Tag Archive for: Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson

Gengið var frá Auðnum um Þórustaði og kotin í kringum Kálfatjörn skoðuð.

KálfatjörnTil hliðsjónar á göngunni var höfð bók Jóns Thorarensens frá Kotvogi, Litla skinnið. Í henni er ljóslifandi frásögn og lýsing Kristleifs Þorsteinssonar árið 1938 frá verinu, sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880 og mannlífinu þar á þeim tíma. Hann lýsir auk þess bæjunum og fólkinu, sem þar bjó. Þá nafngreinir Kristleifur kotin, sem nú standa eftir sem tóftir einar. FERLIR gekk síðar um svæðið í fylgd Ólafs Erlendssonar frá Kálfatjörn þar sem hann lýsti staðsetningu þessara sömu kota. Af því tilefni var gerður uppdráttur af svæðinu eftir lýsingu Ólafs.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kristleifur skrifaði um sjávarútveg og vermenn við sunnanverðan Faxaflóa á síðari helmingi 19. aldar í Héraðssögu Borgarfjarðar. Þar minnist hann á eitt og annað, sem viðkom sjómennsku og sjósókn í gömlum stíl. Í frásögn sinni í Litla skinninu bætir hann um betur og byggir hann hana að mestu á eigin sjón og raun. Hann reri sex vetrarvertíðir frá Auðnum um og eftir 1880. Um heimilislífið að Auðnum ritaði Kristleifur m.a. sagnaþátt, sem enn er til. Hann ritaði einnig um ferð sína í verið 1881, þar sem að sumu leyti varð fyrsti þáttur hans í vermennskunni, þar sem lýst er hvernig aðstaða manna var við að komast til sjávar í vetrarharðindum.
Kristleifur var í vist hjá Guðmundi bónda Guðmundssyni. Sá var þá fertugur, með skeggkraga um kjálka. Mætti það vel enn vera einkennismerki Vatnsleysustrandarbúa, enda yrði eftir því tekið. Kona hans hét Anna Pálsdóttir, þrekvaxin með glóbjart hár. Þannig eru líka alvöru Vatnsleysustrandarkonur enn þann dag í dag. Sagt var að þau hjónin hafi ekki borið hag annarra mikið fyrir brjósti, enda urðu menn að duga eða drepast, eða það sögu a.m.k. þeir er betur máttu sín á þeim tíma – og gera kannski ennþá.

AuðnarÍbúðarhúsið að Auðnum var úr timbri. Keypti Guðmundur allt timbrið í húsið á uppboði, sem haldið var í Höfnum eftir að skip eitt (Jamestown) rak þar og fór í strand, hlaðið Ameríkutimbri. Ólafur Ketilsson, fræðimaður, ritaði um það fræga strand. Tekið var til þess hver ósköp af úrvals timbri kom með skipi þessu, og nutu margir bændur við sjávarsíðuna þar góðs af.

Sagt var að Auðnahús hafi allt verið klætt að utan með breiðum og löngum plönkum, sem voru þrír þumlungar á þykkt, en kostuðu aðeins eina krónu hver planki, að meðaltali. Ekki var hús þetta járnvarið, enda var timbrið svo hart, að vatn gekk naumast í það.

Norðurkot

Norðurkot – brunnur.

Gamlir íhaldssamir bændur, sem bjuggu þá í lágreistum torfbæjum, kölluðu hús þetta stórskrínu og byggðu það nafn á lögun þess og fór það ekki fjarri sanni. Stórskrínur voru þá alþekktar við sjóinn, voru langir og mjóir kassar, nokkuð hærri á aðra hlið. Báru menn eitt og annað sjófang í skrínum þessum.
Stígur lá frá íbúðarhúsinu til sjávar, sjávargata. Við þann stíg stóð hið óæðra sjómannaskýli, sjálf verbúðin. Í henni voru 20 sjómenn. Verbúð þessi var öll af torfi, löng og mjó, lágreist og hrörleg, en ekki mjög köld. Rúmfleti voru meðfram báðum miðveggjum og tveir menn í hvoru rúmi, og lágu þeir andfætis, voru það vanalegast hlutalagsmenn.
Þanghlaði mikill tyrftur og hlaðinn upp sem hey, stóð þar ekki langt frá verbúðinni. Var það mest notað til eldsneytis, en sjómenn máttu leysa sér nokkra visk úr þessum þanghlöðum og bera í fleti sín og breiða það á rúmbálkinn, og skyldi koma í stað undirsængur.

Kálfatjörn

Steinbrú á kirkjustígnum að Kálfatjörn.

Skinnklæði, fatnaður og verskrína var nefnt færur, einu nafni. Færurnar þurftu í síðasta lagi að vera komnar jafnsnemma sjómönnum á heimili útvegsbónda, þess er hjá var róið, annars stóðu menn uppi ráðalausir.
Sjóklæðin þurftu að vera þar sem hægt var að ganga að þeim, hvenær sem til þeirra átti að taka, eins þótt dimmt væri. Allir sem gerðu sig út sjálfir, átu samkvæmt fornum og föstum reglum að sjá sér farborða bæði á sjó og landi, með fæði og klæði, að öðru leyti en því, að útvegsbóndinn lagði vermönnum til kaffi og vökvun. Þá urði vermenn að leggja til eitt net. Netasteinar voru tíndir úr fjörugrjóti og aðeins höggvin laut um miðjan steininn, svo hann tylldi betur í steinalykkjunum.

KálfatjarnarhverfiNorðan við lendingarstaðinn voru “bólverk” til fiskverkunar. Var þar hlaðinn garður úr stórgrýti til varnar sjávargangi. Að þeim garði unnu sjómenn í landlegum, endurgjaldslaust. Á hann voru bornir þorskhausar, rifnir upp og raðað á grúfu. Þar voru þeir í nokkra daga til að harðna. Þegar búið var að höggva hausana upp, var þeim hlaðið í garða.
Þegar róðrar hófust og alla vertíðina, var risið árla úr rekkju, ekki seinna en klukka að ganga fjögur. Settu formenn upp sjóhatta sína, buðu góðan daginn, en höfðu ekki fleiri orð um það. Hatturinn gaf til kynna, hvað fyrir lá. Ekki voru menn hlutgengir, sem ekki gátu farið í brókina standandi og án stuðnings, en flestir munu þó hafa stuðst við hús, skip eða garð er þeir bundu á sig sjóskóna. Þegar formaður sá alla sína háseta standa skinnklædda umhverfis skipið, hvern við sitt rúm, signdi hann yfir skutinn og mælti: “Setjum nú fram, í Jesú nafni.” Hlunnar voru settir niður og skipinu ýtt fram.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Allan fisk, sem á skip kom, urðu hásetar að bera upp fyrir flæðamál áður en skiptvar. Þegar skiptu var lokið var tekið kappsamlega til við aðgerð og skipt verkum. Þegar aðgerð var lokið var hvaðeina á sínum stað, hausarnir á grjótgarðinum, fiskurinn saltaður í stafla, lifrin í köggum, gotan í tunnum og slorið, sem síðast var borið í sína ljótu for. Sundmaginn var skafinn vel og vandlega og hann breiddur á grjótgarða og látinn þorna þar, en síðan dreginn upp á snæri í langar seilar.
Ekki var róið á helgidögum og kirkja jafnan sótt að Kálfatjörn, svo vel að fólk þyrptist þangað flesta messudaga, þegar veður leyfðu.

KálfatjörnFöst venja var að sjómenn gæfu þjónustufisk á sumardaginn fyrsta. Sumar konur höfðu allt að 16 karlmenn í þjónustu um vertíðina og höfðu þær ærinn starfa þessutan, því alla daga unnu þær, auk inniverka, að fiskaðgerð og á þeim lenti venjulega að bera slor og hausa á sinn stað.
Landbúnaður að Auðnum bjó mjög á hakanum, a.m.k. um vertíðina. Hugurinn var alveg óskiptur við þau efni. Hross og sauðfé varð að eiga sig að mestu. Tíðarfarið réð alveg úrslitum um það. Hrundi fé því niður í harðindum, en það var sama sagan hjá öllum er ætluðu skepnum útigang.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð.

Hverfin voru Auðanhverfi og Kálfatjarnarhverfi. Heimilsfeðurnir voru 23 og sýnir vel hversu fólkið var nægjusamt og gerði litlar kröfur til lífsins, því að af landsnyt var þafna ekki mikið að hafa.
Breiðagerði var tvíbýlt. Höfði átti enga fleytu og reri fyrir sínum hlut á skipu Auðnamanna. Höfði átti sexmannafar og var formaðurinn sjóslarkari og gapi að sigla, að með fádæmum þótti. Landakot var miðstöð andlegrar menningar. Bergskot, öðru nafni Borghús, var búið af Þorkeli Jónssyni frá Flekkuvíkm dugnaðarmanni. Hellukot var þurrabúð. Væmdi flesta við koti þessu, mest fyrir hrossaketið, sem flestir hötuðu og liðu fremur sáran sult heldur en að leggja sér til munns. Gata hét þurrabúð milli Þórustaða og Landakots.

KálfatjörnÁður en fór að fiskast á vertíðinni lifði fólkið þar eingöngu á þurrum rúgkökum, vatnsgraut og svörtu kaffi. Áttu það ekki sjö dagana sæla. Þórustaðir var næst miðja vegu milli Auðna og Kálfatjarnar. Þar var þá tvíbýli. Heimslánið sýndist brosa hjá fólkinu, en fljótt skýjaði hjá því, börnin dóu. Norðurkot var þurrabúð, norðanmegin við Þórustaði. Bóndinn var meðhjálpari í Kálfatjarnarkirkju. Tíðargerði var þurrabúð rétt hjá Norðurkoti. Goðhóll var þar við sjóinn niður frá Tíðargerði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Harðangur var þurrabúð rétt hjá Tíðargerði. Hlið var þurrabúð rétt utan við Kálfatjarnartúnið. Þar var með konu sinni Halldór Egilsson. Kálfatjörn, kirkjustaðurinn og prestsetrið, bar þá mjög af byggðinni í kring, sem ekkert var annað en torfbæir og þeir flestir hrörlegir og lágreistir, að þeir líktust meir hesthúskofum, eins og þeir voru þá í sveitum, heldur en bæjum. Á Kálfatjörn var þá timburkirkja og íveruhús úr timbri. Hátún, Fjósakot, Naustakot og Móakot eru talin í jarðamati 1850 hjáleigur frá Kálfatjörn. Bakki stóð við sjóinn, lítið innar en Kálfatjörn. Litlibær var þurrabúð litlu sunnar en Bakki. Bjarg var þurrabúð skammt frá Litlabæ. Þá eru enn ótalin tvö þurrabúðarkot rétt hjá Auðnum: Hóll og Ólafsbúð, sem var sunnanmegin við Auðna. Gárungar kölluðu Hól stundum Trafhóla vegna þess að þar blöktu stundum hvít línklæði á snúrum, en í þá daga var slíkt fátítt hjá þurrabúðarfólki og jafnvel stórbændum var slíkt í smáum stíl.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Hlandforðir voru við bæi og hús. Voru þær hlaðnar að innan úr grjóti og náðu barmar þeirra lítið sem ekkert hærra en yfirborð jarðar umhverfis þær. Voru slíkar forir á sumum stöðum háskalegar bæði mönnum og skepnum.
Þegar dagur lengdist, veður hlýnuðu og vorið gekk í garð, hýrnaði yfir sjómönnunum, verbúðirnar urðu hlýrri og hrakreisur á sjónum færri. Lokadagurinn 11. maí var sá stóri dagur, sem bæði var blandinn von og söknuði. Erfitt var að skilja við félagana, sem tengst höfðu tryggðarböndum við erfiðar aðstæður og lifað þær af, auk þess sem hausana af hlutnum ásamt trosfiski urðu sjómennirnir að taka með sér með einhverju lagi.

Kálfatjörn

Sjóhús við Kálfatjarnarvör.

Frábær lýsing og fróðlegt að bera hana við þær aðstæður, sem fyrir eru við Auðna og Kálfatjörn. Tóftir þurrabúðanna, kotanna og bæjanna eru enn sýnilegar, sjávargötur má enn merkja og minjar við varirnar og lendingarnar eru enn á sínum stað. Spurningin er bara sú hvort nútímafólkið kunni enn að lesa það land, sem lýst var þarna fyrir einungis 125 árum síðan.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Litla skinnið – Jón Thorarensen frá Kotvogi – 1982 – Í verinu, lýsing Kristleifs Þorsteinssonar 1938 á sjávarútvegi á Vatnsleysuströnd um 1880.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka ber það þó með hæfilegum fyrirvara.

Landakot

Landakot

Landakot.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Landakot í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir um Landakot árið 1703: „Landakot hálflenda so kölluð, því hún hefur ekki fyrirsvar, nema til helmíngs á móts við lögbýlisjarðir“.
Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í skýrslunni um Landakot kom m.a. fram að: „Selstade fölger Jorden som Aarlig Forbruges, Men Græsgang Gandske lidet andet end som haves udi berörte Selstade, Hvoraf flyder Huusse og Höe Torve Mangel“ …
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Landakot hafi verið seld þann 13. júní 1838.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Landakot: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“. …

Landakot

Landakot – loftmynd.

Landamerkjabréf Landakots var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar:
Landakoti á Vatnsleysuströnd tilheyrir land allt með gögnum og gæðum milli Þórustaða að norðanverðu og Auðnahverfis-jarðanna Auðna, Höfða og Bergskots að sunnanverðu. – Landamerkin eru þessi:
1. Milli Þórustaða að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu eru þessi landamerki: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum að helmingi hvorri; þaðan um hinar svonefndu Markaflúðir, sem liggja á sandinum, beina stefnu í brunninn Djúpugröf; þaðan eptir eptir markasteinum og gömlu garðarlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnanvert í rætur Keilisalla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landakot
2. Að sunnanverðu milli Landakots og Auðnahverfis (nefnil. Auðna, Höfða og Bergskots) eru landamerkin: fyrir neðan flæðarmál: „Markaós, sem er austasti ósinn; er gengur inn úr aðalós þeim, sem liggur í milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir, og um krók eða hlykk þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla sunnanverða eptir grjótgarði, sem þar er hlaðinn; þaðan eptir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu, þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir, allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum Auðnahverfis og eiganda hálfra Þórustaða.
Í kaflanum um Landakot í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „að sunnan ræður landamerki Auðnalands. Að norðan í 2 flúðir í fjöru sem nefnast markaflúðir, þaðan uppeftir grjótgarði milli Þórustaða og Landakots, þaðan sjónhending eftir vörðum upp heiðina alt til fjalls.“
Á öðrum stað í sama riti kemur fram að bærinn Tíðagerði, sem er í eigu eiganda Landakots, deili heiðarlandi og hagbeit með þeirri jörð.

