Almenningur

Þær jarðir innan staðarmarka Hafnarfjarðar suð-vestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraun(a)jarðir, vestan Straumsvíkur, nú helsta kennileitis svæðisins. Minna fer nú fyrir minjum og rústum gömlu bæjanna. Þetta voru jarðirnar Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraun(a)-jörðunum, en hún var í Vatnsleysustrandarhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs um tíma og urðu því kóngsjarðir með siðaskiptunum 1550. Ofan við jarðirnar (sunnan) er stór almenningur þar sem þessar jarðir áttu ítök, sem gert er grein fyrir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.

Straumssel

Straumssel.

“Eftir að kóngsjarðirnar í Hraununum höfðu verið seldar á árunum 1837-39 – Lambhagi var þó seldur 1827- reis fljótt upp ágreiningur um eignarheimildir á hinum svonefnda Almenningi. Eftir að þeir Magnús Árnason, Guðmundur Eyjólfsson, líklega í Stóra Lambhaga og Guðmundur Guðmundsson, þá á Þorbjarnarstöðum, höfðu skrifað stiftamtmanni 29. 10. 1847, fyrirskipaði hann sýslumanni að rannsaka málið. Stiftamtmaður taldi, að hugsanlegt væri, að Almenningurinn væri eftir sem áður kóngsland, þar sem jarðirnar í Álftaneshreppi ættu ítök þar til viðarhöggs og kolagjörðar, sbr. Kópíubók í Þjskjs. Samkvæmt þessu boðaði sýslumaður bréflega og með auglýsingu 18.5. 1848 til áreiðar, er fram átti að fara 2.6. þ.á., sbr. Kópíubók nr. 767-69. Áreiðin fór fram á tilsettum tíma og var gerðin bókuð í aukadómsmálabók, nú á Þjskjs. Gögnin voru send amtinu 10.6. (nr. 784). Amtið svaraði 15.6. og leyfði þá Hraunbæjarmönnum einum afnot óskert, sbr. Kópíubækur.

Í Straumsseli

Gerði í Straumsseli.

