Færslur

Kálfatjörn

Kálfatjörn – kirkjur
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn sem líklega hefur verið kirkjustaður frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjörn 1936Hálfkirkjurnar hafa lagst niður fyrir löngu, líklega um siðaskipti. Aðalkirkjan á upphaflega að hafa staðið á Bakka en vegna landbrots af sjávargangi var hún flutt að Kálfatjörn. Fram til 1824 var torfkirkja á Kálfatjörn. Var þá reist ný kirkja með torfveggjum, en timburþaki. Rigningarvatn rann þó af þakinu inn í kirkjuna svo innviðir hennar að sunnanverðu fúnuðu. Varð kirkjan því endingarlítil. Árið 1844 var komin þar timburkirkja sem ekki heldur stóðst tímans tönn, var rifin og ný timburkirkja reist á árunum 1863-64. Kirkjan sem nú stendur var reist árið 1893 og er með stærstu sveitakirkjum landsins.

Kálfatjörn á 50 ára afmæli kirkjunnar, 1943
KálfatjörnKringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll (túnblett). Þau sem ekki nutu þeirra hlunninda voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Smábýli í landi Kálfatjarnar voru Fjósakot, Móakot, Hátún, Goðhóll og Naustakot og utan golfvallarsvæðis Hlið, Litlibær, Bakki, Bjarg, Borgarkot, Hólakot, Árnahús og Bakkakrókur.
Hlutverk grjóthleðslanna var að verja túnin ágangi búfjár. Heiðargarðurinn náði utan um stóran hluta hverfisins og var ætlað það hlutverk að verja túnin þeim megin er að heiðinni snúa. Sum kotanna höfðu svo grjóthleðslur um sína túnparta. Grjóthleðslur við og utan um kotbýlin sjálf voru svo í flest öllum tilfellum til að verja matjurtagarða. Gamla sjóvarnargarða til varnar túnum má líka finna í Kálfatjarnarhverfi.

Hluti Kálfatjarnar hverfis

Kálfatjörn

Bændur í Kálfatjarnarlandi nýttu vel það sem fjaran gaf. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang sem notað var til eldiviðar. Um réttaleytið að hausti var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða. Einnig var hirt og þurrkað það þang sem rak á fjörur utan þess tíma sem þangað var.

Lýsingar á landamerkjum milli fjöruparta kunna mönnum að þykja smásmugulegar í dag en það gat verið um 1-2 mánaða eldsneyti að ræða hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eða ekki.
HeiðargarðurBærinn á Kálfatjörn stóð því sem næst í miðju túni á allstórum bala vestan kirkjunnar. Allt umhverfis kirkjuna er grafreiturinn eða kirkjugarðurinn, þó aðallega norðan og austan megin. Umhverfis grafreitinn er hlaðinn garður úr grjóti og sniddu sem hefur þjónað því tvíþætta hlutverki að verja grafreitinn ágangi búfjár, en einnig og ekki síður sem aðhald og brún þeirrar moldarfyllingar, sem gera þurfti sökum þess hversu jarðvegurinn er grunnur.

Golfvöllurinn fyrr og nú

Gjáarvatnsstæðið

Á Hátúnshæðinni hefst golfhringurinn. Slegið er með og yfir Heiðargarðinn, hægra megin við Fjósakot á Margrétarflöt en svo hét og heitir túnið austan við kotið. Fjósakot sem var með hæstu bæjarstæðum allra bæja í Vatnsleysu- strandarhreppi var lítið grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1920. Þar sér nú aðeins í grjóthrúgur en moldin úr rústunum var tekin til uppfyllingar í grafreit á Kálfatjörn. Fyrsta og áttunda flötin liggja við svonefndar Kotagirðingar. En Kotagirðingar Móakots og Fjósakots voru hlaðnir garðar umhverfis dálitla móa, er næstir voru túnum, ætlaðir til kúabeitar.

Austan við rauða teiginn á braut 2 við Heiðargarðinn er vatnsstæði í sprungu á Stóru-Klöpp, kallast vatnsstæðið Gjáin eða Gjáarvatnsstæði. Skammt suðvestur frá því, nær Fjósakoti, var fiskbyrgi, kallað Baráttubyrgi. Þar sér nú aðeins í undirstöðuna en gróið stæðið í kringum er eflaust vegna þess fiskúrgangs sem fallið hefur til og verið góður áburður.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja.

Slegið er yfir þar sem Heiðargarðurinn lá og er flötin nú þar sem áður var grýtt moldarflag. Við teiginn á braut 3 á klöpp er stórgrýtt hrúga, líklegast einhver hleðsla, við hestaslóð sem lá þarna fyrir löngu síðan og sést móta vel fyrir. Hestaslóðin lá upp með Hátúnshæðinni að sunnanverðu, við klöppina og þaðan inn eftir að Stefánsvörðu. Nú hefur breytt nýting á landi máð þessi ummerki að hluta.
Braut 4 öll liggur vel fyrir ofan Heiðargarðinn o.þ.a.l athafnasvæði bóndans hér áður fyrr sem var í fjörunni og á túnum. Því er lítið um örnefni á brautinni því eðlilega tengjast þau þeim svæðum þar sem mest var starfað. Fuglalíf er fjölskrúðugt við brautina einkum kríuvarp.

Bærinn Goðhóll fór í eyði 1933
BaráttubyrgiðÞegar farið er yfir Goðhólsrásina og Heiðargarðinn á braut 5 er komið á stórt tún sem heitir Land, einnig kallað Suðurtún, slétt og hólalaust fyrir utan eina hólbungu, allmikla um sig sem heitir Hallshóll. Hóllinn skilur að Landið og Naustakotstúnið. Sagt var að alltaf gerði rigningu þegar búið var að slá Hallshól. Um mitt Landið lá Kirkjugatan frá Hliði til Kálfatjarnar. Rétt ofan við götuna lá grjótstétt þvert yfir Goðhólstúnið kölluð Kirkjubrú. Líklegt er að Kirkjubrúin hafi verið gerð til þess að auðvelda kirkjufólki för yfir Goðhólsrásina sem gat orðið hinn versti farartálmi í leysingum. Aftur er slegið yfir Heiðargarðinn og á Goðhólstúnið.
ÚtihúsÁ klapparhól nyrst í túninu er Sundvarðan sem notuð var sem mið í Keili og gaf til kynna að rétt væri róið um Kálfatjarnarsund fyrir Markklettinn inná Leguna. Þar mátti láta litla dekkbáta liggja.

Úr Legunni var svo róið uppí Kálfatjarnarvör. Flötin liggur fyrir norðan Goðhól, við eitt útihúsanna. Goðhóll stóð á mörgum hólum, sem einu nafni heita Goðhólar. Goðhóll sem fór í eyði árið 1933 var tómthús frá kirkjujörðinni en hafði grasnyt. Þar mun síðast hafa verið búið í torfbaðstofu í Vatnsleysustrandarhreppi. Á kampinum fyrir neðan flötina má svo sjá grunn af uppsátrinu, þar sem bátarnir voru teknir á land, skiparéttinni og neðar í fjörunni er Goðhólsvör.

Byrgið (sjávarhús Kálfatjarnar)
GoðhóllÁ sjötta teig er gott útsýni yfir það athafnasvæði er tengdist sjávarútvegi á Kálfatjörn. Þar má sjá hæstan og mestan Markklett sem var landamerki milli Þórustaða og Kálfatjarnar. Við enda sjóvarnargarðsins við teig var sjávarbyrgi Kálfatjarnar. Þar norður af er Snoppa (Hausaklöpp) þar sem þorskhausar voru hertir. Í Naustakoti (í byggð 1703) voru fjárhús eftir búsetu. Sunnan við Naustakot var fjárrétt og fast við hana að sunnan grasigróið gerði, kallað Hausarétt. Þar voru þurrkaðir þorskhausar í seinni tíð uns það lagðist niður með öllu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Næst kampinum, mun lægra en túnið umhverfis, er Síkið sem nær suður undir Sjávargötu. Í Síkið flæddi sjór í miklum flóðum um Rásina allt uppí Kálfatjarnarbrunn. Fast sunnan við Kálfatjörnina er Sjóbúðin.
SjávarbyrgiðÞar eru rústir sjóbúðar er séra Stefán Thorarensen lét byggja, er hann var prestur og bóndi á Kálfatjörn 1857-1886. Sagt var að sjóbúð þessi rúmaði tvær skipshafnir, alls 16 menn. Þar mun býlið Hólkot (Hóll) hafa staðið en síðast er getið um búsetu þar í lok 17. aldar. Í seinni tíð mun búðin hafa verið notuð sem fjárhús. Aftur er leikið á Landinu og þegar á flöt er komið má finna lága hleðslu austan megin við hana sem eru leyfar af Hestarétt þar sem kirkjugestir geymdu hesta sína.