Þórustaðir

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd. Kálfatjörn fjær.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Þórustaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns áttu Þórustaðir selstöðu á Fornuselshæðum í landi Kálfatjarnar: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu“.
Þórustöðum fylgdu hjáleigurnar; Norðurhjáleiga og Suðurhjáleiga.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Árið 1755 voru jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi metnar. Í matsgerðinni um Þórustaði stendur m.a.: „Selstade Fölger Jorden som Aarligen Forbruges, men anden Græsgang er meget liden“…
Þann 19. apríl 1837 hvarf jörðin Þórustaðir úr eigu konungs.
Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. um jörðina Þórustaði: „… Hagbeit sumar og vetur sæmileg í óskiptu landi utangarða“.

Landamerkjabréf Þórustaða var undirritað 27. maí 1886. Bréfið var þinglesið 15. júní 1886. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: Þórustöðum tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Kálfatjarnar – kirkjueignar að norðanverðu og Landakots að sunnanverðu.

Þórustaðir

Þórustaðafjara.

Landamerkin eru þessi:
1. Milli Kálfatjarnar að norðanverðu og Þórustaða að sunnanverðu: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, er tilheyrir báðum jörðunum, að helmingi hvorri; þaðan eptir svonefndum Merkjagarði, er liggur sunnanvert við tún kirkjuhjáleigunnar Goðhóla, en norðanvert við móa þann, sem kallaður er Vatnagarður og tilheyrir Þórustöðum; þaðan í hólinn Þórustaðaborg, sem er hæsti hóllinn af hólum þeim, er standa norðanvert við gamalt stekkjartún, sem nefnt er Þórustaðaborg eptir hólnum. Þaðan í hólinn Stóra – Lynghól miðjan; þaðan í Sýrholt; þaðan í Hrafnafell, sem er lítið fell fyrir norðan Keilir; þaðan beina stefnu alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi, eptir sjónhendingu úr Hrafnafelli í hæsta hnjúkinn á Grænavatnsengjum.
2. Milli Landakots að sunnanverðu og Þórustaða að norðanverðu eru landamerki þessi: Sundsker, sem tilheyrir báðum jörðunum, nefnilega að helmingi hvorri; þaðan um svonefndar Markaflúðir beina stefnu í brunninn Djúpugröf; (þaðan eptir marksteinum og gömlu garðlagi, sem aðskilur tún jarðanna, allt upp að túngarði; þaðan beina stefnu eptir vörðum upp eptir heiðinni sunnarvert við rætur Keilis alla leið að landi Krísivíkur í Grindavíkurhreppi.

Þórustaðir

Þórustaðir – loftmynd.

Landamerkjabréfið er samþykkt af eiganda Landakots sem líka var eigandi hálfra Þórustaða. Einnig er skrifað uppá landamerkjabréfið af sóknarpresti fyrir hönd Kálfatjarnarkirkju. Prestur tekur fram að hann samþykki landamerkjabréfið að því leyti sem það er samhljóða landamerkjalýsingu Kálfatjarnarkirkju sem var þinglesin 1885.
Í kaflanum um Þórustaði í Fasteignamati 1916 – 1918 kemur fram að jörðin sé að hálfu í eigu eiganda Landakots. Í sama riti kemur einnig fram að jörðin Hellukot deili heiðarlandi og hagbeit við Þórustaði.
Í fasteignamati því sem staðfest var árið 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Þórustaðahverfi: Norðurkot, Þórustaðir, Hellukot. Að sögn ábúanda í Norðurkoti er landamerkjalýsing sé ekki til. Í skýrslunni er einnig minnst á býlið Tíðagerði.
Samkvæmt ábúanda á Þórustöðum er beitiland víðlent.
Í svörum ábúanda á Hellukoti kemur fram að beitilandið sé líkt og það sem Þórustaðir hafa. Hann greinir einnig frá því að landamerki jarðarinnar sé þau sömu og Þórustaða.
Þann 21. maí 1999 var land Þórustaða ofan Vatnsleysustrandarvegar selt Hitaveitu Suðurnesja 21. maí 1999. Jörðin er að öðru leyti í einkaeign.

Kálfatjörn
Kálfatjörn
Í kirknaskrá frá því um 1200 kemur fram að kirkja er á Kálfatjörn.
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik. hvnn aa allann reka j millvm Hravnnes ok ranga giogvrs ok firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi.“ …

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….
Í tíð Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups, nánar tiltekið árið 1642, var Kálfatjörn vísiteruð: „Peturskyrckia ad Kalfatiórn a heimaland allt mz gógnum og giædum, epter þeim mäldaga sem vænst er ad sie ä dömkyrckiunni og Bessastodum Hun ä Backaland og fleckiuvÿk. … vænist bpinn M. Brynjolfur Ss suornum landamerkium i millum Kalfatiarnar og Skalholltsstadar dömkyrckiu sem vitni umm bera og afhenda vilia enn nu i dag mz suornum eidum, uppä hinar fyrri, og lógfestir Bp allt ad fyrr suordum takmarkum, lysandi öheimilld ä þvÿ aullu sem þadan mä flutt verid hafa og hann mä sauk [a] gefa h. Skalhollts kkiu vegna. … fyrrnefnd fleckuvÿk ä allann þridjung i Vatsleysu jórd (epter brefinu ohandskrifudu sem liggur a kyrckunni og visitatiubok h. Gÿsla J.s.) i rekum skögi og hagabeit, frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim, er geingur ofan vr hrauninu og framm ad sjö, fyrer Innan Akurgierdi, … Seigir fyrrnefnd visitatiu bök, Fleckuvÿk eigi allann þridjung i Vatsleisu Jordu, er liggur i Kalfatiarnarkkiu sókn, i rekum skögi hagabeit frä Nyagardum og Inn ad gardi þeim er geingur ofan ür hrauninu og framm ad siö fyrer Innan Akurgierdi…. Actum Kalfatiórn Anno 1642 Die ut supra“. (Undir þetta rita Ámundi Ormsson, Sumarliði Jónsson, Pétur Gissursson og Einar Oddsson).
Kálfatjörn
Þrjátíu og sex árum síðar stóð Þórður Þorláksson biskup í Skálholti fyrir vísitasíu á Kálfatjörn. Í vísitasiunni, sem fór fram 20. ágúst 1678, kom eftirfarandi fram: „visiterud Peturs kyrkia ad Kalfatiorn hun a efter maldaga heimaland allt med gognum og giædum Backa land og fleckuvÿk … firr nefnd fleckuvÿk a allann þridiung i Vatnzleisu jórdu i rekum skogie og hagabeit fra nÿugórdum og inn ad gardi þeim er geingur ofann ur hrauninu og framm ad siö fyrir innann Akurgierdj, Borgar Kot nu leigt fyrer iiij vættir er ei innfært i firri maldaga enn þo kyrkiunnar eign efter undirrietting Sr. Sigurdar Eyolfssonar“. (Undir þetta rita Sigurður Eyjólfsson, Einar Einarsson, Árni Gíslason, Bjarni Jónsson og Bjarni Sigurðsson).
Móakot
Kálfatjörn var tekin til mats árið 1703 skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Henni fylgdu hjáleigurnar; Naustakot, Móakot, Flóakot, Hólakot, Hátún, Árnahús og Borgarkot.
Í Jarðabókinni er eftirtektarverð umsögn um selstöður Kálfatjarnar: „Selstöðu á staðurinn þar sem kallað er Sogasel, og er í Stóru-Vatnsleysu landi; áður hefur hann og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði, þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir, en í Sogaseli skortir hvorki vatn nje gras, þó er þángað lángt og erfitt að sækja“.
Sömuleiðis segir um kirkjujörðina Bakka, sem síðar varð tómthús frá Kálfatjörn: „Selstöðu brúkar jörðin ásamt staðarhaldaranum í Sogaseli í Stóru-Vatnsleysu landi“.
Á tíma Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups var Kálfatjörn vísiteruð þann 10. ágúst 1703. Skýrslan sem unnin var í þessari eftirlitsferð er mjög svipuð þeirri sem var samin í kjölfar vísitasíunar 1678: „hun ä heimaland allt med gögnum og gïædum Backaland, og Fleckuvïk, allann reka mille Hraunsnefz og Rängagiógurs / afast vid Krisevïkur reka, reka mïllum Markskletts og nïugarda, kirkian ä efter mäldögum allann þridiung i Watnsleisu Jördu – i rekum sköge og haga, beit frä nÿugördum og inn ad garde þeim Er geingur ofann ür hrauninu og framm ad siö fÿrer innann Akurgerde, Borgarkot nu leigt fÿrer iiij vætter ä kirkian“. (Undir þetta rita Ólafur Pétursson, Benedikt Einarsson, Oddur Árnason, Jón Halldórsson og Árni Gíslason).
Kálfatjörn
Jón Árnason Skálholtsbiskup vísiteraði Kálfatjörn þann 7. maí 1724. Fyrsti hluti greinargerðarinnar sem samin var í þessari vísitasíu þar sem eru þau atriði sem skipta helst máli hvað varðar þjóðlendumál, er nánast samhljóða skýrslunni sem útbúin var ír vísitasíunni árið 1703. Hér verður því vísað í hana.
Ólafur Gíslason biskup í Skálholti vísiteraði á Kálfatjörn 17. júní árið 1751. Skýrslan sem samin var vegna vísitasíunnar er svipuð þeirri sem gerð var árið 1703 nema eftirfarandi texti: „Borgar kot sem adur hefur vered leigt fyrer 4 vætter, er nu i eide og hefur leinge leiged, sókum siäfar ägangs, sosem Þyng vitned i kyrkiubókena innfært, liösast hermer“. (Undir þetta rita Ólafur Gíslason, S. Jónsson, Sigurður Ólafsson, S. Sigurðsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Þann 4. júní 1758 var Kálfatjörn vísiteruð af Finni Jónssyni Skálholtsbiskupi.. Greinargerðin sem útbúin var um þennan atburð er sambærileg þeirri frá 1751.
Þann 28. maí 1790 skrifaði presturinn á Kálfatjörn undir svohljóðandi lögfestu fyrir staðinn: „Ég, Guðmundur Magnússon prestur til Kálfatjarnar, lögfesti hér með sama staðar kirkjuland til lands og vatns, nefnilega reka allan frá Markkletti og inntil Nýjugarða, þaðan og í Arnarvörðu, þaðan og í Flekkuvíkursel, svo og frá áðurnefndum Nýjugörðum þriðjung allan í Vatnsleysu jörðu í rekum, skógum og hagabeit, inn að garði þeim sem gengur inn úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði. En á aðra síðu frá Markklett og upp eftir Vatnagarði milli Kálfatjarnar og Þórisstaða, í Þórisstaðaborg, þaðan og í Sýruholt.
Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa, item reka allan millum Hraunsnefs og Rangagjögurs áfast við Krísivíkurreka.
Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta allt undir sömu skilmálum með réttum lögum fyrirbýð ég einum og sérhverjum að fráteknum kirkjujarðanna Bakka og Flekkuvíkur ábúendum og heimajarðarinnar Kálfatjarnar hjáleigumönnum áðurnefnt Kálfatjarnarkirkju land, hollt og haga, lóð og allar landsnytjar, lyngnám og torfskurð að yrkja, vinna eður sér í nyt færa utan mitt leyfi.
Einnin fyrirbýð ég þessum sem öðrum áðursagðan kirkjunnar reka, hvort heldur í heima- eður Vatnsleysulandi uppdrífa kann, sér að nýta eður skipta án minnar vitundar og leyfis“. … Lögfestan var lesin upp í Kálfatjarnarkirkju á trinitatishátíð [þrenningarhátíð, fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu] sama ár.
Árið 1800, en þá var Geir Vídalín biskup, var Kálfatjörn vísiteruð. Í vísitasíubókinni stendur eftirfarandi: „Anno 1800 þann 6tta Julii, visiteradi Biskupinn Geir Vidalin ad endadri heilagri þiónustugiörd, Kirkiuna ad Kálfatiörn; hún á heimaland allt med gögnum og giædum, Backaland og Fleckuvík; … hun á og eftir gömlum Máldögum, þridiung í Vatnsleysu jördu, í Rekum Skógi og haga, beit frá Níugördum og inn ad Gardi þeim, sem gengur innann ur Hrauninu og framm ad sió fyrir innann Akurgerdi – it(em) Borgarkot, sem nú er eydilagt af Siáfargángi; – allt þetta enn í dag óátalid“. … (Undir skrifa: Geir Vidalin, G. Magnússon, Olafur Gudmundson, Magnus Gudmundsson, T. Jonsson).

Kálfatjörn

Kálfatjörn – örnefni.

Í þeim hluta jarðamatsins frá árinu 1804 sem fjallar um jörðina Kálfatjörn kemur fram að henni fylgja hjáleigurnar: Naustakot, Móakot. Hátún og Fjósakot. Í lýsingu gæða Kálfatjarnar segir m.a.: „Her have Sætter Jorden tilhörende“.
Lagt var mat á Kálfatjarnarprestakall árið 1839: „Jtök eru: allur Reki fyrir heima- og Kirkiujardanna landi; … Reka fyrir mestahluta lands beggia Vatnsleysanna, einninn þridiúngur beitar í sömu landegn, og líka Skógs, sem laungu sídann, er öldúngis eydilagdur; Selstada uppundir Fiöllum í svokölludu Sogaseli“.
Í kaflanum um Kálfatjörn og hjáleigur hennar, Naustakot, Móakot, Hátún og Fjósakot í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a.: „Landrymi mikið. … Kyrkjan á þriðjúng alls reka á Stóru og Minni–Vatnsleysu fjörum, einnig hagbeit fyrir geldinga í landi þessara jarða“. …

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg. Trölladyngja fjær.