Í samræmi við þetta tilkynnti sýslumaður friðlýsingu skógarins innan tiltekinna marka 19.6. (nr. 789). Friðlýsingin var svo birt á manntalsþingi í Görðum næsta dag, 20.6. 1848, samkvæmt þingbók. En 24.1. 1849 tilkynnti sýslumaður stiftamtmanni, að það myndi ekki vera nauðsynlegt að láta Hraunabændur fá ný bréf fyrir jörðum sínum (nr. 930). Á manntalsþingi í Görðum 22.6.1849 birti sýslumaður auglýsingu Guðmundar Guðmundssonar “sem umsjónarmanns Almenningsskógarins viðvíkjandi takmörkun þessa skógarlands, reglulegri yrkingu sama og fleiru,” samkvæmt þingbók, en sjálf auglýsingin er færð í afsalsbréfabók Ltr. C no. 81.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Sama dag voru samþykktar lögfestur Guðmundar fyrir jörðunum Óttarsstöðum og Straumi, Ltr. C no. 81 og 82.” Í skoðunar- og áreiðargerðinni er mörkum lýst með þessum hætti: “Að neðan byrjar það nyrst við Kolbeinshæð, gengur svo til vesturs niður að Markhólum fyrir neðan Lónakotssel, hvar skógurinn endar á móti suðri. Þó gengur skógartunga þríhyrnt niður frá alfaraveginum. Hennar botn eða breidd er að ofan og gengur frá Löngubrekkum til suðurs að Markhólum. Sporður skógarspildu þessarar endar í útnorðri við Brunnhólavörðu skammt fyrir ofan Lónakot. Að norðan gengur skógarlandið frá Kolbeinshæð til landsuðurs langs með Kaphelluhrauni og Brunanum upp að Stórhöfðastíg, þaðan til suðurs í Fremstahöfða langs með Brunanum suður að Fjallinu eina, þaðan til vesturs og útnorðurs í krókum og hlykkjum allt niður að Markhólum. Allt þetta land sem álíst að vera ein fermíla að stærð viðurkenna allir þeir sem mætt hafa að kallað sé með aðalnafni (gamalt) Almenningur.” Ein dönsk fermíla er nú ca. 7,5 x 7,5 km eða ca. 56 ferkílómetrar. Sá hluti sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðar er 29,71 ferkílómetri.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Töluverður hluti almenningsins er einnig innan staðarmarka Vatnsleysustrandarhrepps, aðallega upp af Hvassahrauni. Haft er í huga að almenningurinn verði skilgreindur með þeim hætti að hann fari með engu móti inn á eignarlönd Hraunjarðanna, sem eru eins og fram hefur komið Lónakot, Óttarsstaðir, Straumur, Stóri-Lambhagi, Þorbjarnarstaðir og Svínakot, heldur væri hann allur sunnan jarðanna. Í því sambandi má nefna aðalmenningur er í skoðunar- og álitsgjörðinni frá 2. júní 1848 sagður ná að Brunnhólavörðu sem er skammt fyrir ofan Lónakot. Í staðinn er almenningurinn skilgreindur varlega á þessu svæði og látið nægja að fara með norð-vesturmörk almenningsins að alfaraveginum sem er töluvert sunnan Brunnhólavörðu. Getið er um Markhóla í skoðunar- og áreiðargjörðinni. Þrír Markhólar eru í almenningnum, einn neðan Lónakotssels, annar nálægt Óttarsstöðum og sá þriðji við Straum. Þess ber að geta að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því um 1700 staðfestir að um gamlan almenning er að ræða. Verður nánar gerð grein fyrir því ígreinargerðinni sem síðar verður lögð fram. Merkjalýsing frá punkti í Markrakagil (Markagil), sem er í samræmi við varakröfu ríkisins, tekur mið af merkjalýsingu Garðakirkjulands samkvæmt landamerkjabréfi nr. 154, sem Þórarinn Böðvarsson prófastur í Görðum undirritaði 7. júní 1890 og þinglesið var á manntalsþingi í Görðum hinn 9. júní 1890, sbr. 3. lið. Verður nánari grein gerð fyrir lýsingunni í greinargerð. Landamerkjalýsingar á Hraunjörðunum sem þinglýst var 9. júní 1890 eru sérstaklega milli jarðanna.

Skjól við Gömlu-þúfu

Skjól við Gömlu-Þúfu.

Í þessum lýsingum er farið langt út fyrir hin eiginlegu eignarréttindi jarðanna til suðurs. Þessar landamerkjalýsingar eru milli eigenda Hraunajarðanna, þær eru einhliða gerðar og ekki samþykktar af öðrum aðilum sem tengjast málinu og hagsmuna hafa að gæta svo sem ríkinu og sveitarfélaginu. Hafnarfjarðarbær er þeirrar skoðunar að umræddur almenningur sé landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignar-réttindi. Þær landamerkjaskrár sem gerðar voru á milli Hraunajarðanna og þinglýst var 9. júní 1890 og miðuðu við að afmarka þær jarðir breyta því engu um ofangreind mörk milli Hraunjarðanna annars vegar og almenningsins hins vegar. Að því leyti sem þær ná yfir almenninginn voru þær einungis gerðar að nafninu til, þar sem þær eru án samþykktar allra hlutaðeigandi. Landamerkjabréfin frá 1890 breyta því ekki efni þeirrar skoðunar- og áreiðargerðar frá 1848 sem gerð var með samþykki allra hutaðeigandi og fela því enn síður í sér sönnun um beinan eignarrétt yfir því landi sem fyrr var afmarkað sem almenningur. Gildi þessara landamerkjabréfa nær því eingöngu til marka milli Hraunjarðanna. Ljóst er að menn máttu ekki einhliða auka við land sitt eða annan rétt umfram það sem verið hafði. Tilvist þessara landamerkjabréfa breyta því engu um mörk almenningsins sem ákveðin voru með skoðunar- og áreiðargerðinni 2. júní 1848.
Þó að stiftamtmaður hafi heimilað Hraunabæjarmönnum einum afnot af almenningnum árið 1848 veitti það þeim ekki rétt til þess að útvíkka mörk jarða sinna með þeim hætti sem þeir gera með þeim samningum sín í milli sem þinglýst var 9. júní 1890.