Krosshóll
Teigurinn á brau 7 er þar sem Hátún stóð. Slegið er yfir Austurtún að grjótgörðum þeim er umlykja Móakotstúnið. Áður en farið er yfir garðinn, sunnarlega í Króknum er dálítil lægð eða pollur sem var kallaður Víti. Þar mun býlið Árnahús líklega hafa staðið nærri en gárungarnir svo fært nafnið af pollinum yfir á kotið eins og sögnin um biskup og séra Hallgrím Pétursson bendir til.

Bærinn Móakot

Móakot

Sagt er, að Brynjólfur biskup hafi eitt sinn vísiterað á Kálfatjörn og haft spurnir af manni er bjó þar í þurrabúð í túninu, Árnahúsi (Víti). Ekki þótti hann kirkjurækinn og réri til fiskjar á helgidögum. Biskup hafði tal af honum og fylgir það sögunni, að hann hafi veitt honum leyfi til þessara helgidagsbrota, er honum varð ljós fátækt hans og ómegð. Er séra Hallgrímur frétti þetta, orti hann:

Golfið„Biskupinn blessar hjalla
bila ei upp frá því,
krosshús og kirkjur allar
og karlinn, sem býr Víti í.“

Sunnan við tóftirnar af Móakoti er langur og hár hóll, Klapparhóll. Þar var talið að mikið af huldufólki byggi og því var hann einnig kallaður Álfhóll. Móakot var grasbýli frá kirkjujörðinni og fór í eyði um 1950. Hverju sem það sætti var orðrómur um að enginn mætti búa þar lengur en í 9 ár. Nær sjó er svo Móakotstjörn sem var mýrartjörn. Í fjörunni neðan flatarinnar er Móakotsklöpp sem áður var landföst en þar eru fjörumörk Kálfatjarnar og Móakots.
Þegar horft er af Móakotsbakka til sjávar er stórt lón út af kampinum sem heitir Búðarlón og grandarnir sitt hvoru megin við, þara vaxnir, Búðarlónsgrandinn Syðri og Búðarlónsgrandinn Nyrðri. Slegið er yfir Móakotstún, á flötina nálægt þar sem Kotagirðingar voru.

Harðhaus
KálfatjörnFjölmörg örnefni önnur eru á Kálfatjörn. Nafnið Harðhaus er t.d. til komið vegna þess hve illa hóllinn fór með ljá bónda á Kálfatjörn í seinni tíð. Í miðju Hátúnstúni sem girt var grjótgörðum stóð Hátún sem var grasbýli frá kirkjujörðinni en fór í eyði um 1920. Árið 1941 var þar byggður sumarbústaður en föst búseta tekin upp um 1960. Innan garðs eru t.a.m. Hátúnshóll og Hátúnsflöt. Litlu sunnar við flötina liggur Heiðargarðurinn sem áður hefur verið minnst á.

Heimild:
-www.gvsgolf.is

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjörn

Leitað var ártalssteins í Kálfatjarnarvör. Í 9. tbl. Ægis árið 1936 segir að “þar við vörina hafi verið steinn í byrgi og á hann höggvið ártalið 1677. Steinninn hafi “fallið

Kálfatjörn

Ártalssteinn í fjörunni þar sem hann fannst.

úr byrginu fyrir nokkru í brimi. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn lét leita hans í grjóthrúgunni og fannst hann; er hann nú múraður í vegg byrgisins”. Nú er sjórinn einnig búinn að taka nefnt byrgi, en tvö heilleg eru þarna vestar, ofan fjörunnar.
FERLIR hafði farið nokkrar leitarferðir í fjöruna við Kálfatjörn. Leitin virtist vonlaus því grjót er þarna við hvert fótmál og engin lýsing á þessu tiltekna grjóti lá fyrir. Hins vegar mátti gefa sér, með því að skoða grjótið í hinum byrgjunum, að það hlyti að vera ferkantað og að tiltekinni stærð fyrst það var notað í vegghleðslu sjóbúðar og síðan byrgis. Með því var a.m.k. hægt að nota útilokunaraðferðina. Vopnaðir henni og með öll augu galopin var nú fjaran gauðmgæfð aldrei sem fyrr.
Sjórinn var greinilega búinn að brjóta talsvert land ofan við vörina, þar sem sjóbúðin gamla átti að hafa verið ofan við. SteinninnByrgið var, sem fyrr sagði, að mestu farið, en þó mátti enn sjá einn vegg þess að hluta (2003). Þarna nærri eru og leifar garðhleðslna gamallar fjóstóftar með hálfuppistandandi veggjum. Greinilegt var að jarðýtu hafði verið ekið út með ofanverðri fjörunni fyrir skömmu síðan. Og fyrir algera tilviljun fannst steinninn í öðru beltafarinu. Í ljós kom að áletrunin var ekki 1677, heldur A° 1674. Hún var vel greinileg og læsileg. Svo virðist sem tölustafurinn 4, sem er stærri en hinir, geti einnig verið tákn, þ.e. segl og kross.
 Steinninn var hulinn til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Upplýsingum um hann var síðan komið til menningarnefndar Vogamanna, sem lét því miður færa hann úr sínu “nálæga umhverfi” upp að safnarheimili Kálfatjarnarkirkju þar sem hann liggur, ekki svipur hjá sjón – einmana og tilgangslaus í umkomuleysi sínu. Auðvitað (og án nokkurs vafa) á steinn sem þessi, það eina sem eftir er, ætlaður sem hornsteinn í hlaðinni sjóbúð niður við ströndina, að fá áfram að minna á uppruna sinn; tilgang, gamla atvinnuhætti og fólkið sem þar var. Þetta kenndi FERLIR að vera ekkert að láta umkomuaðila vita sérstaklega af uppgötvunum sínum. Kannski verður svo að “sjóbúðarsteinninn” verði síðar færður á veglegan stall nærri uppruna sínum.
Um er að ræða einn elsta ártalsstein á Reykjanesskaganum, sem vitað er um. Steinninn í Fuglavík, sem heimild segir að þar var í yfirbyggðum brunni og síðan í bæjarstéttinni, er þó eldri, en hann er enn ófundinn þegar þetta er ritað. (Hann fannst þó skömmu síðar eftir umleitan FERLIRs – sjá umfjöllun um Fuglavík). Elstu áletranir er á einum Hvaleyrarsteinanna (1657) og á klöppum við Básenda (16. öld), en aðrar áletranir, sem sumir telja eldri, eru rúnir (Kistugerði og fornmannasteinninn í Garði). Flekkuvíkurrúnarsteinninn er þó sennilega frá 16. eða 17. öld. Ekki er vitað um aldur rúnasteinsins í Kisturgerði.
Að loknu góðu síðdegisverki var skoðaður ártals- og skósteinn í hlaðinni brú á gömlu kirkjugötunni vestan LetursteinninnKálfatjarnarkirkju. Á honum átti að vera, skv. heimildum, ártalið 1700, en á honum er áletrunin A°1709 (sjá Kálfatjörn – letursteinn (1709).Â
Hornsteinar búða, bæja eða byrgja voru oftlega með táknum eða ártölum, líkt og þessi steinn í sjóbúðinni við Herdísarvík; ártal er myndar segl og kross. Í Krýsuvíkurbúð í Herdísarvík var merki á steini; kross og bogi undir er myndaði ankeri. Steinninn var lengi í brunnstæðinu við heimreiðina að gamla bænum. FERLIR tók mynd af honum á sínum tíma, en lét hann liggja áfram óhreyfðan. Annað dæmi er við dyr bæjar syðst í vestanverðum Skorradal; tvöfaldur kross á einum legg. Eflaust mætti finna slík tákn víðar, ef vel væri að gáð.
Allar hafa þessar áletranir kristnileg tákn er benda til beinna tengsla við sjómennsku og væntanlega vernd (öryggi), bæði til handa búðum og ábúendum. Í rauninni er um að ræða leifar heiðinnar trúar. Þetta er þekkt fyrirbæri allt frá því á frumlífsöld (fyrir 12.000 – 7.000 árum f. Kr. – Catal Hüyük og Lepenski Vir) er menn tóku sér fyrst fasta bólfestu og byrjuðu að búa í húsum er mynduðu þorp. Þeir grófu látna ættingja sína undir gólfinu til að tryggja Endurbyggingað óviðkomandi færu ekki inn af ótta við hina dauðu (dauðann), þ.e. færðu hina náttúrulegu og fyrrum villtu efnismenningu inn í híbýli sín). Með svipaðri hugsun voru hinir fyrstu látnu landnámsmenn hér á landi grafnir á ystu landamerkjum jarða þeirra. Tilgangurinn var að tryggja vitund manna um hver mörkin væru og auk þess að fæla nágrannana, sem og aðra, að ásælast landið. Óttinn við dauðann og hina dauðu var mikill. Hann var í rauninni hornsteinn frumgerðistrúarbragðanna er kristnin byggði síðan grunn sinn á, sbr. Jesús krist, upprisuna og afturhvarf mannsins til alsælu himnaríkis.
Þeir sem reyttu hina dauðu til reiði áttu ekki von á góðu. Grunnhugsunin hefur í rauninni lítið breyst í gegnum árþúsundin þótt efnismenningin, vegna sífelldra áhrifa umhverfis og aðstæðna, aukinna krafna, tækni og nýrra möguleika, hafi tekið breytingum frá því sem áður var. Og þótt efnislegar leifar geti lýst áþreifanlegu afsprengi hugsunar, frá einum tíma til annars, geta þær þó lítið sagt til um hugsunina sjálfa. Líklegt má þó telja að hún hafi jafnan tekið mið af gildum og viðurkenningu fjöldans hverju sinni. Því má spyrja; hver voru gildin hér á landi fyrr á öldum?
Þetta voru nú einungis svolitlar vangaveltur í tilefni af opinberun letursteinsins í nálægð við guðshúsið að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Hugmyndin er að koma ártalssteininum A°1674 fyrir í endurgerðri Skjaldbreið við Kálfatjörn (sjá HÉR).
Kálfatjörn