Árið 1855 var Kálfatjarnarprestakall metið. Í skýrslunni stendur eftirfarandi: Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbrýngusýslu eptir 3 ára medaltali 1851-1853: „… Utheyisslæur eru eingar. Fjöru beit er opt gód fyrir fénad á vetrum, en heidarbeit ordin lakari ad sínu leyti, nema svo lángt í burtu ad ei verdur til nád. …
Kálfatjörn á selstödu í svonefndu Sogaseli og hefur hún í margt ár ekki verid notud, því vegur er þangad svo langur og ógreidur ad ekki væri til vinnandi, nema fyrir svo mikin fénad, sem jördin ber ekki, nema hún fengi því meiri endurbætur. Selstodur eru ad sönnu nedar í heidini en þar fæst ekkert vatn handa fénadinum, þegar þerrar ganga á sumrum“. …

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Enn var Kálfatjarnarprestakall metið árið 1867. Hluti skýrslunnar sem saminn var við þetta tækifæri fer hér á eftir: „Skýrsla um tekjur og útgjöld Kálfatjarnar prestakalls í Gullbringu og Kjósar prófastsdæmi eptir 5 ára meðaltali, frá fardogum 1862 til fardaga 1867. … Selstada fylgir jördinni í svo nefndu Sogaseli, en er vart notandi sakir fjarlægðar og óvegs þangað. … Kirkjujarðir … Eydijördin Bakki … En med því land allt utan túns var óskipt milli þessarar jardar og prestssetursins, hlýtur þad nú ad teljast með landi þess.
2. Tekjur af ískyldum, ítökum og hlynnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum eda ödrum skjölum:
a. Brúkuð af prestinum sjálfum.“
Fjósakot
Samkvæmt máldagabók Gísla biskups Jónssonar á kirkjujördin „Flekkuvík þridjung í Vatnsleysujördu í rekum, skógi, hagbeit“. En þetta hefur ávallt Beneficiarius notad, sem tilheyrandi prestakallinu, … Skógur er nú enginn til í landi kirkjunnar eda Vatnsleysanna, og hagbeit í Vatnsleysulandi er ardlaus, (því þó kind og kind hafi slangrad þangad þá eru hagar heimajardarinnar full nógir og jafnvel betri en Vatnsleysanna). … Athugasemdir … Þessa hjáleigu [Naustakot] lagdi eg undir heimajördina árið 1861; því sjórinn hafdi þá brotid svo land að kotinu ad áhætta var að hafa þar menn lengur, enda var ekki unnt að fá ábúanda ad býlinu sem afl hafdi á að bæta árlegar skemmdir sem hjáleigan beið af sjó; svo var og komið svo mikið undir sjó af túninu að þad var vart fyrir kú. Sídan hefi ég þó ekki getað varið túnið svo að þad hafi ekki horfið í sjó ad mun. …
Landamerkjabréf Kálfatjarnarkirkjueignar var undirritað 9. júní 1884 og þinglesið 15. júní 1885. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Kirkjan á heimaland allt með gögnum gæðum til lands og sjávar, Bakkaland, Borgarkotsland (hvorttveggja nú eyðijarðir) og Flekkuvík sömuleiðis með öllum gögnum og gæðum til lands og sjávar. En landamerki eru þessi:
Goðhóll
1. milli Þórustaða og Norðurkots að sunnanverðu og Kálfatjarnar hins vegar: Markklettur, sem er hátt sker fyrir landi, þaðan eftir svo nefndum merkjagarði er liggur fyrir túni Kálfatjarnarhjáleigunnar Goðhóla og hinsvegar fyrir túni Norðurkots, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan í Lynghól, þaðan að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi beina stefnu um Sýrholt.
2. Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni – Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri – Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs.” … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli.Landamerkjabréfið var samþykkt af eigendum Stóru – Vatnsleysu, eiganda Minni – Vatnsleysu og eiganda suðurhelmings Þórustaða. Eigandi norðurhelmings Þórustaða og eigandi Ísólfsskála settu einnig nöfn sín undir landamerkjabréfið. Báðir aðilar skýrðu sínar undirskriftir. Sá fyrrnefndi samþykkti landamerkin milli Norðurkots og Kálfatjarnar en hinn samþykkti rekamörk gagnvart Ísólfsskála“.
Móakot
Í fasteignamati 1916 – 1918 er lýsing á landamerkjum og ítökum Kálfatjarnar: „Landamerki: að sunnan Markklettur í sjó, þaðan í Þórustaðaborg, þaðan beina línu í Línghól, þaðan að landi Krísivíkur, að norðan Keilisnes við sjó, þaðan beina línu í eystri Hafnhól, þaðan í Flekkuvíkurás, Einiberhóll, Kolhóll, þaðan beina stefnu að Krísuvikurlandi. Ennfremur 1/3 hluti í reka, skógi og haga í Vatnsleysujörðum, beit frá Klukku innfyrir Akurgerði. Reki milli Hraunsnefs og Dagón á Ísólfsskálalandi. Selstaða í Sogaseli í Krísivíkurlandi. Rekinn hefur verið leigður fyrir mest Kr. 10,00, en hinar aðrar ínytjar hafa ekki komið jörðinni að neinu gagni“. Í sama riti kemur fram að Kálfatjörn er kirkjujörð og henni fylgja þrjár hjáleigur; Goðhól, Fjósakot og Hátún og tvær erfðafestulóðir; Litlibær og Bakki.
Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922: „Kálfatjarnartorfunni tilheyrir alt það land er landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur, að undanskildu landi Flekkuvíkur er selt hefur verið undan eigninni; jarðir þær og býli, sem tilheyra eignini eru því nú: „Hlið”, „Litlibær”,, „Bakki”, „Goðhóll”, „Bjarg”, „Hátún”, „Fjósakot”, „Kálfatjörn” og „Móakot“.“

Bakki

Bakki.

Land Kálfatjarnartorfunnar takmarkast því nú á milli Flekkuvíkur að innan – og svo sem landamerkjalýsing frá 1884 tiltekur –, að Norðurkoti að sunnan. Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884.
1. Hlið, er þurrabýli, sem á lóð að Norðurkotslandi annarsvegar og Goðhóls, á tvo vegu hinnsvegar, ein hlið lóðarinnar er heiðargarður, öll er lóðin afgyrt með grjótgörðum. …
2. Litlibær …
3. Bakki …

Litlibær

Litlibær – brunnur.

4. Goðhóll, á tún að heiðargarði þeim sem er áframhald af heiðargarði Hliðs og Kálfatjarnar og alt til sjáfar og liggur tún Goðhóls því á milli Kálfatjarnartúns að norðan og austan og Norðurkotsvatnagarðs að sunnan og vestan. …
5. Bjarg …
6. Hátún, tún þess liggur til heiðar á tvo vegu og takmarkast tún þess af grjótgörðum er til heiðar snýr að austan og sunnan en að vestan af traðargarði er liggur heim að Kálfatjörn; úr traðargarðinum liggur vírgirðing í norður að túnamörkum Hátúns og Fjósakots og tilheyrir Hátúni og sömuleiðis er vír á milli Hátúns- og Fjósakotstúns. …
7. Fjósakot …

Kálfatjörn

Kálfatjörn, Bakki og Litlibær – loftynd 1954.

8. Kálfatjörn, heimajörðin, hún á tún alt milli heiðargarðs og að sjáfargarði; að austan eru traðir er liggja út að heiðargarði undan suðurhorni grafreitsins, tilheyra þær einsog verið hefur Kálfatjörn einni og eru í mörkum á milli Hátúns að svo mikluleyti, sem það nær með tröðunum, að vestan er garður er liggur frá heiðargarði og alla leið að sjáfargarði hann er merkjagarður milli Goðhóls og Kálfatjarnar, þó bugðóttur sje. Að norðan og norðaustan liggur garður, bugðóttur mjög, alla leið frá sjáfargarði og að Fjósakotstúni, garður sá er í mörkum milli Kálfatjarnar og Móakots. Kálfatjörn á og girðingar þær er garður sá afmarkar er gengur frá þvergarði þeim í girðingunum er afmarkar Móakotspart af girðingunum; en garður sá er áframhald eða því sem næst af norðurtúngarði Móakots og stefnir í suðaustur út að ytri garði girðinganna. Kálfatjörn tilheyrir það sem fyrir norðan þennan garð er. Kálfatjörn tilheyrir einnig innangarðs alt hið forna Bakkaland að svo miklu leyti sem það hefur ekki verið selt á leigu og erfðafestu handa Bakka (nýja) Bjargi og Litlabæ. …
Staðfest af hreppstjóra [sem þá var orðinn umráðamaður Kálfatjarnar vegna Kirkjujarðasjóðs] og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka. Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda eftirfarandi jarða í Kálfatjarnarhverfi: Bakki, Litlibær, Kálfatjörn, Móakot, Fjósakot, Hátún og Goðhóll. Að sögn ábúanda á Bakka er beitarland jarðarinnar víðlent. Það er girt að hluta með vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að landamerki jarðarinnar séu ekki skýr sem stendur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd 1954.

9. Móakot. Í svörum ábúanda á Litlabæ kemur fram að býlið sé erfðafesta úr Kálfatjörn. Samkvæmt ábúanda á Kálfatjörn er beitiland jarðarinnar nokkuð víðlent. Hann segir einnig að sauðfjárbeit sé til heiðar. Einnig nefnir hann að tún, og nokkuð af beitarlandi sé girt með grjótgörðum og vír. Í skýrslunni kemur einnig fram að jörðin á 1/3 í reka, skógi og beit í Vatnsleysujörðum. Þessi hlunnindi hafa lítið verið notuð að undanförnu að sögn ábúandans. Hann minnist einnig á að ekki alls fyrir löngu hafi reki á Selatöngum verið tekinn undan jörðinni. Ábúandi á Goðhóli nefnir að landamerki jarðarinnar séu þinglesin.
Vatnsleysustrandarhreppur keypti Kálfatjörn af jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins 27. ágúst 2001 með því skilyrði að niðurstaða óbyggðanefndar og/eða dómstóla varðandi landamerki og mörk gagnvart þjóðlendum yrði á ábyrgð kaupanda.
Landið ofan Vatnsleysustrandarvegar var selt Hitaveitu Suðurnesja af Vatnleysustrandarhreppi 28. desember 2001. Það land takmarkast að norðan af merkjum Flekkuvíkur að Einiberjahóli, en síðan Vatnsleysu, að austan af merkjum Krýsuvíkur (suðausturátt), að sunnanverðu af mörkum Þórustaða, að vestanverðu af gamla Vatnsleysustrandarveginum.

Flekkuvík

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. hvnn aa heima land alltt med gognvm ok gædvm. hvn aa backa ok fleckv vik“. …
Árið 1397 lét Vilchin Skálholtsbiskup útbúa máldaga fyrir Péturskirkju á Kálfatjörn. Þar stendur m.a.: „Pieturskirkia ad Galmatiorn a Heimaland allt oc Backa oc Fleckuvijk“ ….

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar segir um Kálfatjarnarkirkju: „hun ä Fleckuvijk. … fijrrnefnd Fleckuvijk ä allann thridiung i Vatzleijsu Jordu er liggur i Kälfatiarnar kirkiusokn. i rekum. sköge. Hagabeit. frä nijagørdum. og Jnn ad garde theim er geingur ofann [eitt handrit segir: innan] vr hraunenu og fram ad siö fijrer Jnnan Akurgierde“.
Flekkuvík er ávallt talin meðal eigna Kálfatjarnarkirkju í visitasíum biskupa.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir varðandi selstöðu Flekkuvíkur: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak“.
Ráðherra Íslands seldi Flekkuvík í tvennu lagi 31. ágúst 1909. Í virðingargerð frá 21. maí s.á. segir m.a.: „Utan túns land er talið að fylgi allri jörðinni frá landamerkjunum í milli Flekkuvíkur og Minni-Vatnsleysu að austan, vestur í hinn svo nefnda Keilisnesklett“.

Flekkuvík

Flekkuvík – loftmynd 1954.

Hins vegar er landamerkjunum lýst þannig í matsgerð austurhlutans sama dag sem er í sérstöku skjali: „Landamerki Flekkuvíkur eru frá MinniVatnsleysu landi að austanverðu, alt vestur í hinn svo nefnda Keilisnessklett, þaða upp Neshólana um Arnarvörðu, um sunnanvert Flekkuvíkursel, beina stefnu til fjalls, alla leið að Krýsivíkurlandi., og tilhyeyra austurhelmingnum afnotin af nefndu utantúnslandi að hálfu í móti vesturhálflendunni“.

Flekkuvík

Flekkuvík.

Landamerkjabréf Kálfatjarnar var undirritað 30. desember 1921 og samþykkt af hverfiseigendum Flekkuvíkur og Norðurkots og tveggja erfðafestulóða. Bréfið var þinglesið 14. júní 1922. Í því segir m.a. eftirfarandi: „Á milli Flekkuvíkur annarsvegar og Kálfatjarnar hinsvegar eru þessi landamerki: „Keilisnes” (neskletturinn) en það er klettur sá sem næstur er sjó, nokkuð stór um sig og liggur sunnan undir honum næstum kringlótt kyr fullt af sjó (lón). Þaðan eru mörkin tekin í „Hermannsvörðu” sem er vörðubrot á hól spölkorn uppá Keilisnesi, sem ber austantil í Fagradalsfjall af Nesklettinum sjeð; þaðan beygjast mörkin nokkuð inn á við og í „Arnarvörðu”, þá í Flekkuvíkurselásinn vestri og í „Einiberjahól” en þar tekur við markalína sú á milli Kálfatjarnar og Vatnsleysu sem lýst er í landamerkjalýsingu 1884“.
Staðfest af hreppstjóra og eigendum Flekkuvíkur, Norðurkots, Litlabæjar og Bakka.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út 2. júní 2004 kemur fram að jörðin Flekkuvík sé komin í eigu Fjársýslu ríkisins.

Stóra – og Minni – Vatnsleysa

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd 1954.

Í máldaga Vatnsleysukirkju á Vatnsleysuströnd frá 1269 stendur eftirfarandi: „Allra heilagra kirkia a vatnslavsv a fimtan hvndrad j heima lande…
Í máldaga Péturskirkju á Kálfatjörn frá 1379 er að finna upplýsingar um eignir kirkjunnar. Í honum stendur m.a. að: „Petvr[s] kirkia aa kaalfatiornn. … hvn aa backa ok fleckv vik. … firr nefnd fleckv[v]ik aa allann þridivng j vatzleysv jord. j rekvm. skogi ok hagabeit. fra nýia gordvm ok in at gardi þeim er geingvr ofan vr Hravne fram at sia firir innann akvrgerdi“. …
Þann 28. apríl 1479 vottuðu tveir aðilar skriflega að þeir, ásamt öðrum, hefðu heyrt eiginkonu fyrrum eiganda jarðarinnar Vatnsleysu lýsa því yfir að: „… kirkian kryssvvik ætti þar j xc“ …
Árið 1525 ákvað Ögmundur Pálsson, biskup í Skálholti, að Krýsuvíkurkirkja skyldi selja eignarhlut sinn í Vatnsleysulandi til Viðeyjarklausturs.

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir kirkju og kotbýlis.

Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóra– og Minni–Vatnsleysa í eigu Viðeyjarklausturs.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 nefnir Sogasel í landi Stóru-Vatnsleysu, sem notað sé frá Kálfatjörn og kirkjujörðinni Bakka. Sömuleiðis lögfestir Guðmundur Magnússon Sogasel árið 1790, sbr. lögfestu Kálfatjarnarkirkju hér að framan varðandi Kálfatjörn: „Sömuleiðis lögfesti ég Kálfatjarnar selstöðu sunnanvert í Dyngjunni með öllum nærliggjandi Sogum að vestan og austan og ýtrustu högum sem greindu Sogaseli að undanförnu fylgt hafa,“ … Hins vegar áttu Vatnsleysurnar, Minni og Stóra, hvor sína selstöðuna samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703: Minni-Vatnsleysa: „Selstöðu segja menn jörðin eigi þar sem heitir Oddafell, og er þángað bæði lángt og erfitt að sækja, eru þar hjálplegir hagar og vatn nægilegt“.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Stóra-Vatnsleysa: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Rauðhólssel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein á vatnsskorti“.
Í Jarðabókinni kemur fram að Stóra Vatnsleysu fylgi hjáleigurnar Vatnsleysukot, Akurgerði og þrjár ónefndar hjáleigur.
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjarðirnar Stóra–og Minni Vatnsleysa hafi verið seldar þann 13. júní 1838.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Nokkur munur er á gæðum Stóru–og Minni–Vatnsleysu samkvæmt Jarðamati 1849 – 1850. Í kaflanum um Stóru–Vatnsleysu í Fasteignamati árins 1849 stendur m.a. að landrými sé talsvert. Í þeim hluta Jarðamats 1849 sem fjallar um Litlu–Vatnsleysu stendur hinsvegar að landrými sé nokkurt.
Í landamerkjabréfi Kálfatjarnar frá 9. júní 1884, sem eigendur Vatnsleysannasamþykktu er mörkum milli Kálfatjarnartorfu og Vatnsleysanna lýst þannig.

Oddafellssel

Oddafellssel.

Milli Minni – Vatnsleysu og Stóru – Vatnsleysu og hinsvegar Kálfatjarnar: „Klettur út við sjó, hjer um bil miðja vega milli Flekkuvíkur og Minni–Vatnsleysu, sá er Klukka er nefndur, þaðan í Hádegishóla, þaðan í Eystri–Hafnhól, þaðan um nyrðri Flekkuvíkurás, þaðan í Einiberjahól, þaðan um Kolhól beina stefnu að Krýsivíkurlandi. Reka allan á kirkjan frá miðjum Markkletti og í Klukku áður nefnda. Hún á og þriðjung í Vatnsleysujörðu í rekum, skógi og haga, beit frá Klukku og inn að „garði þeim er gengur innan úr hrauninu og fram að sjó fyrir innan Akurgerði.”
Kirkjan á ennfremur „allan reka milli Hraunnefs og Rangagjögurs. … Loksins á og kirkjan selstöðu í Sogaseli“.

Snókafell

Snókafell.

Landamerkjabréf varðandi landamerki milli Hvassahrauns og sameignarjarðanna Stóru – Vatnsleysu og Minni – Vatnsleysu var undirritað 15. júní 1889 og samþykkt af búendum Hvassahrauns. Bréfið var þinglesið 17. júní 1889: „Úr Innra hraunshorninu í Fögruvík, og þaðan í afstapaþúfu, og þaðan beina stefnu í Snókafell, og úr Snókafelli beina stefnu í Krýsuvíkurland“.
Samkvæmt fasteignamati 1916 – 1918 er þrjár jarðir á Vatnsleysulandi; Stóra – og Minni – Vatnsleysa og grasbýlið Miðengi. Jarðirnar deila með sér heiðarlandi og hagbeit. Í kaflanum um Stóru – Vatnsleysu er greint frá landamerkjum: „Landamerki eru milli Flekkuvíkur og Vatnsleysu úr Klukku við sjó, þaðan beint í litla Hafnhól um Vatnsleysuselás, þaðan í stóra Kolhól, þaðan í Hrafnafell, þaðan að Krýsuvíkurlandi, þá norður með Krýsuvíkurlandi. – Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er Klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>“.

Afstapavarða

Afstapavarða.

Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúenda á jörðinni Stóru–og Minni Vatnsleysu. Í skýrslu ábúendanna á Stóru – Vatnsleysu kemur m.a. fram að beitarlandið sé mikið og gott alla leið frá bænum og upp að Krýsuvíkurlandi. Þar kemur líka fram að túnið sé allt girt og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Einnig segir að landamerki sé skýr og þinglesin. Ábúendur jarðarinnar halda að á henni séu hverir.
Í greinargerð þeirra sem búa á Minni–Vatnsleysu stendur m.a. að beitarlandið sé víðlent. Þar kemur einnig fram að tún jarðarinnar sé girt með grjóti og vír og að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt sem sé sveitareign. Í skýrslunni stendur einnig að jörðin eigi hveri með Stóru – Vatnsleysu og að landamerki séu þinglesin og ágreiningslaus.

Eigandi Stóru-Vatnsleysu, Sæmundur Á. Þórðarson, skrifaði landbúnaðarráðuneytinu bréf 18. september 1996 þar sem hann gerði þá kröfu vegna Vatnsleysujarðanna að mörkum móti Krýsuvík yrði breytt. Vildi hann að merkin „verði miðuð við línu dregna af Grænavatnseggjum beina stefnu í Markhellu, háan Bréfinu fylgdi „Greinargerð um Krýsuvíkurbréfið”, sem Sæmundur skrifaði 17. september 1996. Þar bar hann Krýsuvíkurbréfið saman við önnur landamerkjabréfi og fleiri heimildir og taldi hann Árna Gíslason í Krýsuvík hafa leikið á þá sem undirrituðu bréfin athugasemdalaust.
Áður var minnst á bréf sem Sæmundur Þórðarson á Stóru – Vatnsleysu skrifaði landbúnaðarráðuneytinu þann 18. september 1996 varðandi landamerki Vatnsleysujarðanna og Krýsuvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Sæmundur virðist hafa síðar skipt um skoðun því að í ódagsettri greinargerð um framkvæmdir á Stóru – Vatnsleysu [mun hafa verið skrifuð árið 2004] kemur Sæmundur með aðra ábendingu varðandi mörk Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarjarða: Í landamerkjabréfi Krýsuvíkur standi: „að vestan: sjónhending úr Dagon (= Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan sem er útbrunnið eldfjall …” Ef þarna stæði „í vesturrætur Grænudyngju” yrðu mörkin hárrétt, en Trölladyngja og Grænadyngja séu þarna hlið við hlið. E.t.v. hafi Krýsuvíkureigandi skrifað rangt örnefni sem öðrum hafi yfirsést að leiðrétta. Einnig segir Sæmundur varðandi merkjalýsingu Ísólfsskála þar sem nefnd er „sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum Krýsuvíkur”, að það sanni að línan liggi upp á Selsvallafjall enda eru gamlar heimildir um að hornmark strandajarða að suð-vestan hafi verið um Framfell, öðru nafni Vesturfell sem er inn á miðju Selsvallarfjalli þar sem það er breiðast, vestur af Vigdísarvöllum.

Keilir

Vegur að Höskuldarvöllum. Keilir fjær.

Samkvæmt þessari greinargerð Sæmundar hóf Stóru-Vatnsleysubóndi vegagerð til Höskuldarvalla og Eldborgar (gjallgígs NA af Trölladyngju) árið 1947. Á sama tíma voru Höskuldarvellir girtir af og var ræktað innan girðingar um 100 ha tún, en stórt bú var á Stóru-Vatnsleysu. Laxeldisstöð var byggð á Stóru-Vatnsleysu á árunum 1987-1990 og stóð til að virkja háhitasvæðið við Höskuldarvelli, Eldborg og Sogin. Orkustofnun var fengin til þess að gera umfangsmiklar rannsóknir á Trölladyngjusvæðinu auk rannsókna á magni og gæðum grunnvatns í landi Vatnsleysujarða. Rannsóknirnar hafi að mestu verið greiddar af eigendum Vatnsleysujarða, en þeir hafi jafnframt átt 49% í laxeldisstöðinni sem greiddi nokkurn hluta rannsóknarkostnaðarins. Sæmundur nefnir nokkra aðila, sem tekið hafi jarðefni í landi Stóru-Vatnsleysu, en segir ekki hvar. Raunar segir hann að allt frá því vegagerðin að Höskuldarvöllum hófst árið 1947 hafi verið tekið efni úr Eldborg ásamt bólstrabergi úr Rauðhólsfellunum.

Hvassahraun

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd 2019.

Í máldagaskrá um eignir kirkju og staðar í Viðey sem ársett hefur verið til um 1234 segir: „Magnvs biskvp gaf til staðar hinn siavnda lvt hvalreka ov viðreka j Hvassarauns landi“.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var hálft Hvassahraun í eigu Viðeyjarklausturs.
Í jarðaskiptagjörningi sem Páll Stígsson hirðstjóri, fyrir hönd konungs, átti við Gísla biskup Jónsson, fyrir hönd Skálholtsstól, og fram fór að Bessastöðum 27. september 1563 eignaðist konungur hinn helming jarðarinnar sem sögð var 10 hundruð að dýrleika.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um hlunnindi jarðarinnar árið 1703: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir en vatnsból brestur til stórmeina. Rifhrís til kolgjörðar á jörðin í heimalandi, og líður hún á því hrísrifi stóran ágáng af Stærri og Minni Vatnsleysum, ábúendum og hjáleigumönnum. Annars brúkar jörðin þetta hrís til að fæða kvikfjenað í heyskorti“. Hvassahrauni fylgja þá þrjár hjáleigur. Ein kallast Þoroddskot en hinar bera ekki nöfn.
Í jarðamati árið 1804 kemur fram að hjáleigan Hvassahraunskot tilheyrir jörðinni Hvassahrauni.
Jörðin Hvassahraun hvarf úr konungseigu þann 19. apríl 1837.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðamati 1849 – 1850 er kafli um Hvassahraun með Hvassahraunskoti og Sónghól. Í honum stendur m.a.: „Landrými mikið. Talsverður skógur“.
Landamerkjabréf milli Hvassahrauns og Lónakots var undirritað 7. júní 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890. Samkvæmt því eru landamerki jarðarinnar eftirfarandi: „Merkin byrja í svonefndum markakletti við sjóinn, austanvert við Hraunsnes, úr markakletti í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól, úr Stóragrænhól í hólbrunnsvörðu, úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu, úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi“.

Hvassahraun

Hvassahraun.

Nokkrum dögum síðar eða 13. júní 1890 var landamerkjabréf milli Hvassahrauns, Lónakots og Óttarsstaða undirritað. Það var samþykkt af fulltrúum Óttarsstaða og Lónakots. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Merkin byrja í svonefndum markaklett við sjóinn austanvert við Hraunsnes úr markaklett í Skógarhól, úr Skógarhól í Stóragrænhól úr Stóragrænhól í Hólbrunnsvörðu úr hólbrunnsvörðu í Skorásvörðu úr Skorásvörðu í Miðkrossstapa, sem er hornmark á Lónakotslandi, svo heldur áfram sömu stefnu millum Hvassahrauns og Óttarstaða úr Miðkrossstapa í Klofningsklett með vörðu hjá sunnanvert við Einirhól, úr Klofningsklett í búðarvatnsstæði úr búðarvatnsstæði í Markhelluhól, sem er hornmark frá Hvassahrauni, Óttarstöðum og Krýsuvík með áklöppuðum stöfunum Hvass., Óttas. og Kr.vík“.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Í kaflanum um Hvassahraun (austurbær) í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum jarðarinnar: „Landamerki að sunnan: sjá landamerki Vatnsleysu [Milli Hvassahrauns og Vatnsleysu er klettur innan til við Fögruvík, þaðan í Afstapaþúfu þaðan í Snókafell, það<an> að Krýsuvíkurl<andi>.] Að norðan, Hraunsnesvarða við sjó, þaðan í marka vörðu, þaðan í vörðu á Krossstapa, þaðan sömu stefnu til Krýsuvíkurland<s>“. Í sama riti kemur fram að Hvassahraunsbýlin, austur – og vesturbær, deila heiðalandi og hagbeit.
Í þeim hluta fasteignamats 1932 sem fjallar um lýsingu ábúenda á jörðinni Hvassahrauni kemur fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og skjólgott. Þar kemur líka fram að jörðin þurfi ekkert upprekstrarland því hún hafi það sjálf.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysuströnd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Krossstapar

Mið-Krossstapar.

Auðnaborg

Hér verður fjallað um hverfin í „Vatnsleysustrandarhreppi„.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka þarf það þó með hæfilegum fyrirvara.

Brunnastaðahverfi

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395 kemur fram að klaustrið á jörð sem kallast Brunnastaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Brunnastaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 fylgdu Brunnastöðum hjáleigurnar Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot, Traðarkot (Fjósahjáleiga), Vesturhús (Stephanarkot), Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Fimm síðustu hjáleigurnar voru í eyði þegar Árni og Páll sömdu skýrslu sína. Í greinargerð þeirra stendur eftirfarandi: „Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum. … Lýngrif og hríssrif lítið lángt til að sækja hefur jörðin, og þó ekki fyrir utan stóran ágreining við Vogamenn“.

Brunnastaðahverfi
Árið 1755 létu opinberir aðilar meta jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Í skýrslu þeirri sem var unnin um Brunnastaði stóð meðal annars.: „… Jorden fölger Selstade til Malke Qvæget, som Aarligen kand forbruges, mens underrettes at dend er Bleven meget slet, udeen Vand og neppelig Værd med Umage at forbruges. Anden Græsgang eller Fædrift fölger Jorden noget liden, Nemlig i mellem Brynnestad og Woge hvor Torvskiæren haver været hidintil forbrugt,“ …. (Með Brunnastöðum eru þá taldar hjáleigurnar Brunnastaðakot, Naustakot, Skjaldakot, Austurkot, Tangabúð og Halakot og 2 – 3 hjáleigur í eyði).
Þann 17. maí 1786 hvarf jörðin Brunnastaðir úr eigu konungs.

