Norðurkot

Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.