Norðurkot

Gengið var um Kálfatjarnarsvæðið í fylgd staðþekkjaranna Sesselju Guðmundsdóttur og Sigrúnar Frjóns, en koma átti eftir í ljós að ekki var til sá blettur á landssvæðinu, sem þær ekki þekktu eða höfðu skoðað.

Litlibær

Litlibær – brunnur.

Byrjað var á því að ganga veginn niður að Liltabæ, Bjargi, Bakka og Gamla-Bakka austan Kálfatjarnar. Tekið var hús á Geir á Litlabæ, sem bauð þátttakendum til sólstofu. Þaðan var ágætt útsýni vestir að Bakka, norðvestur að Bjargi og norður að Gamla-Bjargi, eða öllu heldur tóttum þess bæjar, sem nú eru á sjávarkambinum. Eftir stutta dvöl var Geir kvaddur með fyrirheitum um að bera fljótt að garði aftur. Gengið var að tóttum Gamla-Bakka, en þar má vel sjá hleðslur garðs og tóttir bæjarins, sem sjórinn er nú smám saman að brjóta niður. Undir bakkanum mátti t.d. sjá gamlar ryðgaða hurðarlamir og bein úr haug.

Gengið var vestur tún Kálfatjarnar, að Móakoti. Í kringum tóttir kotsins eru allmiklar garðhleðslur og hlaðinn brunnur með steyptu loki vestan þeirra. Sjá mátti tóttir Fjósakots sunnar í túninu. Gengið var áfram að hól þeim, sem Hólkot stót eitt sinn á. Suðvestan undir hólnum er Víti, vatnsstæði, sem sjaldan þverr. Nú var það reyndar að mestu þurrt. Nafninu Víti var einhvern tímann komið á Hólkot með vísu er fjallaði um áfengi og munu menn hafa villst á vitum. Haldið var áfram til vesturs sunnan Kálfatjarnarinnar, að sjóbúð, sem þar er heilleg á hól, áfram til vesturs yfir Síkið og Rásina að hlaðinni bátarétt. Við enda heillegasta garðsins eru leifar gamla bátaspilsins, en Sigrún benti síðar á hvar afgangur þess var niður kominn. Litið vará hlaðin fjárhús á sjávarkampinum, ofan við Kálfatjarnarvörðina, en neðan þeirra hafði fjósið eitt sinn verið og skammt vestar Kálfatjarnabyrgið. Sjórinn hefur nú hirt hvorutveggja. Vestar er Hausaréttin gamla. Enn sér móta fyrir henni. Neðan hennar fannst Kálfatjarnarártalssteininn (A° 1674) fyrir nokkrum misserum síðan eftir að sjórinn hafði velgst með hann um 30 metra leið frá þeim stað, sem hann hafði síðast sést fyrir nokkrum áratugum síðan.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Gengið var til suðvesturs að sundvörðu á hól og fjárhústótt skammt vestar. Norðvestan hennar er Norðurkotsbyrgið og Tíðargerðisbyrgið norðan þess, alveg fram á sjávarkampinum.
KálfatjörnGoðhólstóttirnar voru skoðaðar, en hún er enn allheilleg. Norðaustan þeirra eru tveir hlaðnir garðar, gamlir matjurtargarðar. Gengið var yfir garða og þá komið að fallegum hringlaga hlöðnum brunni. Þar er Norðurkotsbrunnurinn, smart gerður, eins og Vala Matt myndi sagt hafa. Komið var að Tíðargerði. Gengið var að Norðurkoti, en þar mun fyrrum hafa verið barnaskóli. Inni er margt forvitnilegt að sjá.
Til baka var gengið yfir að Hliði, um garðana þar, að hlaðinni brú á kirkjugötu, sem í er ártalssteinn (A°1790) og að Landabrunni ofan Landa, fallegu vatnsstæði. Loks var komið við í Hestaréttinni. Þegar litið var yfir golfvöllinn á Kálfatjörn mátti sjá nokkra sjónumhrygga golfara leita kúlna. Eina (það einasta eina), sem þeir einblíndu á, voru litlar holur í sléttu grasinu – og allar eins.
Til ferðardrýginda var kíkt í gömlu hlöðuna á Kálfatjörn og þátttakendum sýnt þar fornt lóð er bar merki Kristjáns kóngs fimmta, sbr. meðfylgjandi mynd. Því mun hafa verið bjargar undan sjónumhryggum fyrr á árum. Skemmtileg leiðsögn um sagnaríkt og merkilegt svæði.
Veður var frábært – köflótt sól með vistvænum vindi. Gangan tók um 2 klst. Gerður var uppdráttur af svæðinu.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kúagerði 1912

