Auðnaborg

Menningarminjar á Reykjanesskaganum komu til umræðu meðal tveggja manna.
Annar hafði gengið um og kynnt sér svæðið og taldi sig vita nokkurn veginn hvað það hefði að geyma. Hinn hafi ferðast um það vítt og breytt á bíl og taldi Líklega sundvarða á Skálholtisig einnig vita ýmislegt. Verulegur munur var þó á þekkingu þeirra hvað varðar úrval og staðsetningu minjanna. Sá akandi hafði séð kirkjur, vörður og jafnvel rústir, en sá gangandi hafi séð fornar götur, falin fjárskjól, seltóftir, réttir, stekki, sæluhús, hella, brunna, varir, verbúðir o.fl. er verða fyrir fótum fólks og lýsa búsetusögunni um langa tíð.
Ákveðið var að taka fyrir svæði valið af handahófi. Kíkt var á neðanverða Strandarheiði ofan Breiðagerðishverfis. Báðir mennirnir sögðust hafa komið þangað, sá gangandi til að skoða Staðarborgina og hinn akandi á leið í Voga. Hvorugur sögðust hafa tekið eftir minjum á þessu tiltekna svæði, enda einstaklega eyðilegt á að líta.
Lagt var af stað ofan við heimreiðina að Breiðagerðisbæjunum. Þar liggur stígur upp í heiðina. Sunnan hans er gróin tvískipt tóft á klapparhól. Hleðslur eru í syðri hluta tóftarinnar, en nyrðri hlutinn virðist hafa verið sporöskjulaga gerði. Að öllum líkindum hefur þarna verið lítið fjárhús eða sauðakofi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Beint að augum, með stefnu á Keili, er gróinn hóll. Sunnan í honum er Auðnaborg. En stígurinn lá hins vegar áleiðis að Skálholti, stórum en lágum og flötum klapparhól. Uppi á hólnum eru þrjár vörður; líklega landamerki. Sú norðaustasta er greinilega hlaðin úr eldra mannvirki. Grunnur af ferkantaðri hleðslu er umhverfis vörðuna, en norðan hennar eru leifar af skýli. Nafnið á holtinu gæti hafa verið vegna þess. Kannski að menn hafi hist þar og skálað eða skýlið hafi verið skáli í einhverjum tilgangi. Þá er ekki útilokað (og reyndar sennilegt) að þarna hafi verið skál til kolagerðar, sbr. Odd Oddsson: “Einhverntíma á stekktíðinni á vorin, í logni og þurviðri, voru kurlin brennd til kola. Á háum stað og þurrum var gerð skálmynduð gryfja, kolagröfin”. Við slíkar grafir voru oft skjól því kolavinnslan gat tekið tíma og ávallt varð maður að vaka yfir henni á meðan eldað var. Utan í klapparhólnum austanverðum mótar fyrir lítilli tóft. Norðvestan í holtinu er gróinn hóll. Í honum má sjá hleðslu. Líklega var þarna um að ræða efri sundvörðuna inn í vörina neðan Breiðagerðis. Hún er greinilega hlaðin með stefnu í Keili. Á lágum klapparrana austan við holtið er hlaðið byrgi refaskyttu.
Fjárhústóft ofan BreiðagerðisOfar eru grónir hólar; Vatnshólar. Suðvestan þeirra eru einnig gróinn hóll. Þegar nær var komið sáust hleðslur réttar sunnan hólsins og grónar tóftir uppi á honum. Þarna var Auðnaborgin; almenningur og tveir dilkar austan hans. Tóftirnar uppi á hólnum gætu hafa tengst réttinni eða borginni, sem þarna var og staðurinn dregur nafn sitt af. Skammt vestar eru leifar af stekk. Breiðagerðisstígurinn lá upp með Auðnaborg með stefnu á Keili. Enn sést móta fyrir honum á köflum. M.a. má sjá vörðu við hann millum borgarinnar og fjárhústóftarinnar fyrstnefndu.
Þessi stutti hringur tók u.þ.b. 30 mín og 03 sek. í frábæru veðri.
Ljóst er að það getur ýmislegt leynst á “eyðilegu” svæði. Eftir gönguna voru báðir jafn undrandi. Kannski þetta hafi ekki verið alveg sanngjarnt gagnvart þessum tveimur “ferðalöngum” því í rauninni er sama hvar stigið er niður á Reykjanesskagann – þar má alltaf finna einhverjar minjar – ef vel er að gáð.
Leifar skála á Skálholti?