Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd, austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að draga þær til sín. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan. Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Hlaðin rétt er milli Bakka og Borgarkots, önnur ofar og austar og enn ein, minni, skammt frá (líklega þó gerði undir hraunhól).
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan. Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Rétt eða gerði suðaustan við BorgarkotKlaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
kot.

Borgarkot

Borgarkot – réttin ofan Réttartanga, austan Borgarkot.

Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarna var og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum. Stelkur lét ófriðlega, enda varptíminn í hámarki.
Tóftir í BorgarkotiÞegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brúnt, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum með bleikmynstraða polla innan um. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.
Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Handgert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.

Borgarkot

Helgahús – fjárhús vestan Borgarkots.

Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað.
Steinar í nautgripagirðingunni ofan BorgarkotsGirðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Margir þeirra eru nú fallnir á hliðina. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar. Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða boruð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.
Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í steini í girðingunni.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. HÉR má sjá nánari umfjöllun um nefnda girðingu.
Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá öðrum, sem kunna skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu – og jafnvel víðar.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól.

Borgarkot

Réttartangi – skotbyrgi er á tanganum (t.v.) og réttin er h.m. við hann.

Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Borgarkot

Borgarkot.

Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau,að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík. Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot.
Kirkjugatan frá Kálfatjörn um Borgarkot og FlekkuvíkÞarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar. Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn hafa einnig rutt um koll. Fornleifavernd ríkisins virðist ekki standa sína plikt á þessu landssvæði.
Vestast sést kirkjugatan vel í móanum – skammt ofan grjótgarðs Bakka. Þar lét stelkurinn öllum illum látum í sólblikinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.