“Fyrir botni Vatnsleysuvíkur, þar sem hraðbrautin nálgast sjóinn á stuttum kafla er Kúagerði. Að vestan eru hraun Strandarheiðarinnar, en að austan er Afstapahraunið, úfið og illt yfirferðar, enda miklu yngra að árum. Þarna fyrir víkurbotni er ferskt vatn, sem kemur úr lindum undan hrauninu. Þessi staður var þreyttum og vegmóðum ferðamönnum Í Flekkuvíkkærkominn áningarstaður, því vatnið úr uppsprettunum var þeim svalandi og lífgandi, eftir að hafa klöngrast yfir óslétt og úfið hraunið á langri leið milli byggðanna við Flóann, því þá voru ekki önnur farartæki tiltæk en hesturinn eða “hestar postulanna”.
Við yfirgefum bílinn í Kúagerði, því ætlunin er í þetta sinn að ganga út Vatnsleysuströndina út á Keilisnes og enda við kirkjuna að Kálfatjörn. Fyrst göngum við fram hjá Vatnsleysubæjunum. Þar hefur alltaf verið búið stórt, margar hjáleigur lágu undir höfuðbólið og mikil umsvif. Nú er á Minni-Vatnsleysu eitt stærsta og myndarlegasta svínabú landsins í eigu Þorvaldar Guðmundssonar. Glæsilegar byggingar og öll umgengni þar heima ber eiganda glöggt vitni.
Nokkru fyrir vestan Vatnsleysubæina ber okkur að Flekkuvík, Þetta er landnámsjörð, kennd við konu að nafni Flekka. Sagan segir að hún hafi komið til Íslands í fylgdarliði Ingólfs Arnarsonar. Fyrst fékk hann henni land í Kjós og reisti hún þar bæ, sem hún nefndi Flekkudal. Flekka undi sér þar ekki, því hún sá ekki til hafs frá bænum og eftir að hafa rætt þetta við Ingólf gaf hann henni þessa jörð. Í Flekkuvík bjó svo kerla til elli. Sagan segir, að er hún fann dauðann nálgast hafi hún lagt svo fyrir að sig skyldi grafa syðst í túninu, þar sem sést vel yfir innsiglinguna. Hún mælti þá svo um, að engum skyldi þaðan í frá hlekkjast á í innsiglingunni, tæki hann rétt mið af leiði sínu og færi eftir settum reglum. Þótti mönnum vissara að fara eftir fyrirmælum kerlingar, enda segir sagan að fá slys hafi hent í lendingunni undan Flekkuvík. Steinn er á Flekkuleiði og hefur þessi setning verið letruð á hann með rúnaletri: Hér hvílir Flekka. Telja fróðir menn, að þessi áletrun sé frá 17. eða 18. öld. Jónas Hallgrímsson skáld rannsakaði leiðið sumarið 1841. Gróf hann í það.
Rúnasteinn á FlekkuleiðiReyndist jarðvegurinn vera um það bil hálft fet á þykkt. En “undir var einlæg, jarðföst klöpp, eða réttara sagt hraungarður, svo að þar hefur aldrei nokkur maður heygður verið” segir orðrétt i skýrslu Jónasar um þessa ferð. Þannig fór það.  Auk þeirra minja sem minna á fortíðina er margt annað forvitnilegt að skoða á þessari gönguleið. Unnt er að dunda sér langtímum saman í fjöruborðinu. Þar er ýmislegt skoðunarvert að sjá s.s. trjáreka, glerflöskur, þang, pöddur og skorkvikindi ýmiskonar og ekki má gleyma selunum, sem svamla í sjónum skammt undan landi og skjóta upp kolli yfir vatnsflötinn við og við til að fylgjast með þessum óvæntu gestum. Allt er þetta umhugsunarefni fyrir ungan og spurulan göngumann,sem ef til vill er að kynnast landi sínu á þennan hátt í fyrsta sinn.
Næst liggur leiðin út á Keilisnes, en þar skagar landið lengst í norður milli Vatnsleysuvíkur og Stakksfjarðar. Líklega er þetta örnefni kunnugra fleiri mönnum en nokkur önnur slík hér um slóðir. Ástæðan er sú, að það kemur fyrir í kvæði Arnar Arnarssonar um Stjána bláa, en þar segir m.a.:

KálfatjarnarkirkjaSöng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.

Nú sést knörrinn ekki lengur, en efalaust leitar kvæðið á hugann, þegar gengið er um þessar slóðir, og hendingar úr því leita fram á varirnar. Nokkur spölur er frá Keilisnesi að Kálfatjörn. Kirkja hefur verið á Kálfatjörn frá öndverðu. Í kaþólskum sið var hún helguð Pétri postula. Þá var hún vel auðug, átti dýrgripi og lönd, en eftir siðaskiptin breyttist
hagur hennar eins og annarra eigna sem kirkjurnar áttu. Af því er mikil saga, sem ekki eru tök á að rekja hér. Þessi kirkja sem nú stendur var byggð rétt fyrir aldamótin 1900. Hún er hið fegursta guðshús og vel við haldið. Er því við hæfi að fá leyfi til að skoða hana nánar og enda þar með þessa fróðlegu gönguferð.”

Heimild:
-Mbl. 19. júlí 1981.

Bláfang

Norðurkot

Gengið var með frískum hóp um Kálfatjörn. Ein í hópnum hafði verið svo forsjál að fá léðan lykil af Kálfatjarnarkirkju. Eftir að hafa lokið upp kirkjudyrum var þátttakendum boðið inn fyrir. Þar rakti hlutaðeigandi það helsta sem fyrir augu bar, s.s. hina sérstöku málningarvinnu dansksins Bertelsens, sem enst hefur í meira en öld, og rennismíði Þorkels Jónsson, ábúandi í Móakoti, auk þess sem hún lýsti einstökum munum.
Fram kom að Kálfatjarnarkirkja var helguð kalfatjornPétri postula, en elstu haldbærar heimildir um kirkjuna eru í fornum máldögum og kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar frá árinu 1200. Kirkjan var einnig nefn Maríukirkja og kirkja hins heilaga Þorláks biskups í Vogum fyrir 1367. Síðasti staðarprestur á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson, en eftir að hann lést árið 1920 tók við jörðinni Erlendur Magnússon frá Tíðargerði og kona hans Kristín Gunnarsdóttir frá Skjaldarkoti. Þau hófu búskap í Tíðargerði en fluttu að Kálfatjörn 1920 og bjuggu þar allan sinn búskap eða allt til ársins 1975. Erlendur var fyrsti og eini kirkjubóndinn á Kálfatjörn. Synir þeirra hóna voru Magnús, Ólafur, Gunnar og Erlendur og dæturnar hétu Herdís og Ingibjörg. Herdís bjó áfram á Kálfatjörn eða þangað til íbúðarhúsið brann með dularfullum hætti.
Efst á kirkjuturninum er ártalið 1893, en það er smíðaár timburkirkjunnar, sem nú stendur. Teiknari og yfirsmiður var Guðmundur Jakobsson, en við grunnbygginguna vann Magnús Árnason steinsmiður frá Holti, viðurkenndur hagleiksmaður. Kirkjan var reist á 14 mánuðum, en þá var kirkjuturninn öðruvísi útlits en nú er.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – ártalssteinn úr sjóbúð.

Þá var gengið niður með hinni aldargömlu hlöðu á kirkjuhlaðinu, framhjá tóttum fjóssins, hinu botnlauslausa Víti og Hólkoti, niður með Kálfatjörn með sjóbúðina á vinstri hönd og síðan áfram til vesturs með ströndinni. Þar var gamla bátagerðið skoðað ásamt fjárhúsunum og Hausaréttinni. Á steinum réttargarðsins voru áberandi hvítar og gular skófir. Einn þátttakenda kunni eðlilega skýringu á því, en hún var eftirfarandi í mjög styttri útgáfu: Bóndakona týndi snældu, en gat ekki endurheimt hana nema greiða fyrir hana með mikið af graut. Dugði það ekki til og þurfti því að taparinn enn og aftur að punga út stiga til viðbótar svo þyggjandinn gæti komið umframgrautnum til Maríu meyjar. Á leiðinni þangað með grautinn hrapaði sá ferðaglaði og lenti að lokum á jörðinni. Hvítu og gulu skófirnar á grjótinu eru síðan ævarandi merki um heilaslettur hlutaðeigandi og grautinn góða”. Engin ástæða er til að draga þessa sögu í efa frekar en margar aðrar.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – skósteinn með ártali.

