Kálfatjörn

Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir [nú] Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 2023.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.

Guðmundur Björgvin Jónsson fjallaði um Kálfatjörn í bók sinni “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“:
Kálfatjörn“Um kirkjustaðinn Kálfatjörn hefur mikið og margt verið rætt og ritað og þá gjaman í samhengi, kirkjan og ábúandi kirkjujarðarinnar, enda vandi að skipta ritefninu í tvo flokka, um það andlega og veraldlega, án þess að binda það hvort við annað. Pó mun hér reynt að sneiða hjá því andlega og koma að því síðar.
Síðasti prestur og jafnframt bóndi á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson frá Úthlíð í Biskupstungum.
KálfatjörnKona hans var Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir. Tók séra Árni við búinu og embættinu af séra Stefáni Thorarensen og konu hans, Steinunni Járngerði Sigurðardóttur. Árni stundaði útgerð og landnytjar, auk þess að vera prestur og barnakennari í nokkrum tilvikum. Hann var áhugasamur um unglingafræðslu svo sem fyrirrennari hans. Utan þess hafði hann mikinn og virkan áhuga á héraðsmálum. Hann mun hafa verið fyrstur manna hér í hreppi sem sá þörf á því að bændur gerðu með sér samtök um mjólkursölu, þó ekki kæmist það í framkvæmd fyrr en ári eftir andlát hans, eða árið 1920.
KálfatjörnUm séra Árna Þorsteinsson og það heimili segir Erlendsína Helgadóttir, sem þá var unglingur í Litlabæ: „Prestshjónin voru greiðasöm og alþýðleg og vildu öllum gott gera. Séra Árna þótti sjálfsagt, að ef ekki væri skírt í kirkju að, skírn færi fram þar sem móðirin átti heima, þó léleg væru oft húsakynnin. En til vom þeir prestar sem gengu ekki inn í hvers manns kot til slíkra athafna. Séra Árni var á undan sinni samtíð í mörgu. Þá þótti það nýlunda, að séra Árni leyfði leiguliðum sínum að auka við nytjalönd sín (færa út), þeim sjálfum til búbóta, en það höfðu þeir ekki þekkt áður.”

Bakki

Bjarg.

„Á mínu heimili”, segir Erlendsína, „var borðað hestakjöt. Hefur sennilega komið þar tvennt til, annarsvegar oft þröngt í búi og hinsvegar að fólkið var að vaxa upp úr miðaldatrúnni og þorði að fara sínar leiðir. En aldrei var móður minni um þessa fæðu og notaði stundum aðstöðu sína til að læða annarskonar kjötbita í súpuna sem hún ætlaði sjálfri sér. Foreldrar mínir höfðu heyrt að presti þætti ekkert athugavert við að neyta hestakjöts og þó hann hefði aldrei borðað það sjálfur, væri hann til með að smakka á þessari áður forboðnu fæðu.

Bakki

Bakki í Kálfatjarnarhverfi 2023.

Því var það einu sinni, þegar hestakjöt var í pottinum heima, að prestshjónunum var boðið í mat sem þau og þáðu, en ekki voru efnin meiri á mínu heimili, né víða annarsstaðar, að hnífapör voru ekki til, en önnur áhöld þóttu ekki viðeigandi í þetta sinn. Svo móðir mín hvíslaði að maddömunni, hvort ekki mætti senda eftir hnífapörum á prestssetrið og var það auðsótt. Þarna var þá borðað hestakjöt og kjötsúpa með, en þá var venjan að sjóða í súpu. Eftir þetta var hestakjöt oft á borðum á prestsetrinu Kálfatjörn.
KálfatjörnEitt sinn er séra Árni kom í húsvitjun að Bjargi, rétt fyrir jól, spyr hann yngri drenginn þar, Ingvar Helgason, hvort hann muni ekki koma í kirkju um jólin, en móðir hans segir að það geti ekki orðið, því hann hafi ekki þann klæðnað sem hægt sé að láta sjá sig í við kirkju. Segir þá Árni: „Ég spái því nú samt að þú komir þangað á jólunum.” Nokkru seinna, nær jólunum, eru drengnum send ný alföt frá presti og þar með var kirkjuferðinni bjargað.”
Þannig lýsir samtíðarfólkið séra Árna Porsteinssyni, en konu hans, Ingibjörgu, bar minna á, enda nóg að gera á barnmörgu heimili og prestssetri að auki. Börn þeirra hjóna voru: 1) Gróa, 2) Sesselja, f. um 1880, 3) Steinunn Guðrún, f. 1882, 4) Þorsteinn f. 1883, 5) Sigurður f. 1885, 6) Arndís f. 1887, 7) Margrét f. 1889. Einnig ólu þau upp Kristinn Árnason frá Bergskoti, f. 1894.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð við Kálfatjarnarvör fyrrum.