Réttarklettar

Rétt við Réttarkletta.

Þessir þinglýstu samningar breyta engu um eignarheimildir eigenda Hraunjarðanna. Hafnarfjarðarbæ finnst rétt að þegar komi fram að þetta land sen ríkið gerir kröfu um að verði úrskurðað sem þjóðlenda er framtíðarbyggingarland bæjarins og litið er svo á að bærinn muni fá þetta land sem er innan staðarmarka Hafnarfjarðarbæjar frá ríkinu sem byggingarland. Rökin bæjarins fyrir því eru: 1) Með lögunum um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998 er ekki gert ráð fyrir því að skerða hagsmuni sveitarfélaga til lands, sem þýðir að land sem er á láglendi, nálægt þéttri byggð og er á skipulagi sem byggingarland sveitarfélags verður það áfram þrátt fyrir gildistöku nefndra laga um þjóðlendur. Þegar litið er til efnis laganna, greinargerðarinnar með frumvarpinu og umræðna á Alþingi er alveg ljóst að það samrýmist ekki nefndum lögum um þjóðlendur nr. 58/1998 að meina Hafnarfjarðarbæ að skipuleggja þetta land sem byggingarland. 2) Með samningi 28. apríl 1964 höfðu Hafnarfjörður og Garðahreppur (nú Garðabær) makaskipti á löndum. Í hlut Hafnarfjarðar kom sá hluti Garðahrepps sem lá sunnan við Hafnarfjörð. Þar var um að ræða umræddan almenning. Á móti féll Hafnarfjörður frá leigurétti sínum á ræktunarspildum úr landi jarðeignadeildar ríkisins á Hraunsholti og við Arnarnes samkvæmt leigusamningi, dagsettum 14. nóv. 1940.

Straumsvík

Straumsvík.

Í framhaldi þessara makaskipta samþykkti Alþingi frumvarp til laga um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og breyttust lögsagnarumdæmi sveitarfélaganna tveggja í samræmi við þennan makaskiptasamning. Samþykkti ríkið því með þeim lögum þennan makaskiptasamning sveitarfélaganna. Fær Hafnarfjörður skv. því almenninginn sem framtíðarbyggingarland og Garðabær, Hraunsholtið og Arnarnesmýrina sem Garðabær hefur nú úthlutað að stærstum hluta undir byggingarlóðir. 3) Hafnarfjarðarbær hefur þegar skipulagt þetta umrædda landsvæði að hluta sem byggingarland og hafa atvinnuhús verið byggð nyrst á þessu landi, eða því landi sem næst er álverinu í Straumsvík. Þetta land hefur að öðru leyti verið skipulagt, sbr. meðfylgjandi skipulagsuppdrátt fyrir aðalskipulag Hafnarfjarðar 1995 til 2015.
Þetta landsvæði ofan (sunnan) við Straumsvík er, eins og þegar hefur komið fram, framtíðarbyggingarland Hafnarfjarðar. Framlögð skjöl: 1) Uppdráttur 2) Staðfest ljósrit af samningi milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar dags. 28. apríl 1964 3) Aðalskipulagsuppdráttur fyrir Hafnarfjörð 1995-2015.
Hér er orðið fullljóst að markmið Hafnarfjarðarbæjar er að byggja þar sem nú er óraskað hraunið í Almenningi.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Óbyggðanefnd.
-Guðmundur Benediktsson hrl. f.h. Hafnarfjarðarbæjar.
-Magnúsar Más Lárussonar fyrrverandi rektors Háskóla Íslands um merki Krýsuvíkurlands. bls. 26.

Í Almenningi

Í Almenningi.