Gengið var upp að Goðhól og húsin þar skoðuð sem og garðar og annað markvert. Haldið var yfir að Norðurkoti, litið á hlaðinn brunninn og síðan kíkt inn í gamla skólahúsið. Þar voru gömlu kennslubækurnar enn á borðum, bæði orðsins bækur svo og draumabækur unga fjósamannsins. Fengin var að tímabundnu láni handskrifuð Kennsluritgerð Ingibjargar Erlendsdóttur frá árinu 1942 um “nokkra meginþætti í stjórn og starfi barnaskóla”. Ritgerðin skiptist í: I. Inngang og uppeldi, II. Tilgangur skóla, III. Stjórn skóla, IV. Niðurskipan skólastarfsins, V. Refsingar, V. Kennsla og kennsluaðferðir, VII. Námið og gildi þess og VIII. Kennarinn og hlutverk hans. Tilefnið var notað og lesin hluti ritgerðarinnar, en hún verður tölvuritfærð fljótlega og send viðkomandi til gagns og gamans. Ritgerð þessi hefur aldrei áður birst á prenti – sjá HÉR.
Gengið var niður gamla flóraða götu með garðinum að Norðurkotsbyrginu á sjávarkambinum. Þar mun hafa verið salthús. Síðan var ströndin gengin til vesturs og fjaran skoðuð. Komið var að völundar spili í fjörunni og síðan tók fagurhvít sandfjara við, sbr. meðfylgjandi mynd. Staðnæmst var í fjörunni neðan við Landakot, litið á Landakotsbrunninn og síðan gengið var til baka með ofanverðri ströndinni. M.a. var litið á leturssteininn [A° 1690] í kirkjubrúnni á gömlu kirkjugötunni að Kálfatjarnarkirkju og Landabrunninn, hið forna þvottastæði Kálfatjarnarfólksins. Kvenkrían lét í sér heyra að venju á meðan karlkrían tók lífinu með stóískri ró. Golfararnir voru hljóðlátari en jafnan. Þekktu kannski orðið söguna og tilurð vallarins.
Veður var frábært – logn og sól.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Kálfatjörn

FERLIRsfélagi, sem var á göngu á Vatnsleysuströnd fyrir skömmu, rak skyndilega auga í ártalsstein í fjörunni. Hann hafði margsinnis áður gengið sömu leið, en nú voru birtuskilyrðin (tilsýndarskilyrðin) hins vegar mun betri en áður, þ.e. sólin í réttu sjónarhorni svo skuggi féll á ártalið.

Ártalssteinninn

Við fyrstu skoðun virtist ártalið vera 1710, en þegar betur var að gáð varð ljóst að þarna hafði verið meitlað ártalið 1910. Nían var ógreinileg, en ef tekið er mið af öðrum ártalssteinum á Vatnsleysuströnd, t.am. ártalssteininum í gömlu sjóbúðinni við Kálfatjörn frá 1674 og kirkjubrúarsteininum frá 1790 þá er sjöan ógjarnan með þverstriki.
Hvað um það – ártalssteinn er þarna í fjörunni – og það merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hann stendur efst í fjörunni, beint ofan við eina ákjósanlegustu og fallegustu vörina Ströndinni. Bærinn ofan við er á fornu bæjarstæði. Vörin var og notuð lengur en aðrar varir, löngu eftir að varanleg höfn var komin í Voga. Í beina línu við steininn er hleðsla; sökkull eða neðsta röð á hlöðnu húsi. Sjórinn hefur tekið annað af húsinu til sín, en eftir stendur þessi einharða röð til merkis um mannvirkið. Líklega hefur ártalssteinninn verið hornsteinn hússins eða byrgisins, en önnur slík eru allnokkur með ströndinni. Fyrrnefndur ártalssteinn neðan við Kálfatjörn er einnig dæmi um leifar af gömlu hlöðnu húsi, sem heimildir voru til um; verbúð.
SteinaröðinEf sá siður hefur haldist á Vatnsleysuströnd að ártalsmerkja verbúðirnar þá er þarna á þessu strandsvæði um að ræða leifar verbúðar frá 1910. Einungis vantar því þrjú ár upp á að þær geti talist til fornleifa. Þótt leifarnar séu í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu hefur FERLIR ákveðið að geyma nákvæma opinberunnar hans og minjanna enn um þriggja ára skeið. Í rauninni eru þær dæmigerðar fyrir mannvirki á Ströndinni, líkt og lesa má um í heimildum manna er stunduðu vermennsku og sjósókn fyrr á öldum.
Ártalssteinninn er ágætt dæmi um fornleif, sem fengið hefur verið að vera óáreitt vegna þess að enginn hefur veitt henni sérstaka athygli. Þar með er hún orðin mikilvægur minnisvarði um aðrar slíkar, sem finna má á Vatnsleysuströnd – ef varið yrði tíma í að gaumgæfa allt það er þar mætti finna, hvort sem vegna skráðra heimilda eða einfaldlega nákvæmisleitar á svæðinu.
Ártalssteinn þessi er að vísu frá árinu 1910, en verðmæti hans eykst hins vegar í réttu hlutfalli við tilsettninguna. Hann gefur bæði til kynna að aðrar sjóbúðir á Vatnsleysuströnd hafi að öllum líkindum haft slíka hornsteina að geyma og að þá megi enn finna í nálægð leifa slíkra búða sem og í þeim búðum sem enn standa. Bara það gefur tilefni til enn einnar FERLIRsferðarinnar um strandir Vatnsleysustrandar!
Vatnsleysuströnd

Kálfatjörn

16. Kálfatjörn – Vogar

-Kálfatjarnarkirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.

-Hverfin
Kálfatjarnarhverfi – Knarraneshverfi – Brunnastaðahverfi.

-Mannlíf -Útgerð – selsbúskapur
Hér verður lýst þróun í atvinnu- og byggðamálum á Reykjanesi og reynt að rýna svolítið í framtíðina í þeim efnum.
Byggðin á Reykjanesi (Suðurnesjum) var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Einstaka bæir voru bundir litlum gróðurblettum þar sem þá var að finna eða hægt var að rækta upp með sæmilegu móti. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegnum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja margt fjár og höfðu fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. Það var aðallega tvennt er einkenndi atvinnuhætti á Reykjanesi í u.þ.b. eitt þúsund ár, allt frá byrjun og langt fram á 19. öldina; annars vegar seljabúskapurinn á sumrin og hins vegar vermennskan yfir veturinn. Hvergi voru fleiri verstöðvar við strendur landsins en á Reykjanesskaganum. Bændur stunduðu þaðan veiðar sem og aðkomumenn víða af landinu. Efldi það samskipti og fjölbreytni mannlífsins, auk nýrra menningarstrauma á hverjum tíma. Verin voru eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls um tíma og undirstaða útflutningsverslunar landsmanna.
Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beita úthagann. Lífið á Reykjanesskaganum snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis en annars staðar á landinu. Þau voru tímabundnar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Selin eða selstöðurnar í heiðunum hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru t.d. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum, en alls má líta þar minjar 34-40 selja, sum frá fyrstu tíð. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina. Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914. Seljabúskapurinn á Reykjanesskagnum gefur góða mynd af umfangi fjárbúskaparins á svæðinu og þróun byggðar og atvinnuhátta – þar sem allt líf fólks snérist meira og minna um sauðkinda, a.m.k. um allnokkurn tíma.
Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Á árunum 1940-70 tók íslenskt atvinnulíf stakkaskiptum, auk þess sem tilkoma hersins breytti verulega atvinnuháttum á Suðurnesjum. Ekki var t.d. hægt að manna róðrabáta á útgerðarstöðunum fyrstu tvö árin eftir tilkomu hans þar sem flestir atvinnufærir menn fóru til starfa fyrir herinn. Það var í fyrsta skipti sem sumir þeirra fengu greitt í peningum fyrir vinnu sína. Þéttbýliskjarnar tóku að myndast. Grindavík er ágætt dæmi um breytingar og þróun þéttbýlis og atvinnuhátta á Reykjanesi. Bærinn er. einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna landsins sem mestum afla skila á land á hverju ári. Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.
Frá miðri 19. öldinni og fram yfir 1930 var mannfjöldinn á Suðurnesjum milli 2000 og 3000, en á 18. öld og fram á þá 19. var íbúafjöldinn á bilinu 1000-1500. Eftir miðja 20. öld og fram til dagsins í dag hefur íbúafjöldinn vaxið hröðum skrefum og byggist það mikið til á sjávarútvegi og þjónustugreinum. Á síðustu öld fækkaði jafnt og þétt í dreifbýli á svæðinu, á sama tíma og þéttbýlisstaðir uxu að sama skapi. Meginþættir atvinnulífs á Suðurnesjum hafa verið öflugur sjávarútvegur og starfsemi á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum. Iðnaður og byggingastarfsemi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er hlutfallslega minni en annars staðar og á höfuðborgarsvæðinu, en munurinn jafnast þegar varnarframkvæmdir eru teknar með. Verslun og þjónusta er miklu minni í sveitarfélögunum á Suðurnesjum en annars staðar. Á síðustu árum hefur sjávarútvegur minnkað nokkuð, einkum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði, en annars staðar á Suðurnesjum hefur þessi atvinnugrein að mestu haldið í horfinu sé miðað við fjölda starfa og unnið aflaverðmæti. Segja má þó að í heildina sé atvinnulíf nokkuð einhæft á smærri stöðunum, en benda má á í því sambandi að Suðurnes er eitt atvinnusvæði og samgöngur eru yfirleitt góðar.
Árið 1984 voru 7850 ársstörf á svæðinu, þar af rúmlega 20% á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum, en um fjórðungur starfsfólks þar kemur af höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru ársverk fólks með lögheimili á Suðurnesjum um 6900 samtals. Fólksfjölgunin hefur verið 50-100% á síðustu áratugum, en gert er ráð fyrir að mannafli á Suðurnesjum aukist um 2500 manns á næstu 20 árum.