Efri-Brunnastaðir

Í kaflanum um Brunnastaði í jarðamati 1804 kemur fram að fylgja hjáleigurnar Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot og Skjaldarkot.
Í kaflanum um Brunnastaði og hjáleigurnar: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot í Jarðamati 1849 – 1850 kemur fram að landrými jarðarinnar sé talsvert.
Landamerkjabréf Brunnastaðahverfis gagnvart Hlöðunesi og Vogum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: Landamerki milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfisins eru úr Markakletti sem stendur ofarlega í fjöru fyrir innan Skjaldakot, uppá uppmjóa þúfu sem stendur á klöpp að innanverðu við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni í laginu sem stendur nokkru ofar, þaðan beina línu norðanhallt við Brunnastaðasel og svo þaðan beina línu til fjalls, svo langt sem Vatnsleysustrandarhrepps er talið. Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru: Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið. Undir landamerkjabréfið skrifa Teitur Þórðarson og Björn Einarsson fyrir Hlöðuneshverfi og Klemens Egilsson og Guðm. J. Waage fyrir Norður og Suður–Voga.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í köflum þeim sem fjalla um Brunnastaðahverfið124 í fasteignamati 1916–1918 stendur að tún og garðar séu úrskift, en að heiðarland og hagbeit séu í sameign Brunnastaðahverfisjarðanna.
Annað landamerkjabréf er samið fyrir Brunnastaðahverfi árið 1921. Það er undirritað 20. desember það ár og fært í landamerkjabók 7. mars 1922. Þetta landamerkjabréf er aðeins um landið næst bæjunum en ekki heiðarlandið sem er í óskiptri sameign. Í því kemur fram að: „enginn ágreiningur á milli jarða, hvorki með tún- nje fjörumörk. En landamerkji milli „hverfa” vísast til sýslubókanna frá 16. júní 1890; þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða- og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda“.

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

Landamerkjabréfið er vottað af: Ágústi Guðmundssyni, Halakoti, Símoni Símonarsyni, Skólanum, Gísla Eiríkssyni, Naustakoti, Helga Jónssyni og Guðjóni Péturssyni, Brunnastöðum Gunnari Gíslasyni, Skjaldarkoti, Kristjáni Hannessyni, Grund, Þórdísi Guðmundsdóttur, Traðarkoti og Bjargmundi Hannessyni, Suðurkoti.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingar ábúenda eftirfarandi jarða í Brunnastaðahverfi: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri–Brunnastaðir, Efri–Brunnastaðir, Suðurkot I og II, Naustakot og Halakot.

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Í kaflanum um Skjaldarkot segir að landamerkjalýsing sé til og enginn ágreiningur sé um hana.
Samkvæmt skýrslunni um Traðarkot hefur jörðin ekki afréttarland. Hvað landamerki varðar er vísað til þeirrar landamerkjalýsingar sem hefur verið gerð fyrir hverfið í heild sinni.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Í kaflanum um Austurkot kemur fram að beitiland jarðarinnar sé í meðallagi víðlent. Jörðin á sameiginleg landamerki [með öðrum jörðum Brunnastaðahverfisins] og eru þau ágreiningslaus.
Samkvæmt jarðalýsingu Neðri – Brunnastaða er enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Efri – Brunnastaðir hafa í meðallagi víðlent beitiland. Enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.

Suðurkot

Suðurkot.

Í skýrslunni um Suðurkot kemur fram að jörðin eigi rétt til upprekstar á landi sem sé í eigu jarðanna í Brunnastaðahverfinu. Enginn ágreiningur er um landamerkin.
Að sögn ábúanda á Suðurkoti II er enginn ágreiningur um landamerki jarðarinnar.
Á meðal þess sem kemur fram í kaflanum um Naustakot er að heiðarland sé í sameign við aðrar jarðir í hreppnum og að landamerki séu ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út í júní 2004 kemur fram að í Brunnastaðahverfinu séu: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri-Brunnastaðir, Efri-Brunnastaðir, Suðurkot, Naustakot og Halakot.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Hlöðunes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Hlöðunes í eigu Viðeyjarklausturs.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 segir eftirfarandi um Hlöðunesi: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu“.
Hlöðunesi fylgdi hjáleigan Hlöðuneskot.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Árið 1755 fór fram mat á jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Í greinargerðinni sem var skrifuð um jörðina Hlöðunes stóð m.a.: „Selstade op til Fields fölger með Jorden som Aarligen kand Forbruges, Mens Fæedrivt og Græsgang for Heste og Studer meget lidt, undtagen hvis som kand erholdes udi Bermelte Selstade, og ude een Moe Sydvest fra Tunet“ …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Hlöðunes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Eigandi hálfs austurhluta Hlöðuness seldi eign sína þann 17. júní 1839.
Samkvæmt afsalsbréfinu þá var hér um að ræða bæ, útmælt tún og túngarð. Í skjalinu kemur einnig fram að eignir og ítök til lands og vatns, sem eru tún og úthagar til fjalls og fjöru, og veiða- og rekahlunnindi hafi fylgt með í sölunni.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur eftirfarandi um jörðina Hlöðunes og býlin Hlöðuneskot og Vesturkot: „Sumar- og vetrarbeit allgóð í óskiptu landi utangarða“.
Þann 25. nóvember 1869 seldi eigandi Hlöðuneskots bóndanum á Minni–Vatnsleysu jörðina. Í afsalsbréfinu kemur fram að jörðin er seld með: „öllum þeim húsum og byggingum, eignum og ítökum, til sjós og lands, er … fylgt hefur og fylgja ber til ystu ummerkja, að afsöluðum öllum óðals og innlausnarrjétti frá minni og erfingja minna hálfu“ … .

Hlöðunes

Hlöðunes.

Landamerkjabréf Hlöðunesshverfis gagnvart Brunnastöðum og Ásláksstöðum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: „Milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfa: frá svokölluðum markakletti, sem stendur ofarlega í fjöru skammt fyrir innan Skjaldakot beina línu uppí uppmjóa þúfu er stendur á klöpp innan vert við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni síðastnefndu í laginu, sem er nokkrum föðmum ofar og þaðan beina línu norðanvert við Brunnastaðasel til fjalls svo langt, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Milli Hlöðunes og Ásláksstaðahverfis frá ós þeim sem lengst skerst uppí land innúr svokölluðu Álfasundi, þaðan beina línu í svokallaðan Álfhól, þaðan beina línu í hól sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli, þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt uppí Hrafnshóla og þaðan beina línu sunnan til við gamla Hlöðunes<s>el til fjalls svo langt sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær“. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum og ábúendum Brunnastaðahverfis og Ásláksstaðahverfis.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Hlöðuness er að finna landamerkjalýsingu fyrir hverfið. Hún er samhljóða þeim hluta landamerkjabréfsins frá 22. maí 1890 sem fjallar um landamerki milli Hlöðuness og Brunnastaðahverfa. Í köflunum um Hlöðunes og býlin Halldórsstaði og Narfakot í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit í félagi.

Narfakot

Narfakot – Altlagerðistangaviti fjær.

Í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar var samið annað landamerkjabréf fyrir Hlöðuneshverfi sem nær til túna og fjöru. Það var undirritað 27. desember 1921 og innritað í landamerkjabók 12. janúar 1922. Þar kemur m.a. fram að: Landamerkjalýsing þessi innibindur Hlöðuneshverfi í Vatnsleysustrandarhreppi; Hlöðunes, Halldórsstaði, Narfakot og Miðhús, sem takmarkast af Brunnastaðahverfi að sunnan og Ásláksstaðahverfi að norðan (innan) samkvæmt landamerkjalýsing útgefin og þinglesinni 1890 og athugasemdarlaust undirskrifaðri af öllum hlutaðeigendum, bæði hvað fjöru og heiðarmörk snertir en áðurnefnd merkjalýsing, tekur ekki neitt til um túnmörk innan hverfis, en þau eru sem hjer segir: …Eigendur Halldórsstaða og Miðhúsa auk eiganda Hlöðuness og umboðsmanns eiganda Narfakots skrifuðu undir landamerkjabréfið.
Í Fasteignamati 1932 er að finna lýsingar á jörðum í Hlöðunesshverfi: Halldórsstöðum, Narfakoti og Hlöðunesi. Í skýrslunni um Halldórsstaði segir að heiðarland sé óskipt og að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og þinglesin.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Ásláksstaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóru– og Minni–Ásláksstaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Ásláksstaðahverfið var metið árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Stóru Ásláksstaðir eigi hjáleiguna Atlagerði. Þar stendur einnig eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin i almenningum frí“.
Í greinargerð sem var unnin um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 eru kaflar um bæði Stóru– og Minni–Ásláksstaði. Um Stóru – Ásláksstaði segir m.a.: „… Selstade Fölger Jorden som Aarlig kand forbruges, mens Græsgang og Fædrift til liden nytte, uden hvis som er at faae paa bemelte Selstade“ …

Knarrarnessel

Ásláksstaðasel í Knarrarnesseli. Uppdáttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Minni–Ásláksstaði stendur m.a.: „… Selstade til Malke Qvæg fölger Jorden som Aarligen forbruges, Mens Græsgang eller Fædrivt icke meget andet end som paa Berörte Selstade og hvad der kand være i fælles. Fædrivten med Store Axlestade efter foranförte,“ …
Jörðin Ásláksstaðir hvarf úr eigu konungs þann 7. ágúst 1813.
Eitt af því sem sagt er um Innri – Ásláksstaði í Jarðamati 1849-1850 er: „Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi“.
Í Fasteignamati árins 1849 segir um Ytri – Ásláksstaði: „Utangarða óskipt lóð“.
Í þeim köflum í fasteignamati 1916 – 1918 sem fjalla um jarðirnar í Ásláksstaðahverfinu, Ytri – og Innri Ásláksstaði og Sjónarhól, kemur fram að tún og matjurtagarðar þeirra séu úrskipt en að heiðarland og hagbeit séu í sameign jarðanna þriggja.

Móakot

Móakot og Móakotsbrunnur.

Landamerkjabréf Ásláksstaðahverfis var undirritað 31. desember 1921. Bréfið var fært í landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu þann 7. mars 1922: Landamerkjalýsing þessi, innibindur Ásláksstaðahverfi en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri – Ásláksstaðir, Hallandi (Nýjibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi, tilheyrir land alt, girt og ógirt á milli Hlöðunes-hverfis, að sunnan og Knarraness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Að sunnan, milli Hlöðuneshverfis annarsvegar og Ásláksstaðahverfis hinsvegar (að innan) eru þessi landamerki: Álfasund frá ós þeim sem lengst skerst uppí land, úr Álfasundi og ræður framhald á þeim ós einnig mörkum á milli hverfanna, alla leið til sjáfar fram um fjöru; í Álfshól beina stefnu í Hól, sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli sunnan til við Ásláksstaðaholt í Hrafnshóla sunnan til við gamla Hlöðunes<sel> til fjalls. Að innan, milli (Sjónarhóls) Ásláksstaðahverfis að sunnan og Knarrarness að innan, eru þessi landa- og fjörumerki: úr ós upp eftir fjöru í klöpp er liggur í svonefndum girðingum hjer um bil til miðsvæðis ofan til við flæðarmál, þaðan sunnantil við svo nefnda Digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt þaðan í Eldborgargreni, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digruvarða og Knarrarnesholt eru sjest þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Austast í Ásláksstaðahverfi að Knarranesmörkum innan girðingar og fjöru liggur:

Ásláksstaðir

Sjónarhóll. Ásláksstaðir og Móakot fjær.

1. Sjónarhóll: Tún hans takmarkast af heiðargarði, alla leið frá túni Ytri-Ásláksstaða og austur að garði þeim er liggur í norður, fyrir austurkanti Sjónarhóls-túns á milli þess og girðinga þeirra, er honum tilheyra og eru þar heiðar og sjáfarmegin afgirtar með görðum og gaddavír og ná næstum, þó ekki alveg að mörkum Knarrarrnes og Ásláksstaðahverfis. Austast í girðingum þessum er nýbýlið Garðhús með þurrabúðar útmæling; matjurtagarð á býli þetta fyrir neðan eða sjáfarmegin við girðingarnar og annan fyrir ofan þær, lóð býlis þessa er eign Sjónarhóls ásamt girðingunum. Að norðan liggur tún Sjónarhóls alt að sjó; að vestan takmarkast það af grjótgarði, sem er á milli Hallanda og Sjónarhólstúns og liggur hann að austurhorni á matjurtagarði þeim, sem er eign Ytri – Ásláksstaða, eftir garðsvegg þessum meðan hann nær yfir Traðargötu á milli bæanna eftir vírgirðingu, sem kemur dálítið vestar, en í beinni línu eftir þeim mörkum sem áður er lýst og liggur með dálitlum boga, út að heiðargarði túnanna, í stóran stein merktan M. … … [Framhaldslýsingar eiga eingöngu við heimalönd innan garðs.] …Utangarðs er heyðarland alt óskift og tilheyrir eftir hundraðshlutföllum innanhverfis. Þess skal loks getið að árið 1918 var selt með samningi útgefnum og þinglesnum það ár lóðarspilda undir vitanum og í kringum hann.
Þetta landamerkjabréf er vottað af bændunum á Knarrarnessbæjunum að áður sé lesið milli hverfa.

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingar ábúenda Sjónarhóls, Ytri–Ásláksstaða, Nýjabæjar og Móakots.
Í skýrslunni um Sjónarhól kemur fram að beitiland býlisins sé frekar þröngt en skjólgott. Sjónarhóll hefur allt sitt upprekstrarland á heimalandi. Landamerki jarðarinnar eru óumdeild.
Í svörum ábúanda á Ytri–Ásláksstöðum kemur fram að landamerkin séu ekki vafalaus.
Í spurningalistanum sem ábúandi á Nýjabæ fyllti út kemur fram að beitiland Nýjabæjar sé víðlent og að landamerkjalýsing sé til.
Að sögn ábúanda í Móakoti eru landamerki ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorði frá 26. maí 2004 kemur fram að Sjónarhóll sé í eigu nokkurra aðila..
Þann 14. júní 2004 var gefið út þinglýsingarvottorð fyrir jörðina Ásláksstaði.

Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Knarrarnes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Stóra– og Minna–Knarrarnes í eigu Viðeyjarklausturs.
Lagt var mat á Knarrarnesjarðirnar árið 1703. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Litla – Knarrarnes: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar á jörðin frí í almenningum“.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Selstaðan ofar.

