæðið nokkuð grasi gróið í skjólum. Á fremsta ásnum var fallin gömul varða. suðaustan við hana var vatn í grónum hraunbolla, það eina sem sást á þessu svæði. Önnur fallin gömul varða var norðvestan við hina. Norðan hennar var stórt gróið jarðfall. Þegar komið var niður reyndist þarna vera hið ákjósanlegasta skjól. Stórt, litskrúðugt, aðmírálsfiðrildi flögraði um að vild. Þegar grannt var skoðað virtist móta fyrir hleðslum, sem gróið var yfir, bæði í því austanverðu og einnig í því vestanverðu. Sú síðarnefnda virtist greinilegri. Í svo til beina stefnu til norðurs frá þessu skjóli liggur stígur yfir grannt mosagróið apalhraun, að Krossstöpunum.
Svæðið ofar var einnig skoðað, í þessari sömu línu, en ekkert fannst er gat gefið mannvistarleifar til kynna. Líta verður á framangreindan stað sem fyrrnefndan Skógarnefsskúta, m.v. örnefnalýsinguna – þangað til annað kemur í ljós.
Í bakaleiðinni var m.a. gengið fram á lóuegg og nýfædda sólskríkjuunga í hreiðri – og það á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Frábært veður. Gangan (og leitin) tók 4 klst. og 4 mín.