-Ströndin og sjórinn
Strönd Reykjanesskagans er óvíða fallegri en á Vatnsleysuströnd. Þar skiptast á kettastarndir og sandstrandir með fjölbreyttu fuglalífi.

-Vogar – saga
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti. Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð, þar sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð og úr var Stóru-Vogar. Þar fæddist Páll Eggert Ólafsson (1883-1949) prófessor. Páll er einn mikilvægast sagnfræðingur Íslands fyrr og síðar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stopplabryggja og fiskhús reist. Árið 1942 var reist hraðfrystihús. Margt er að skoða í nágrenni Voga og eru þar margar skemmtilegar og áhugaverðar gönguleiðir og sérkennileg náttúra allt í kring. Fyrirhugað var að reisa álver á Keilisnesi við Voga en því hefur nú verið frestað, hvað sem síðar verður. Sterkasti maður landsins Jón Daníelsson bjó í Vogum og á hann að hafa flutt til bjarg eitt mikið með eigin afli. Hann lézt ungur og er bjargið nú minnisvarði um hann við Vogaskóla.
Vegalengdin frá Reykjavík er 44 km.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.
– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Árið 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp. Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

-Kirkjur
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.
Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi – Viðeyjarklaustur – landsetar konungs
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.
Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.
Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.
Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.
Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á heimasíðu Ferlis, www.ferlir.is .

-Framfarir
Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.
Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.
Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

-Áhugaverðir staðir
Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.
– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378 m, Trölladyngju 379 m eða Grænudyngju 402 m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.
– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

-Sögur og sagnir
Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.
Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.
“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti. Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.
Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!
Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.
Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

-Vogar – þjóðsaga
Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar og svo er það nefnt í Landnámu. Snemma bjó bóndi einn í Vogum er sótti mjög sjó. Einhvern dag reri bóndi sem oftar og er ekki í það sinn neitt sérlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt að hann kom í drátt þungan og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar mannslíki og innbyrti það. Það fann bóndi að maður þessi var með lífi og spurði hann, hvernig á honum stæði en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði hvað hann hefði verið að gjöra þegar hann hefði ágoggazt.
Marbendill svaraði: “Ég var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mér nú niður aftur.”
Bóndi kvað þess engan kost að sinni,” og skaltu með mér vera.” Ekki töluðust þeir fleira við, enda varðist marbendill viðtals. Þegar bónda þótti tími til fór hann í land og hafði marbendil með sér og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en bóndi hafði búið um skip sitt að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann. Bóndi brást illa við því og sló hundinn.
Þá hló marbendill hið fyrsta sinn.
Hélt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið og rasaði þar um þúfu eina og blótaði henni.
Þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hélt svo heim að bænum. Kom þá kona hans út í móti honum og fagnaði bónda blíðlega og tók bóndinn vel blíðskap hennar.
Þá hló marbendill hið þriðja sinn.
Bóndi sagði þá við marbendil: “Nú hefur þú helgið þrisvar sinnum og er mér forvitni á að vita af hverju þú hlóst.”
“Ekki gjöri ég þess nokkurn kost,” sagði marbendill, “nema þú lofir að flytja mig aftur á sama mið er þú dróst mig á.” Bóndi hét honum því.
Marbendill sagði: “Þá hló ég fyrst er þú slóst hund þinn er kom og fagnaði þér af einlægni. En þá hló ég hið annað sinn er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni, því þúfa sú er féþúfa full af gullpeningum. Og enn hló ég hið þriðja sinn er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar, því hún er þér fláráð og ótrú. Muntu nú efna öll orð þín við mig og flytja mig á mið það er þú dróst mig á.” Bóndi mælti: “Tvo af þeim hlutum er þú sagðir mér má ég að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, tryggð hundsins og trúleik konu minnar. En gjöra skal ég raun á sannsögli þinni, hvort fé er fólgið í þúfunni og ef svo reynist, er meiri von að hitt sé satt hvort tveggja, enda mun ég þá efna loforð mitt.”
Bóndi fór síðan til og gróf upp þúfuna og fann þar fé mikið eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar og flutti marbendil á sama mið sem hann hafði dregið hann á.
En áður en bóndi léti hann fyrir borð síga, mælti marbendill: “Vel hefur þú nú gjört, bóndi, er þú skilar mér móður minni heim aftur og skal ég að vísu endurgjalda það ef þú kannt til að gæta og nota þér. Vertu nú heill og sæll, bóndi.”
Síðan lét bóndi hann niður síga og er marbendill nú úr sögunni.
Það bar til litlu eftir þetta að bónda var sagt að sjö kýr, sægráar að lit, væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt og reif spýtukorn í hönd sér gekk svo þangað sem kýrnar voru, en þær rásuðu mjög og voru óværar. Eftir því tók hann að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því er hann hafði í hendi sér, framan á granirnar á einni kúnni og gat náð henni síðan. En hinna missti hann og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja að kýr þessar hefði marbendill sent sér í þakkar skyni fyrir lausn sína. þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumanns gripur sem á Ísland hefur komið. Æxlaðist af henni mikið kúakyn sem víða hefur dreifzt um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn.
En það er frá bónda að segja að hann varð mesti auðnumaður alla ævi. Hann lengdi og nafn byggðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

-Landnámsmenn
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti.

-Íbúafjöldi
1. desember 2004 voru íbúar 939. Þar af voru karlar 486 og konur 453.

-Hvað gerir fólkið þar til að framfleyta sér?
Aðallega þjónusta, opinber störf, verslun og sjósókn. Margir stunda vinnu utan þorpsins, s.s. á höfðuborgarsvæðinu, enda er ekki nema u.þ.b. 15 mín. keyrsla til Hafnarfjarðar og 10 mín til Keflavíkur.

Staðarborg
15. Straumsvík – Kálfatjörn
-Straumsvík – hver á álverið, hver margir vinna þar, hvað er framleitt þar, hve mikið, hvert selt og hvers vegna framleitt hér á landi
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu hú
sum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan erum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. “Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.” Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. “Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.”

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.
Súrál er flutt í duftformi til landsins, en hér er það blandað steinefnum og hitað upp þangað til það verður fljótandi. Þá er það unnið í ál og mótað. Ástæðan fyrir því að stóriðja er rekin hér á landi er fyrst og fremst nægileg raforka á viðráðanlegu verði.

-Straumsvík bær…
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins fyrir Bjarna Bjarnason. Straumur var um tíma athvarf hafnfirskra kvenna í orlofi eða þangað þær til þær fluttust að Lambhaga skammt norðar.

-KaldáSumir segja að Kaldá uppi í Kaldárbotnum komi undan hrauninu við Straum, en sannara mun vera að hún kemur upp undan Hvaleyrarfjörum, skammt frá landi.

-Hraunin – Hraunabæirnir
Hraunin sunnan StraumsvíkurHraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Hraunamenn og gamlar göturÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Búsetu- og fornminjarEkki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.
Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

-Óttarstaðir
Óttarsstaðir vestri og Óttarstaðir eystri. Aðrir bæir í Hraunum voru t.d. Blikalón og Glaumbær og Litli- og Stór-Lambhagi, auk Þorbjarnastaða og Gerðis.

-Lónakot
Búið þar til stríðsloka. Sjá má minjar hins gamla bæjar, garðanna sem og útihúsanna. Fallegt umhverfi, lónin og fjaran og ströndin.