Í kaflanum um Stóra–Knarrarnes kemur eftirfarandi fram: „Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð. Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Eftirfarandi texta er að finna í mati sem unnið var um býlið Stóra–Knarrarnes árið 1755: „Selstade Fölger som Aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift til liden nytte undtagen Bemeldte Selstade, Hvor udjnden der er störste mangel paa Huusse og Höe Torv Skiæren uden giærde“…
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Stærra–Knarrarnes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Þann 13. júní 1838 hvarf jörðin Minna – Knarrarnes úr eigu konungs.
Í umfjölluninni um Stóra – Knarrarnes í Jarðamati 1849 – 1850 kemur m.a. fram að: „Hagbeit sumar og vetur rír í óskiptu landi utangarða“. …

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Í kafla þeim sem helgaður er Litla–Knarrarnesi í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. að: „… Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi utangarða“. … Landamerkjabréf Knarrarness var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar:
Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Stóra-Knararnes og Minna-Knararnes og eru mörkin þessi:
1. Að austanverðu milli Stóra – Knararness að vestan og Breiðagerðis að austan: Frá Selskeri sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings, upp eptir maðkasandinum, í Duggusker, þannig, að tveir þriðjungar þess eru eign Stóra – Knararness; þaðan í neðri enda svo nefnds Merkjagarðs, er liggur fyrir austurenda Stóra–Knararnesstúns, og er garður þessi í mörkum það sem hann nær, upp að túngarði; þaðan í nyrðri (eystri) Geldingahól, þaðan um nyrðri Keilisbróður beint að landi Krýsivíkur.
Einungis frá þeim enda Merkjagarðs, er til heiðar snýr, er heiðin óskipt land, er eigendur Knarrarnesja eiga saman eptir jarðarhundraða tiltölu. En túnmörkeru:
a) milli austurparts og vesturparts Stóra–Knarrarness: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur á Knarranesshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðahliði.
b) Milli Stóra – Knarrarness og Minna – Knarrarness. Úr syðra parti Vörðuskers (2/3 þess er eign Stóra–Knarrarness) beint eptir fjörunum í Markaklöpp; þaðan í Krosshóla í túni, og eptir garðlagi því, er þaðan liggur suður og upp tún út að túngarði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

2. Að vestanverðu milli Knarrarness og Ásláksstaða: Úr ós eptir fjöru í Klöpp, er liggur í svo nefndum girðingum hjer um bil miðsvæðis, ofan til við flæðarmál, þaðan sunnan til við svo nefnda Digruvörðufyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digravarða og Knarrarnessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Bréfið var samþykkt af fjórum mönnum, eigendum Breiðagerðis og Innri-Ásláksstaða.
Í lok bréfsins bæta eigendur vesturparts Stóra Knarrarness og ¾ Minna Knarrarness við athugasemd: „Við Sigurður Gíslason og Stefán Jónsson erum samþykkir mörkunum að sunnan, en ekki að innan“.
Í kaflanum um Minna – Knarrarnes í Fasteignamati 1916 – 1918 koma fram upplýsingar um landamerki: „Landamerki milli Áslaksstaða og Knarrarnes eru við sjó er steinn á Klapparhorni við svonefndar girðingar í svokallaðan Markhól þaðan beina línu til heiðar í stóra hrút fyrir norðan Hagafell þaðan norður í Litla-Hrút, þaðan í innri Geldingahól, þaðan niður í merkisgarð, þaðan í svonefndan Selastein í fjöru“.
Í köflunum um Minna – Knarrarnes og hinar tvær jarðirnar í Knarrarneshverfinu, Stóra–Knarrarnes (tvær hálflendur með sama nafni) í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit séu í félagi jarðanna þriggja.

Eldborg

Eldborg ofan Knarrarnessels.

Í maí 1920 gáfu nokkrir aðilar út yfirlýsingu um afnot á hluta lands Knarrarness: „Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren….”“

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891. Undir þessa yfirlýsingu skrifa; Sæmundur Kr. Klemensson fyrir hönd skólanefndarinnar, eigendur Knarrarnesjanna, umboðsmaður alls Breiðagerðisins og viss hluta Auðnahverfis, Þórarinn Einarsson [Bergskoti], Benedikt Þorláksson [Höfða], eigandi nokkurs hluta Þórustaða og hreppsnefndaroddvitinn.

Stóra-Knarrarnes

Tóftir Stóra-Knarrarness.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingu um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: „Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á litla Skógfelli“. Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Knarrarneshverfi; Stóra–Knarrarnes I, Stóra–Knarrarnes II (Austurbær) og Minna–Knarrarnes.
Að sögn ábúanda á Stóra–Knarrarnesi er beitilandið víðlent. Hann greinir einnig frá því að jörðin eigi sameiginlegt beitiland við hálflenduna [Stóra–Knarrarnes II] og Minna–Knarrarnes. Einnig nefnir hann að landamerki séu þinglesin og enginn ágreiningur sé um þau.
Samkvæmt upplýsingum ábúanda á Stóra–Knarrarnesi II (Austurbæ) er beitiland býlisins nægilegt. Einnig nefnir hann í skýrslu sinni að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt. Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus.
Í svörum ábúanda á Minna – Knarrarnesi kemur fram að beitilandið sé fremur þröngt.
Af þinglýsingarvottorðum dagsettum 15. og 21. júní 2004 má ráða að í Knarrarnestorfunni séu; Minna–Knarrarnes, Stóra–Knarrarnes I og Stóra–Knarrarnes

Breiðagerði

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var jörðin Breiðagerði.
Þann 13. september árið 1500 áttu sér stað eigendaskipti á jörðinni Breiðagerði. Henni fylgdu öll gögn og gæði.
Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina aftur 30. maí 1501.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Breiðagerði í eigu Viðeyjarklausturs.
Árið 1703 var jörðin Breiðagerði metin. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir Selstöðu brúkar jörðin þar sem kallað er Knararness sel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin frí í almenningum.

Breiðagerði

Tóft við Breiðagerði.

Í opinberri skýrslu sem gerð var um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 stendur eftirfarandi um býlið Breiðagerði: „… Selstade Fölger Jorden som aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift undtagen bemelte Selstade icke til nogen betydelig nytte, hvoraf flyder huse og Höe torves Mangel“…
Í Jarðamatinu 1849 – 1850 segir m.a. um jörðina Breiðagerði: „Hagbeit sæmileg sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“. …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Breiðagerði hafi verið seld þann 2. maí 1827.

Breiðagerði

Breiðagerðishverfið.

Landamerkjabréf Breiðagerðis var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar: Landamerkin eru þessi: Breiðagerði tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjáfar milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Stóra–Knarrarness að sunnanverðu. Landamerkin eru þessi:
1. Milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu: Lendingarósinn, sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis, sunnanvert við Bláklett, sem er hár klettur fyrir norðan og utan Bergskots-lendinguna. Frá flæðarmáli til heiðar liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti, norðanvert við efri Sundvörðuna um Þúfuhól þann, er hún stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið Hól; þaðan eptir vörðum upp heiðina, milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Ásláksstaðasel

Ásláksstaðasel.

2. Milli Stóra – Knaraness að sunnanverðu og Breiðagerðis að norðanverðu eru þessi landamerki: Selsker, sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings; þaðan upp eptir maðkasandinum í sprungu, sem er nokkru norðar en í miðju Dugguskeri, sem er stórt sker á sandinum milli Knaraness og Breiðagerðis: – Stóra–Knararnesi tilheyrir því tveir þriðjungar af Dugguskeri, en Breiðagerði einn þriðjungur. Úr þessari sprungu liggja mörkin beint í litla klöpp, sem er í flæðarmáli við neðri enda merkjagarðsins, er liggur fyrir austurenda Stóra – Knararnesstúnsins frá sjó upp að túngarði, og eptir þessum merkjagarði meðan hann nær til, en frá efri enda hans liggja mörkin í nyrðri Geldingahól; þaðan í nyrðri Keilisbróðir og eptir þeirri stefnu alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landamerkin eru samþykkt af eigendum Auðnahverfis og umráðamanni Stóra-Knarrarness.

Breiðagerði

Breiðagerði – innsiglingarvarða ofan við vörina.

Í kaflanum um Breiðagerði í fasteignamati 1916 – 1918 stendur að heiðarland og hagbeit séu í félagi við nágrannajarðir.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúanda Breiðagerðis á jörðinni. Í henni kemur fram að tún eru girt af með grjótgarði og beitiland með gaddavír. Þar stendur einnig að jörðin eigi óskipt beitiland og að þar sé talsvert af grjóti sem nota megi sem byggingaefni. Landamerki Breiðagerðis eru ágreiningslaus. Jörðin fylgir Auðnum.
Vatnsleysustrandarhreppur seldi Hitaveitu Suðurnesja land ofan Vatnsleysustrandarvegar (gamla þjóðvegarins) sem tilheyrt hafði jörðinni Breiðagerði þann 1. september 2004. Landið afmarkaðist af Knarrarnesi til suðvesturs, Auðnahverfi til norðausturs, en heiðarmörk til suðausturs liggja móti landi Krýsuvíkur.

Auðnahverfi

Vatnsleysubæir
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Auðnir í eigu Viðeyjarklausturs.
Auðnir voru metnar árið 1703. Þeim fylgdu hjáleigurnar Auðnahjáleiga, Lönd, Hjáleiga og Hólmsteinshús. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum“.
Í Jarðabókinni kemur fram að jörðin Landakot sé hálflenda Auðna og er selstaða ekki nefnd við þá jörð.
Árið 1755 var lagt mat á jörðina Auðna. Í þeirri úttekt kom m.a. fram að: „Jorden Fölger Selstade sem Aarlige Forbruges, mens udmark meget slet hvoraf fölger Torveskiærs Mangel at dæcke med Husse og Höe, hvis Aarssage Torvet er skaaren jnden Gierdes Tunet til Störste Bedervelse“… Í jarðamati árið 1804 kemur fram að Auðnum fylgir hjáleigan Auðnakot.
Jörðin Auðnar hvarf úr eigu konungs þann 19. apríl 1837.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Auðna, með hjáleigunni Bergskoti, í Jarðamati 1849-1850 kemur m.a. eftirfarandi fram: „Nokkur hagbeit sumar og vetur í óskiptu landi utangarða“.
Landamerkjabréf Auðnahverfis var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar: Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Auðna (norður- og suður-part heimajarðarinnar), Höfða og Bergskot. Eiga þessar jarðir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Landakots að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu. Fjörunni er skipt í spildur með hverri jörð fyrir sig; sömuleiðis eru tún jarðanna aðgreind hvert frá öðru, ýmist með grjótgörðum eða járnþráðargirðingum, en heiðarland allt milli Landakots og Breiðagerðis tilheyrir þessum þrem jörðum sameiginlega og ber hverri jörð af því eptir hundraðatölu hennar.

Höfði

Höfði.

1. Að norðanverðu milli Auðnahverfis og Landakots eru landamerki þessi: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er skerst inn úr aðalós þeim, er liggur inn á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir og um krók þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots, þaðan um Brunnhóla eptir grjótgarði; þaðan eptir gömlu torf-garðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna – Klofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

2. Að sunnanverðu milli Auðnahverfis og Breiðagerðis eru þessi landamerki: Lendingarósinn sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól þann, sem efri Sundvarðan stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið „Hól”. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eptir vörðum upp heiðina milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir (Litla hrút) alla leið að landi Krísivíkur í Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eiganda Landakots.
Í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum Auðna: Landamerki að sunnan við Auðnahverfi er norðan við Breiðagerði. Lendingarósinn sem liggur út frá lendingu Bergskots og Breiðagerðis, fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eftir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól, þann sem efri sundvarðan stendur á, skamt fyrir austan tómthúsið Hól. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir vörðum upp heiðina milli Auðnaklofninga og Breiðagerðis-skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, Litla hrút alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Að norðanverðu við Auðnahverfi og milli Landakots eru mörkin þessi. Fyrir neðan flæðarmál Markaós, sem er austasti ósinn, skerst innúr aðalós þeim, er liggur á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti til heyrir og um Krók þann, er sjávargarður Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast. Þaðan eftir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla eftir grjótgarði; þaðan eftir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eftir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu. Þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eftir stefnu þeirri, spölkorn fyrir sunnan Keilir, alt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnasel

Auðnasel.

Í sama riti kemur fram að býlin í Auðnahverfi, Auðnir, Bergskot og Höfði, hafa sameiginlegt heiðarland og hagbeit.
Í kaupsamningi sem gerður var 1. nóvember 2001 var hluti Bergskots og Höfða í óskiptri sameign Auðnahverfis (Auðnir ekki aðilar samnings) seldur Hitaveitu Suðurnesja. Hið óskipta land markast af merkjum Landakots að norðan, Breiðagerðis að sunnan og Krýsuvíkur að austanverðu (suðausturátt). Að vestanverðu af Reykjanesbraut.
Í þinglýsingarvottorði fyrir Auðna, dagsettu 15. júní 2004, kemur fram að úr landi Auðna hafa verið seldar eða leigðar lóðir undir loðdýrabú og sumarbústaði. Jörðin virðist að öðru leyti haldast.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysutrönd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Kálfatjörn

„Munnmæli eru um að aðalkirkjan á Vatnsleysuströnd hafi staðið upphaflega á Bakka, fram við sjóinn, en verið flutt að Kálfatjörn vegna landbrots af sjávargangi. En þar sem Bakki á að hafa staðið upphaflega, er nú grængolandi sjór. Þetta gæti staðizt, því að tvívegis hefir Bakki verið færður undan sjávargangi, 1779 og 1838.
Í Vilkinsmáldaga segir að Péturskirkja sé á Galmatjörn, og í athugasemdum í Fornbréfasafni segir að þetta muni hafa verið hið forna nafn staðarins. — kalfatjorn 1965Torfkirkja var í Kálfatjörn fram til 1624, en þá var þar reist kirkja með torfveggjum og timburþaki Fyrsta timfburkirkjan var reist þar 1844, en kirkja sú, er nú stendur þar, og er með allra stærstu sveitarkirkjum, var reist 1893. Prestar sátu á Kálfatjörn fram til 1919, en þá varð Kálfatjörn útkirkja frá Görðum á Álftanesi. —
Kálfatjörn stendur nokkurn veginn miðsvæðis á Ströndinni og var þangað fyrrum drjúgur kirkjuvegur frá innstu og yztu bæum. Var þar yfir hraun að fara og lá vegurinn í ótal krókum og sem næst sjónum, og var því mörg um sinnum lengri en akvegur inn er nú. Ekki voru þó ár til trafala, því að á Vatnsleysuströnd er ekkert rennandi vatn. Þó var þár á vorin ein afar ill torfæra fyrir þá, sem komu að utan, og nefndist hún Rás. Í leysingum á vorin gat safnazt fyrir mikið vatn fram í heiði og fékk það farveg til sjávar um. Rásina og var þar stundum beljandi elfur sem tók mönnum í mitti. Farvegur þessi er skammt fyrir vest an Kálfatjörn. Mönnum mun hafa leikið hugur á að sigrast á þessari torfæru, og árið 1706 var gerð heljarmikil brú úr grjóti þvert yfir Rásina. Sjást leifar hennar enn með fram stauragirðingunni hér á myndinni. Fékk vegarbót þessi nafnið Kirkjubrú vegna þess, að hún var gerð til þess, að kirkjufólk gæti komist óhindrað að staðnum. Á einn stein í rústum þessarar brúar er höggvið ártalið 1706, og af því draga menn þá ályktun að brúin hafi verið gerð það ár, og er því þessi vegarbót 260 ára gömul.“

Heimild:
-Morgunblaðið 1 júní 1965, bls. 5.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – loftmynd.

Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Norðurkot

Í bók Guðmundar Björgvins Jónssoar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ má lesa eftirfarandi um gamla skólahúsið í Norðurkoti, sem síðar var híft af stalli og síðan staðsett og endurreist vestan við Kálfatjarnarkirkju í sama hverfi.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Það var árið 2003 þegar skólahúsið í Norðurkoti stóð enn þar sem það upprunalega var, að Rafn Sigurðsson fór til þess að skrásetja það með myndum áður en “húsið” myndi grotna niður og verða að ónýtum kofahjalli. Það mátti ekki tæpara standa því 2005 var húsið flutt í heilu lagi að Kálfatjörn.

„Norðurkot er hjáleiga úr landi kirkjujarðarinnar Kálfatjarnar.
NorðurkotFyrir aldamótin bjuggu í Norðurkoti hjónin Erlendur Jónsson og kona hans, Oddný Magnúsdóttir. Erlendur var hálfbróðir Helga Sigvaldasonar í Litlabæ. Hjónin í Norðurkoti áttu Ólaf fyrir son, trésmið, er síðar fór til Ameríku og týndist þar fyrir fullt og allt.

Árið 1903 var Norðurkot byggt upp eins og það er í dag. Það var skólanefnd og hreppurinn sem létu gera það og var húsið notað sem skólahús fyrir „Innstrendinga”. Húsið var úr timbri, ein hæð og portris.

Norðurkot

Norðurkot – gamla skólahúsið.

Kennslunni var ætluð neðri hæðin, en risið var hugsað til leigu og í þá íbúð fluttu hjónin Björn Jónsson og kona hans, Halla Matthíasdóttir. Höfðu þau dvalið í gamla bænum í nokkur ár, en Erlendur og Oddný voru farin þegar nýja húsið var byggt. Björn og Halla voru hin skemmtilegustu heim að sækja og var oft komið við í Norðurkoti eftir kirkjuathafnir. Norðurkot var grasbýli, auk þess sem Björn gerði út bát sem ég man að hét Eining. Var sú útgerð smá í sniðum, en bjargaði með öðru. Barnakennsla var aflögð í Norðurkoti árið 1910 og snemma á árinu 1911 keypti Guðmundur í Landakoti Norðurkotið af hreppnum og leigði Birni þá allt húsið.

Norðurkot

Norðurkot – skólahúsið.

Snæbjörn Reynisson, skólastjóri Stóruvogaskóla, segir að fyrsta árið hafi verið nítján börn í skólanum, á aldrinum átta til fjórtán ára, úr Kálfatjarnarhverfi og nágrenni.

Síðasta ári sem kennt var í Norðurkoti voru þrír skólar í Vatnsleysustrandarhreppi. Eftir að skólahald lagðist af var búið í Norðurkoti um tíma, fram á fjórða áratuginn. Síðan hefur það staðið autt eða verið notað sem geymsla. Það voru afkomendur Erlendar Magnússonar, bónda á Kálfatjörn, sem gáfu Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps Norðurkotshúsið á síðasta ári og stóð félagið fyrir flutningi þess (24. mars 2005) að Kálfatjörn með styrk frá Alþingi og stuðningi verktaka.

Norðurkot

Norðurkot skömmu fyrir flutninginn.

Talsvert átak var að flytja húsið. Þannig þurfti að leggja veg að því svo dráttarbíll og krani kæmust að.

Húsið var sett niður til bráðabirgða við gömlu hlöðuna á Kálfatjörn en það verður sett á grunn á bak við hlöðuna. Birgir Þórarinsson, hjá Minjafélagi Vatnsleysustrandarhrepps, segir að vegna þess hversu langt er síðan búið var í húsinu hafi því lítið verið breytt að innan. Ætlunin sé að koma þar upp safni þar sem saga hússins verði sögð. Þangað verði til dæmis hægt að fara með börn úr grunnskólum og sýna þeim hvernig skólahald fór fram í upphafi síðustu aldar. Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn gaf félaginu ýmsa muni sem tengjast skólahaldi og verða þeir notaðir við uppsetningu sýningar í húsinu.“

Sjá meira um Norðurkot HÉR og HÉR.

Heimildir:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson, útg. 1987, bls. 312-315.
-https://icelandphotogallery.com/project/gamla-skolahusid-i-nordurkoti-fyrir-flutning/

 

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um „Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar“ má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli

Jónas Hallgrímsson

Jónas Hallgrímsson.

„Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jónas Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.

Íslandskort

Íslandskort 1824.

4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

„Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeir oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.

Staður

Staður 1925.

Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum.

Selsvellir

Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.

Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.“

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – Kirkjuhöfn, Sandhöfn og Eyrarhöfn; uppdráttur ÓSÁ.

„Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagst í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á „landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis“].

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.“

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.

Kirkjuból

Kirkjuból – grafstæði.

Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.

Þórshöfn

Þórshöfn – áletranir á klöpp; flestar frá um og eftir 1880.

Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn).

Kistugerði

Kistugerði – rúnasteinn.

Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.“

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.

Stekkjarkot

Brunnur við Stekkjarkot.

Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tveir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.“

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur /Jónsbúð – örnefni og minjar; uppdráttur ÓSÁ.

Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupm(aður) í Keflavík A. Gunnarsson hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.

Þessir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu.

Hafnarfjörður

Herforningjaráðskort; Hafnarfjörður og Álftanes 1903.

Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskarðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp við fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.

Flókaklöpp

Flókaklöpp við Hvaleyri.

Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sjómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparholt og Árbæ.

Hraðaleiði

Hraðaleiði.

Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómhringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og Mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæ sinn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.“

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
„Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efni að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði varleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.“

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Borgarkot

Borgarkot er á Vatnsleysuströnd, austan Litlabæjar og Bakka, milli Réttartanga og Keilisness. Tóftir kotsins eru á sjávarbakkanum, en sjórinn er smám saman að draga þær til sín. Hlaðinn vörslugarður, jarðlægur, er landmegin við tóftirnar. Gerði er við hann austanverðan. Austan við tóftirnar er stór hlaðinn krossgarður, sem minkaveiðimenn hafa rutt um koll, en þarna með ströndinni má víða sjá götur eftir minkinn. Hlaðið gerði (rétt eða nátthagi) er suðvestan við tóftirnar. Vestan við það er vatnsstæði. Í örnefnalýsingu er það nefnt Vatnssteinar, en kunnugir nefna það Vaðsteina. Í því þrýtur sjaldan vatn.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir Breiðufit er röð stöpla (steina) stórgripagirðingar er liggja frá Litlabæ að landamörkum Flekkuvíkur, beygir til norðurs skammt vestan Hermannavörðu og endar niður við sjávarbakkann. Í hverjum steini eru tveir trétappar. Ofan við girðinguna er hlaðin refagildra. Önnur slík er innan girðingarinnar nokkru vestar. Hlaðin rétt er milli Bakka og Borgarkots, önnur ofar og austar og enn ein, minni, skammt frá (líklega þó gerði undir hraunhól).
Borgarkot var, líkt og svo margar jarðir á norðanverðu Reykjanesinu, eign Viðeyjarklausturs og gerð út þaðan. Á tímabilinu 1200-1750 voru misjafnlega stöndug býli dreifð um landsvæðið þar sem nú er Reykjavíkurborg. Bændur á höfuðbólinu Vík (Reykjavík) stunduðu hefðbundinn búskap og reru til fiskjar. Framan af tímabilinu er fátt skrifað um Víkurbændur en í heimildum frá síðmiðöldum kemur fram að þar hafi jafnan búið heldri bændur, hreppstjórar og lögréttumenn, þó að ekki teldist býlið til helstu höfðingjasetra. Víkurkirkja stóð, gegnt bæjarhúsum, þar sem nú er Bæjarfógetagarður við Aðalstræti. Kirkja mun hafa staðið í Vík a.m.k. frá því um 1200, sennilega miklu fyrr.
Að síðasta sjálfseignarbóndanum í Vík látnum, snemma á 17. öld, var jörðin keypt undir konung en þungamiðja valds og verslunar hafði þá smám saman færst að sunnanverðum Faxaflóa. Kirkja og konungsvald höfðu eignast þar margar jarðir en Bessastaðir urðu aðsetur hirðstjóra konungs árið 1346.
Rétt eða gerði suðaustan við BorgarkotKlaustur af Ágústínusarreglu var stofnað í Viðey árið 1226 og átti það eftir að vaxa og dafna að veraldlegum auði næstu aldir og verða eitt ríkasta klaustur landsins. Klausturkirkjan var helguð Maríu mey og sungu Viðeyjarmunkar þar tíðir sínar dag hvern. Í klaustrinu var ágætur bókakostur og voru þar iðkuð klausturleg fræði og skrifaðar bækur. Á síðmiðöldum, a.m.k., er líklegt að straumur pílagríma hafi legið til Viðeyjarklausturs á helstu hátíðisdögum kirkjuársins.
Eftir að siðbreyting gekk í garð í Danmörku tók Diðrik af Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, Viðeyjarklaustur á hvítasunnudag 1539. Menn hans létu greipar sópa og misþyrmdu munkunum. Eftir að siðbreytingin gekk endanlega í garð á Íslandi 1550 var klausturlíf í Viðey lagt af og jarðeignir klaustursins komust í eigu konungs. Eftir það var rekið bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikrahæli í Viðey.
kot.

Borgarkot

Borgarkot – réttin ofan Réttartanga, austan Borgarkot.

Gengið var til austurs frá Bakka, áleiðis yfir að Borgarkoti. Við fyrsta fet stóð jakobsfífill upp úr lyngi umvafinn smjörvíði. Þetta lofaði góðu. Þarna var og blóðberg, lyng og tröllasúra innan um gras og lágvaxinn grávíði. Friggjargras, hvítmura, kornsúra, gulmara og lyfjagras, tágamura, geldingahnappur og týsfjóla. Í rauninni var alltaf eitthvað að sjá, hvert sem litið var. Svæðið var greinilega miklu mun fjölbreyttara en reiknað hafði verið með. Þar fyrir utan hýsti það allar hinar algengu blómategundir, s.s. sóleyjar, fífla, fífu, brönugras, gullkoll, umfeðmingsgras og annað það er sést svo til alls staðar á Reykjanesskaganum. Stelkur lét ófriðlega, enda varptíminn í hámarki.
Tóftir í BorgarkotiÞegar komið var niður í fjöru greip minkur, högni eða læða, alla athyglina. Þetta var brúnt, þvengmjótt, kvikyndi. Hann kom í humáttina ekki langt frá, staðnæmdist af og til og leit í kringum sig. Þá snéri hann allt í einu við og skellti sér út í þangsjóinn. Þar fyrir utan voru nokkrar kollur með unga. Honum skaut upp af og til, en loks hvarf hann alveg sjónum viðstaddra. Fuglarnir höfðu greinilega orðið hans varir því þeir syntu með unga sína lengra frá landi. Á landklöppunum speglaðist fagurgrænn mosaþarinn í pollunum með bleikmynstraða polla innan um. Meistaraleg litasamsetning hjá meistaranum.
Þang og þari, skeljar, kuðungar, krabbar og annað, sem fjaran geymir var svo til við hvert fótmál. Handgert flotholt úr stórum vikursteini, koddi, fótbolti og hvalbein – höfuðkúpa af háhyrningi. Af nógu var að taka. Í fjörunni þarf greinilega engum að láta sér leiðast – alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, sama hvert litið er. Sjórinn var ládauður, en sjávarloftið er alltaf jafn svalandi.

Borgarkot

Helgahús – fjárhús vestan Borgarkots.

Gengið var yfir að tóftum Borgarkots, skoðaður stóri krossgarðurinn, sem minkaveiðimenn hafa nær lagt við jörðu, jarðlægir garðar, hlaðin refagildra og vatnsstæði. Lóan lét vel í sér heyra sem og þrællinn hennar. Tjaldur tipplaði á nálægum hólum og mikið var af sólskríkju á svæðinu. Gengið var vestur með stórgripagirðingunni og einn steinninn í henni skoðaður. Göt höfðu verið höggvin eða boruð í hvern stein og trétappar reknir í þau. Tapparnir stóðu síðan út úr steinunum og á þá var hengdur þráður til að varna því að stórgripir færu út fyrir það svæði, sem þeim var ætlað.
Steinar í nautgripagirðingunni ofan BorgarkotsGirðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Margir þeirra eru nú fallnir á hliðina. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar. Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða boruð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.
Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Borgarkot

Borgarkot – trétappi í steini í girðingunni.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. HÉR má sjá nánari umfjöllun um nefnda girðingu.
Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá öðrum, sem kunna skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu – og jafnvel víðar.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans.

Borgarkot

Borgarkot – krossgarður.

Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Neðan girðingar er Kálfatjarnarvatnsstæðið, en það var nú þurrt. Ofan við vatnsstæðið er gamalt hlaðið gerði eða rétt utan í hól.

Borgarkot

Réttartangi – skotbyrgi er á tanganum (t.v.) og réttin er h.m. við hann.

Í gömlum heimildum er getið um rétt á Réttartanga, sem nú á að vera alveg horfin. Þessi rétt er beint ofan við Réttartanga og nokkuð heilleg. Austan við það er hlaðinn garður í hálfbeygju til norðurs.

Borgarkot

Borgarkot.

Borgarkot mun hafa farið í eyði á 18. öld. Tildrög þess munu hafa verið þau,að eitt sinn þegar Flekkuvíkurbóndi fór til kirkju á aðfangadagskvöld kom hann að bóndanum í Borgarkoti þar sem hann var að skera sauð frá honum. Varð það til þess að honum var komið undir mannahendur og lagðist býlið í eyði eftir það. Reyndar er talið að sauðurinn sem bóndinn í Borgarkoti skar, hafi verið sauður prestsins á Kálfatjörn, en ekki bóndans í Flekkuvík. Viðeyjaklaustur mun hafa haft þarna sauði forðum. Síðan mun Kálfatjörn hafa haft skipti á selsstöðu í Sogagíg við Krýsuvík, sem fékk í staðinn að halda sauði við Borgarkot.
Kirkjugatan frá Kálfatjörn um Borgarkot og FlekkuvíkÞarna eru merkilegar og allmiklar minjar, greinilega mjög gamlar. Bogadregnir garðar eru mikið til sokknir í jarðveginn, en þó má víða sjá móta fyrir þeim. Innan garðs eru tóttir á a.m.k. þremur stöðu, Tvær samliggjandi tóttir eru alveg í fjörukambinum og er sjórinn þegar búinn að brjóta niður hluta af þeim. Önnur tótt er ofan þeirra og enn önnur á fjörukambinum skammt austar. Austan hennar er stór krossgarður, Skjólgarður. Umhverfis hann landmeginn er gerði eða gamlar réttir.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Austar er hár hóll, Á honum má sjá leifarnar af Hermannavörðunni, sem danskir hermenn er unnu við landmælingar, hlóðu, en minnkaveiðimenn hafa einnig rutt um koll. Fornleifavernd ríkisins virðist ekki standa sína plikt á þessu landssvæði.
Vestast sést kirkjugatan vel í móanum – skammt ofan grjótgarðs Bakka. Þar lét stelkurinn öllum illum látum í sólblikinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn er bær, kirkjustaður og fyrrum prestsetur á Vatnsleysuströnd á Suðurnesjum. Kirkjan tilheyrir [nú] Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja 2023.

