Borgarkot

Borgarkot eru tóftir býlis austan Bakka og Litlabæjar, skammt austan Kálfatjarnar. Talið er að Borgarkot hafi tilheyrt Viðeyjarklaustri um tíma, eins og svo margar jarðir aðrar á norðanverðum Reykjanesskaganum. Þá mun Krýsuvík um sinn hafa haft þar stórgripi í skiptum fyrir afnot af landi innar á skaganum.

Borgarkot

Nautgripagirðingin ofan við Borgarkot.

Að þessu sinni var ætlunin að fylgja svonefndri stórgripagirðingu til austurs eftir móunum frá hlöðnum görðum ofan við Litlabæ. Girðing þessi eru stórir uppstandandi steinar með reglulegu millibili alveg að landamerkum Flekkuvíkur í austri. Girðingin beygir að vísu í tvígang á leiðinni lítilsháttar til norðurs, en neðan við Hermannavörðuna á landmerkjunum liggur hún í beina stefnu niður að sjávarmáli. Á einum stað, skammt vestan Vatnssteina (Vaðssteina), liggur þvergirðing milli hennar og sjávar.
Í sérhvern stein hafa verið höggvin eða borðuð tvö göt, annað efst og hitt skammt neðar. Í þessi göt hafa verið reknir trétappar. Á trétappana hafa verið hengdir strengir, girðing, sem hefur átt að halda gripunum innan hennar. Víða eru steinarnir fallnir niður, en sumir hafa verið reistir við á ný, svona til að hægt væri að gera grein fyrir stefnunni. Annars er merkilegt að sjá hvernig stóreflis steinum hefur verið velt úr sessi sínum.

Borgarkot

Trétappi og lykkja í einum steini stórgripagirðingarinnar ofan Borgarkots.

Gerð þessarar steinagirðingar hefur kostað mikla vinnu á sínum tíma. Færa og flytja hefur þurft þessa stóru steina um set og reisa þá upp á endann, gera í þá götin og negla í þá teglurnar.

Hvorki er vitað með vissu um aldur girðingarnar né í hvaða tilgangi hún var reist. Þó má álykta að girðingin hafi verið gerð til að halda fyrrgreindum stórgripum, annað hvort frá Viðey eða Krýsuvík. Þá er ekki með öllu útilokað að girðingin geti verið eitthvað yngri. Ólafur Erlendsson frá Kálfatjörn minnist ekki þessar girðingar og hennar er ekki getið í örnefnalýsingum af svæðinu. Fróðlegt væri að heyra frá einhverjum, sem kann skil á tilvist þessarar girðingar. Hliðstæð girðing er norðan og vestan við Minni-Vatnsleysu.
HÉR má sjá viðbótarfróðleik um girðinguna.

Borgarkot

Borgarkot – steingirðing.

Tóftir Borgarkots eru nú að mestu að hverfa í sjóinn. Sjá má mun á þeim frá ári til árs. Tóftir eru þó svolítið ofan bakkans. Þá er hlaðinn krosskjólgarður skammt austan þeirra, en tóftirnar eru umlyktar af hlöðnum görðum, nú að mestu jarðlægum.
Móarnir ofan Borgarkots geyma fjölmargar jurtir. Á einum stað mátti t.d. sjá þyrpingu af skarlatbikurum, sumir með gró. Fjaran er margbrotin og í henni margt að sjá. Á kafla er t.a.m. um fallega skeljaföru að ræða.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Ofan við Borgarkot má sjá hlaðnar refagildrur, vatnsstæði og hlaðin gerði. Minkurinn hefur víða komið sér vel fyrir. T.a.m. mátti að þessu sinni sjá hann leggjast á sund frá fjöruborðinu áleiðis út í sker skammt utar þar sem fugl sat og átti sér einkis ills von. Sundhraði minksins var órtúlegur. Slóðir hans í grasinu voru augljósar sem og holur hans.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Borgarkot

Borgarkot – uppdráttur ÓSÁ.