-Urtartjörn – sérstakt lífríki í tjörnum þar sem mikið ferskvatn blandast við sjó
Utratjörnin á hægri hönd er sérstök fyrir það að í henni gætir sjávarfalla. Þannig flýtur ferskvatnið ofan á þyngri sjónum. Við þær aðstæður vex fjölbreyttur gróður, bæði sjávar- og ferskvatnsgróður ofar á bökkunum, en einnig gróður er þolir hvorutveggja.

-Vatnsstraumur inn á flóði, út á fjöru
Ofan við straum streymir vatn undan hrauninu. Helstu ferskvatnsbyrðir Hafnfirðinga eru annars vegar í Kaldárbotnum og hins vegar hér beint fyrir ofan í Straumsseli. Þar hefur verið borið um 50 m djúp tilraunborhola, sem lofar góðu. Þá hefur álverið sýna eigin ferskvatnsborholu í hrauninu. Við Þorbjarnarstaði er brunnur í hraunkantinum. Þangað var sótt vatn fyrrum, auk þess sem ullin og annar þvottur var þveginn þar. Munur á flóði og fjöru geta verið allt að þremur metrum.

-Hvassahraun – Hraundríli – brugghellir
Á móts við eyðibýlið í Hvassahrauni (hægra megin við Reykjanesbraut þegar ekið er í átt að höfuðborgarsvæðinu) er sléttlendi nokkurt sem kallast Strokkamelur. Þar má finna nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá. Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

-Fagravík
Svæðið er í landi Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar. Um er að ræða um 500 metra breitt belti ásamt ísöltum tjörnum frá botni Fögruvíkur að Straumi. Um sérstætt umhverfi er að ræða ásamt miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Tjarnirnar eru mismiklar að seltu og einstæðar að lífsskilyrðum. Þarna er fagurt útivistarsvæði og er rannsóknar- og fræðslugildi þess mikið ásamt nálægðinni við þéttbýlið.
Með skráningu svæða sem náttúruminja, er bent á sérstöðu svæðis eða sérkenni. Munurinn á friðlýstum náttúruminjasvæðum og öðrum svæðum á náttúruminjaskrá er aðallega sá að verndun svæðisins er lengra á veg komin ef um friðlýst svæði er að ræða.
Það sem helst ber að hafa í huga varðandi náttúruminjar er meðal annars, samkvæmt Náttúruvernd ríkisins:
“Ef hætta er á röskun náttúruminja vegna framkvæmda eða annarra athafna er sérstaklega kveðið á um að á friðlýstum náttúrminjasvæðum þurfi leyfi Náttúruverndar ríkisins og að leita þurfi umsagnar hvað aðrar náttúruminjar varðar áður en framkvæmdaleifi er veitt.” (Náttúruminjaskrá)

-ÞráinsskjöldurÞráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.

-Afstapahraun – rann á 12. öld

-Kúagerði – Akurgerði
Grasblettur við tjörn við gamla veginn í suðurjarði Afstapahrauns upp af Vatnsleysuvík. Þar var kunnur áningarstaður fyrrum og kúahagi frá Vatnsleysujörðum. Reykjanesbrautin liggum um blettin þveran. Þar var samneft býli um skeið.

-Vatnsleysa
Stóra- og Minni Vatnsleysa. Bæir á Vatnsleysuströnd, stórbýli fyrrum og miklar útvegsjarðir . Standa þeir vestanvert við allstóra vík sem Vatnsleysuvík heitir, milli Keilisness að vestan og Hraunsness að austan. Á Minni-Vatnsleysu er reikið eitt stærsta svínabú landsins (Ali). Til hlunninda þessara jarða eru talin hrognkelsveiði, reki og hverahiti. Á Vatnsleysu var kirkja í kaþólskum sið, helguð öllum heilögum og átti hún 15 hundruð í heimalandi jarðarinnar. Löngum mun Vatnsleysukirkja hafa verið þjónað frá Kálfatjörn.

Við Stóru-Vatnsleysu er m.a. forn letursteinn í túninu, sennilega við hina gömlu kirkju.

Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.
Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.
Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu. Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
“Varð þér ekki bilt við?” spurði Guðmundur. “Ekki svo mjög,” svaraði hann.
“Maður er orðinn þessu svo vanur,” bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár. Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu;tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.

-Keilir
Móbergsfjall (379 m.y.s) á Reykjanesskaga. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýn er mikil af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar.

-Vatnsleysuströnd
Byggðarlag við sunnanverðan Faxaflóa, frá Hvassahrauni að innan og út að Vogastapa, gjarnan nefnd Ströndin af heimamönnum. Alls er Vatnsleysuströnd 15 km löng. Upp frá henni liggur Strandarheiði sem öll er þakin hrauni, Þráinsskjaldarhrauni, er runnið hefur til sjávar fyrir um 9000 árum.
Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar.

-Silungseldisstöð
Norðan við Vatnsleysu er silungseldisstöð, fremur smá í vexti. Rekstur hennar hefur gengið brösulega, en nú virðist hann eitthvað vera að braggast.

-Hafnhólar
Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu.

-Flekkuvík
Flekkuleiði – vinsæll köfunarstaður – fjölskrúðugt fuglalíf.

-Borgarkot
Kot frá Viðeyjarklaustri – talsverðar minjar – stógripagirðing.

-Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var fiðlýst sem forminjar árið 1951.

-Kálfatjarnakirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.
Ekki má láta hjá líða að ganga upp að Staðarborg miklu steinhleðsluvirki á miðri heiðinni. Leiðin að Staðarborg er merkt ofan við veginn hjá Kálfatjarnarkirkju.
Kauptúnið Vogar er framundan, en eins og flestir bæir á Reykjanesi orðið til fyrir breytingar á útgerðarháttum. Þegar vélbátaútgerðin gekk í garð og skip urðu stærri varð nauðsynlegt að finna betri lægi. Leiddi þá eitt af öðru og byggðin fluttist hægt og rólega að þessum stað. Sterkasti maður landsins Jón Daniesson bjó í Vogum og segir sagan að hann hafi af regin afli flutt til heljar bjarg sem nú er minnisvarði um hann og stendur við Vogaskóla. Flest fólk var á Vatnsleysuströnd um aldamótin eða tæplega 800 manns. Þar bjuggu þá fleiri en í Keflavík og Grindavík saman lagt. Í dag búa þar tæplega 700 manns.

Kálfatjörn

Úr fundargerðarbók sóknarnefndar Kálfatjarnarkirkju 1. mars árið 2014:
kalfatjorn-legsteinn“Á síðasta sóknarnefndarfundi barst mér í hendur áhugavert bréf frá Bryndísi Rafnsdóttur.
Þar er tíundað um elsta legstein Kálfatjarnarkirkjugarðs.
Þessi steinn er á vinstri hönd, liggjandi þegar gengið er upp tröppur Kálfatjarnarkirkju.
Kirkja hefur verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Það sem á eftir kemur er ritað af Bryndísi Rafnsdóttur fyrrverandi kirkjugarðsverði.

„Hér undir hvílir greftrað ærlegt guðsbarn Eyjólfur Jónsson lögréttumaður.
Hans vegferðardagar voru 58 ár sofnaði Guði 14 september 1669.

Þér eruð gengnir til fjallsins Síon og til borgar Guðs lifanda.
Til himneskra Jerúsalem.
Heb=Hér er 1.Z

Þetta er skrifað orðrétt eftir Gunnari Erlendssyni bónda frá Kálfatjörn.
Um letur á elsta legsteini í kirkjugarðinum við Kálfatjarnarkirkju.
Honum var mikið í mun að ég skrifaði þetta upp, svo við mæltum okkur
mót eitt siðdegi í nóvember 1995.
Daginn eftir verður Gunnar bráðkvaddur á túninu við hlið kirkjunnar á Kálfatjörn.“

Kálfatjörn 1920

Kálfatjörn 1920.