Séra Árni var sjúklingur síðustu árin, þó hann þjónaði fram á andlátsárið. Hann lét, með aðstoð hreppsins, flytja Móakotshúsið og setja það austan við prestshúsið og þar dvaldi hann sjálfur, en lét Kálfatjörn eftir handa leiguliða, tímabundið. Sá er þá kom að Kálfatjörn hét Helgi Jónsson, (síðar oft nefndur Helgi Kálfatjamar, eða Helgi frá Tungu) og mun hann hafa verið þar um 1918-1920. Kona Helga var Friðrika Þorláksdóttir. Helgi var síðast með útgerð í Kotvogi í Höfnum og fórst í eldi ásamt barni sínu, sem hann var að reyna að bjarga þegar Kotvogur brann árið 1939. Dóttir hans er m.a. Sveinbjörg, kona séra Garðars Þorsteinssonar, prests á Kálfatjöm (1932-1966).

KálfatjörnÁrið 1920 fluttu að Kálfatjörn Erlendur Magnússon frá Tíðagerði og kona hans, Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Höfðu þau byrjað búskap í Tíðagerði, foreldrahúsum Erlendar, um 1915 og þar fæddust fimm börn þeirra. Meðan þau bjuggu í Tíðagerði fór Erlendur austur á firði á sumrin í atvinnu og fetaði í fótspor margra Strandaringa, auk þess sem hann stundaði vetrarvertíð heima. Ætla ég að Erlendi hafi fallið betur landbúnaður en sjómennska, enda þótt hann hafi rekið eigin útgerð um tíma, en aflagt hana um 1946.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Þó miklu og vel væri stjórnað af þeim Kálfatjarnarhjónum, innan og utan veggja heimilisins, þá munu störf Erlendar í héraðsmálum og félagasamtökum lengst verða minnst. Hann var bæði áhugasamur og úrræðagóður hvort sem var í málum kirkjunnar, hreppsins eða bændastéttarinnar. Þá var hann í mörgum málum fulltrúi sveitar sinnar út í frá og kom þá í hlut húsfreyjunnar, Kristínar, að vera bæði bóndi og bústýra á stóru heimili.

Kirkjuathafnir tengdust heimilinu með margskonar þörfum, enda heimilið rómað fyrir gestrisni og góðar úrlausnir til handa öllum er þangað leituðu. Erlendur keypti Norðurkot (sjá Norðurkot) árið 1934 og bjó þar með fjölskylduna meðan hann byggði upp á Kálfatjörn, það hús sem nú stendur [1967], en gamla húsið var rifið samtímis. Smiður var Gestur Gamalíelsson, húsasmíðameistari frá Hafnarfirði.
KálfatjörnBörn Erlendar og Kristínar eru: 1) Ingibjörg, kennari, býr í Reykjavík, 2) Ólafur, brunaliðsmaður, býr í Reykjavík, 3) Herdís, ógift og barnlaus bústýra á Kálfatjöm, 4) Magnús, ókvæntur og barnlaus, starfar í Hafnarfirði, 5) Gunnar, ókvæntur og barnlaus, bóndi á Kálfatjörn síðan árið 1971. Auk þessara bama ólu þau upp tvö böm: Kristín Kaldal, sem er fæddur þar, og Lindu Rós frá 9 ára aldri.
í Kálfatjarnarlandi er mannvirki nokkurt er heitir Staðarborg. Það er um 3 km frá Kálfatjörn, beint til fjalls að sjá frá kirkjustaðnum. Borgin er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Er þessi bygging svo einstök að gerð, að hún er friðlýst frá árinu 1951, samkvæmt lögum um verndun fornminja frá 16. nóv. 1907.”

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1lfatj%C3%B6rn
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, útgefið af höfundi 1987.

Staðarborg

Staðarborg.