Í Flekkuvík er Flekkuleiðið, gróin þúst yst (syðst) í heimatúninu. Segir sagan að Flekka gamla, sem samnefnd vík heitir eftir, hafi mælt svo fyrir um að hún skyldi dysjuð á þessum stað þar sem hún sæi yfir að Flekkuvörinni. Rúnarsteinn er á leiði Flekku, en sérfræðingar segja hann geta verið frá 17. öld.
Fallega hlaðnir brunnar eru við bæinn og mikið af hlöðnum görðum og tóftum.
Gengið var um Keilisnesið og yfir að Borgarkoti. Landamerkjagirðing liggur þar niður að sjó við Hermannavörðuna. Innan við hana eru tóftir Borgarkots, hlaðinn krossgarður, gamlir garðar o.fl. Gömul stórgripagirðing liggur á mörkunum áleiðis upp heiðina, en beygir síðan til vesturs, áleiðis að Kálfatjörn. Steinarnir í girðingunni eru með u.þ.b. 20 metra millibili. Í hvern þeirra eru klappaðar tvær holur og í þær reknir trétappar. Á þessa tappa hafa síðan verið strengd bönd. Tilgangurinn var að halda stórgripum, s.s. kúm á beit innan afmarkaðs svæðis. Borgarkot heyrði um tíma undir Viðey og mun klaustrið m.a. hafa haft þar kálfa á beit. Þar hafa, eins og svo víða, kýr getað mælt mannamál á nýársnótt, sumir segja á þrettándanum skv. þjóðtrúnni. Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýjársnótt, meðal annars að selir fari úr hömum sínum, kirkjugarðar rísa, álfar flytjast búferlum og kýr tala mannamál. Hættulegt gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er meðal annars þessa sögn að finna: Á nýjársnótt verða margir hlutir undarlegir. Það er eitt að kýr mæla þá mannamál og tala saman. Einu sinni lá maður úti í fjósi og á nýjársnótt til þess að heyra hvað kýrnar töluðu. Hann heyrir þá að ein kýrin segir: „Mál er að mæla (aðrir: mæra).“ Þá segir önnur: „Maður er í fjósi.“ „Hann skulum vér æra,“ segir þriðja kýrin. „Áður en kemur ljósið,“ segir hin fjórða. Frá þessu gat maðurinn sagt morguninn eftir, en ekki fleiru því kýrnar höfðu ært hann.
Gengið var um Réttartanga, framhjá Litlabæ og Bakka, gömlu eyðibýlin austan Kálfatjarnar, s.s. Bjarg og Móakot. Móakotsbrunnurinn var m.a. barinn augum.
Kálfatjörn er lýst í annarri FERLIRslýsingu. Norðan bæjarins er Kálfatjörnin. Í henni áttu sækýr að búa. Árið 1892 gerðist eftirfarandi saga á Kálfatjörn. “Þegar ein heimasætan var fermd, fékk hún peysuföt eins og þá tíðkaðist. Yngri systirin hafði safnað saman nokkrum flauelspjötlum og náði sér í viðbót í það, er féll frá peysufötum systurinnar. Með þessu ætlaði hún að skreyta skautföt brúðu sinnar. Hún hafði þetta allt í litlum lokuðum kistli og hafði alltaf lykilinn í bandi um hálsinn því að enginn mátti komast í kistilinn.
Rétt eftir ferminguna dreymir litlu stúlkuna að hún sé stödd suður á túninu á Kálfatjörn. Sá hún þá hinum megin við túngarðinn á Hliðstúninu grannleita konu, frekar fátæklega búna vera að reka kú. Hún hljóp til hennar og ætlaði að hjálpa henni að reka kúna en spyr hana um leið hvar hún eigi heima.
Þá svarar konan: “Ég er huldukona og á heima í þessari klöpp”, og bendir á klöpp sem fólk var vant að ganga yfir þegar það fór að heiman suður á Ströndina.
Þá þykist stúlkan segja við hana: “En hvað ég er glöð að hitta huldukonu. Þiggðu nú af mér hringinn hennar ömmu sem ég er með á hendinni, því að mig hefur alltaf langað svo til þess að hitta huldukonu og gleðja hana”.
Þá mælti konan: “Ekki skaltu gera það, góða mín, því að þú færð illt fyrir það að glata honum. En þú getur gert mér annan greiða. Lánaðu mér flauelspjötlurnar þínar. Það á líka að ferma hjá mér dóttur mína, en ég er svo fátæk að ég get ekki keypt flauel á treyjuna hennar. Ég skal skila þeim öllum jafnóðum aftur, þegar ég hef notað þær”.
Stúlkan lofaði þessu með ánægju og segir: “Vertu nú sæl”. Þá segir hún ósköp hrygg: “Segðu ekki sæl við mig, við erum ekki sæl, en ég get ekki launað þér með öðru en því að ég skal sjá til þess að þú verðir lánsmanneskja”. Var svo draumurinn ekki lengri.
Eftir nokkurn tíma ætlar stúlkan að fara að sauma á brúðuna sína. Hún lýkur upp kistlinum en bregður heldur en ekki, því að allar flauelspjötlurnar eru horfnar. Man hún þá ekkert eftir draumnum. Fór hún nú að grennslast eftir því, hvort nokkur hafi komist í kistilinn og sannfærðist um að enginn hafði farið í hann. Þá man hún allt í einu eftir draumnum og segir mömmu sinni frá honum.
Þá mælti hún: “Góða mín, vertu ekki að leita úr því að þetta er svona, álfkonan skilar þeim aftur”. Líður svo tíminn fram á haust. Einn dag er það, er stúlkan opnar kistilinn sinn að allar pjötlurnar liggja þar eins og hún skildi við þær um vorið.”
Þegar golfvöllurinn var gerður á Kálfatjörn var sléttað yfir klöppina svo hún sést ekki lengur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Heimildir m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2435
-Jón Árnason. Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I, 609.
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=150
-Rauðskinna II 301.