 

Kálfatjörn

Gengið var um Kálfatjörn frá kirkjunni, brunnurinn skoðaður sem og sjóbúð og tjörnin sjálf. Skoðaðar voru minjar með ströndinni til vesturs, komið við í tóftum Goðhóls og fiskbyrgjunum neðan við Þórustaði og síðan haldið út með einni fegurstu sandströnd á norðanverðum Reykjanesskaganum, neðan Þórustaða og Landakots. Þá var stefnan tekin á Norðurkot, en tilfærsla þess kl. 16.00 þetta síðdegi var einmitt tilefni göngunnar. FERLIR hafði lofað góðu gönguveðri og einnig að í ferðinni myndu þátttakendur sjá aldargömlu húsi lyft af grunni sínum og það fært um set. Auðvitað trúði enginn þeirri lýsingu sem fyrri daginn – og því varð staðreyndin áhrifaríkari en ella.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – gömlu húsin, um 1960, sett inn í mynd frá 2020.

Tilgangurinn með ferðinni var einnig að reyna að berja lóuna, vorboðann ljúfa, augum, en fréttir höfðu einmitt borist fyrr um daginn af ferðum hennar við Höfn í Hornafirði, tveimur dögum fyrr en venjulega. Það gefur von um gott vor.
Skoðaður var brunnurinn frá Kálfatjörn, en oft reynist erfitt að finna hann þegar líða tekur á sumarið vegna njóla og annars þróargróðurs. Ágætt kennileiti er þó eftir götu eða lögstum garði að honum út frá Víti til vesturs. Þar liggur gata vestan slóða niður að Kálfatjörninni sjálfri. Ef garðinum/götunni er fylgt að enda birtist brunnlokið. Tilraun var gerð til að finna brunninn síðsumars árið áður, en án árangurs. Þarna var hann hins vegar án þess að nokkuð skyggði á tilvist hans.

Kálfatjörn

Goðhóll.

Gengið var með syðri hluta Rásarinnar að tóft sjóbúðar sunnan Kálfatjarnar, hún skoðuð, og síðan haldið niður að skiparéttinni ofan við sjávarmál. Þar eru og hleðslur gamallar sjóbúðar, sem ártalssteinn 17. aldar fannst hjá fáum misserum fyrr. Steinn sá er nú við safnaðarheimiðið norðan kirkjunnar. Kunnugir segja, en vilja ekki staðfesta skriflega, að þegar grunnur safnaðarheimilisins hafi verið gerður, hafi komið upp ýmsir steinar sem og reglulegar hleðslur, en þá hafi blinda augað komið sér vel hjá nærstöddum, enda kirkjugarðurinn og gamlar minjar eigi alllangt undan.
Rifjuð var upp sögnin af sækúnum í Kálfatjörn. Með tóftir hinnar gömlu hæðbúnu sjóbúðar að baki og kirkjuna í bakgrunni var ekki komist hjá upprifjun sjósókna fyrri alda sem og aðbúnaðar vermanna á þeim tímum. Rifjuðu var upp ferð um svæðið á liðnu ári með Ólafi Erlendssyni á Kálfatjörn, en þá lýsti hann vel og vandlega kotunum norðan og austan við kirkjuna.

KálfatjörnÁ Kálfatjörn var bær, kirkjustaður og prestsetur. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Sögu hennar og umhverfi hefur verið gerð góð skil í annarri FERLIRslýsingu.
Skoðaðar voru minjar Goðhólls, bæði gamla bæjarins og útihúsa auk garða, sem þar eru. Skammt norðvestar eru gamlar mógrafir frá Kálfatjörn. Hlið er sunnar og Tíðargerði vestan þess. Hvorutveggja eru gömul kot vestan við Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Ártalssteinninn á Kálfatjörn í gömlu sjóhúsi.

En gömul kot geta orðið að gersemi sem og svo margt annað. Ekki er langt um liðið síðan sjá mátti síðanefnda kotið auglýst til sölu ásamt Norðurkoti, sem er þarna skammt vestar, á 40 milljónir króna. Stórhuga menn hafa haft áhuga á landinu, m.a. með fyrirhugaða sumarhúsabyggð og þróun golfvallarins að augnamiði. Staðreyndin er sú, hvað sem líður landkostum, að óvíða er fagurrra útsýni en á þessari, að því er virðist, flatneskjulegu strönd. Útsýnið er síbreytilegt og bæði ströndin og heiðin skammt undan eru tiltæk til uppbyggjandi gönguferða.
Lóan lét sjá sig, en erfiðara reyndist að ná mynd af henni. Það heyrðist hins vegar ágætlega í henni. Smánafna hennar, sandlóan, var hins vegar róleg þar sem hún stóð í hópum á skerjum, og leyfði góðfúslegar myndatökur. Lómur syndi utar og úmaði.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær. Norðurkot lengst t.v.

Nú er Norðurkotið stekkur. Norðurkotið á Vatnsleysuströnd var flutt um set, í sólskinsblíðu, stafalogni og 12° hita. Húsið, sem að sögn var byggt árið 1903 sem skólahús, var híft á dráttarvagn og síðan ekið yfir að Kálfatjörn þar sem því verður ætlaður staður til frambúðar á fyrirhuguðum safnareit. Keilir lék baksviðs meðan á flutningnum stóð, en sólin umvafði þetta gamla hús geislum sínum er það notaði tækifærið og snéri sér í hring hangandi í kranavírunum. Andar genginna kynslóða fylgdust með. Fjórir svanir flugu yfir í fagurri fylkingu, snéru við og komu til baka, líkt og til að leggja áherslu á samþykkið að handan. Rifjað var upp minnistætt flug svananna 12 framan við áhorfendur á krirstnitökuhátíðinni á Þingvöllum árið 2000. Þeir snéru einmitt við, líkt og þessir, og endurtóku flugið fyrir áhorfendur. Fæstir skyldu þó tilganginn, en aðrir, sem bæði vita og skilja, gerðu sér grein fyrir honum. Aldur Norðurkots er ekki fullviss af nákvæmni. Það gæti verið eitthvað eldra en frá 1903. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn segir t.d. að faðir hans, Erlendur Magnússon hafi gengið þar í skóla árið 1904 og að húsið gæti verið frá því rétt fyrir aldamótin 1900.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.

Það var Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps, sem lét flytja húsið með dyggri aðstoð verktaka. Það hrikti í vírum hífikranans við lyftinguna, en húsið hvorki æmti né skræmti þótt aldrað væri. Stoðir þess eru greinilega enn styrkar – og höfðu verið styrktar enn um betur að innanverðu af vönum verkmönnum.
Norðurkot var notað sem skólahús fram til 1910 eða ’11. Kennarahjón bjuggu þá á loftinu, en skólastofan var á jarðhæð. Hlaðinn kjallari var undir húsinu. Síðast mun húsið hafa verið notað til reglulegar íbúðar árið 1935.
Í húsinu voru fyrir merkar heimildir um skólahaldið, s.s. kennslubækur, ritgerðir og einkunnir einstakra nemenda. Þá hafði verið safnað í það ýmsum munum úr sveitinni, s.s. reiðtygum, veiðarfærum, handverkfærum o.fl. Eflaust mun eitthvað af því nýtast fróðleiksfúsum í framtíðinni. Afkomendur Erlendar Magnússonar frá Kálfatjörn gáfu Minjafélaginu húsið.
Uppgert Norðurkotið mun án efa setja svip sinn á hinn nýja safnareit við Kálfatjarnarkirkju í framtíðinni.
Til baka var gengið eftir gömlu kirkjugötunni að Kálfatjörn. Gatan hefur verið jöfnuð þar sem fyrir er golfvöllurinn nýmóðis, en kylfingarnir kunnu sig. Þeir lutu í lotningu fyrir göngufólkinu, sem gekk líkt og kirkjugestir vestan af Ströndinni forðum, áleiðis að Kálfatjarnarkirkju.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Ofar, við gömlu götuna vestur á Strönd, mátti sjá klöpp huldukonunnar, sem getið er í þjóðsögu og á að hafa gerts þar árið 1892. Heimasætan, nýfermd, dreymdi að hún væri stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Stúlkan bauð huldukonunni að þiggja hring ömmu hennar, sem ég er með á hendinni. Huldukonan baðst undan svo góðri gjöf en bað um flauelspjötlur, sem stúlkan hafði. “Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”, sagði huldukonan. “Ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”, bætti hún við. Var svo draumurinn ekki lengri.
Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.
Þarna eru sögur til um hvern hól og sérhverja tóft.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11. mín.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.