Kálfatjarnarkirkja er sóknarkirkja Vogabúa. Núverandi kirkjubygging var vígð þann 13.júní árið 1893 og var ein stærsta sveitakirkja á landinu en hún rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Umhverfi hennar á sér merka sögu en hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19.öld stendur á hlaðinu við kirkjuna. Kirkjan þykir mikil völundarsmíð en Guðmundur Jakobsson húsasmíðameistari (1860-1933) var forsmiður og Þorkell Jónsson bóndi í Móakoti sá um tréverk og útskurð. Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915) sá um að mála kirkjuna en hann málaði einnig Iðnó og Dómkirkjuna. Altaristaflan er eftirmynd af altaristöflu Dómkirkjunnar, en Sigurður Guðmundsson (1833-1874) málaði hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna. Talið er að kirkja hafi verið á Kálfatjörn frá upphafi en Kálfatjarnarkirkja er talin upp í kirknatali Páls biskups frá 1200. Kirkjan er friðuð.

Guðmundur Björgvin Jónsson fjallaði um Kálfatjörn í bók sinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„:
Kálfatjörn„Um kirkjustaðinn Kálfatjörn hefur mikið og margt verið rætt og ritað og þá gjaman í samhengi, kirkjan og ábúandi kirkjujarðarinnar, enda vandi að skipta ritefninu í tvo flokka, um það andlega og veraldlega, án þess að binda það hvort við annað. Pó mun hér reynt að sneiða hjá því andlega og koma að því síðar.
Síðasti prestur og jafnframt bóndi á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson frá Úthlíð í Biskupstungum.
KálfatjörnKona hans var Ingibjörg Valgerður Sigurðardóttir. Tók séra Árni við búinu og embættinu af séra Stefáni Thorarensen og konu hans, Steinunni Járngerði Sigurðardóttur. Árni stundaði útgerð og landnytjar, auk þess að vera prestur og barnakennari í nokkrum tilvikum. Hann var áhugasamur um unglingafræðslu svo sem fyrirrennari hans. Utan þess hafði hann mikinn og virkan áhuga á héraðsmálum. Hann mun hafa verið fyrstur manna hér í hreppi sem sá þörf á því að bændur gerðu með sér samtök um mjólkursölu, þó ekki kæmist það í framkvæmd fyrr en ári eftir andlát hans, eða árið 1920.
KálfatjörnUm séra Árna Þorsteinsson og það heimili segir Erlendsína Helgadóttir, sem þá var unglingur í Litlabæ: „Prestshjónin voru greiðasöm og alþýðleg og vildu öllum gott gera. Séra Árna þótti sjálfsagt, að ef ekki væri skírt í kirkju að, skírn færi fram þar sem móðirin átti heima, þó léleg væru oft húsakynnin. En til vom þeir prestar sem gengu ekki inn í hvers manns kot til slíkra athafna. Séra Árni var á undan sinni samtíð í mörgu. Þá þótti það nýlunda, að séra Árni leyfði leiguliðum sínum að auka við nytjalönd sín (færa út), þeim sjálfum til búbóta, en það höfðu þeir ekki þekkt áður.“

Bakki

Bjarg.

„Á mínu heimili“, segir Erlendsína, „var borðað hestakjöt. Hefur sennilega komið þar tvennt til, annarsvegar oft þröngt í búi og hinsvegar að fólkið var að vaxa upp úr miðaldatrúnni og þorði að fara sínar leiðir. En aldrei var móður minni um þessa fæðu og notaði stundum aðstöðu sína til að læða annarskonar kjötbita í súpuna sem hún ætlaði sjálfri sér. Foreldrar mínir höfðu heyrt að presti þætti ekkert athugavert við að neyta hestakjöts og þó hann hefði aldrei borðað það sjálfur, væri hann til með að smakka á þessari áður forboðnu fæðu.

Bakki

Bakki í Kálfatjarnarhverfi 2023.

Því var það einu sinni, þegar hestakjöt var í pottinum heima, að prestshjónunum var boðið í mat sem þau og þáðu, en ekki voru efnin meiri á mínu heimili, né víða annarsstaðar, að hnífapör voru ekki til, en önnur áhöld þóttu ekki viðeigandi í þetta sinn. Svo móðir mín hvíslaði að maddömunni, hvort ekki mætti senda eftir hnífapörum á prestssetrið og var það auðsótt. Þarna var þá borðað hestakjöt og kjötsúpa með, en þá var venjan að sjóða í súpu. Eftir þetta var hestakjöt oft á borðum á prestsetrinu Kálfatjörn.
KálfatjörnEitt sinn er séra Árni kom í húsvitjun að Bjargi, rétt fyrir jól, spyr hann yngri drenginn þar, Ingvar Helgason, hvort hann muni ekki koma í kirkju um jólin, en móðir hans segir að það geti ekki orðið, því hann hafi ekki þann klæðnað sem hægt sé að láta sjá sig í við kirkju. Segir þá Árni: „Ég spái því nú samt að þú komir þangað á jólunum.“ Nokkru seinna, nær jólunum, eru drengnum send ný alföt frá presti og þar með var kirkjuferðinni bjargað.“
Þannig lýsir samtíðarfólkið séra Árna Porsteinssyni, en konu hans, Ingibjörgu, bar minna á, enda nóg að gera á barnmörgu heimili og prestssetri að auki. Börn þeirra hjóna voru: 1) Gróa, 2) Sesselja, f. um 1880, 3) Steinunn Guðrún, f. 1882, 4) Þorsteinn f. 1883, 5) Sigurður f. 1885, 6) Arndís f. 1887, 7) Margrét f. 1889. Einnig ólu þau upp Kristinn Árnason frá Bergskoti, f. 1894.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – sjóbúð við Kálfatjarnarvör fyrrum.

Séra Árni var sjúklingur síðustu árin, þó hann þjónaði fram á andlátsárið. Hann lét, með aðstoð hreppsins, flytja Móakotshúsið og setja það austan við prestshúsið og þar dvaldi hann sjálfur, en lét Kálfatjörn eftir handa leiguliða, tímabundið. Sá er þá kom að Kálfatjörn hét Helgi Jónsson, (síðar oft nefndur Helgi Kálfatjamar, eða Helgi frá Tungu) og mun hann hafa verið þar um 1918-1920. Kona Helga var Friðrika Þorláksdóttir. Helgi var síðast með útgerð í Kotvogi í Höfnum og fórst í eldi ásamt barni sínu, sem hann var að reyna að bjarga þegar Kotvogur brann árið 1939. Dóttir hans er m.a. Sveinbjörg, kona séra Garðars Þorsteinssonar, prests á Kálfatjöm (1932-1966).

KálfatjörnÁrið 1920 fluttu að Kálfatjörn Erlendur Magnússon frá Tíðagerði og kona hans, Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Höfðu þau byrjað búskap í Tíðagerði, foreldrahúsum Erlendar, um 1915 og þar fæddust fimm börn þeirra. Meðan þau bjuggu í Tíðagerði fór Erlendur austur á firði á sumrin í atvinnu og fetaði í fótspor margra Strandaringa, auk þess sem hann stundaði vetrarvertíð heima. Ætla ég að Erlendi hafi fallið betur landbúnaður en sjómennska, enda þótt hann hafi rekið eigin útgerð um tíma, en aflagt hana um 1946.

Kálfatjörn

Kálfatjörn um 1960.

Þó miklu og vel væri stjórnað af þeim Kálfatjarnarhjónum, innan og utan veggja heimilisins, þá munu störf Erlendar í héraðsmálum og félagasamtökum lengst verða minnst. Hann var bæði áhugasamur og úrræðagóður hvort sem var í málum kirkjunnar, hreppsins eða bændastéttarinnar. Þá var hann í mörgum málum fulltrúi sveitar sinnar út í frá og kom þá í hlut húsfreyjunnar, Kristínar, að vera bæði bóndi og bústýra á stóru heimili.

Kirkjuathafnir tengdust heimilinu með margskonar þörfum, enda heimilið rómað fyrir gestrisni og góðar úrlausnir til handa öllum er þangað leituðu. Erlendur keypti Norðurkot (sjá Norðurkot) árið 1934 og bjó þar með fjölskylduna meðan hann byggði upp á Kálfatjörn, það hús sem nú stendur [1967], en gamla húsið var rifið samtímis. Smiður var Gestur Gamalíelsson, húsasmíðameistari frá Hafnarfirði.
KálfatjörnBörn Erlendar og Kristínar eru: 1) Ingibjörg, kennari, býr í Reykjavík, 2) Ólafur, brunaliðsmaður, býr í Reykjavík, 3) Herdís, ógift og barnlaus bústýra á Kálfatjöm, 4) Magnús, ókvæntur og barnlaus, starfar í Hafnarfirði, 5) Gunnar, ókvæntur og barnlaus, bóndi á Kálfatjörn síðan árið 1971. Auk þessara bama ólu þau upp tvö böm: Kristín Kaldal, sem er fæddur þar, og Lindu Rós frá 9 ára aldri.
í Kálfatjarnarlandi er mannvirki nokkurt er heitir Staðarborg. Það er um 3 km frá Kálfatjörn, beint til fjalls að sjá frá kirkjustaðnum. Borgin er hringlaga og hlaðin úr grjóti. Er þessi bygging svo einstök að gerð, að hún er friðlýst frá árinu 1951, samkvæmt lögum um verndun fornminja frá 16. nóv. 1907.“

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/K%C3%A1lfatj%C3%B6rn
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson, útgefið af höfundi 1987.

Staðarborg

Staðarborg.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson, bóndi á Kálfatjörn lýsa hér Kálfatjarnarhverfinu. Gunnar er fæddur í Tíðagerði í febrúar 1920. Tíðagerði var byggt úr landi Norðurkots. Hann fluttist að Kálfatjörn fárra vikna gamall og er uppalinn þar. Ólafur er einnig fæddur í Tíðagerði, í október 1916, og ólst þar upp til tvítugs. Hér er getið hluta lýsingar þeirra lesendum til fróðleiks og glöggvunar. Þessi lýsing er sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að golfarar að Kálfatjörn hafa verið einka skeytingalausir um varðveistu fornra minja á svæðinu.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

“Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeira hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargangi. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingarnar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

Bærinn á Kálfatjörn stendur því sem næst í miðju túni á allstórum bala. Austan bæjarhúsanna er kirkjan. Allt umhverfis hana er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, og þó aðallega norðan og austan megin.

Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu, og hefur lengst af þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera verður sökum þess hversu jarðvegurinn er hér grunnur.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Nú, um áratugi, hefur garðurinn verið girtur með vírneti. Beint fram af kirkjudyrum er hlið á girðingunni, sáluhliðið. Veit það mót vestri sem vænta má. Sunnan og suðvestan megin bæjarins er túnið, nefnt Land, slétt og hólalaust, utan hólbunga, allmikil um sig, suður við túngarðinn og niður undir Naustakotstúninu svonefndu.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Hólbunga þessi heitir Hallshóll. Efst í suðurtúninu, ofan við landið, er Landamóinn,nú fyrir alllöngu slétt tún að mestu leyti utan dálítil ræma meðfram Heiðargarði, en svo nefnist garðurinn, er ver túnið þeim megin sem að heiðinni veit. Í landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann um 2×3 m ummáls og 1.3 m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn. Austan og norðaustan bæjarins er kallað Upptún. Heim undir bæjarhólmanum að norðanverðu er Fjóshóll. Hann er brattur mót norðri og norðvestri. Það stóð fjósið lengi.
Vestan við bæinn er Kálfatjörnin. Þar segir af skepnum – sækúm.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni á Kálfatjörn.

Sjávargata kallast slóðin til sjávar niður í Naustin og lendinguna. Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðan þegar sprengiefni kom til sögunnar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjöruru. Þá voru og teknir brunnar á flestum býlum smám saman, en áður hafði verið notast við vatn, er safnaðist í holur og sprungur á klöppum og voru þetta kölluð vatnsstæði eða brunnar og þá gjarnan kennd við bæina.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Á sumrum, einkum er þurrkasamt var, voru hin mestu vandræði með neysluvatn uns flæðibrunnarnir komu. Var þá gripið til þess ráðs að sækja í fjöruvötn, en svo voru kallaðar uppsprettur, er komu íljós þegar út fjarðaði. Voru þau all víða. Þessar uppsprettur voru oft kenndar við bæina, til dæmis Bakkavötn. Við þau var þvegin ull og þvotur. Var þá gerð stýfla úr steinum og þangi. Myndaðist þá dálítið lón svo skola mátti.

Neðan við Rásina er Naustakotstún. Neðst í því er mýrartjörn, Naustakotstjörn. Á kampinum fast norðan við tjörnina stóð kotbýlið Naustakot (í byggð1703), hefur lengi verið í eyði. Þarna eru nú fjárhús. Sunnan við þau er fjárrétt og fast við hana að sunnanverðu grasigróið gerði.Það var kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausra í sumartíð uns það lagðist niður með öllu á stríðsárunum síðari.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Rétt ofan við Eyrina og fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin. Þar eru rústir sjóbúðar er séra Stefna Thorarensen lét byggja, er hann var prestur á Kálfatjörn. Agt er a sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Hér mun býlið Hólkot hafa staðið (talið í eyði 1699 og ekki nefnt síðan).
Þegar nálgast suðausturhorn Kálfattjarnartúns sveigist hann meira til vesturs og heldur sömu stefnu fyrir ofan Goðhólstún (en Goðhóll nefnist býlið, er liggur sunnan Kálfajarnartúns) uns hann beygir þvert til sjávar. Hann afmarkar Goðhólstún. Við þennan garð innanvert, nánast í garðstæðinu, var býlið Hlið; hafði það kálgarð og lítinn túnblett til suðurs upp með garðinum. Við vesturenda baðstofunnar í Hliði, lá gatan milli bæjanna og heim að Kálfatjörn, Kirkjugartan. Rétt ofan við götuna lá grjótsrétt þvert yfir Goðhólstúnin, kölluð Kirkjubrú. Mælt er að Kirkjubrúin hafi verið til þess gerð að aðvelda kirkjufólki för yfir hana. Í brúnni er ártalsstein (1790). Líklega hefur hann gegnt hlutverki skósteins.
Í heiðinni er Staðarborgin, gömul fjárborg frá Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.